20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég satt að segja veit nú varla, hvað á að segja við svona uppátæki. Þessi hv. þm., sem síðast talaði, var nú svo taugaóstyrkur, að það er líklegt, að það gangi eitthvað að honum. En ég hef nú aldrei heyrt annað eins og þetta, að sjútvmrh. hafi ekki leyfi til þess, án þess að spyrja þennan hv. þm., að láta athuga leiðir til þess að hagnýta síld og bræða hana, af því að það vill svo til, að þessi hv. þm. hefur verið með till., sem liggur einhvers staðar í n. Svo má ráðh. bara ekki hreyfa sig — og sjálfsagt þá enginn annar maður heldur — til að nefna slíkt á nafn nema fara til herra prófessorsins fyrst. — Það er sem sé algerlega á misskilningi byggt þetta, sem hv. þm. er hér að bera fram. Hans till. er svona almenns eðlis um síldarbræðsluskip. Í raun og veru hefur þessi hugmynd áður komið fram. Mér dettur ekki í hug að halda fram, að mér hafi komið fyrstum manna í hug þessi hugmynd um síldarbræðsluskip, og ég held, að þessi hv. þm. ætti heldur ekki að eigna sér þá hugmynd, þó að hann hafi flutt þetta mál inn á þing. Um þetta hefur verið skrifað þráfaldlega í blöðum og minnzt á þessar leiðir jafnt og aðrar leiðir til þess að hagnýta síldarafla landsmanna betur. Menn hafa talað um síldarbræðsluskip og fljótandi síldarþrær fyrir utan síldarbræðslurnar á landi. Og það hefur hingað til verið mönnum heimilt og frjálst að koma fram með hugmyndir sínar og jafnvel bera þær fram á þingi. En nú skeður það undarlega, að það er alveg eins og það sé orðið saknæmt af manni, sem hefur með sjávarútvegsmál að gera sem ráðh., að hann komi ásamt öðrum þm. fram með till. í ákveðna átt til lausnar þessu vandamáli, sem þetta frv. er um, af því að hv. 4. þm. Reykv. hefur ekki verið um það spurður. Ég held, að það séu bara mörg dæmi um það, að menn beri fram till. um einhver mál og að þær till. fari í n. til athugunar, og svo geti komið fram till., sem fari í svipaða átt, frá öðrum manni og þyki engin stórfurða.

En svo að ég víki að málinu sjálfu, þá er það þannig fram borið af hv. 4. þm. Reykv., að hann hefur sýnilega fyrir augum síldarbræðsluskip í svipuðu formi og þegar menn tala um hvalbræðsluskip. En hér er í raun og veru farið inn á annað. Það verður ekki annað ráðið af orðalagi hans till. en að hans hugmynd sé sú, að það ætti að vera um að ræða skip, sem ynni úr síldinni á hafi úti og geymdi afurðirnar, a.m.k. að einhverju leyti, þangað til það kæmi til lands. En hér í frv., sem komið er fram í hv. Ed., er alls ekki um slíkt að ræða. Og þó svo að um það sama væri að ræða í frv. eins og þáltill. þessa hv. þm., þá væri það meinlaust fyrir því. Hér í frv. er verið að ræða um í grg. að nota gamalt skip, sem Íslendingar eiga, og setja í það síldarvinnsluvélar, en láta það starfa í sambandi við landsstöðvar. Ég ætla svo ekki að skýra málið frekar nú. Menn geta lesið þskj.Hv. 4. þm. Reykv. má náttúrlega minnka sig eins og hann vill fyrir Alþ. út af þessu máli. En ég frábið mig algerlega ávítum af hans hálfu og hvers annars sem er fyrir það, þó að ég leggi fram hugmynd eða till., sem ég hef látið þá færustu menn starfa að að undirbúa fyrir hæstv. Alþ., til lausnar vandamáls, sem ég held, að allir hv. þm. séu sammála um, að sé mjög aðkallandi. Og hvað sem um það má segja að athuga fleiri leiðir í þessu sambandi, þá fannst mér a.m.k. leyfilegt og þó jafnvel frekar skylt fyrir mig að hafa forgöngu í þessu heldur en ekki.