10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Skúli Guðmundason:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi fluttum við nokkrir þm. þáltill hér í Sþ. um afnám sérréttinda í áfengiskaupum. Þetta mál var til athugunar í allshn., og fyrir nokkru kom nál. frá minni hl. n. Hins vegar hefur þess verið getið í nál. um annað mál, sem er til meðferðar í sömu n., að nál. væri ekki að vænta frá meiri hl. n. um þessa till. og því ekki eftir neinu að bíða, hvað álit snertir. Fyrir nokkrum dögum minntist ég á það í samtali við forseta, hvort hann mundi vilja taka þessa till. á dagskrá jafnhliða till. til þál. um ráðstafanir til að draga úr áfengisnautn. Nú hefur þetta ekki verið gert, og leyfi ég mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta, hvort hann sjái sér fært að taka þessa till. okkar á dagskrá á fyrsta fundi hér eftir, þar sem önnur mál en fjárl. verða á annað borð tekin fyrir.