10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1226 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Jónas Jónsson:

Ég hef líka hugsað mér að hreyfa svipuðu máli og hv. þm. V-Húnv. og vil beina því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér fært að láta koma til umr. till. um áfengismál, sem komnar eru frá ýmsum þm.

Enn fremur vil ég spyrja hæstv. menntmrh., hverju það sætir, að fæðingarstofnunin tekur ekki til starfa, þar sem hún er fyrir löngu tilbúin. Það er búið að ráða lækni, en húsið stendur tómt, en mikil þörf er á, að það verði notað. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðh. sjái ástæðu til vegna málefnisins að svara þessu.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Árn., sem er formaður allshn., hverju það sætir, að frv. um lyfjabúðir situr þar fast. Þetta er stórt mál fyrir þingið og bæinn og vekur eftirtekt, og þess er krafizt af n., að hún gefi fulla skýringu á, hvers vegna málið er þannig komið.

Þá vildi ég spyrja hv. þm. Barð., sem er form. fjvn., hvenær von væri á nál. um till. um markaðsleit í Bandaríkjunum. Það er mjög aðkallandi og ekki ástæða til, að slíkt mál verði svæft.