22.03.1948
Efri deild: 84. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

173. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. dómsmrh., að hann teldi nauðsyn bera til þess, að athuguð yrði skipun prestakalla yfirleitt í landinu, og að hann væri því mjög fylgjandi. Ég hafði enn fremur lýst því yfir við 2. umr., að ef dagskráin, sem ég bar fram, yrði felld, mundi ég bera fram brtt. og setja inn, að Þingvellir yrðu sérstakt prestakall. Skal ég ekki fara frekar út í það atriði nú, en þykir rétt að bera hér fram skriflega brtt. þannig, að á eftir 1. gr. komi ný gr., er orðist svo: „Ríkisstj. skal á þessu ári láta fara fram athugun á því, hvaða breytingar eru nauðsynlegar á skipun prestakalla, og gera till. um það til Alþ., er það næst kemur saman.“ — Það hefur verið rætt um það hér að bæta við nýju prestsembætti fyrir Akureyrarbæ, en hins vegar verður ekki heldur deilt um hitt, að láta þessa athugun fara fram, og vænti ég þess, að till. verði samþ.

Mér þykir rétt að geta þess, að ég ræddi þetta mál við flm., áður en ég flutti till. um rökst. dagskrána, og þótti honum eðlilegt, að hún yrði samþ., af því að það er ekki nema sanngirniskrafa, að þessi mál verði athuguð í heild, og Akureyrarkaupstaður getur ekki liðið neitt við það, þótt hann bíði, þar til þessi mál öll væru komin í gott horf.