17.12.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

Orlofsfé þingmanna

Einar Olgeirsson:

Ég vildi biðja hæstv. forseta að gefa upplýsingar um, hvort það sé rétt, að það séu aðeins tveir þingmenn, sem lifa af þingfararkaupi sínu einu, en allir hinir hv. þm. líti á kaup sitt hér sem aukagetu. Ef svo er, að meginþorri þingmanna lítur á þessar rúmar tvö þúsund krónur sem aukagetu, en hefur svo full laun frá öðrum, þá fer ég að skilja vel afstöðu þessara manna til þeirra mála, sem nú liggja fyrir Alþingi. Því undarlegra þykir mér, að hér skuli nú koma fram fyrirspurn frá einum af hæst launuðu mönnum ríkisins um orlofsfé tveggja verkamanna, sem sæti eiga á þingi. Ég óska eftir því, að forseti upplýsi nú þegar, eða a.m.k. fyrir jól, hvaða embætti og laun þm. hafa. Ég æski þess, að hann láti útbúa slíkan lista nú þegar, svo að það komi í ljós, hvaða laun þm. hafa fram yfir þingfararkaup sitt, svo að þjóðin fái að sjá, hvernig þingmenn líta á rúmlega tvö þúsund króna laun sín fyrir þingstörf. Ég skal geta þess út af hinu einkennilega skilningsleysi hv. 4. þm. Reykv., að alltaf þegar barizt hefur verið fyrir þingræði, hvar sem er, þá hefur það ætíð verið krafa, að þingmenn væru það vel launaðir, að þeir þyrftu ekki að vera upp á aðra komnir, að þjóðin sjái svo fyrir fulltrúum sínum, að þeir þyrftu engum að knékrjúpa. Nú vitum við, að þegar maður er kosinn á þing, þá missir hann atvinnu sína, og í þingfrestun er hann meira eða minna atvinnulaus. Það hefur verið barizt fyrir því hér á Alþ.,þm. væru launaðir árið út. Englendingar hafa það þannig, að þingmenn þar eru ekki öðrum háðir fjárhagslega. Embættismenn ríkisins fá ekki að sitja á þingi. Ef sá háttur væri hér upp tekinn, fengi hv. 4. þm. Reykv. ekki að sitja á Alþingi. Ég óska svo eftir upplýsingum um aukastörf þingmanna, helzt á þessum fundi.