23.03.1948
Efri deild: 85. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

118. mál, hitaaflstöð og hitaveita á Ísafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Dal. sagði áðan, að ólíku væri saman að jafna ríkisábyrgðum fyrir Ísafjörð og Siglufjörð. ríkisábyrgðir fyrir Siglufjörð eru komnar upp í 15 milljónir króna, en á Ísafirði hefur ríkið ábyrgzt 80% af þriggja milljón króna kostnaði.

Í 7. gr. þessa frv. er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 5.5 milljónum króna, þó ekki yfir 90% af stofnkostnaði. Ýmsir hafa hnotið um það, að hér skuli standa 90%, en frv. var þannig samið af raforkumálastjórninni og sett 90%, en ég hygg, að það stafi af mistökum og ætlunin hafi aldrei verið sú að fara hærra með þessa ábyrgð en almennar fastar reglur afmarka. Ég hef átt ýtarlegt viðtal við forseta bæjarstjórnar Ísafjarðar, hv. þm. N-Ísf., um þetta, og kom þá í ljós, að bæjarstjórnin fer ekki fram á hærra en 85% ábyrgð eða það, sem gildir samkvæmt almennum reglum hér að lútandi. Ég hef skýrt hæstv. fjmrh. frá þessu og rætt um það við hann, og ég hygg, að þar sem svo mjög er liðið á þingið og brtt. gætu stofnað málinu í verulega hættu, þá geti þeir, sem óánægðir eru með 90% ákvæðið, verið ánægðir, þar sem þessi yfirlýsing bæjarstjórnarinnar liggur hér fyrir, og flett upp umræðum í þingtíðindum, ef þeir vilja, til staðfestingar þeim skilningi, að ábyrgðin skuli ekki fara fram úr föstum, almennum reglum, þó að 90% standi í lögunum.

Þá ætla ég að fara nokkrum orðum um raforkumál Ísafjarðar almennt. Ísafjörður fær nú raforku frá orkuveri í Engidal. Það samanstendur af tveimur vatnsaflsvélum, önnur vélasamstæðan hagnýtir Fossavatn, en hin Nónvatn. Rafmagn er nægilegt mestan hluta ársins, en þegar langvarandi frostakaflar koma á útmánuðum, þá er aðrennsli í þessi vötn svo litið, að þurrð verður í þeim, og það hefur endurtekið sig í allmörg ár, þegar frostakaflar hafa komið. og ýmist stöðvað eða truflað atvinnulífið, svo sem rekstur hraðfrystihúsa og iðnfyrirtækja, er sízt skyldi, og yfirleitt er rafmagn notað eins fjölbreytilega og hægt er á Ísafirði og í Eyrarhreppi, svo að það gripur inn í líf bæjarbúa á öllum mögulegum sviðum, þegar raforkan þverr vegna vatnsþurrðar þeirrar, sem ég hef áður nefnt. Vegna þessara vandkvæða hafa rafveitustjórn og rafveitustjóri á Ísafirði íhugað, hvað hægt væri að gera þessu til úrbótar. Vatnsvirkjun kemur trauðla til greina. Að vísu hefur verið bent á Langá, en hún hefur svo litla fallhæð, að virkjun hennar gæfi ekki meira en 150–200 hestöfl, en sá kostur væri við hana, að hægt væri að sameina hana þeim tveimur smávirkjunum, sem fyrir eru, þ.e. hafa vatnsaflsvélina í sama stöðvarhúsi og þær tvær, sem fyrir eru. Vatnsvirkjun fyrir Vestfirði í heild og þá jafnframt Ísafjörð á vafalaust alllangt í land, hvort sem rætt er um virkjun Skúfnavatna eða Dynjanda, og þarf naumast að reikna með slíkri virkjun á næstu árum að sögn raforkumálastjóra. Önnur leið kemur þá til greina á Ísafirði, að koma upp dieselstöð og hafa hana sem toppstöð, þegar álagið er mest og vatnsrennslið minnst. En þegar þetta var til athugunar hjá rafveitustjórn bæjarins, kom Jón Gauti rafveitustjóri fram með þá hugmynd, að jafnframt því að vera toppstöð yrði stöðin olíukyndingarstöð fyrir alla byggðina, þó að nokkur hluti kaupstaðarins njóti að vísu ekki hitaveitunnar. Þegar þessi hugmynd kom fyrir bæjarstjórnina, var rafveitustjóra falið ásamt Chr. Högh Nielsen bæjarverkfræðingi að gera frumdrætti að þessu mannvirki, en þessir frumdrættir voru síðan sendir til rafmagnseftirlits ríkisins, og varð að ráði, að það tilnefndi þrjá menn, þá verkfræðingana Benedikt Gröndal, Eirík Briem og Gunnar Böðvarsson, til að gera áætlun um þetta. Sú áætlun hefur nú verið gefin út, og á henni byggist þetta frv. Þeir fullyrða, verkfræðingarnir, að áætlanir þeirra séu varlega gerðar, og er e.t.v. erfitt að vefengja það, þó að reynslan hafi stundum viljað hnekkja áætlunum, því ber ekki að neita. Nú hefur þessi áætlun verið send raforkumálastjóra til umsagnar, og er umsögn hans prentuð sem fskj. á þskj. 516 með áliti fjhn. Nd. Ég verð að segja eins og hv. þm. Barð., að fram hjá því verður ekki gengið, að svo virðist sem raforkumálastjóri dragi sum atriðin nokkuð í efa, ýmislegt í ummælum hans bendir til þess, bæði íbúatölu að fólksfjölgun, sem hann telur varlegt að reikna með, og fleira, sem hv. þm. Barð. benti á. Hvergi mælir hann þó beint á móti hinni fyrirhuguðu framkvæmd eða áætluninni. Hitt tekur hann réttilega fram, að aðeins hafi verið gerðar frumáætlanir. Það er rétt. Ekki hefur heldur verið gerð samanburðaráætlun og þar með borið saman, hvort hagkvæmara væri að koma upp dieseltoppstöð eða byggja sameiginlega hitaaflstöð og orkuver í einu lagi. Það ber að játa, að þessar áætlanir liggja ekki fyrir. Ég játa einnig fúslega, að þessi lausn málsins sé ekki til frambúðar. En það er næstbezta lausnin, hvað verð rafmagnsins snertir, af þremur, sem til greina koma og raforkumálastjóri drepur á, ódýrust yrði orkan frá Dynjanda, en sú virkjun kemur ekki til greina í bili, eins og hann tekur einnig fram, og í útreikningum sínum miðar hann við, að þær áætlanir standist, sem fyrir liggja.

Ég veit svo ekki, hvort ég á að flytja hér lengra mál. Ég hef játað, að fyrir liggja aðeins frumáætlanir, frumdrög gerð af rafveitustjóra og bæjarverkfræðingi á Ísafirði, því næst nýjar áætlanir gerðar af þremur íslenzkum verkfræðingum hjá rafmagnseftirliti ríkisins, og loks lætur raforkumálastjóri í té umsögn sína um þá áætlun. En fullnaðaráætlun er eftir að gera, og hún mundi verða gerð, áður en af framkvæmdum yrði. Þó væri hægt, ef frv. þetta næði samþykki, að halda undirbúningi áfram, sem raunar væri nú hægt án þess, og enn fremur væri þá aðstaða Ísafjarðar til að útvega sér lán bætt að miklum mun eða leita fyrir sér í því efni, þegar ríkisábyrgðin væri fengin.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur gert ályktun um málið og falið forseta bæjarstjórnarinnar, hv. þm. N-Ísf. það til flutnings, og get ég ekki annað en flutt það hér að því leyti, er til minna kasta kemur.