23.03.1948
Sameinað þing: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Pétur Ottesen:

Mér þykir ástæða til að vekja hér athygli á þremur þáltill., sem bornar voru fram nokkuð snemma á þessu þingi. Þessar till. allar voru um áfengismál, ýmsa liði í framkvæmd þeirra mála hér innan lands. Þeim var vísað til n. dagana 24. okt. og 5. nóv. Minnihlutaálit um allar þessar till. var svo gefið út 29. jan. Meirihlutaálit var gefið út 11. febr., og þó að það væri ekki stílað nema við eina till., þá var það meining þessa meiri hl., að með því vildi hann afgr. allar till. fyrir sitt leyti. Þannig hefur full afgreiðsla fengizt á þessum till. öllum hjá n., þó að það tæki alllangan tíma fyrir meiri hl. að gefa út álit sitt. Síðan var málið ekki tekið hér á dagskrá fyrr en 3. marz, en þá tekið út, og síðan tekið aftur á dagskrá 10. marz og tekið þá til umr. og svo aftur 17. marz, en umr. um málið er ekki lokið enn, eins og kunnugt er. Nú er gert ráð fyrir að slíta þingi á morgun, svo að það er alveg sýnt, að þeim tilgangi, að þessi mál fái enga afgreiðslu frá þinginu, virðist verða alveg náð. Ég vil benda á þetta, sem er að mínum dómi mjög ósæmileg meðferð mála, að forseti hagi svo til gangi þessara mála, eftir að þau hafa fengið afgreiðslu frá n., að þau fái enga afgreiðslu, og því ósæmilegra, þar sem hér er um að ræða persónulegt hagsmunamál fyrir þá menn, sem eiga að stjórna gangi mála hér á þingi, sem sé forseta. Vil ég alveg sérstaklega vekja athygli á því, þó að ekki verði úr bætt að þessu sinni, þá er það vissulega til athugunar fyrir seinni tímann.