30.10.1947
Efri deild: 11. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mér var kunnugt um það, að hægt var að koma þessu máli á framfæri gegnum fyrirspurn samkv. sérstöku ákvæði þingskapa, sem hæstv. forseti minntist á. En það mundi líða um það bil vika með því móti, frá því að fyrirspurnin kæmi fram og þangað til hún yrði tekin til umr. Og þess vegna kaus ég — í trausti þess, að hæstv. ráðh. væri fús til að upplýsa málið — heldur að bera hana fram eins og ég hef gert. vegna þess að þetta mál þarf skjótra aðgerða við, ef hægt væri að gera þessa verksmiðju á Sólbakka rekstarhæfa nú. Ég gerði ráð fyrir, að hæstv. ráðh. væri kunnugt um, hvers vegna síldin hefur verið flutt úr Djúpinu með miklum kostnaði og töfum í annan landsfjórðung, fram hjá einni af síldarverksmiðjum ríkisins, sem er til þarna í námunda við veiðisvæðið. En ég þakka fyrir, að hæstv. ráðh. ætlar að afla sér upplýsinga um þetta hjá stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Ég taldi áðan, að síldarverksmiðjan á Sólbakka væri rekstrarhæf, og hafði ég þar fyrir mér ummæli eftirlitsmannsins, Ásgeirs Torfasonar, sem sagði í haust, að hún væri í rekstrarhæfu standi að öllu leyti öðru en því, að bryggjan er ekki í eins góðu standi og æskilegt væri. — Einnig taldi hann í vor, að hún væri í rekstrarhæfu standi, þegar síldarganga var þarna fyrir vestan. Nú hefur einhver sagt mér, að það, sem stæði í vegi fyrir því, að hægt væri að nota þessa verksmiðju. væri, að einhverjar skilvindur úr henni hefðu verið fluttar til síldarverksmiðja ríkisins á Norðurlandi. Ef svo væri, skilst mér, að ekki mundi vera ærinn kostnaður því samfara að flytja þessar skilvindur aftur í Sólbakkaverksmiðjuna og setja þær þar, til þess að losna við mikinn kostnað við flutning á síldinni norður.

Það er rétt, að það er ekki hægt að fullyrða um það, hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir það gífurlega tjón, sem nam nokkrum hundruðum þús. kr., er síldin tapaðist þarna fyrir vestan á dögunum, þegar þessir lásar sprungu, ef hægt hefði verið að flytja síldina til Sólbakka, en líkur benda til þess. Og þó að ekki sé hægt að fullyrða, hve mikið þetta tap hefur verið, hefur það þó numið allmörgum hundruðum þús. kr. í gjaldeyri. Og slíkt gæti endurtekið sig, ef ekki er hægt að losa slíka síldarlása, sem hér er um að ræða á þessum stað, fljótlega. — Af því að útgerðarmenn vestra spyrja mjög um þetta, hvers vegna Sólbakkaverksmiðjan sé ekki notuð, sá ég ástæðu til að spyrja hæstv. sjútvmrh. um þetta mál. Og þakka ég honum fyrir, að hann ætlar að taka málið til athugunar og ræða það við stjórn síldarverksmiðja ríkisins.