16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Hæstv. forsrh. er ekki kominn úr felum enn. Hann lét sér sæma eins og hæstv. dómsmrh. í gær í staðinn fyrir að ræða málið að bera fram eina lygina í viðbót til að fá hana næsta dag á forsíðu í Morgunblaðinu.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði viljað komast að sem bankastjóri í Landsbankanum. Þetta veit hæstv. forsrh., að er ósannindi, alger ósannindi. Það verður gaman að vita, hvort ekki koma þrennar lygarnar þessi þrjú kvöld frá hæstv. ríkisstj. Þriðja lygin mundi sennilega verða sú, að ég hafi viljað verða sendiherra í Moskvu. Ef hæstv. ráðh. hafa ekki önnur rök en þau að vera með persónulegt níð á mig fyrir, að ég hafi sótzt eftir embættum, sem mér hafa kannske staðið til boða, en ég neitað, þá er eins gott, að það komi allt fram á sama kvöldi. En ég skil hugsanagang þessa manns. Hann hefur útvegað sjálfum sér eitt bezt launaða embætti landsins. Við sjáum hæstv. samgmrh., hv. þm. V.-Ísf., hv. 4. þm. Reykv., sem allir eru búnir að koma sér á lífstíðarframfæri hjá ríkinu, í hæst launuðu embætti, sem ríkið hefur. Þeir geta ekki skilið, að nokkur maður eigi í baráttu fyrir aðra. Þeir geta ekki skilið, að nokkur maður sé svo, að bann reyni ekki allt, hvað hann getur, til að koma sér í góð embætti. Þeir geta ekki skilið, að sósíalistar hafi svo farið úr ríkisstj., að þeir hafi ekki tryggt sér eitthvað til að lifa af. En við sósíalistar höfum ekki hugsað um slíka ævitryggingu, af því að við erum að heyja baráttu fyrir alþýðu þessa lands, en ekki að ganga á mála hjá því landi, sem hæstv. ráðh. þjóna fyrst og fremst með þessu frv.

Hæstv. ráðh. talaði um sölu afurða, en hann þorði ekki að gefa upplýsingar um það, að nú er hæstv. stjórn með áætlun um söluhorfur og reynir þar með að skapa grundvöll fyrir launalækkun. Við sósíalistar höfum í meira en hálft ár reynt að sýna fram á, að verðið sé að hækka. Hæstv. stjórn hefur borið á móti þessu, en hefur nú verið neydd til að viðurkenna það, en þorir ekki að láta það koma í ljós, áður en þetta mál er afgr., hversu mikil hækkunin er. Hún þorir ekki að framkvæma samningana, svo að hægt sé að sannprófa, hvaða verð hægt er að fá. Þetta frv. er eitthvert það fyrirlitlegasta gróðabrall, sem auðmannastétt hefur notað sína ríkisstj. til. Hún lætur stjórnina bera fram visvítandi ósannindi til að koma fram launalækkunum. Ég skoraði á hæstv. forsrh. að gefa yfirlýsingu um það, að hæstv. stjórn muni ekki misbeita því valdi, sem hún fær með þessu frv., til þess að hætta niðurgreiðslum á vísitölunni. Engin slík yfirlýsing hefur komið fram. Svo er hv. 4. þm. Reykv. sendur út af örkinni eins og áður, þegar hæstv. stjórn er í vandræðum. Hann er látinn lýsa því yfir með sínum óskeikulleik og leggja þar við sínu vísindaheiður og prófessorsheiður, að vísitalan muni lækka niður í 315 stig. Vill hæstv. stjórn þá setja ný l., sem tryggja, að vísitalan verði ekki yfir 315 stig? Það er gaman að heyra, hverju hún svarar því.

Hv. 4. þm. Reykv. ætti að athuga vel, hvað hann er að gera í þessu máli. Það er verið að láta hann nota heiður sinn sem vísindamanns og prófessors til að gefa yfirlýsingu fyrir pólitísku glæframenn til að hjálpa þeim að koma á l., sem verða til þess að stela 50 millj. af alþýðu þessa lands. Af því að þessi þm. er ungur hér á þingi og hefur skamman tíma haft afskipti af hæstv. forsrh., þá vil ég ráðleggja honum að vara sig á því. sem hér er verið að láta hann gera. Það verður vitnað í þessi ummæli, þegar stjórnin er búin að svíkja, þegar vísitalan er komin langt yfir 315 stig. Nú á að reyna að nota hans prófessorstitil, og þegar búið er að jaska honum nót; út, þá fær hann sín laun. Stefán Jóh. Stefánsson vill hann pólitískt feigan, vegna þess að hann varð til að reka hæstv. núverandi forsrh. úr efsta sæti alþýðuflokkslistans með 24 stunda úrslitakostum. Þess vegna á nú að nota þennan hv. 4. þm. Reykv. og jaska honum svo út, að hann verði ekki nýttur lengur, þegar til næstu kosninga kemur. Þetta er það, sem ég bið hv. þm. að athuga. Hann hefur í einu máli staðið sig vel, Keflavíkurmálinu, og mér þykir vænt um, að hann stóð sig svo vel í því máli. Þess vegna þykir mér leitt að vita til þess, að hann skuli nú láta fara með sig á þennan hátt. Hann er að eyðileggja sig á því. Hann kemur hér og segist viðurkenna, að málið sé rangt, en gefur þá yfirlýsingu, að hans stjórn hafi flutt málið og hann ætti að una við það. Ef hann les „Transvaal“ eftir Stephan G. Stephansson, þá finnur hann þar þessi orð:

Menn sneiða hjá þér, beggja bil,

sem bannfærir, en styrkir til.

Það er ekki lítið að gefa yfirlýsingu í andstöðu við það, sem rétt er. Ég hugsa til þess, hve vel hann stóð sig í Keflavíkurmálinu, en ef hann lætur misnota sig svona, þá er hann að skrifa söguna af manninum, sem minnkaði.

Ríkisstj. tekur upp þá aðferð í þessum umr., sem ekki hefur áður tíðkazt hér, að þora ekki að standa fyrir sínum málstað og gripa til ósanninda, lyga, vísvitandi ósanninda. Einstakir menn ætla síðan að lesa þessi ósannindi upp sem fullyrðingar, af því að þau koma úr munni hátt settra manna eins og dómsmrh. og fjmrh., og breiða þau út í fjöllesnasta blaði landsins. Þetta er aðferð, sem þessir ráðh. láta sér sæma að nota. Með þessari aðferð er verið að innleiða nýja baráttu í stjórnmálunum hér á Íslandi. Það er verið að flýja burt frá öllu, sem heitir rök. persónuleg sannfæring og slíkt í umr. á Alþ. Það er verið að treysta á mátt peninganna utan við þingsalina og það áróðursvald, sem peningarnir skapa. Það hefur verið búin til svikamylla, sem er á þann hátt, að hér innan þings á að knýja í gegn með ofbeldi lög, sem stela 50 millj. kr. af alþýðustétt þessa lands, en tryggja aukinn gróða auðmannanna. Með sínum aukna gróða ætla svo auðmennirnir að margfalda fyrirtæki sin, til þess að geta logið, til þess að reyna að blekkja í krafti slíks áróðurs, meðan þeir smeygja á fólkið fjötrum. það er þessi aðferð, sem mun, ef henni verður haldið áfram á Íslandi, brjóta þingræðið niður og skapa það einræði auðmannastéttarinnar, sem dómsmrh. sérstaklega þráir, að komist hér á.

Ég skal verða við beiðni hæstv. forseta og hætta, fyrst tími minn er liðinn, þótt ég geri það með mótmælum gegn þeim aðferðum, sem hér eru viðhafðar.