16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

2. frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. — Við í meiri hl. skiptum með okkur verkum um það að gera grein fyrir afgreiðslu þessa máls í fjhn., m.a. vegna þess, að lítill tími hefur verið hjá n. til starfa.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefur þetta mál sætt löngum undirbúningi af hálfu ríkisstj., áður en það var lagt fyrir þingið. — Varðandi þá kafla frv., sem eftir er að gera grein fyrir, og og vildi gera lítillega grein fyrir viðhorfi meiri hl. til, vil ég segja það, um IV. kaflann, að það ber að líta á hann eins og aðra einstaka kafla frv. í þeirri heild, sem þeir eru fram settir. Ég skal ekki draga neina dul á það, að út af fyrir sig hef ég litið svo á, að ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins, eins og hún hér liggur fyrir, væri í eðli sínu vandræðaráðstöfun og út af fyrir sig ekki vænlegt ráð í þjóðarbúskapnum, nema fram knúið á einhvern hátt til þess að vera liður í úrlausn dýrtíðarmálsins með öllu, sem þar þyrfti að gera. þá lít svo á, að hér sé í eðli sínu um nokkra vandræðaúrlausn að ræða, og ég veit, að öllum þm. er ljóst, að sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnuvegur okkar og ef hann verður ekki rekinn nema með ríkisábyrgð, er náttúrlega stefnt í fullkomið óefni, því ef ekki er hægt að reka hann á arðbærum grundvelli, þá er ekki í nein önnur hús að venda um stuðning við þennan atvinnuveg, þegar til lengdar lætur. Menn hafa að vísu talað um, að það mætti styðja einn eða suma þætti sjávarútvegsins með fjárframlögum frá ýmsum öðrum atvinnugreinum, svo sem verzlunargróða. En í sjálfu sér er það ekki annað en rökvilla, því að þeir sjóðir, sem þannig væru fengnir, yrðu fljótlega upp étnir. Það yrði því aðeins bráðabirgðaúrlausn, hrossalækning. En það, sem getur réttlætt slíka ráðstöfun sem þessa, er hér er um að ræða, er það, sem gert var á síðasta þingi, að einni grein sjávarútvegsins sé veitt ábyrgð og leitað með það til annarrar greinar. Menn ráku áður sjávarútveginn á eigin ábyrgð, græddu stundum og töpuðu stundum, töpuðu á vetrarvertíð, græddu á síldarvertíð aftur og öfugt. Þannig er eðlilegt að hugsa sér þetta, sem hér er lagt til í frv., sem bráðabirgðaástand, þó að ekki sé eðlilegt að vísa beinlínis einni grein sjávarútvegsins yfir á aðrar eða láta aðrar atvinnugreinar eða landsmenn í heild standa undir bagga til þess að létta undir í bili, eins og hér er gert.

Hér eru nokkur önnur atriði viðkomandi ríkisábyrgð á fiskveiðunum en í fyrra. Hér er gert ráð fyrir sérstakri tekjuöflun á öðrum stað í frv., í VII. kaflanum, til þess að standa undir ábyrgðinni, fyrirmæli um söluskatt. Í 22. gr. segir svo: „Við samninga um sölu íslenzkra afurða erlendis skal þess gætt, að sem bezt heildarverð fáist fyrir þær, og er ríkisstj. heimilt að binda sölu einstakra vörutegunda nauðsynlegum skilyrðum til þess að því verði náð.“ Við höfum fallizt á þennan kafla eins og aðra kafla frv., einkum með tilliti til þess samhengis, sem hann er í, í tilraun til úrbótar á dýrtíðarvandamálinu, en þetta er ekki nema bráðabirgða- og neyðarráðstöfun. En það þarf að tryggja, að undirstöðuatvinnuvegur okkar verði rekinn án taps. Það hafa sumir sagt í gamni, að síldin væri að gera ríkisstj. töluverðar grillur og jafnvel svo, að hún kynni að verða völt í sessi vegna hennar. En ég segi fyrir mig, að fátt sýnir jafnáberandi og síldveiðin þá brýnu nauðsyn, sem er á baráttunni að stemma stigu fyrir dýrtíðinni í landinu. Enda þótt síldin sé komin hér í Faxaflóa og sjómenn geti gengið að ótakmörkuðum afla, þá er það staðreynd, að útkoma margra báta, sem reka þessar veiðar, er þannig, að lítið verður til skipta, þegar gert verður upp, vegna rekstrarkostnaðar bátanna sökum dýrtíðar innanlands.

Það eru ákvæði í þessum kafla um aðstoð við bátaútveginn, sem nokkurs virði kynnu að verða fyrir hann, t.d. ákvæði 26. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að fulltrúar frá L.Í.Ú. og Fiskifélagi Íslands skuli eiga atkvæði um verðlagningu á veiðarfærum og viðgerðum skipa, þegar innflutnings- og gjaldeyrisdeild tekur ákvarðanir um þessi mál. En það er nú einmitt svo, að þessar greinar útgerðarkostnaðar hafa oft verið mjög tilfinnanlegar og því höfuðnauðsyn fyrir útveginn á hverjum tíma að fá þessa útgjaldaliði færða niður, eftir því sem kostur er á.

Þá eru minni háttar ákvæði í 25. gr. um, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða hámarksleigu fyrir verbúðir og einnig að ákveða verð á beitu, sem er töluverður liður í útgerðarkostnaði smærri í báta. Þetta stefnir að því að tryggja það, að smábátar verði gerðir út á vetrarvertíðinni.

Ég vil segja vegna þess, sem ég hef sagt um eðli ríkisábyrgðar fyrir bátaútveginn, að það er höfuðnauðsyn að reka hann áfram, og það er ekkert nýtt, að ríkið gangi í slíka ábyrgð. Það var þannig á stríðsárunum, að þeir, sem stunduðu þessa atvinnugrein, gengu að því vísu í upphafi vertíðar, hvað þeir mundu fá fyrir vöru sína, því að þá var varan seld öll fyrir fram með heildarsamningum. Upp úr stríðinu var horfið frá þessu ráði og ákveðið lágmarksverð á vörunni.

V. kafli þessa frv. fjallar um aðstoð til útvegsmanna, sem síldveiðar stunduðu 1947, vegna þess að síldveiðin í sumar brást gersamlega, eins og öllum er kunnugt. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki nokkur ágreiningur hjá hv. þm. um það, að margir hafi farið þannig út úr þeirri vertíð, að það þurfi að rétta þeim hjálparhönd, til þess að þeir geti haldið áfram atvinnurekstri sínum.

Ég get búizt við því, að skoðanir verði skiptar um það. hvort þessar ráðstafanir, sem hér er lagt til, að gerðar verði, séu nægilegar, og margir munu telja, að dýpra þurfi að taka í árinni. En ríkisstj. hefur ekki talið sér fært að svo komnu að grípa til meiri aðgerða en þarna er gert ráð fyrir, og hefur hún sjálfsagt í mörg horn að líta, og takmarkast þessi kreppuhjálp af því. Hér er gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán allt að 3 millj. kr. eða ábyrgjast jafnháa fjárhæð, sem varið skuli til aðstoðar síldartútvegsmönnum 1947. Það má líka sjálfsagt um það deila, hvort þau lánskjör, sem hér um ræðir, séu miðuð við of stuttan tíma og vextir of háir, og einstaka nm. hefur greint nokkuð á um þessi atriði, en í heild hefur þó orðið samkomulag um að mæla með þessum ákvæðum frv. í þessu formi.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um VI. kafla þessa frv., sem er framlenging á lögum um tollana frá í vor, þ.e.a.s. um hækkun á aðflutningsgjöldum. Það mál var á sínum tíma mjög rætt í þessari hv. d., svo að ég sé ekki ástæðu til að rekja frekar efni þessa kafla, en n. er sammála um, að samþykkja beri þau ákvæði, sem hér er um að ræða.

VII. kaflinn er um álagningu söluskatts vegna ábyrgðar á fiskafurðum og niðurgreiðslu á innlendum vörum. Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að það er gert ráð fyrir því, að þessir skattar leggist á allan almenning, og felur þetta þess vegna í sér kjararýrnun fyrir almenning í landinu samfara þeim byrðum, sem landsmenn almennt þurfa að taka á sig með þeirri vísitölufestingu, sem gert er ráð fyrir í III. kafla. Það verða menn að gera sér ljóst, að hér verður ekki ráðin bót á málum, án þess að allir leggi fram nokkrar fórnir, og frv. í heild hefur frá upphafi verið sniðið með það fyrir augum að dreifa þessu nokkuð, og önnur ákvæði eru í frv., sem leggja byrðar á þá aðila, sem hafa meira aflögu, sbr. ákvæði II. kafla um eignaraukaskatt. Söluskatturinn er í svipaðri mynd og veltuskatturinn gamli var, nema að því leyti sem það er heimilt samkv. 45. gr. að hækka verð vöru sem söluskatti nemur, en óheimilt er hins vegar að hækka álagningu verzlana og fyrirtækja vegna hans. Ég er ekki viss um, að ákvæði þessa kafla séu nógu skýr, miðað við þær breytingar, sem koma fram á söluskattinum frá gamla veltuskattinum. Um það atriði var nokkuð rætt í n., og ég hef athugað þetta nokkru nánar síðan. Þó að ég sé ekki við því búinn nú að gera grein fyrir þeirri athugun á þessu stigi málsins, þá get ég búizt við, að við 3. umr. þyrfti að flytja brtt. um þetta til þess að gera skýrari og ótvíræðari ýmis atriði, sem þarna er um að ræða.

Það eru í 41. gr. ákvæði um hæð söluskattsins: Söluskattur skal nema því, sem hér segir:

1. Af heildsölu og umboðssölu 2%.

2. Af smásölu 11/2%.

3. Af sölu iðju- og iðnfyrirtækja sem og allra annarra fyrirtækja, sem gjaldskyld eru samkv. 40. gr., 11/2%.

Mér skilst, að hugsanlegt sé, miðað við aðrar greinar kaflans, að söluskatturinn gæti orðið hærri en kom fram hjá hæstv. forsrh., sem sagði tvímælalaust, að hann mundi aldrei verða hærri en 31/2%. Það þyrfti ef til vill að kveða nánar á um þetta til þess að taka af skarið. Ég geri ráð fyrir, að þetta þyrfti að taka til nánari athugunar fyrir 3. umr. og jafnvel flytja brtt. um það. En fyrir hæstv. ríkisstj. og þeim, sem undirbúið hafa frv., hefur ekkert vakað annað en að hann yrði ekki hærri en 31/2 %. Því má slá föstu.

Ég vil svo leyfa mér að taka undir það, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að hér er að áliti okkar í meiri hl. fjhn. um að ræða tilraun til stefnubreytingar í dýrtíðarmálinu. Hér hefur þurft að samræma sjónarmið fleiri flokka. Margir okkar hefðu viljað hafa ýmis atriði frv. öðruvísi, en ekki fékkst við það ráðið vegna þess, að samræma þurfti sjónarmið fleiri aðila og koma þessu saman í eina heild.

Það er ekki vafi á, að ef þessi lög ná fram að ganga og fá tíma til að verka í framkvæmd, án þess að æst sé upp gegn þeim, eins og stundum hefur verið æst upp gegn lögum, sem sett hafa verið í þessu þjóðfélagi, án þess að gera sér grein fyrir efni þeirra, þá er hér um að ræða verulega tilraun til bóta á því öngþveiti, sem er í okkar verðlags- og dýrtíðarmálum, sem skrúfar upp verðlag og kaupgjald í landinu. Það verður ekki snúið við á þessari braut öðruvísi en þannig, að allir einstaklingar þjóðfélagsins verði fyrir einhverri kjararýrnun. En þetta er áreiðanlega og fyrst og fremst til að tryggja áframhaldandi blómlegan atvinnurekstur í landinu og koma í veg fyrir, að eyðilagðir verði ávextirnir af því nýsköpunarstarfi, sem unnið var í tíð fyrrv. ríkisstj.

Það var af hv. síðasta ræðumanni minnzt á ráðstafanir, sem fælust í gengislækkun, sem bæði innan þings og meðal almennings virðist vera lítill áhugi fyrir. Og ef það kynni svo að fara, að ekki lánist að stinga við fótum eins og hér er lagt til, þá gæti verið, að menn ættu þess kost að velja um, hvort þeir vildu gengislækkun eða ekki, ef til þess kemur, að dýrtíðin heldur áfram að vara og sprengir að lokum gjaldþol atvinnuveganna.

Með þessari grg. legg ég ásamt öðrum nm. í meiri hl. fjhn. til, að frv. verði samþ. og megi ganga áfram í þessari hv. deild. [Fundarhlé.]