16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Þegar sett voru l. um almannatryggingar árið 1945, var að því vænlega marki stefnt að velta öllum íslenzkum ríkisborgurum rétt til sæmilegs framfærslulífeyris, og það enda þótt þeir sökum elli og vanheilsu megnuðu ekki að vinna fyrir sér. Það væri þó að vísu ofrausn að segja, að þetta mark hefði náðst með setningu laganna. En víst er um það, að það þokaðist mikið í áttina og að eftir þá löggjöf stóðum við miklu nær því en nokkurn tíma áður að geta sagt, að gamalmennum og öryrkjum væru veitt verðug laun af almannafé, laun, sem voru þó eitthvað í áttina til þess, að hægt væri að draga fram á þeim lífið — eitthvað í áttina. Það er alkunna, að á fyrsta verðlagssvæði var gengið út frá því, að árleg ellilaun og örorkulaun þeirra manna, sem njóta fulls örorkulífeyris, skyldu vera 1200 kr. á ári, eða 100 kr. á mánuði, miðað við grunnlaun. Og svo var ákveðið í l. um almannatryggingar, að á þessi grunnlaun skyldi bætast uppbót samkvæmt verðlagsvísitölu hagstofunnar, eins og hún væri á hverju ári. Samkvæmt þessu hafa laun gamalmenna og öryrkja á fyrsta verðlagssvæði verið þetta ár, sem er að liða, að meðaltali 315 kr. á mánuði. Meðalvísitala yfirstandandi árs hefur reynzt vera 315 stig, og þar af leiðandi hafa meðallaun þessara manna verið 315 kr. á mánuði. Ef við hins vegar lítum á þessi laun eins og þau eru nú í desembermánuði samkvæmt desembervísitölunni, þá mundu þau vera 328 kr. — Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er stefnt að því að skerða þessi laun allverulega. Gamalmenni eða öryrki, sem samkv. desembervísitölunni ætti að fá í laun 328 kr., á nú samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, eftir áramótin eða í janúar 1948 að fá aðeins 300 kr. Lækkunin nemur því 28 kr. á mánuði eða 81/2%, sé miðað við desembervísitöluna. En sé miðað við meðalvísitöluna á liðandi ári, nemur lækkunin 15 kr. á mánuði. — Mér virðist nú, að þarna sé verið lítið að skerða og að litið muni hagur þjóðarinnar batna og litið muni greiðast fyrir um útgerð fiskibáta, þó að þannig sé klipið utan af hinu nauma framfærslufé gamalmenna og öryrkja. Og það er ákaflega hart aðgöngu fyrir þetta fólk, sem hefur treyst á þau lög, sem Alþ. rétti að þeim fyrir tveimur árum, að verða nú að horfast í augu við það, að lagt er til á Alþ. að draga stórkostlega úr gildi þessara laga. Ég veit ekki, hvort þetta hefur verið gert að þaulhugsuðu og vel yfirlögðu ráði. En mér þykir rétt og æskilegt, að úr því verði skorið, hvort svo er. Mér þykir rétt og æskilegt, að úr því verði skorið, hvort hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem hana styðja, telja það nú nauðsynlegt til bjargráða þjóðinni að klípa 28 kr. af 328 kr. mánaðarlaunum gamalmenna og öryrkja í landinu. Ég held, að öllum hljóti að vera ljóst, að þessi laun óskert eru þó engin þurftarlaun. Ég held, að öllum hljóti að vera það ljóst, að þótt ekki sé verið að skerða í þessu efni gildi l. um almannatryggingar, þá er fjarri því, að þau nái því marki, sem á að ná með þeim, því, að þetta fólk fái sæmileg laun. Og mér lízt sannarlega illa á, að af þessum tryggingum fái þetta fólk sæmileg laun, að því fjarlæga marki verði náð, sem stefna ber þó að, ef nú á strax að fara að vinna í öfuga átt við það. Gamalmennum og öryrkjum, sem engan eiga að, er með öllu ókleift að komast af án þess að fá sérstakan framfærslustyrk, þó að þetta fólk fái þessi laun.

Ég hef því ásamt hv. 2. þm. Reykv. leyft mér að bera fram brtt. við 12. gr. þessa lagafrv., og sú brtt. er skráð á þskj. nr. 204. 12. gr. frv. er um, að miða skuli launagreiðslur við 300 vísitölustig. En brtt. þessi er á þá leið, að ákvæði þessarar gr. taki ekki til fastra lífeyrisgreiðslna samkv. l. um almannatryggingar. En það eru fyrst og fremst ellilaun og örorkubætur, svo og aðrar varanlegar bætur, sem bótaþegar taka. Ég skal ekki fjölyrða meir um þessa brtt. Ég vil vænta þess, að hv. þm. taki henni með fullri sanngirni og minnist þeirra fyrirheita, sem Alþ. gaf gömlu fólki og öryrkjum fyrir tveimur árum, og að þeim finnist ekki tímabært og ekki vansalaust að taka nú til baka það, sem þá var heimilað.

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða um þetta frv. almennt, sem fyrir liggur. En vissulega er það þó svo, að þrátt fyrir langar ræður, þá er þó margt í þessu frv. enn óskýrt. Og það er alveg sérstaklega eftirtektarvert, að hæstv. ríkisstj. og hennar formælendur, þeir hafa svo að segja enga tilraun gert til þess að skýra frv. Þeir hafa kosið að ræða málið á allt öðrum grundvelli. — Ég vil nú leyfa mér enn að biðja um skýringar. Það hefur verið beðið um þær áður, og svör hafa ekki komið. Og ég vil enn bera fram óskir um skýringar, og má vel vera, að fleiri verði til þess að gera slíkt hið sama, ef svör fást ekki, svo að fullreynt verði, hvort hæstv. ríkisstj. vill ekki eða getur ekki nema hvort tveggja væri — svarað þeim spurningum, sem koma upp í hvers manns huga við að lesa frv. Ég staðnæmist fyrst við 12. gr., þá gr., sem ég leyfi mér að flytja brtt. við. Þar er þetta margumtalaða ákvæði, að ekki skuli greiða verðlagsuppbætur á starfslaun eftir hærri vísitölu en 300 stigum. Það er staðreynd, að í dag er vísitalan skráð 328 stig. Og það er einnig staðreynd, að raunveruleg vísitala er eitthvað nálægt því að vera 380 stig. Og það er einnig staðreynd, að það, að vísitalan er skráð í dag aðeins 328 stig, stafar af því, að ríkissjóður leggur fram verulegar fjárfúlgur til þess að greiða vísitöluna niður, sem talið er. Nú er enginn stafur eða stafkrókur, það ég fæ séð, í þessu frv., sem segi til um það, hvort eigi að halda niðurgreiðslunum áfram eða þá í hve ríkum mæli. ef haldið verður áfram með þær. Það verður ekki annað séð en að það sé alveg á valdi ríkisstj., sem er á hverjum tíma, hvort hún heldur niðurgreiðslum þessum áfram, og þá í hvaða mæli þeim verður haldið áfram. Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj.: Hver er meiningin? Hvað hyggst hæstv. ríkisstj. fyrir? Vill hún gefa skýlausa yfirlýsingu um það, hvort hún ætlar að halda niðurgreiðslunum áfram og þá í hve ríkum mæli? Og vill hún ekki, til þess að taka af öll tvímæli, setja inn í lögin einhver ákvæði um niðurgreiðslurnar? Þetta er sem sé meginatriði fyrir hvern launþega, og það skal ég reyna að rekja með einföldum dæmum. Það lætur ekki fjarri, að verkamaður í Reykjavík geti með því að vinna hvern einasta virkan dag fengið í árslaun allt að 20 þús. kr. með núverandi vísitölu, og ég vil leggja þá tölu til grundvallar. Það skiptir ekki svo miklu máli í þessu sambandi, þótt launin kunni að vera eitthvað eilítið lægri, en um það er fremur að ræða en hið gagnstæða. Ef hér er um að ræða niðurfærslu á vísitölunni úr 328 stigum í 300 stig, þá kemur fram við það launalækkun, sem nemur 81/2%, eða á 20 þús. kr. 1700 kr. Skatturinn, sem verkamaður hér í Reykjavík á þá að greiða vegna þessarar vísitölulækkunar, er 1700 kr. Ég verð nú að segja það, að ég hygg, að þetta mundi þykja allhressileg álagning, ef lagt væri á sem útsvar í einu lagi. Já, það segir mér nú einn stjórnarstuðningsmaður, að nú lækki vöruverðið í landinu við þessa lækkun á vísitölunni. Vöruverðið í landinu lækkar þannig, að við vöruverð í landinu bætist 31/2% söluskattur, ofan á aðrar álagningar á vörur. Ég veit ekki, hve mikið verkamannsfjölskylda kaupir af slíkum vörum á ári, sem þessi skattur er lagður á. En ég hygg þó, að það sé ekki fjarstæða, að hún kaupi þær vörur, sem hækkunin kemur fram á, fyrir 6 þús. kr. og sé ekki ofhaldin af. Og 31/2 % af því skilst mér vera 210 kr. — Svo eru í 15. gr. frv. þessa almenn ákvæði um, að það megi færa niður verð á ýmsum vörutegundum. En aðspurð hefur hæstv. ríkisstj. ekki treyst sér til að gefa neinar skýringar á því, hverju þessar niðurfærslur muni nema eða hvort þær muni nokkru nema. Og ég staðhæfi, að þessar niðurfærslur verða ýmist engar á vöruverði eða svo óverulegar, að engu máli skipta. Úr þessu mun reynslan skera. – En ef ríkisstj. fyndi upp á því að hætta öllum niðurgreiðslum alveg — og það er enginn stafur eða stafkrókur í þessu frv., sem segir neitt um það, hvort verður haldið áfram niðurgreiðslunum —, þá lækkar vísitalan úr 380 stigum í 300 stig. Það er nálægt því að vera 21% lækkun á launum. Og miðað við 20 þús. kr. laun. Þá er skatturinn, sem verkamaðurinn í þessu falli þarf að borga, 4200 kr. Ég segi: Þetta mundi þykja allríflegur skattur og umtalsverður, ef. t.d. bæjarstjórnin í Reykjavík hækkaði nú Útsvörin á einu bretti á verkamönnum fyrst og fremst um 1700 kr. á hvern verkamann og gæti svo við nánari athugun kannske komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki alveg nóg hækkun. og gæti þá brugðið sér upp í 4200 kr. skatt með útsvarsálagningunni. — En svo lækkar vöruverðið, sagði hv. þm. Já, við skulum líta nánar á það spursmál Alls staðar í heiminum er verðlag að hækka, bæði í Ameríku, Bretlandi, Frakklandi og yfirleitt hvar sem er, a.m.k. í löndum auðvaldsskipulagsins er verðlag að hækka. Og þetta þýðir alveg óhjákvæmilega vaxandi dýrtíð hér heima á Íslandi, hækkun hinnar raunverulegu vísitölu. En samt á að halda sig við það hér að greiða launþegum kaup, sem miðað sé við 300 vísitölustig og ekki meira undir neinum kringumstæðum. Það er því engin fjarstæða að hugsa sér, að það verði ekki 1700 kr. skattur, sem verkamaður hér í Reykjavík þarf að borga vegna þessarar ákvörðunar um að binda kaupgjaldið við 300 vísitölustig, og ekki 4200 kr., heldur eitthvað miklu meira, því að dýrtíðin hækkar, það er víst. Ríkisstj. getur hætt að greiða vísitöluna niður. Um það er allt óvíst. Og niðurstaðan verður: Meiri og þyngri byrðar yfir á herðar launþeganna. — Ég fjölyrði ekki meira um þetta. En það er ástæða til að spyrja um fleira.

II. kafli frv. er um eignaraukaskatt. Hv. 4. þm. Reykv. hefur nú lýst því yfir fyrir sína hönd, að honum finnist skattur sá harla lítilfjörlegur sem eignaraukaskattur, og hefur hann þar satt að mæla. En það finnst mér ekki heppilegt, að engin tilraun hefur verið gerð til þess að sýna fram á, hve miklar tekjur ríkið muni fá af þessum skatti. Það er óforsvaranlegt af hæstv. ríkisstj. að leggja fram frv. sem þetta, till. sem þessar og gera enga tilrann til að gera grein fyrir því, hvað till. þýða. Ég vil spyrja enn: Hvað hefur ríkisstj. áætlað um það, hvað mundi fást inn af þessum skatti? Ég sé raunar, að stólar ráðh. eru auðir, en ég sá í gærkvöld, að þegar þm. voru að tala, þá kaus einn ráðh. þann kost að standa á hleri við lokaða hurð, en annar var í hliðarherbergi og lét skína framan í sig annað slagið, en hinir kusu þann kost að vera á gangi á við og dreif. Það er því vel hugsanlegt, að þeir haldi gömlum sið nú og sitji sinn til hvorrar handar og hleri svoleiðis, að það, sem ég segi, nái til eyrna þeirra, þótt þeir séu ósýnilegir. Þess vegna endurtek ég spurninguna: Hvað hefur ríkisstj. áætlað, að ríkið mundi fá miklar tekjur vegna hins svo kallaða eignaraukaskatts? Og ég endurtek líka spurninguna: Hvað hyggst hæstv. ríkisstj. fyrir um niðurgreiðslur á vísitölunni? Hvaða yfirlýsingar vill hún gefa í því sambandi, og vill hún ekki setja ákvæði í l., sem segja svart á hvítu um það, hvað hér sé í ráði og hvað eigi að greiða mikið niður?

Ég skal svo ekki fara út í marga aðra kafla frv. Ég get þó ekki látið vera að minnast með örfáum orðum á þann kafla frv., sem fjallar um hinu svo kallaða veltuskatt eða söluskatt eins og framsóknarmenn hafa kosið að skíra veltuskattinn að þessu sinni, en almenningur skírir hann sveltiskatt. Það þarf ekki að fjölyrða um þennan skatt, það er ljóst, í hverju hann er fólginn, hann er 31/2% álagning á ýmsar helztu nauðsynjavörur almennings. En eitt langar mig til að vita: Hve miklar tekjur hyggst ríkisstj. fá af þessum skatti? Um það liggja engar upplýsingar fyrir, ekki um það fremur en annað í þessu frv., og ég endurtek enn, að slíkt er ósæmilegt af hæstv. ríkisstj., að leggja fyrir Alþ. sitt aðalmál án þess að leitast við að gera nokkra grein fyrir, hvað það muni þýða í framkvæmd.

Ég skal svo ekki fara fleiri almennum orðum um frv., en mér þykir rétt að segja nokkur orð í tilefni af því, sem svo greinilega kom fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að þetta frv. æri mótað fyrst og fremst af sjónarmiðum gróða- og eignarstéttarinnar í þjóðfélaginu, og þetta er réttur dómur, það er fyrst og fremst mótað af sjónarmiðum þessarar stéttar, og það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að svo sé. Þessar stéttir hafa vissulega mikið að verja, og þær hafa mikil tæki til þess að verja sinn mikla auð. Ég hef áður hér á Alþ. bent á, hvernig eigna- og tekjuskiptingin er hér í Reykjavík samkvæmt síðasta skattaframtali, og þykir mér rétt að rifja nokkuð upp þær tölur, ef af því mætti verða ljósara, hvernig stendur á því, að frv., sem við höfum hér, er eins og það er. Það eru 8321 einstaklingur í Reykjavík, sem eiga svo mikið af þessarar veraldar auði, að þeir borga eignarskatt, það er ekki svo ýkja stór hluti borgaranna, en eignirnar, sem þeir telja fram, eru talsvert verulegar. Þeir telja sem sé fram 407 millj. kr., og að sjálfsögðu eru hér fasteignir taldar á fasteignamatsverði, verðbréf á nafnverði o.s.frv., svo að söluverð þessara eigna er fimm- til sexfalt meira. Nú förum við að athuga skiptinguna og tökum til athugunar 200 hæstu framteljendurna. Þeir telja fram til eignar 103 millj. kr., eða rösklega fjórða hlutann af öllum eignum, sem fram eru taldar til skatts í Rvík. Skiptingin er þá þannig, að hinir 200 auðugustu eiga um það bil 1/4 allra skattskyldra eigna í Rvík, en 3/4 skiptast niður á 8121. Þetta er eignaskiptingin hér í Rvík á milli eignastéttarinnar annars vegar og launastéttanna hins vegar, fyrst og fremst. Ákaflega líkt kemur í ljós, þegar farið er að athuga tekjuskiptinguna. Það eru að sjálfsögðu miklu fleiri einstaklingar, sem telja fram tekjur í Rvík, heldur en hinir, sem telja fram eignir. Þeir, sem telja fram tekjur, eru 22820. Heildartekjur þeirra eru 504 millj. kr., þ.e.a.s. nettótekjur, eins og þeir töldu fram til skatts. Heildartekjur hinna 200 auðugustu eru hins vegar 36 millj. kr. Hver þeirra hefur þá að meðaltali í árstekjur 180 þús. kr. nettótekjur eftir eigin framtali, enn hinir 22620 hafa í heildartekjur 468 millj. kr., eða ca. 20 þús. kr. í meðaltekjur. Þannig er tekjuskiptingin í Rvík. Það er alveg rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að þetta frv., sem við ræðum um í dag, það er mótað af sjónarmiðum hinna 200 ríku. Hér á að leysa vandamálin á kostnað hins mikla fjölda, sem hefur litlar tekjur, án þess að koma, svo að heitið geti, við hjá þeim, sem hæstar hafa tekjurnar og mestar eignir eiga. En þá kemur sú mjög athyglisverða spurning, hvernig á þessu stendur, og einnig verð ég að segja það, að rétt er að virða það dálítið fyrir sér, áður en við svörum því, hvernig á þessu stendur, hverjir muni vera tekjumestir af núverandi valdhöfum.

Ég vil þá minna á það, að tveir af formælendum frv., hæstv. dómsmrh., sem hér hélt í gær þá furðulegustu ræðu, sem nokkurn tíma hefur verið haldin á Alþ., og hins vegar hv. þm. A-Húnv., sem flutti hér hóflega ræðu um málið, sem fyrir lá, — að báðir þessir menn sögðu eitt og hið sama, að hér væri aðeins um byrjunarspor að ræða og áfram verði haldið á sömu brautinni. Það var mjög athyglisvert, að báðir höfðu í frammi sömu hótunina, báðir sögðu: Ef þessu frv. verður illa tekið, ef barizt verður gegn því, ef það nær ekki tilgangi sínum, þá skuluð þið fá annað verra að þeirra dómi, nefnilega gengislækkun, og þeir undirstrikuðu það rækilega, að það væri búið að stiga það stóra spor að binda vísitöluna, en það er ekki nóg, við verðum að halda áfram á sömu braut. Það þýðir að halda

áfram að leggja meiri byrðar á launastéttirnar, en slá skjaldborg um stóreigna- og stórtekjustéttirnar. Ég verð að segja, að þessi hótun beggja þessara þm. um gengislækkun virðist mér út af fyrir sig ekki vera neitt geigvænlegri en þau ráð, sem hér er til gripið. Ég fæ ekki séð, að gengislækkun mundi á nokkurn hátt koma verr við launastéttirnar eða verða verri þjóðinni í heild en þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, og ráðstafanir, sem meira er hótað af. Ég fæ ekki séð, að verkamaður í Rvík mundi vera nokkuð vansælli, þó að laun hans vætu skert um 81/2% með gengislækkun en með bindingu vísitölunnar eða hvort laun hans væru skert enn þá meir með þessari aðferð eða hinni. Annars skal ég ekki fara langt út í það.

Ég vil þá aftur koma að því, hvernig á því stendur, að þetta frv. er svo mótað sem viðurkennt er, og vitna ég þar enn alveg sérstaklega í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem með löngum skýrslum leiddi að því rök, að frv. væri mótað af stefnu hinna auðugu. Það er eftirtektarvert, að allir stjórnmálaflokkar hafa sagt: Þetta er ekki mín stefna, þetta væri allt öðruvísi, ef ég hefði mátt ráða. — Nú er það ljóst, og leiddi hv. 1. þm. Reykv. einnig að því rök, að einn flokkurinn í stjórnarsamstarfinu, Sjálfstfl,, hefur opinberlega og undanbragðalaust komið fram sem málsvari hinna auðugu, og ég held, að einn af þeim auðugu hafi verið að leggja fram brtt. áðan til þess að verja sjóði sína, það var hv. 3. þm. Reykv. (HB). Hann vildi sem sé fá skattfrelsi fyrir varasjóði alls konar hlutafélaga. Það vita sem sé allir, að þessi flokkur er málsvari hinna auðugu. Það vita allir, að þessi hv. þm., sem flytur hér till. um að verja sjóði sína, er að verja sitt eigið hlutafélag og félög stéttarbræðra sinna, félög kaupsýslustéttarinnar og braskarastéttarinnar. Þetta er ljóst. Og hann var ekki einn á báti. — Ég sé, að hv. þm. Ak. brosir, og það er kannske eðlilegt að hann brosi, því að það er nú svo með þann ágæta mann, að sjálfsagt mundi hann heldur kjósa sér stöðu annars staðar en þar sem hann er. Nú er því yfirlýst af tveimur öðrum stjórnmálaflokkum, að þeir séu algerlega andvígir þessari stefnu, þeir hafi ekki viljað búa til frv., sem væri þannig vörn fyrir hina auðugu, en árás á hina smærri. En hvernig stendur þá á því, að þetta hlaut að vera svona? Hæstv. forsrh. hældi sér í gær fyrir margt og einkum og sér í lagi fyrir eitt, fyrir staðfestu, hann sagðist vera geysilega staðfastur maður og svo væri um flokk hans. Það mætti kannske með ofurlitlum rökum leiða annað í ljós hvað flokk hans snertir, en þá sögu ætla ég ekki að rekja, en ég viðurkenni, að hæstv. forsrh. sjálfur er geysilega staðfastur maður, hann hefur alla tíð haft eina ákveðna og óbilandi stefnu, og það er að vera vikapiltur og varapeð hjá íslenzkri auðmannastétt. Þessi þráláta stefna hans hefur einnig birzt í öðru. Hún hefur einnig birzt í því, að hann hefur ætíð notað samstarfið við alla róttæka sósíalista bæði í hans flokki og annarra til þess að sigla til hægri og tryggja, að ekki komi til samstarfs til vinstri. Einu sinni komst hann svo langt að vera samningsbundinn um samstarf til vinstri. Flokkur hans samdi við þáverandi Kommúnistaflokk Íslands um sameiginlega uppstillingu við kosningar í bæjarstjórn Rvíkur og um ákveðið samstarf að bæjarstjórnarkosningum loknum. Þessir samningar voru formlega og löglega gerðir og undirritaðir af stjórn beggja flokkanna. En þá var hinum staðfasta nóg boðið, því að 2 eða 3 dögum fyrir þær kosningar lýsti hann yfir því í blaði sínu, að samninga þessa mundi hann að engu hafa eftir kosningar. Síðan hefur verið haldið áfram á sömu braut. Það er alveg víst, að þetta frv., sem við höfum hér í dag og hv. 4. þm. Reykv. segir, að sé ekki stefna Alþfl., heldur stefna, sem sé mótuð af hagsmunum hinna auðugustu, það er svona af því, að við höfum óvenjulega stefnufastan forsrh., sem skilyrðislaust hafnar öllu samstarfi til vinstri og undir öllum kringumstæðum sækist eftir að vinna fyrir auðvaldið og afturhaldið í landinu.

Ég get svo ekki látið hjá líða að víkja örfáum orðum að hv. 4. þm. Reykv. Hann mætti vissulega af þeim dæmum, sem hann sjálfur hefur rakið, hafa numið þann sannleika, sem ég hef sagt, að hæstv. forsrh. er í því einu staðfastur, að vinna aldrei með róttækum sósíalistum, hvorki í haus flokki né utan hans. Nú hefur þessi hv. þm. komið fram æði oft n hinum opinbera vettvangi. Hann hefur komið fram við alþingiskosningar sem eldheitur baráttumaður gegn herstöðvasamningnum, og að ég ætla af einlægni. Ég ætla, að hann hafi í fullri einlægni barizt fyrir því að safna fylgi að sínum flokki við síðustu kosningar í þeirri góðu trú, að hann væri, eins og það var orðað, að berjast gegn hvers konar landsafsali, og það er vafalaust, að hv. 4. þm. Reykv. varð afar mikið ágengt í að styrkja flokk sinn. Hann dró til flokksins allmörg atkv., mörg hundruð eða þúsund, af því að fólkið trúði því, að það væri stefna flokksins, sem þessi róttæki sósíalisti og einlægi ættjarðarvinur væri að boða. En hvert var svo gagnið af baráttunni? Sterkari aðstaða fyrir hæstv. forsrh. til að vinna með landsafsalinu. Þetta var gagnið. Svo hafa stundir liðið fram, og hv. þm. hefur haldið áfram að berjast fyrir skoðunum sínum, hann hefur unnið af dugnaði við að semja þetta frv., afla til þess gagna o.s.frv., og þetta er svo gagnið af starfinu: Hæstv. forsrh. hefur fengið sterkari aðstöðu til að leggja fram frv. til verndar eignarstéttinni og frv., sem er um of mótað af hennar fingraförum, og fyrir hv. þm. sjálfan er gagnið þetta: Hann fær að sitja hjá. Það er rétt, að hann geri sér þá staðreynd ljósa, að hæstv. forsrh. vill ekkert samstarf við þennan mann, hann vill atkvæðin, sem hann dregur að flokknum, hann vill fá styrkleika fyrir sína óbreytanlegu þjónustu við íhaldið, og það er þáttur hv. 4. þm. Reykv. að láta honum það í té í nokkrum mæli, og það er allt og sumt. Svo fær hann þetta, sem börnin fá, þegar þau fara fyrst að leika sér með eldri börnum. Hann fær að vera „stikkfrí“, það er það eina, sem hann hefur fengið. Það er ástæða til að gera sér það ljóst, að það er algerlega rangt, sem hv. 4 þm. Reykv. sagði áðan, að þetta frv. væri á engan hátt mótað af Alþfl. og hann hafi ekki haft aðstöðu til þess. Það er léleg aðstaða að vera forsrh. og hafa þingrofsréttinn í sinni hendi. Nú er mér nær að halda, að sannleikurinn í þessu máli sé sá, að þegar búið var að þæfa dögum og vikum saman milli stjórnarflokkanna um það að koma saman einhverju frv. og þegar svo stóð, að allt sýndist komið í óefni, þá hafi verið sagt við forsrh. það, sem eðlilegt var: Nú er það þitt verk að semja frv., sem hinir geta sætt sig við. — Þetta hygg ég, að hafi verið gert. Það var óhætt að trúa Stefáni Jóhanni til að semja frv. fyrir auðvaldið í Rvík. Sjálfstfl. gein við þessu. Framsfl. er bersýnilega ánægður líka. En ef einhver dugur hefði verið í Alþfl., — hvað var þá sjálfsagðara fyrir hann en að leggja fram þá stefnu, sem hann taldi sanngjarna og rétta og líklegan grundvöll fyrir alla þjóðina, og hvað var þá sjálfsagðara fyrir hæstv. forsrh. en að segja: Við höfum ekki fengið samkomulag, hér er mín stefna, og ég geng óhræddur til kosninga frammi fyrir þjóðinni upp á þá stefnu. Þetta vald er í hendi Alþfl. —Hví ekki að beita því? En svo kemur hv. 4. þm. Reykv. og segir: Þetta er vont frv., þetta er ekki stefna Alþfl., ég ætla að sitja hjá. Hvers vegna þessa lúpulegu stefnu — hví ekki að reka einhverja pólitík? Er ekki hv. 4. þm. Reykv. mér sammála um það, að alveg ugglaust sé grundvöllur meðal þjóðarinnar fyrir því að reka róttæka og meira og minna sósíalistíska pólitík, og ég er viss um, að þjóðin munds stórlega fagna því, ef hún fengi einhvern tíma að ganga til kosninga um slíkt „prógram“, ef heilyndi væru þá fyrir hendi meðal allra þeirra. sem kenna sig við sósíaldemókrata, sem vildu vinna með róttækari öflunum í landinu og útiloka fulltrúa auðmannastéttarinnar, og ég vil gera það skýrt, að það tækifæri er nú í höndum Alþfl., en ég veit, að Stefán Jóhann Stefánsson notar það ekki. Ég veit, að Gylfi Þ. Gíslason á að tala um svona pólitík, sem ekki sé hægt að reka, hann á að styrkja aðstöðu forsrh., og svo fær hann að sitja hjá og halda ræður, sem ekki mega koma í Alþýðublaðinu.

Ég skal svo ekki fjölyrða öllu meira um þetta. Ég er þeirrar skoðunar, að innan þingveggjanna sé til þingvilji fyrir allt annarri pólitík en þetta frv. boðar. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé til þingvilji fyrir því að snúast gegn þeim vandamálum, sem nú ber að höndum þjóðarinnar, með þeim hætti að leysa þau á kostnað auðstéttanna, en ekki launastéttanna. En það er bara svo dásamlega séð fyrir því, að þau öfl skuli ekki vinna saman, og það er fyrst og fremst hæstv. forsrh., sem hefur tekið sér rétt til að bíða og sjá, hvað setur. Ég held, að málið skýrist, eftir því sem stundir líða fram. Ég held, að að því hljóti að reka fyrr en seinna, að þeir, sem eru í stjórnmálaflokkunum og utan þeirra, á þingi og utan þings, og eru andvígir þeirri varnarstefnu, sem hér birtist, fyrir auðstéttir Íslands, fari að vinna saman fyrir þá menn. sem þeir eiga að vera umboðsmenn fyrir.

Það hefur verið venja, þegar lagafrv. er borið undir atkv., að lýsa yfir því, að fyrirsögn teljist samþ. án atkvgr. Mér dettur í hug, hvort enda muni á líkan hátt með þetta frv. og að rétt hefði verið, að frv. hefði getað heitið eitthvað annað en það heitir. Kannske fyrirsögnin sé prentvilla, eins og sú, sem Alþýðublaðið gerði í leiðara sínum? Þegar við fengum þskj. í hendur í gær, tjáði hæstv. ríkisstj., að hún mundi hlutast til um að létta gróðanum af þeim, sem mest hefðu grætt, og að þeir bæru mestu byrðarnar En Adam var ekki lengi í paradís, því að svo var frv. prentað upp. Svo flettum við upp á sömu siðu og sáum, að það var bara prentvilla. Mér dettur í hug, að fyrirsögn þessa frv. hefði átt að vera: Frv. til l. um ráðstafanir til að auka dýrtíðina og skerða lífsafkomu almennings. — Og þá væntanlega samþ. án atkvgr. Það mundi koma sér betur fyrir þm., að fyrirsögnin yrði samþ. án atkvgr., svo að þeir þyrftu ekki að greiða atkv. á móti sannfæringu sinni. Þessi fyrirsögn held ég, að sé sú rétta og henti hér, því að hér eru ráðstafanir til að auka dýrtíðina, en ekki til að draga úr, og til að skerða lífskjör almennings, en ekki til að bæta.

Áki Jakobsson: Herra forseti. — Það hafa verið miklar umr. um þetta mál og það ekki að ástæðulausu. Ég hef hvorki við 1. umr. né þessa tekið til máls áður. — Margt af því, sem ég hefði viljað segja, er nú fram komið, en ég vil sérstaklega taka það fyrir að gera ýmsar aths., sem mér finnst ekki fram hafa komið.

Það er nú búið að lýsa því nokkuð hér, hver sé tilgangur þessa frv. Það er eins og ríkisstj. hafi gert ráð fyrir því, að það hlyti að verða mjög óljóst fyrir almenningi, hver sé tilgangur frv., vegna þess, að hún tekur upp það óvenjulega fyrirkomulag að setja sérstakan kafla við frv., sem er aðeins ein gr., þar sem tekið er fram, hver sé tilgangur frv. Í honum er talið upp: „Til þess að vinna gegn verðbólgu og dýrtíð, tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, stemma stigu fyrir atvinnuleysi og auka framleiðslu til gjaldeyrisöflunar er sett löggjöf sú, sem hér fer á eftir.“ Það er vel til fallið að taka þetta fram vegna þess, að þótt leitað væri með logandi ljósi um frv. og allir hagfræðingar landsins væru kallaðir til rannsóknar, þá er ekki hægt að finna þetta út úr frv. Maður skyldi nú ætla, að það væri þetta, sem ríkisstj. legði áherzlu á að sanna og léti sér ekki nægja það, sem látið er standa framan við frv. Það er aðeins ein framsöguræða, sem haldin hefur verið af hálfu ríkisstj., og þar er ekki komið greinilega inn á eitt einasta atriði frv. Það var ræða forsrh. Ræðan var frá upphafi til enda ekki annað en óundirbúið skvaldur. Þær fáu tölur, sem hann nefndi, voru rangar og ekki nema þrjár, að ég held. Hann sagði t.d., að fiskábyrgðin mundi kosta 20 millj. kr., án þess að færa nokkur rök fyrir því. Sú tala mun vera röng. Hún mun vera 6–7 millj. kr. of há. Hann segir enn fremur, að kauplækkun nemi um 8%. Hvert barn skólagengið getur séð, að það er 8.5%. Hann segir raunverulega lækkun launa ekki nema 5%. Hv. 4. þm. Reykv. tekur það óvarlegar til orða, að hann telur það ekki munu vera nema 4–5%. Þessar tölur eru allar rangar. Eftir að þessar ræður hafa verið haldnar, hafa bæði forsrh., menntmrh. og utanrrh. talað í þessu máli, en enginn þeirra hefur skýrt nein atriði frv. Þeir hafa svo að segja ekkert, sérstaklega forsrh. og utanrrh., komið nærri því að ræða frv. Ég býst við, að ræðan, sem hæstv. utanrrh. hélt hér í gær, sé einsdæmi. Svo taumlaust er ábyrgðarleysi ráðh., að á sama tíma sem ríkisstj. ber fram við þjóðina, að allir launþegar eigi að færa fórnir til að forða þjóðinni frá voða, þá hafa þeir ekki neitt um þetta mál að segja, en velja sér annað umræðuefni til þess að reyna að drepa tímann fyrir þingi og áheyrendum. En það sýnir ekkert betur en einmitt þessi fram koma ríkisstj., hversu slæmur málstaður hér er á ferðinni. Það var gert mikið úr því atriði í ræðu hæstv. forsrh., að með frv. væru lagðar byrðar á alla þegna þjóðfélagsins. Allir, sem tala ð hafa hér af hálfu ríkisstj., hafa viðurkennt það, að í frv. væri um launalækkun að ræða. Dagblaðið Tíminn, sem kom út í dag, heldur því fram, að hér sé ekki um launalækkun að ræða. Þetta er dálitið sýnishorn af því, hvernig verið er að reyna að blekkja almenning. En það bragð getur ekki tekizt, því að hér er um of greinilega árás að ræða. Það er vert að athuga þetta höfuðákvæði frv., sem er í III. kafla, sem sé lækkun á vísitölunni. Í sjálfu sér er frv. lítið annað en framlenging á fiskábyrgðarlögunum frá því í fyrra, sem við sósíalistar knúðum í gegn á þingi í fyrra og einir höfum haldið fram, að óhjákvæmilegt væri af mörgum ástæðum að láta koma fram aftur. Allir flokkar, sem standa að núv. ríkisstj., hafa keppzt um í blöðum sínum að fullyrða, að það væri vitfirring að framlengja ríkisábyrgð á sjávarútveginum. Og hæstv. ráðh. hafa við öll möguleg tækifæri, sérstaklega utanrrh. og fjmrh. margtekið það fram, að þetta væri glæpsamlegt athæfi, sem ekki kæmi til mála að framlengja. Nú eru þeir með þetta ráð okkar og sjá ekki annað ráð til þess, að framleiðslan geti haldið áfram. Þetta er líka gott sýnishorn af starfsaðferðum þessarar stjórnar, enda býst ég við, að leit væri á ríkisstj., sem kastað hefur höndunum til undirbúnings slíkra mála eins og þessi ríkisstj.

Hæstv. forsrh. viðurkenndi það, að launalækkunin væri meginatriði frv. Og það er sérstaklega undirstrikað í grg., að til þess að ná þessu markmiði frv. sé óhjákvæmilegt að ráðast beint gegn verðbólgunni með því að festa vísitöluna. Við sósíalistar höfum oft haldið því fram, að í munni ríkisstj. og stuðningsmanna hennar væri verðbólgan ekki annað en kauphækkun. Þegar talað er um, að verðbólgan eigi að minnka, þá er talað um, að kaupið eigi að lækka. En það er ekki áhugi fyrir vöruverðinu. Nú er þessi kauplækkun, sem felst í frv., um 8.5%, og síðan kemur veltuskattur eða söluskattur. Það má vafalaust slá því föstu, að hann sé ekki minni en 2–3%, þannig að kauplækkunin nú þegar er ekki minni en 10%. Enn fremur felst í frv. heimild til þess að lækka niðurgreiðslur. Ríkisstj. hefur ekki skuldbundið sig til að halda áfram niðurgreiðslum. Hún getur ákveðið að minnka þetta um 10 stig eða jafnvel alveg. Þá er lækkunin ekki 28 stig, heldur 84 stig. Þá er verðlækkunin orðin 22%. Ef menn vilja halda því fram, að það sé ekki annað en illkvittni að bera það á ráðh., og ríkisstj., að þeir hafi hug á þessu, þá þarf ekki annað en að rifja það upp, sem kom upp úr þeim hér í gær í umr. Hæstv. utanrrh. orðaði það svo í sambandi við fiskábyrgðina, sem hann taldi vera heldur slæmt ráð að grípa til, en lofaði, að ekki skyldi vera gert lengur en nauðsynlegt væri. Þannig komst hann að orði: „Ef dýrtíðin ekki lækkar stórkostlega, þá þarf fiskábyrgð áfram.“ Ætli það séu miklar líkur til þess, að hæstv. utanrrh. mundi sætta sig við það, ef sú stjórn, sem hann situr í, hefði heimild til þess að lækka vísitöluna svo stórkostlega. Nei, ekki aldeilis. Það, að hann treystir sér ekki til þess, er það, að þeir óttast, að almenningur mundi ekki þýðast það. Síðar í umr. kom hann aftur inn á þetta mál og sagði berum orðum ég skrifaði upp eftir honum: „Þá voru mjög miklir annmarkar á að taka stærri skref í einu heldur en ráð er fyrir gert í frv.“ Maður sér. hvert á að halda og hvað hér er um að ræða. Hér er ekki verið að stiga verulega stórt skref að áliti ríkisstj., en verið að prófa, hvernig undirtektirnar verða, og ef það gefst vel og samtök launþeganna svara þessu ekki með einhuga baráttu, þá á að færa sig upp á skaftið. Hæstv. menntmrh. kom líka inn á þetta og sagði, að vísitölufyrirkomulagið hefði verið aðalundirrót verðbólgunnar. Ég man nú ekki betur en bæði hæstv. menntmrh. og formaður Framsfl. hafi haldið langar ræður í útvarpið um brask og heildsalagróða og ásakað fyrrv. ríkisstj. fyrir að hefta þetta ekki og gera ekki ráðstafanir til að hefta þennan gróða, svo að gagni mætti koma. Og þá töldu þeir þetta vera að verulegu leyti undirrót verðbólgunnar. Nú er snúið við blaðinu, og nú er það vísitölufyrirkomulagið. En hvað er vísitala? Hún er ekki annað en mælikvarði á vöru, sem fólkið þarf til að lifa. Þessi mælikvarði, álíta þeir, að sé aðalundirrót verðbólgunnar, því að hann er ástæðan fyrir því, að kaupið hækkar. þegar verðið á nauðsynjavöru hækkar. Er hægt að segja með berari orðum, að vandamálið sé eingöngu það í augum ríkisstj. að lækka kaup og laun? Nei, það er ekki hægt að fá gleggri játningu frá ríkisstj. en kom fram í umr. í gær. Einmitt þessar játningar ættu að vera aðvörun til allra launamanna og verkafólks, sem lifa á kaupgjaldi, um, hvaða breytingar hér er verið að fara fram á. Þessir borgaralegu flokkar hafa ætlað sér með auðmannastéttina að baki að leysa vandamálið á kostnað almennings. Nú þegar er byrjað að stíga fyrsta skrefið. Ef það tekst, þá á að halda áfram. Nú er það einkennilega við þetta, að jafnhliða því, sem vísitalan lækkar, þá er grunnkaupið ekki að lækka. Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að verkamenn, sem hafa sterk samtök, hafa möguleika, ef þeir telja sér fært, að fá leiðréttingu á þessari skerðingu á kjörum sínum með því að hækka grunnkaupið. Lögin banna það ekki, og þeir hafa verkfallsrétt og geta beitt honum. En hjá launamönnum almennt, sérstaklega hjá hinu opinbera — hver er þeirra réttur? Hann er enginn. Þeir mega ekki gera verkföll til að rétta kjör sín. Hér er um að ræða fyrst og fremst árás á þessa stétt, sérstaklega starfsmenn hins opinbera. Hins vegar hafa samtök verkamanna mikla möguleika, ef þau vilja beita þeim. Hvernig stendur á því, að í frv. er ekki bönnuð grunnkaupshækkun? Það hefur ekki enn komið nein skýring frá ríkisstj. um þetta atriði. Skyldi ástæðan vera sú, að ríkisstj. hlýtur að sjá, þótt hún lækki vísitöluna og bjargi þannig þjóðinni eins og hún vill vera láta, að það þyki lagabrot, ef grunnkaup hækkar að sama skapi? Hvernig stendur á þessu? Það stendur þannig á því, að hæstv. forsrh. hefur einu sinni farið út úr ríkisstj. vegna þess, að með gerðardómsl. var bönnuð grunnkaupshækkun á Íslandi. Þetta er ástæðan, sem flokksmenn úr öllum flokkum hafa viðurkennt. Alþfl. neyddist til að draga hana úr stjórn árið 1913, eins og þeir orðuðu það. Þetta er ástæðan fyrir því, að grunnkaupið er ekki bundið.

Því er haldið fram af þeim, sem talað hafa af hálfu ríkisstj., að það eigi að gera ýmsar ráðstafanir til þess að lækka dýrtíðina, þetta sé hin svo kallaða verðhjöðnunarleið, sem hagfræðingarnir hafa fundið út, að sé góð, ef vel sé á haldið. Ef menn rísa gegn þessu, þá skulu þeir fá það í annarri mynd, sem sé gengislækkun. Þessi aths. kom hér fyrst fram hjá hæstv. utanrrh. Menntmrh. kom líka með þessa aths. Þeir sögðu fullum fetum, að ef þessi leið yrði ekki farin, þá væri ekki um annað að ræða en gengislækkun. Við skulum nú segja, að ríkisstj. hefði ákveðið að fara þessa leið, að færa niður kaupgjald og vöruverð samtímis. En það gerði hún ekki. Það eina, sem ákveðið er í frv., er að lækka skuli launin. Svo er ákvæði um það, að framleiðsluráð landbúnaðarins skuli verðskrá landbúnaðarvörur að nýju og við það miða, að laun þeirra, er að framleiðslunni vinna, bænda og annarra, haldist í sama hlutfalli við laun þeirra stétta, sem við var miðað við verðákvörðun varanna árið 1947, þangað til ný landbúnaðarvísitala hefur verið ákveðin samkv. l. nr. 94 1947, um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. Nú er vitað, að ágreiningurinn um að verðskrá landbúnaðarvörur er mikill. Ég býst við, að bændaleiðtogar muni geta fundið rök fyrir því, að verðlag á landbúnaðarvörum megi ekki lækka, heldur þyrfti að hækka, þrátt fyrir þessa lækkun á launum. Nú skulum við segja, að af pólitískum sniðugheitum lækki það eitthvað, en þá er fyrir því séð í frv., að á móti þeirri lækkun komi það, sem tekið er upp í 21. gr., að ríkisstj. ábyrgist kjötframleiðendum verðlagsárið frá 31. ágúst 1947 til 1. sept. 1948 það, sem á kann að vanta, að þeir fái fyrir útflutt kjöt, sem til hefur fallið á því tímabili, það verð, sem lagt er til grundvallar í verðlagningu landbúnaðarvara það verðlagsár, sbr. l. nr. 94 1947. Hvað þýðir þetta? Það, að kjöt, sem ekki selst á innlendum markaði, á að seljast út úr landi, og ríkissjóður á að greiða það, sem á vantar. Nú segir kunningi minn, að það þurfi að senda út allt að 200 þús. tonn. Það, sem þarf að borga niður af þessu kjöti, er 6 kr. á kg, eða allt að 12 millj. kr., sem þannig fæst útbýtt til bænda á móti þeirri verðlækkun, sem kynni að verða ákveðin samkv. 16. gr. frv., sem óvíst er um, hver verður. Hver á svo að borga þessar 12 millj. kr.? Þessar 12 millj. kr. eiga að borgast með söluskatti af því, sem inn kemur fyrir það, að hver heildverzlun á að leggja 2% á þá vöru, sem hún selur, og smásöluverzlun 11/2%. Þannig á a.m.k. að borga 31/2% af hverri vöru annarri en landbúnaðarvöru, sem nokkru máli skipti. Þannig er búið um hag bænda, samtímis því sem verið er að lækka laun hjá launþegum og verkamönnum, gamalmennum og þeim, sem þiggja örorkubætur og ellistyrk.

Ef við athugum það, hvernig núv. ríkisstj. er samansett, þá er það Sjálfstfl., sem telur sig ekki hvað sízt berjast fyrir umbótum fyrir launamenn. Þó hefur sá flokkur haldið svona vel á hagsmunum launa- og verkamanna, að þegar þeir lækka laun þessara manna, þá hækka þeir verðið til bænda, og að þessu stendur Alþfl., sem hefur unnið það, að frv. er ekki eins afleitt og verið hefði án hans þátttöku, eftir því sem hv. 4. þm. Reykv. segir. Sá hv. þm. veittist að frv. okkar sósíalista gegn dýrtíðinni og taldi, að í því fælist brenglun á vísitölu, sem næmi 3/4 úr stigi. En hann lét þess ekki getið, hvernig á því stendur, að Alþfl. hefur haldið þannig á málum launamanna gagnvart bændum. Sannleikurinn er sá, að við samningu þessa frv. hafa bændafulltrúarnir algerlega snúið á hina. Samkv. frv. eiga bændurnir alls ekki að taka neinn þátt í þeirri kjaraskerðingu, sem ríkisstj. er nú að framkvæma gagnvart þjóðinni. Það eru aðeins launþegar bæjanna, sem byrðarnar eiga að bera, og það verða þeir að gera sér ljóst. Slíkt er ömurlegt, og eina skýringin á því er sú, að þau öfl í þjóðfélaginu, sem sterkust eru að baki ríkisstj., eru frá auðmönnum Rvíkur, en lækkun vísitölunnar þýðir gróðaaukningu hjá þeim, og kem ég nánar að því síðar. Það er langt frá því, að ríkisstj. hafi frá upphafi rætt um að lækka vísitöluna í 300 stig. Fyrsta till. var frá Alþfl. og var á þá leið að lækka vísitöluna niður í 225 stig, og það var vegna samtaka launamanna og óttans við þau, að ríkisstj. hrökklaðist frá því áformi og sá sér ekki fært að lækka vísitöluna meira en niður í 300 stig, en það undanhald kostaði líka ríkisstj. 21/2 mánuð. Einu rökin fyrir þessari kauplækkun eru þau, að með þessu sé verið að gera sjávarútveginum kleift að starfa. Það er fásinna, sem þriggja manna n., skipuð af ríkisstj., hefur afsannað, og í þessari n. átti m. a. sæti hv. 4. þm. Reykv. Það er ekki hægt að bæta hag sjávarútvegsins með því að lækka vísitöluna, vegna þess að launin, sem sjávarútvegurinn greiðir, eru ekki bundin við vísitöluna. Braskararnir fá að græða, og ríkisstj. gerir ráð fyrir því og hefur því numið úr upphaflega frv. ákvæði, sem leggja nokkrar hömlur á útborgun arðs í hlutafélögum. Stjórnin kom óvart upp um sig um þetta atriði vegna prentvillu í grg. frv. Þeir, sem græða, ef frv. þetta verður samþ., eru auðmenn Rvíkur. Það má ómögulega skerða hag þeirra, sem taka laun sín í gróða. Þeir mega eftir sem áður taka 1/5 teknanna í varasjóði hlutafélaga sinna, hversu fánýt störf sem hlutafélögin hafa með höndum. Móti þessu munu talsmenn ríkisstj. segja: Þeir borga eignaraukaskatt. En það er mikill munur að greiða skatt af miklum auði eða verða að taka af þurftarlaunum, og með þessu frv. er auðmönnunum ekki gert að færa neinar fórnir, því að á móti eignaraukaskattinum í'á þeir aukna möguleika til að græða.

Þá er það verzlunargróðinn. Það er engin skerðing gerð á honum. Söluskatturinn lendir allur á neytendum, og með þessu frv. er stefnt beint að því að gefa „premíu“ fyrir að svíkja undan skatti, því að svo vel er um búið af hálfu ríkisstj., að kaupmenn eignast allan skattinn af því, sem þeir stela undan. Þetta er í fyrsta skipti, sem það er lögfest á Íslandi, að þeir, sem stela undan skatti, skuli fá tækifæri til þess að seilast ofan í vasa almennings eftir meiri gróða. Ég býst við, að umboðsmenn auðmannanna hafi vegna þessa tækifæris talið söluskattinn viðunandi. Um álögur á útveginn þarf ekki að ræða. Það er enginn skattur lagður á hann, en það eina, sem gert er til að hlúa að honum, er að lækka beituna, En það er með því snilldarbragði, að þar er tekið frá útveginum sjálfum. Engar þjóðfélagsstéttir nema launþegar og verkamenn eiga að fórna. Þetta er það, sem hæstv. forsrh. kallar að jafna byrðunum niður á þjóðina.

Hv. 4. þm. Reykv. kvartaði undan því, að í frv. væru ekki nægilegar byrðar lagðar á efnamenn. Það hefði verið ástæða fyrir þennan hv. þm. að fara nánar út í það, hvaða byrðar væru lagðar á þá samkv. frv., en þær eru engar. Þeir þurfa ekkert að leggja fram. Hv. 4. þm. Reykv. virðist vera á góðri leið með að verða aðaltalsmaður ríkisstj. hér, og það var engin tilviljun, að hann hóf ræðu sína með því að gagnrýna frv. okkar sósíalista, því að það er einn liðurinn í „plani“ ríkisstj. um að reyna að sýna þjóðinni, að engar aðrar leiðir en þær, sem hún leggur til, séu fyrir hendi, og því óhjákvæmilegt að lækka launin. Með því að ráðast á okkar frv. var hv. 4. þm. Reykv. að reyna að gera ríkisstj. kleift að standa á því frv., sem hún nú hefur lagt fram. Ef sýndar eru leiðir til þess að ráða bót á dýrtíðarvandamálunum án þess að lækka kaupið, þá er ekki hægt að bera fram svona frv. Þess vegna reynir hv. 4. þm. Reykv. að telja mönnum trú um, að okkar frv. sé ekki til þess að vera tekið alvarlega. Þetta gerði hann líka í umr. um okkar frv. um daginn, þegar hann reyndi að bjarga hæstv. forsrh., er hann hafði lesið upp falsaðar tölur fyrir þingheim. Og þá var útreið hv. 4. þm. Reykv. slík, að hann kaus ekki að fara út í það sama atriði nú. En hverjar eru till. okkar sósíalista? Það er í fyrsta lagi till. um að lækka tolla á þeim vörum, sem ganga inn í vísitöluna, og er gert ráð fyrir, að við það lækki vísitalan um 21 stig, enda er það ómótmælanlegt, og það hefur hv. 4. þm. Reykv. orðið að viðurkenna. Þessi lækkun mundi valda 7 stiga lækkun á vísitölunni vegna lækkaðra launa, og væri þá vísitalan komin niður um 28 stig, jafnmikið og nú á að lækka hana, án þess að vöruverðið lækki. Á móti þessari till. reis hæstv. forsrh. og sagði, að tollalækkunin mundi kosta ríkissjóð 25 millj. kr., en vísitalan aðeins lækka um 15 stig. Var hann þar staðinn að vísvitandi ósannindum, því að hann hafði í höndum plagg frá hagstofunni, sem sýndi allt annað en hann las upp. Ósannindin fólust í því, hvað niðurfelling tolla af vörum, sem ganga inn í vísitöluna, mundi kosta ríkissjóð 9 mánuði ársins, en það reiknaðist 18 millj. kr., eða 24–25 millj. kr. allt árið. En þá var miðað við innflutning þessa árs. Í till. okkar sósíalista er hins vegar reiknað með innflutningi ársins 1948, en samkv. áætlun ríkisstj., sem hv hefur opinberlega lagt fram, á innflutningurinn 1948 að veru helmingi minni en á þessu ári, og yrði þá tap ríkissjóðs vegna tollaniðurfellingarinnar aðeins 12 millj. kr. Þá þagði hæstv. forsrh. og um það, að lækkun vísitölunnar um 21 stig mundi spara ríkissjóði útgjöld, 640 þús. kr. fyrir hvert vísitölustig, eða 13 millj. kr. Ef till. okkar sósíalista yrðu samþ., mundi þess vegna sparnaður ríkissjóðs verða meiri en kostnaðurinn, sé miðað við áætlaðan innflutning á næsta ári. Ef maður gerir hins vegar ráð fyrir eitthvað meiri innflutningi á næsta ári, vegna þess að bjartari horfur eru nú í gjaldeyrismálunum, þá mundi það alveg standa í járnum, hvort ríkissjóður hefði útgjöld eða ágóða af framkvæmd till. okkar sósíalista. Þetta var hv. 4. þm. Reykv. bent á, og lyppaðist hann þá niður og treysti sér ekki til að verja ósannindi hæstv. forsrh. Það er því eðlilegt, að hann segi, að till. okkar séu ábyrgðarlausar og ekki til að vera teknar alvarlega og noti það svo sem átyllu til þess að ræða þær ekki nánar. Það er hægt að lækka vísitöluna með því að lækka vöruverðið, en án þess að rýra kjör almennings, og það leggjum við sósíalistar til. Fyrir ríkisstj. vakir hins vegar að auka enn vald auðmannanna í landinu.

Aðrar till. okkar sósíalista, sem við höfum áður borið fram og nú lagt fram á ný sem brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, eru í fyrsta lagi vaxtalækkun, sem er eitt af allra þýðingarmestu málum sjávarútvegsins, og þarf engan hagfræðing til að sjá það. Í grg. okkar er því haldið fram, að vaxtabyrðin sé 15 þús. kr. á bát að meðaltali. Hv. 4. þm. Reykv. hefur tekið sér það hlutverk að halda því fram, að þetta sé rangt, án þess þó að álita það sjálfur. Og hvað er sönnunargagn hans. Það er áætlun hagfræðinganefndarinnar, en ekki reynsla útgerðarmanna, sem hann byggir málflutning sinn á. Sá sannleiksneisti er þó í þessu, að þeir bátar, sem keyptir voru frá útlöndum í tíð fyrrv. stjórnar og fengu A-lán í stofnlánadeildinni, þurfa ekki að borga svona mikla vexti. En ákaflega er hv. 4. þm. Reykv. ókunnugur íslenzkum sjávarútvegi, ef hann heldur, að þeir bátar séu meiri hluti flotans. Sannleikurinn er sá, að meginhluti flotans eru gamlir, inniendir bátar, sem á hvíla alls konar vandræðalán, og meiri hlutinn eða að minnsta kosti helmingurinn á við að búa 5%–6% vaxtakjör, og það er ekki óvenjulegt, að 60 tonna bátur skuldi 600 þús. kr., og svo vil ég biðja hagfræðinginn, hv. 4. þm. Reykv., að reikna og vita, hvort hann fær ekki eitthvað um 36 þús. kr., og reikna svo með lækkuninni úr 6% niður í 21/2% og vita, hvort honum reiknast þá ekki lækkunin 15 þús. kr. eða meira. Og hvers vegna koma útvegsmenn aldrei svo saman, að þeir ekki krefjist vaxtalækkunar, ef ástandið væri ekki svona alvarlegt? Og vegna þessarar skattpíningar græddi Landsbankinn 14.2 millj. kr. s.l. ár, og ætti hann því að þola, að vextirnir væru lækkaðir. Og vaxtalækkun hefur miklu meiri þýðingu fyrir sjávarútveginn en lækkun vísitölunnar. En það er eðlilegt, að ríkisstj. vilji gera þessar till. okkar tortryggilegar, en það er ekki hægt gagnvart útvegsmönnum, því að þeir finna vaxtabyrðina á bökum sínum og vita, hvernig þessum málum er háttað. En við gerðum fleiri till. til þess að létta skuldabyrðinni af útvegsmönnum, þótt hagfræðingurinn minntist ekki á þær. Í fyrsta lagi lögðum við til að lækka vátryggingargjöldin á bátunum, en nú þurfa bátarnir að borga allt upp í 7% í iðgjöld, og ef 60 tonna bátur er vátryggður á 600 þús. kr., þá getur hagfræðingurinn, hv. 4. þm. Reykv., reiknað út vátryggingargjaldið, og eins ef það er lækkað ofan í 4%. Og það er hægt, því að vátryggingarfélögin hafa grætt á tryggingunum, t. d. græddi eitt félag 1/4 milljón kr. á einum bát yfir árið. Að það skiptir miklu fyrir útveginn, að hér verði lækkað ofan í 4%, sér hver maður. Þetta er að dómi hv. 4. þm. Reykv. ábyrgðarleysi og alvöruleysi okkar sósíalista. Þá lögðum við og til að endurgreiða til sjávarútvegsins af síldarkúfnum svo kallaða um 4 kr. á mál. Hv. 4. þm. Reykv. minntist ekki á það. Þegar stjórn síldarverksmiðja ríkisins ákvað verðið á síldinni á síðustu síldarvertíð, þá lagði hún 4 kr. við kostnaðinn á hverju máli, og átti það að vera til þess að mæta ábyrgðarverði á fiski. En hvað skeður nú? Jú, stjórn síldarverksmiðjanna segir, að það hafi verið svo lítil síld í sumar, að verksmiðjurnar hafi tapað á rekstrinum. Það er allt í lagi, segir ríkisstj. Þið skuluð bara hafa þessar 4 kr. á hvert mál. Það er ekki verið að spyrja útvegsmenn, hvort þeir hafi tapað, hvað þá bjóða þeim uppbót, þó að verksmiðjunum sé með þessu gefið frá 1/2 – 31/2 millj.

Það mætti nú segja, að það væri fyrir sig, þó að ríkisverksmiðjurnar hirtu þetta fé, enda þótt það sé á engan hátt rétt, en það fylgir bara böggull skammrifi, því að með þessu er einkaverksmiðjunum gefin þessi upphæð, sem er hvorki meiri né minni en 1/2 milljón til Kveldúlfs-verksmiðjunnar á Hjalteyri og 400 þúsund til verksmiðjunnar á Djúpavík. Svona er farið með það fé, sem útvegsmönnum og sjómönnum raunverulega ber, en hagfræðingurinn sá ekki ástæðu til að minnast á þetta. Það er öllum kunnugt, að útvegsmenn hafa orðið að framlengja lán og láta afborganir falla niður vegna þess, að síldin hefur brugðizt undanfarin sumur. Þetta hefur leitt til þess, að ýmsum bátaeigendum hefur verið tilkynnt, að nú verði gengið að bátunum, og þegar útvegsmenn hafa spurt, hverju þetta sætti, þá fékk einn þá skýringu, að bankinn gæti nú sennilega selt bátinn án þess að verða fyrir verulegu tjóni, en hins vegar væri það mjög óvíst, ef ekki yrði gengið að honum nú. Það er ekkert verið að hugsa um, þó að útvegsmaðurinn sé búinn að leggja alla sína fjármuni í bátinn. Nei, það er alveg nóg ef bankinn fær sitt.

Allar till. okkar sósíalista varðandi útveginn miða að því, að til þessa þurfi ekki að koma, heldur, séu útvegsmönnum gefin ný tækifæri til þess að borga skuldir sínar, því að það er ekki ástæða til þess að ætla, að síldin bregðist alltaf, þó að hún hafi gert það undanfarið. Þessar ráðstafanir er líka hægt að gera án þess að borga eyri úr ríkissjóði, enda þótt 4. þm. Reykv. hafi verið pantaður af ríkisstj. til þess að gera till. okkar tortryggilegar og gefa upp alls konar falskar tölur í sambandi við vísitölu og tolla. Og svo langt hefur þetta gengið, að stjórnin notar nafn hans, af því að hann er prófessor í hagfræði, til þess að sanna þessar rangfærslur.

Ég vil nú ræða nánar till. okkar og benda á, hvernig þær gætu bætt aðstöðu útvegsins. Meðal annars er lagt til, að útvegsmenn fái sjálfir rétt til þess að verzla með veiðarfæri og allir milliliðir verði bannaðir í sambandi við þá verzlun. Það má geta þess, að útvegsmenn áttu einu sinni kost á slíkri verzlun, en svo illa tókst til, að þeir fengu enga tauma. Þetta leiddi til þess að veiðarfæraverzlanir, sem áttu tauma, settu þau skilyrði, að til þess að útvegsmenn gætu fengið tauma, yrðu þeir að kaupa línuna líka. Af þessum orsökum kom þessi heimild útvegsmanna að engum notum, en hitt er engu að síður víst, að þetta gæti sparað útveginum allverulegt fé. Þá höfum við lagt til, að ríkið taki að sér einkasölu á olíu, og eru miklar líkur til, að hægt væri að lækka olíuverðið um 1/3 frá því, sem það nú er. Olíuverðið hér er nú nál. 50% hærra en í Noregi, þó að Norðmenn kaupi olíuna á sama stað og við og flutningskostnaður þar af leiðandi sá sami. Þetta stafar mest af því, að dreifingarkostnaðurinn er hér alveg óhóflegur, því að olíufélögin, sem annast dreifinguna, hafa það eina markmið að græða.

Ég hef áður minnzt á till. okkar varðandi vaxtakjör útvegsins, en þar er lögð mest áherzla ,í ódýr rekstrarlán. Eins og vitað er, hefur bátaútvegurinn verið rekinn með allmiklu tapi, einkum þó á síldveiðunum undangengin sumur. Þessi aflabrestur hefur gengið nærri mörgum útvegsmönnum, og það ekki sízt vegna þess, að þeir hafa orðið að taka rekstrarlán með mjög óhagstæðum kjörum. Nú er ekki ástæða til að ætla, að síldin bregðist alltaf, en til þess að unnt verði að halda þessum atvinnuvegi áfram, sem er okkur tvímælalaust alveg nauðsynlegur, þarf að veita þeim útvegsmönnum, sem illa hafa orðið úti, allveruleg rekstrarlán, en ekki með 5% vöxtum, heldur vaxtalaus. Ég er sannfærður um, að þessi leið kæmi útvegsmönnum að miklu meira liði en þó að rýrð væru kjör sjómanna og verkamanna. Þessar till., sem ég hef nú minnzt á, telur 4. þm. Reykv. ekki ástæðu til að ræða öðruvísi en með útúrsnúningum og rangfærslum. Þó að þessi þm. sé mikill hagfræðingur, þá virðist hann þurfa að athuga betur vandamál útvegsins. Ég held jafnvel, að hann ætti að loka hinum þykku doðröntum hagfræðinnar dálítinn tíma, en tala heldur við útvegsmenn og sjómenn. Það gæti verið fróðlegt fyrir þennan unga mann, sem aldrei hefur komið nálægt neinu starfi í atvinnulífinu, að kynnast þessum atvinnuháttum af eigin reynd. Ég hef gert mér far um að kynnast útveginum eftir beztu getu, og þýðingarmestu kynninguna tel ég þá, sem ég hof fengið með því að tala við þá, sem við atvinnuveginn fást, bæði útgerðarmenn og sjómenn. Og ég er sannfærður um, að það er heillavænlegri leið til þess að skilja og bæta úr því ástandi, sem nú er, heldur en að loka að sér uppi í háskóla og semja álit. sem að meira eða minna leyti er samið eftir erlendum fræðibókum, sem ekki gera ráð fyrir þeim staðháttum, sem hér eru fyrir hendi.

Forsrh. talaði af miklum belgingi um frv. kommúnista, eins og hann kallaði það, og það er rétt, að sumir í okkar flokki eru kommúnistar. en ekki allir. (GÞG: Hverjir eru ekki kommúnistar?) T.d. Sigfús Sigurhjartarson. Hann hefur aldrei verið kommúnisti. (GÞG: En hvernig er það með þm. sjálfan?) Ég hef verið kommúnisti og er kommúnisti. Annars vil ég biðja 4. þm. Reykv. að geyma sínar athugasemdir, þar til hann fær orðið. Meðal annars bar forsrh. okkur það á brýn, að við héldum því fram, að það þyrfti ekkert að gera í dýrtíðarmálunum. Hvers lags fjarstæður eru þetta hjá ráðh.? Veit forsrh. ekki, að það vorum við sósíalistar, sem fyrstir bárum fram till. um raunhæfar aðgerðir í dýrtíðarmálunum, og það alllangt á undan þeirri ríkisstj., sem þó þykist vera mynduð til þess að vinna gegn dýrtíðinni? Mér finnst sómatilfinning hæstv. ríkisstj. ekki mikil, að hún skuli leyfa ráðh. slíkan málaflutning. Ef okkar till. í sjávarútvegsmálunum hefði verið fylgt, þá væri ekki komið sem komið er fyrir útveginum. Þá hefði útvegurinn ekki þurft að safna skuldum vegna svikulla starfa utanrrh. í afurðasölumálunum. Þá hefði útvegurinn ekki verið látinn stöðvast vegna þess, að afturhaldið við Landsbankann neitaði um rekstrarlán. Nei, ef okkar ráðum hefði verið fylgt, þá hefði framleiðslan verið aukin og fiskiðjuverunum fjölgað.

Forsrh. sagði, að við héldum því fram, að það ætti að halda vísitölunni við 300 stig. Það er rétt, að við viljum lækka vöruverðið, m.a. með afnámi tolla og lækkun á milliliðagróða, svo að vísitalan verði við 300 stig, en við viljum ekki láta skera niður laun verkamanna og annarra launþega og segja svo, að vísitalan sé 300 stig. Ég er þeirrar skoðunar, að fyrst beri okkur að sjá, hve fiskábyrgðin nemur miklu, og síðan eigum við að leggja skatt á hennar vegna eftir þörfum. En hæstv. ríkisstj. vill leggja nú þegar skatta á vegna fiskiábyrgðarinnar. En heldur nokkur maður, að hæstv. ríkisstj. mundi endurborga skatta vegna þessa, ef ekki þarf að grípa til þess, sem inn kemur af þeim, vegna fiskábyrgðar? Nei, aldrei. En það væri hægt að leggja skatt á hvenær á árinu sem væri í þessu augnamiði, ei það kæmi í ljós, að á því þyrfti að halda. Ég er sannfærður um, að á síðasta ári hefði ekki þurft að borga nema mjög óverulega upphæð, kannske ekki nema nokkrar milljónir, til þess að standast þessa ábyrgð ef rétt hefði verið á fisksölumálunum haldið, en hæstv. ríkisstj. gerði það ekki, vegna þess að hún af pólitískum ástæðum forðaðist í því efni Sovétríkin og löndin í Austur-Evrópu, en vildi halda viðskiptum við Vestur-Evrópulöndin, svo sem England, og svo Ameríku. Og hún hefur selt fyrir mjög miklu óhagstæðara verð í Englandi og Ameríku en hún hefði getað selt fyrir annars staðar, til þess að geta fengið pund og dollara til að geta úthlutað þessum gjaldeyri til heildsalanna. Svo geta heildsalarnir grætt á því að selja pundin fyrir tvöfalt og dollarana fyrir þrefalt og fjórfalt verð. En útgerðarmenn fá ekki nema einfalt verð fyrir gjaldeyrinn. Heildsalar þurfa ekki að taka á sig áhættu eða skakkaföll, sem við höfum orðið fyrir. — En hins vegar er það svo, að ríkisstj. ber alls ekki saman um það, hve fiskábyrgðin sé mikil. Ég minnist þess, að Vísir sagði einu sinni, að fiskábyrgðin hefði numið 70 millj. kr. Allyðub7aðið hefur hvað eftir annað fullyrt, að þetta næmi tugum millj. kr. Hæstv. forsrh. sagði nú, að þetta væru 20 millj., og það mun vera sama tala, sem hæstv. fjmrh. færði fram um þetta í ræðu sinni. En ekki bendir til þess, að þetta verði 13–14 millj. kr. Og hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn viljað birta sundurliðað, hvað þetta nemur miklu á yfirstandandi ári. Þó er hægt að vita þetta, þar sem búið er að selja allan fiskinn, sem ábyrgð var tekin á. Það er því hægt að reikna út svo að segja upp á krónu, hvað þetta verður. Samt sem áður, þegar hæstv. ríkisstj. kemur með till. í frv. um framlengingu á þessum skatti vegna fiskábyrgðarinnar, kemur hún ekki með skilríki um, hvað þetta hefur verið á þessu yfirstandandi ári, til þess að geta dulið, hvað þarf að gera í þessu ofni, og til þess að geta lagt stórfellda skatta á almenning. En útlitið er miklu betra nú en áður með fisksöluna, vegna þess að ein þjóð, sem ekki vildi kaupa freðfisk í fyrra, Englendingar, er nú mjög áhugasöm um þau kaup. Enn fremur eru Tékkóslóvakía og Holland, sem áttu erfitt í fyrra um vörukaup vegna vöruskorts, en geta nú þegar keypt 7 þús. tonn strax af næstu framleiðslu og það allt fyrir ábyrgðarverð.

Hæstv. forsrh. sagðist telja, að þær fórnir, sem launamenn væru nú að leggja á sig, þær væru vátryggingarpremía, sem launamenn greiddu til þess að tryggja sér atvinnu. Þetta er óheppilegt orðalag. Vátryggingarpremía er það, sem tryggjanda er borgað, en ekki það, sem hann greiðir. En hæstv. ráðh. hefur meint iðgjald, er hann sagði premía. En ég verð að telja það ótryggt vátryggingarfélag, sem launþegar hafa, ef þeir ættu að leggja inn vátryggingariðgjöld sín í þessu efni hjá hæstv. forsrh. (StJSt). Það verð ég að segja. Þeir hafa prófað það að hafa hann að forstöðumanni sinna samtaka. Þeir söfnuðu eignum og keyptu álitleg hús hér í Reykjavík og áttu t.d. volduga brauðgerð hér í Reykjavík, Alþýðubrauðgerðina, höfðu byggt Alþýðuhús við Hverfisgötu og eignazt Iðnó. En þeir bara uppgötvuðu það, að þegar Stefán Jóh. Stefánsson, núverandi hæstv. forsrh., var hættur að vera forseti þeirra þá hættu þeir að eiga þetta. Hann hafði tekið þetta með sér. — Þannig fór með iðgjöld þeirra í því tilfelli. Ætli það færi ekki svipað með iðgjöld þeirra nú, ef þeir ætluðu að leggja þau inn hjá ríkisstj.? Orðbragð það, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft hér, ber ekki vott um, að þeir séu svo ráðvandir, sem hana skipa, að almenningur geti trúað þeim fyrir slíkum iðgjöldum. Hæstv. ríkisstj. lagði áherzlu á, og þar á meðal hæstv. forsrh., að vöruverð ætti að lækka sem mest. Ég býst við, að hæstv. forsrh. hafi átt við: Vöruverð skal lækka svo sem frekast er unnt, eftir því sem kostur er frekast á. Þetta var orðalag stjórnarsamningsins. Og þetta er orðalag Keflavíkursamningsins. Allt, sem til góðs á að miða, skal gert svo sem frekast er unnt, svo sem ástæður frekast leyfa o.s.frv. En ég held, að almenningur í landinu hafi haft svo mikla ástæðu til þess að tortryggja núverandi hæstv. ríkisstj., að það hefði verið réttast fyrir hana að lækka fyrst vöruverðið og koma svo og lækka launin. En ég verð að segja, að það er ekki ástæða til að taka svona orðalag alvarlega, enda er orðalagið á þessu frv. nákvæmlega það sama og á stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. og á Keflavíkursamningnum, þar sem um ákvarðanir um atriði er að ræða, sem eiga að verða eitthvað til góðs fyrir almenning í landinu.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það mætti að vísu losa ríkissjóð undan töluverðri áhættu með því að selja saman hinar eftirsóttustu vörur og hinar minna eftirsóttu vörur, sem er síldarkúfurinn. Og í þessu frv. er eitt skaðlegasta ákvæðið í sambandi við þetta, sem gengur jafnvel lengra en ákvæðið, sem samþ. var í fyrra viðkomandi síldarverðinu. Þetta ákvæði er í 22. gr. frv. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Við samninga um sölu íslenzkra afurða erlendis skal þess gætt, að sem bezt heildarverð fáist fyrir þær, og er ríkisstj. heimilt að binda sölu einstakra vörutegunda nauðsynlegum skilyrðum, til þess að því verði náð.“ Hvað þýðir þetta? Þetta er almenn heimild. Sem sagt, ríkisstj. getur komið og sagt við Englendinga: Ef þið viljið kaupa kjöt okkar fyrir það verð, sem við þurfum að borga bændum á Íslandi, (sem er sex krónum hærra en við getum fengið fyrir það í Englandi) skulum við lækka lýsið að sama skapi. M.ö.o., það má verðjafna saman sjávarútvegs- og landbúnaðarvörur. Heimildin er svona víðtæk, og ég býst við, að það séu einsdæmi, að nokkur ríkisstj. fari fram á annað eins. Hæstv. ráðh. segja kannske: Það hvarflar ekki að okkur að gera þetta. — En almenningur getur búizt við, að þeir gerðu slíka hluti, ef þeir þyrðu að gera þetta. Annað er það, hvort þeir þora að gera það, því þótt þeir hafi kokhreysti hér í þingsalnum allgóða, þá renna þeir á rassinn, þegar til framkvæmdanna kemur, þeir eru því vanir. — Annað er það, ef ríkisstj. selur vörur, sem ábyrgðarverð er á, þá ætli hún sér að hafa það þannig, að sá hluti verðs útflutningsvara, sem ábyrgðarverð er á, sem er fram yfir ábyrgðarverð, sé tekinn í sérstakan sjóð, sem notist til þess að bæta upp verð á vörum, sem ábyrgðarverð er á, en sem seljast ekki fyrir það verð. Þetta er ekki óeðlilegt. – En svo kemur rúsínan í pylsuendanum. Hún er sú, að ef eitthvað verður þarna afgangs, þá skuli líka borgað það, sem ríkissjóður hefur þurft að borga vegna fiskábyrgðar á þessu ári, sem sagt, tuttugu milljónirnar, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Nú bendir allt til þess, að allar vörur sjávarútvegsins seljist yfir ábyrgðarverði. Þá á að taka þann hluta af söluverði þessara ábyrgðarvara, sem er fram yfir ábyrgðarverð, til þess að borga halla frá fyrra ári, vegna ábyrgða. Sem sagt, þarna á að skattleggja sjávarútveginn. Það hefur ekki verið allt of ofarlega hjá hæstv. ríkisstj. að bjarga sjávarútveginum. En ætli það væri ekki eins gott fyrir þjóðina, ef við gætum selt okkar vörur fyrir ofan ábyrgðarverð, að láta sjávarútveginn hafa það, sem þar fengist fram yfir, og þarf þá síður að hjálpa honum á næsta ári? Með því væri hægt að láta sjávarútveginn grynnka þannig á skuldum, sem bezt væri fyrir þjóðina. Það væri sannarlega engin óhæfa, að sjávarútvegurinn færi að borga slíkar gamlar skuldir. Vegna þessa ástands hef ég ásamt hv. 2. þm. S.-M. flutt brtt. á þskj. nr. 210 við 22. gr. frv., sem ég ætla að leyfa mér að lesa. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Við fyrri mgr. Í lok fyrri mgr. fyrir orðin

„og er ríkisstjórninni“ og út mgr. komi: og skal ríkisstjórnin í því skyni láta þeim, sem kaupa vilja þær fiskafurðir, sem minni eftirspurn er eftir, á góðu verði tilsvarandi hluta af þeim vörum, sem mest er sótzt eftir, án þess að verðjafnað verði milli vöruflokka.

2. Orðin „svo og lögum nr. 97/1946“ í niðurlagi síðari mgr. falli niður.“ —

Staðreyndin er, að á síðasta ári, þegar samið var við Englendinga, þá var, vegna þess að Englendingar höfðu ekki áhuga á að kaupa okkar freðfisk, freðfisknum samt sem áður pínt upp á þá með því að lækka óhæfilega verð á lýsi, í 95 pund tonnið. En lýsisverðið var þá 130–140 pund tonnið. Og þetta verð á lýsinu var miðað við það, að verðið á freðfiskinum væri 6 pence hvert enskt pund af hraðfrystum fiski. Þetta varð til þess, að samningar í Sovétríkjunum voru gerðir með sama sniði. Það var vitað fyrir fram, að Sovétríkin mundu vera fús til að kaupa allan fiskinn fyrir sama verð og í fyrra, þó að þau gerðu tilboð um lægra verð, því að það voru engin rök, sem mæltu með því, að í Sovétríkjunum eða á Íslandi eða nokkurs staðar annars staðar mundi verða nokkur verðlækkun á nokkurri matvöru. En salan til Englands fyrir það verð, sem þar fékkst fyrir fiskinn, varð til þess, að í staðinn fyrir, að hægt væri að selja þeim í Sovétríkjunum fiskinn fyrir sama verð og þeir keyptu hann fyrir í fyrra, þá vildu þeir ekki gefa fyrir fiskinn nema miklu lægra verð. Og ástæðan til þess var sú, að ríkisstj. var búin að binda sig í Englandi og gat því ekki selt fiskinn fyrir hærra verð annars staðar. En ríkisstj. notaði síldarkúfinn til þess að þvinga fiskinum inn á þjóð, sem ekki hafði áhuga á að kaupa freðfisk, og það hefur orðið til þess að skaða þjóðina um 30 millj. kr. Með þeirri brtt., sem við flytjum, hv. 2. þm. S.- M. og ég, er útilokað, að þetta geti komið fyrir. Ég býst við, að hv. stjórnarstuðningsmenn sjái ekki ástæðu til að greiða atkv. með þessari brtt., en við sjáum samt til.

Hæstv. utanrrh. gaf hér ýmsar mikils verðar upplýsingar. Ein þeirra er, að vísitölufyrirkomulagið sé aðalundirrót verðbólgunnar. En hann gaf líka aðrar upplýsingar. Hann sagði, að það reyndist ekki fært að skapa samtök um að afnema fiskábyrgðina. Ríkisstj. eða ýmsir í henni höfðu fullan vilja á að afnema hana og þannig kannske að stöðva okkar gjaldeyrisframleiðslu. En af því að það reyndist ekki mögulegt að fá samtök um það, þá var því sleppt í bili. Og það var lán þjóðarinnar, að það tókst ekki. — Hæstv. utanrrh. kom hér, eins og ég hef tekið fram áður, svo að segja ekkert inn á frv. En í þeim fáu setningum hjá honum, sem að því hnigu, kom hann með ákaflega skrítilegar fullyrðingar, efnislega þess eðlis, að hann kemur til með tiltölulega fljótt að sjá eftir að hafa sleppt þeim út úr sér. Ein þeirra var, að hann taldi, að þetta frv. bæri vott um. að ríkisstj. hefði tekizt að rata hinn gullna meðalveg. Ja, það var nú meiri meðalvegurinn! Ég veit ekki milli hvers þessi meðalvegur er hér í þessu frv., því að hér er ráðizt á annan endann, en hinn endinn látinn gersamlega afskiptalaus. Hæstv. ráðh. reyndi heldur ekki að skýra þessi orð sín nánar um meðalveginn, enda hefði honum reynzt það erfitt. Hann valdi sér líka annað umræðuefni hér en þetta frv. Hann á kannske eftir að gera grein fyrir þessu síðar. En ég er hræddur um, að hann hafi tilhneigingu til að ræða annað fremur en það aðalefni þessa frv., hver árás það er á allan almenning í landinu, sem hann stendur að að skipuleggja með þessu frv. — Það var líka eftirtektarvert, þegar hæstv. forsrh. svaraði hér löngum og ýtarlegum ræðum, sem hér höfðu verið haldnar um málið og þar sem farið hafði verið inn á hvert atriði frv. og bent á, að frv. gerði hvorugt að leggja byrðarnar jafnt, eins og það er kallað, á alla þjóðina, né heldur hitt að vera dýrtíðarráðstafanir, þá var það eina setningin, sem hæstv. forsrh. hafði um þetta mál að segja, að það hefði eiginlega ekkert nýtt fram komið og að hann hefði engu sérstöku að svara — þ.e. bæta við það skvaldur, sem hann flutti hér í sinni ræðu. Og svo sneri hann máli sínu út í aðra sálina og aðalefnið í ræðu hans var það, hvað Einar Olgeirsson hefði haft mikinn áhuga fyrir því að fá að vera í fjárhagsráði. Ég býst við, að það sé ekkert launungarmál, hvorki í sambandi við fjárhagsráð né annað, að við sósíalistar höfum aldrei skorast undan því að vera með í neinu því starfi, sem til heilla getur horft. Og ég undirstrika, að þegar mynduð var ríkisstj. 1942 — sem núverandi stjórnarflokkar þóttust hafa gert af voðalegri karlmennsku —, þá höfðum við aldrei sagt skilið við þá til framkvæmda á neinu máli, sem til heilla horfði fyrir þjóðina. Þvert á móti höfðum við verið tilbúnir til að starfa með að slíkum málum. Og við gerðum okkar til þess, að samningar tókust um sölu á okkar afurðum. Og um afurðasölumálin er það að segja, að það var ekki vegna afskiptaleysis Sósfl., að svo illa tókst um þau mál, heldur vegna þess, að ráðum Sósfl. var í þeim efnum ekki hlýtt. En hvað segir hæstv. ríkisstj. nú og hæstv. utanrrh. Þeir hæla sér af því aðallega, að þeirra afrek sé að ýta sósíalistum út úr öllum störfum í þjóðfélaginu. Og því var lýst sérstaklega í grein, sem hæstv. utanrrh. skrifaði í aðalsíðu morgunblaðsins, að stefna ríkisstj. væri að kveðja ekki Sósfl. til neinna þjóðnýtra starfa. Og þetta er þó flokkur, sem vitað er, að er fyrst og fremst flokkur verkalýðsins í landinu, og vitað er, að formenn verkalýðshreyfingarinnar í landinu eru flestir eða mjög margir flokksmenn þessa flokks, og þar á meðal eru forustumenn Alþýðusambands Íslands og forseti þess. Og hæstv. ríkisstj. hælir sér af því, að hún hafi unnið það afrek að hrinda þessum flokki frá því að starfa með að lausn þjóðfélagsvandamála. Svo kemur hæstv. forsrh. í sinni skvaldurslegu framsöguræðu fyrir þessu frv. og mælist til þess, að stjórnarandstaðan taki á þessu máli með skilningi og styðji nú þessa viðleitni ríkisstj. og bregðist ekki á móti, heldur sjái til, hvað gangi. Svona er á málunum haldið. Þessa menn vantar ekki illkvittnina til þess að reyna að hrinda sósíalistum út úr störfum fyrir þjóðfélagið. — En það væri réttast fyrir þessa menn að vera ekki með neitt svona. Sósíalistar hafa ekki sagt sig úr lögum við ríkisstj. Við höfum ekki að fyrra bragði ráðizt á þessa ríkisstj. Við höfum frá upphafi stutt alla viðleitni hjá ríkisstj., sem til góðs hefur horft. En hún hefur því miður verið ákaflega lítil. Og okkar barátta gegn ríkisstj. hófst ekki fyrr en hún réðst á launþegana með sinni alræmdu tollahækkun á síðasta vori. Það skal tekið fram, þessum mönnum til fróðleiks, að Sósfl. er alls óhræddur við þeirra svigurmæli. Sósfl. hefur áður heyrt slíkar fullyrðingar eins og þær, að það skyldi drepa hann. Einu sinni sat þingið á lokuðum fundi nærri þrjá sólarhringa og ræddi um að banna Sósfl. Það var þá stríð milli Sovét-Rússlands og Finnlands. En þá var komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki álitlegt að banna flokkinn. En ég efast ekkert um, að núverandi hæstv. ríkisstj. mundi banna Sósfl., strax og hún þyrði það, ef hún teldi það öruggustu leiðina til þess að lækka vísitöluna. Ef sósíalistum væri bannað að tala og hægt væri að framfylgja slíku banni, þá mundi vísitalan verða lækkuð strax á ettir um 100 stig a.m.k. En það verður eitthvað talað og skrifað, áður en það verður gert.

Hæstv. utanrrh. hefur ekki séð sér fært að svara aftur eftir þá ósvífnu ræðu, sem hann hélt hér, sem sennilega er einsdæmi um ræðu úr ráðherrastóli. Sjaldan þurfum við hér í hv. Nd. að hlusta á annað eins, þó að þeir í Ed. séu orðnir flestu vanir úr hans munni. En eftir að búið var að taka hann í gegn eftir þessa ræðu hans hér, og það maklega, treysti hann sér ekki til að svara og ekki heldur treysti hann sér til að vera viðstaddur, en sendi hæstv. forsrh. upp í ræðustólinn til þess að gefa sér heiðarleikavottorð. Nei, hann hefur aldrei sagt ósatt, hæstv. utanrrn„ sagði hæstv. forsrh., um afurðasölumálið hér á Alþ. Hæstv. forsrh. tók þetta fram um afurðasölumálið, hann þorði ekki að fullyrða meira. Þetta er varlega talað og ég hugsa hyggilega talað. En þetta er nógu ósatt samt.

Þá skal ég fara að stytta ræðu mína, því nú er áliðið nætur. Ég vil aðeins hér að lokum undirstrika það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér um málaflutning hv. 4. þm. Reykv., að aumt er hans hlutskipti að hafa verið einn aðalráðunautur Alþfl., einn aðalfræðimaður Alþfl. við að semja þessar till., en fá svo bara leyfi til að sitja hjá. Í eignakönnunarmálinn fékk hann leyfi til að greiða atkv. á móti. Hann hélt kotroskna ræðu um eignakönnunina og fann henni allt til foráttu. Hæstv. forsrh. rak þetta ofan í hann, og hann talaði ekki aftur. Þá fékk hann leyfi til að halda eina ræðu og að vera á móti málinu, af því að það var ekki svo þýðingarmikið mál, að slíkt gæti verið hætta fyrir ríkisstj. En ef hér í þessu máli kæmi eitt atkv. á móti frv. frá Alþfl., þó hefði það getað verið hættulegt, sérstaklega ef það væri frá þm. úr Reykjavík, manni, sem stillt var efstum á lista Alþfl. við kosningarnar síðustu sem aðalnúmeri. Þess vegna hefur hæstv. forsrh. ekki leyft hv. 4. þm. Reykv. að gera meira en að halda ræðu á móti. Svo verður hann á eftir að lýsa yfir, að hann ætli sér að sitja hjá. Á þennan hátt ætlar hann að rækja starf sitt sem þm. fyrir þá menn, sem komu honum á þing honum sjálfum að fyrirhafnarlausu. Hann kom fljúgandi utan úr heimi, eftir að búið var að stilla honum á listann, það voru aðrir menn, sem unnu að því. Ef hann vildi vera trúr þeim, sem hann þykist hafa umboð fyrir, þá mundi hann stöðva þetta frv. og stjórnin mundi ekki áræða að gera það að l. En hann hefur fengið fyrirskipun frá flokknum um að sitja hjá, af því að frv. á með hans aðstoð að verða að l. Það er þetta, sem verður að undirstrika, og það er þetta, sem menn verða að gera sér ljóst, að hann hefur fyrirmæli frá flokknum um að sitja hjá, svo að róttækni flokksins verði minni.