17.12.1947
Sameinað þing: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

Orlofsfé þingmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég tek undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan, að fleiri alþm. muni hafa rétt til þess að krefjast orlofsfjár. Það virðist sjálfsagt að samþ. nú á Alþingi launahækkun fyrir alþm., er launalækkunarfrv. ríkisstjórnarinnar til handa almenningi er að komast í framkvæmd. Það væri mjög virðingarvert, ef hv. þm. sýndu nú þann dugnað að ganga á undan öðrum launþegum landsins og sameinuðust um að krefjast orlofs á kaup sitt, sem samsvarar 4% kauphækkun. Ég mun styðja hv. 4. þm. Reykv. í þessu réttlætismáli, að fleiri þm. verði gefinn kostur á að hirða orlofsfé á laun sín. Hv. þm. upplýsti, að hann hefði 11100 kr. grunnlaun sem prófessor við Háskóla Íslands auk sinna þingmannslauna. Hvað mig varðar, þá get ég frætt hv. þm. á því, að frá 1. okt. s.l. hef ég aðeins haft mín þingmannslaun, en engin önnur. Ég hef heldur ekki átt sæti í neinum fastlaunanefndum nema einni, sem er stjórnarskrárnefnd, sem er alveg nýskipuð. Að vísu átti ég sæti í stjórnarskrárnefnd þeirri, sem var skipuð árið 1942, en fyrir þau störf hef ég ekki fengið nein laun enn þá. Ef eins langt líður nú, þangað til vænta má launa fyrir störf í hinni nýju stjórnarskrárnefnd sem í þeirri fyrri, þá má búast við því, að þau laun komi að litlum notum, a.m.k. í ár, Þetta vildi ég leyfa mér að upplýsa.