16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. — Ég hef borið fram brtt. á þskj. 209, við 2. gr. Aftan við 1. málsgr. e-liðar bætist: Sama gildir um fé það, er lagt hefur verið í varasjóði hlutafélaga, annarra en þeirra, er að framan getur, og ekki hefur verið greiddur tekjuskattur af.

Í frv. því, sem hér um ræðir, er gert ráð fyrir, að undanþegið eignaraukaskatti verði fé, sem ekki betur verið greiddur tekjuskattur af. Þó á þetta ekki að gilda hjá hlutafélögum, sem reka aðra atvinnu en sjávarútveg. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé um ósamræmi og óréttlæti að ræða, þar sem löggjafinn hefur undanþegið ákveðinn hluta af tekjum allra hlutafélaga tekjuskatti á þeim grundvelli, að féð sé tryggingarsjóður, sem ríkið hefur undanþegið skatti, á meðan féð er geymt til tryggingar rekstri félagsins og þar með atvinnu landsmanna. Sé fé það, sem hér um ræðir, seinna útborgað til hluthafa, t.d. við félagsslit, skal félagið greiða af því tekjuskatt, og má því líta svo á, að félagið eigi ekki, nema þá að litlu leyti, það fé, sem á þennan hátt kemur til skipta og ekki hefur farið til að mæta tapi á rekstrinum, á sama hátt og á sér stað hjá samvinnufélögum, sem ekki mega úthluta varasjóði. Hv. 6. þm. Reykv. minntist eitthvað á, að hluthafarnir mundu þó alltaf fá eitthvað, en það verður ekki mikið, þegar félagið á fyrst að greiða mjög háa skatta af því, sem útborgað er á þennan hátt, og svo eiga hluthafarnir að telja það fram sem tekjur og greiða svo aftur af því mjög háan skatt. Má því ábyggilega fullyrða, að það verður lítið, sem ekki lendir hjá ríkissjóði, þegar það litla, sem kemur í hlut hluthafanna, hefur verið tvískattað á þennan hátt. Mundi víst mörgum iðnaðarfyrirtækjum í landinu. sem flest eru rekin sem hlutafélög, finnast, að sér væri ekki sýnt réttlæti, ef þessi brtt. mín nær ekki fram að ganga.

Ég ætla ekki, af því að tíminn er naumur, að bera saman gr. frv. Þó get ég ekki stillt mig um á þeim nauma tíma, sem ég hef, að koma nokkuð að þeim ummælum, sem þrír hv. síðustu ræðumenn hafa látið hér falla.

Er það þá fyrst hv. 4. þm. Reykv., sem mér fannst vera nokkuð hvatskeytlegur, og bjóst ég ekki við því, því að ég hef þekkt hann að því að vera prúðan og orðvaran. Hann fullyrðir, að innflutningsverzlunin sé rekin í versta lagi hér á Íslandi og eigi verulegar fjárhæðir erlendis. Þetta eru kommúnistískar getsakir. Þetta kom fram í sambandi við þennan bálk, sem hv. þm. harmar, að kommúnistar hafi gripið frá sér í annað sinn. Ég harma, að svo góður maður sem hann hafi ætlað að vera svo nærri greni kommúnista og rétt kominn inn í það, en sem betur fór, bjargaðist hann frá því aftur.

Þá vil ég aðeins minnast á ræðu hv. þm. Siglf. og hv. 6. þm. Reykv. Ég minnist þess ekki að hafa í annan tíma heyrt meira vein og harmatölur. Þeir hafa eflaust búizt við því, að þetta mundi verða viðkvæmt mál. Ég hef ekki heldur heyrt öðru sinni aðrar eins fullyrðingar, en af því að tíminn er naumur, verð ég að láta niður falla að mestu leyfi að svara þeim.

Hv. 6. þm. Reykv. skaut því fram í sambandi við brtt. mína, að ég væri þar fyrst og fremst að reyna að vernda minn eiginn sjóð, H. Benediktsson & Co. Þetta er alls ekki í fyrsta skiptið, sem við mætumst á þessum vettvangi. Við vitum það báðir vel, að við höfum mismunandi viðhorf til þjóðfélagsmálanna. Ég hika ekki við að viðurkenna, að ég fylgi séreignarstefnunni, því að ég veit það, að þjóðin er komin fram á þennan dag fyrir framtak einstaklinganna og marga menn höfum við fengið úr hópi verkamanna, sem höfðu kjark til að leggja út í áhættusaman atvinnurekstur. En við vitum það, að þessi hv. þm. er ekki fæddur undir þeirri stjörnu að hafa trú á séreignarstefnunni, því að hann hefur ætlað sér að komast á ríkissjóðsjötuna eða hjá því opinbera á einn eða annan hátt. Hann hefur ekki viljað hafa fyrir hinu, þó að hann sé mætur maður og glöggur á marga lund, sérstaklega í stærðfræði, að því er menn segja. Hitt er enginn vafi, að þessi hv. þm. hefur þó komizt þetta langt fyrir það, að framtakssamir einstaklingar í hans ætt hafa komið honum á framfæri.

Alveg þetta sama kom fram hjá hv. þm. Siglf. Hann vildi halda fram, að hann væri sérstaklega glöggur maður á það, hvernig menn gæfu fram til skatts. Það má vel vera, að hann stundi það. Hann hefur þó gert tilraun til að vera með framleiðslustarfsemi sjálfur með áhuga og dugnaði. Ég get því eigi skilið, að þessi hv. þm. fordæmi allar kenningar, sem benda í þá átt, að menn eigi eitthvað og geti séð fyrir sér án þess að fá til þess hjálp frá ríki og bæ.

Tími minn er búinn, og ég vil ekki brjóta þau fyrirmæli, sem mér eru sett, en mun gefa mér tækifæri til að ræða málin síðar, ef svo ber undir.