14.11.1947
Sameinað þing: 21. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

Minning Einars Árnasonar

forseti (JPálm):

Í morgun varð bráðkvaddur að heimili sínu, Eyrarlandi í Eyjafirði, Einar Árnason fyrrv. alþingisforseti, tæpra 72 ára að aldri.

Einar Árnason fæddist 27. nóv. 1875 á Hömrum við Akureyri, sonur Árna bónda þar og síðar á Naustum og Eyrarlandi Guðmundssonar og konu hans Petreu Sigríðar Jónsdóttur bónda á Ytra-Laugalandi Halldórssonar. Hann útskrifaðist úr gagnfræðaskólanum á Möðruvöllum 1893, vann síðan að mestu í foreldrahúsum til 1900, en stundaði farkennslu á vetrum. Árið 1901 reisti hann bú á Eyrarlandi og bjó þar góðu búi til dauðadags. Héraðsmenn kusu hann snemma til ýmissa trúnaðarstarfa. Hann átti sæti í hreppsnefnd frá 1903 og var oddviti hennar næstu 6 árin, sat í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga frá 1906 og var formaður þess frá 1917, sýslunefndarmaður frá 1939 og í fasteignamatsnefnd Eyjafjarðarsýslu 1916–'18. Árið 1936 var hann kosinn í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga og var jafnframt formaður sambandsins frá þeim tíma til dauðadags. Eyfirðingar kusu hann á þing 1916, og átti hann þar sæti óslitið til 1942, eða um 26 ára skeið. Hann var forseti sameinaðs Alþingis 1932 og forseti efri deildar 1933–´42. Fjármálaráðherra var hann um tveggja ára skeið, 1929–'31. Þess má geta, að hann var forseti landsbankanefndar á árunum 1937–'46.

Einar Árnason var fyrir margra hluta sakir hinn merkasti maður. Um búsýslu alla var hann, eins og í öðru, snyrtimenni, glöggur á það, sem til framfara horfði, og með mestu umbótamönnum í héraði sínu. Eins og drepið var á í yfirliti um störf hans, hóf hann snemma að taka þátt í samvinnufélagsstarfseminni, var mjög áhugasamur um þau mál, innan héraðs og utan, gerðist og brátt einn meðal helztu forvígismanna samvinnuhreyfingarinnar. Kom það og í ljós, að hann hafði meira traust í þeim félagsskap en flestir menn aðrir, þar sem hann var kosinn í hinar æðstu trúnaðarstöður, honum falin formennska um langt skeið í stærsta kaupfélagi landsins og síðan jafnframt formennska í Sambandi ísl. samvinnufélaga síðustu 11 ár ævinnar. Var og almennt talið, að hann rækti störf sín á þessu sviði af áhuga og trúmennsku.

Á Alþingi naut Einar Árnason mikils trausts og vinsælda. Hann var stilltur maður og hóglátur, en beitti sér af árvekni og áhuga við þingstörf. Hann lét samvinnu- og landbúnaðarmálin mest til sín taka auk margháttaðra framfaramála héraðs síns, var prýðilega máli farinn, rökvís og laginn að koma fram málum sínum. Forsetastörfin fóru honum mjög vel úr hendi, enda var maðurinn glöggur og athugull.

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu þessa merkismanns og héraðshöfðingja virðingu sína með því að rísa úr sætum.