24.03.1948
Efri deild: 89. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

Starfslok deilda

Forseti (BSt):

Hv. þdm. urðu varir við það, að það var ekki með ljúfu geði, sem afbrigði fyrir þessu máli voru fyrst veitt. Og eftir að það var, kom hæstv. menntmrh. til mín og bað mig að taka málið af dagskrá. Ég tel nú eiginlega ófært að fara að breyta því. Og ef málið væri tekið fyrir, mundum við sennilega þurfa að vaka hér nokkuð lengi nætur. En ef vilji er fyrir því að fá það samþykkt, þá ætti það ekki að þurfa að taka marga mánuði á næsta þingi að koma því í gegn. En ég get ekki farið að halda hér nýjan fund nú út af þessu máli, eins og ástatt er. Málið var tekið af dagskrá eftir ákveðinni beiðni ríkisstj. (BrB: Það jafngildir því að neita um afbrigði.) Ég legg ekki dóm á það. Það hefur oft komið fyrir, að mál hafa verið tekin af dagskrá samkvæmt ósk ríkisstj. Og ég held, að forsetar úr öllum flokkum þingsins hafi þá farið eftir því og gert svo. Og þar af leiðandi, af því að ég treysti mér ekki til að fara að halda nýjan fund um þetta mál nú, þá geri ég ráð fyrir, að með þessum fundi ljúki störfum þessarar hv. d. að þessu sinni.

Vil ég nota tækifærið, áður en ég slít fundi nú, til að þakka öllum hv. þdm. samvinnuna á þessu þingi, sem í alla staði hefur verið góð gagnvart mér, og ég tek þar engan undan. Þó að ég sé enginn viðvaningur við að sitja á þingi, þá var ég viðvaningur í þessu starfi, þegar ég settist í þennan stól í haust, og veit ég, að mér muni hafa orðið ýmislegt á við fundastjórnina. En hv. þdm. hafa sýnt mér hið mesta umburðarlyndi, og aldrei hefur borið neitt út af á milli mín og hv. þdm., að því er fundarstjórn snertir.

Óska ég öllum hv. þdm., sem heima eiga utan Reykjavíkur, góðrar heimkomu, og öllum hv. þdm. góðrar framtíðar og gleðilegs sumars.