23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Já, það þykir kannske nýlunda, að ég standi upp til að vitna með hv. 4. landsk., en það hefur nú orðið sá kostur á hans ráði, að við höfum orðið sammála í meginatriðum um eitt mál, og það er því sjálfsagt, að hann standi ekki alveg ber að baki. þótt ég fái e.t.v. lítið lið veitt.

Ég hef verið talinn dragbítur á allar framkvæmdir og fjárveitingar. En þegar farið var fram á þetta, þá hinkraði ég við og tók mér frest til þess að athuga málið náið, og er ég tók að velta því fyrir mér, minntist ég þess, að ýmsum kaupstöðum úti um land hafa verið veittar ábyrgðir og þær ekki smáar — ég nefni t.d. Skeiðsfossvirkjunina — og þori ekki að sverja, að hæstv. fjmrh. hafi ekki rétt upp hönd með þeirri ábyrgð. Svo þegar Ísafjarðarbær biður um þetta og telur sér svo nauðsynlegt, þá verð ég að segja alveg eins og er, að ég glúpnaði fyrir því, ekki sízt þar sem svo stendur á, að hér er aðeins um heimildarlög að ræða, og ríkisstj. er það í sjálfsvald sett, hvaða tryggingu hún heimtar fyrir láninu, og getur því séð svo um, að ábyrgðin sé ríkinu alveg hættulaus. Hún getur heimtað næga tryggingu og hefur því enga ástæðu til að skera lánið við nögl sér.

Það er rétt, að það er óeðlilegt að nefna 90%, og er ekki ætlazt til, að það verði regla, en það er þó ekki rétt að hrekja frv. milli deilda og drepa það þannig með því að breyta þessu. Og ég mun ekki ámæla hæstv. ráðh. þótt hann haldi sig við 85% eða jafnvel 80%. Og hann þarf ekki að lána 5.5 millj., en það er spursmál, hvort ekki er rétt að gera það, ef næg trygging er fyrir hendi.

Á þetta allt vil ég benda. Og ég segi fyrir mig, að ef ég hefði ekki treyst hæstv. ríkisstj. til að vera íhaldssöm og gætin, þá hefði ég ekki fylgt þessu frv. Þar gegnir öðru máli en um þá, sem eyða og sóa um efni fram.