22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1924)

173. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég sé ekki til neins að ræða þetta mál við hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M. Þeir segja, að ég hafi engin rök fært fyrir mínu máli, en þau þykist ég hafa rakið í minni fyrstu ræðu, en þeir vilja ekki taka þau til greina, og verð ég að segja, að ekki get ég heldur sannfærzt af þeirra rökum. Ég man ekki eftir því, sem hv. þm. Barð. var að eigna mér, að ég hefði sagt, að ég hefði aldrei sannfærzt af rökum þm. nema í eitt skipti. Ég held ég hafi sagt, að ég hefði í eitt skipti aðeins sannfærzt af rökum þess hv. þm. Annars skal ég ekki rekja hér málið í heild, heldur kvaddi ég mér hljóðs til þess að bera af mér sakir frá hv. form. fjvn. Hann fann einn syndasel, sem styddi að allri eyðslu á ríkisfé, og átti það að vera ég. Nefndi hann sem dæmi, að ég hefði greitt atkv. með fiskiðjuverinu í Höfn í Hornafirði. Nú er það svo, að engin endanleg atkvgr. hefur farið fram um það mál, og þá býst ég við, að hv. þm. Barð. hafi ekki veitt því eftirtekt, að ég greiddi atkv. gegn hverri einustu brtt. einstakra þm. við fjárlögin nema einni upp á 10 þús. kr., og kalli hann mig svo syndasel. Ég sat tvisvar sinnum hjá og greiddi annars aðeins atkv. með brtt. ríkisstj. og fjvn. og svo að sjálfsögðu með þeirri till., sem ég flutti sjálfur og ég tel, að fjvn. hefði tekið upp í sínar brtt., ef henni hefði nógu snemma verið kunnugt um efni hennar.