06.02.1948
Neðri deild: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég þakka hæstv. samgmrh. fyrir svör hans. Mér þykir vænt um, að ríkisstj. stendur ekki að þessum ummælum, og leyfi mér að vænta þess, að það verði ekki tekin afstaða til þessa máls fyrr en utanrmn. og Alþingi hafa fengið um það að fjalla. Varðandi sannleiksgildi þessarar yfirlýsingar hæstv. forsrh., þá mun hún vera höfð eftir brezka útvarpinu, og má ætla, að hún sé ekki búin til þar, annars þykir mér sennilegt, að fleiri hafi heyrt þessa frétt í brezka útvarpinu, þó að hún hafi ekki verið birt nema í Þjóðviljanum. Hæstv. samgmrh. sagði. að ef þessi frétt væri rétt, þá væri hér um að ræða prívatskoðun forsrh. Út af því vil ég taka það fram, að ég tel hvorki stað né stund fyrir forsrh. að gefa slíkar yfirlýsingar á þeim vettvangi, sem hann hefur þarna gert.

Hann hlýtur að gefa þessa yfirlýsingu sem forsrh., því að það er ekki verið að spyrja Stefán Jóh. Stefánsson þarna nema af því, að hann svarar sem forsrh. Vegna þess álít ég nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að senda leiðréttingu þess efnis, að hér hafi aðeins verið um persónulega skoðun forsrh. að ræða. en ekki skoðun íslenzku ríkisstjórnarinnar. Stefán Jóh. Stefánsson gat vel gefið þessa yfirlýsingu sem form. Alþfl., en ekki sem forsrh., úr því að ríkisstj. hafði enga ályktun gert um málið.