28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 6. þm. Reykv. hefur flutt brtt. í frv. formi við 12. gr. l. um fjárhagsráð. innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Svo mikilvægt finnst kommúnistum þetta frv., að þeir hafa óskað eftir útvarpsumræðum um það. Með frv. þessu, ef að lögum verður, telja kommúnistar, að vernda megi þjóðina fyrir hinu ímyndaða heildsalavaldi, sem þeir gera svo oft að umræðuefni.

Heildsalavald og Landsbankavald eru hugtök sem ýmsir stjórnmálamenn hafa á heilanum. Þeim finnst þetta tvennt, sem aðeins er til í þeirra eigin höfðum, en ekki í veruleikanum, vera sá voði sem þjóðinni stafar mest hætta af. Sú var tíðin að Íslendingar áttu engan banka. Þá var hér ekkert innlent fjármagn og lánastarfsemi og framkvæmdir engar. Þá var verzlunin í höndum erlendra manna, sem högnuðust vel á viðskiptum við landsmenn, en fluttu allan gróðann út úr landinu. Á þeim tímum var íslenzka þjóðin fátæk og bjó við frumstæð lífsskilyrði. Það þóttu mikil tíðindi og góð, þegar dugmiklir athafnamenn komu hér á fót banka fyrir landsmenn. Fjármagn bankans var lítið til að byrja með, en ekki leið á löngu áður en hann gat lánað landsmönnum til skipakaupa og annarra framkvæmda. Bankinn varð til þess að flýta fyrir því að verzlunin komst að öllu leyti í innlendra manna hendur. Innlendir kaupsýslumenn tóku að keppa við erlendu kaupmennina og lauk þeirri viðureign, eins og kunnugt er, á þann hátt, að hinir erlendu kaupmenn þoldu ekki samkeppnina og hættu að reka verzlun hér á landi. Það kom fljótt í ljós, eftir að Íslendingar fóru sjálfir að annast um öll viðskipti innanlands og utan, að hagur þjóðarinnar breyttist mjög til batnaðar.

Þjóðin var nú ekki lengur mergsogin og féflett eins og áður tíðkaðist. Almenningur fékk hagstæð viðskipti, og hagur þjóðarinnar blómgaðist. Ýmsar framfarir fóru nú að gerast í landinu og vorhugur og sjálfstæðisþrá vaknaði. Íslendingar höfðu kastað af sér þeim fjötrum, sem héldu þjóðinni í fátækt og aðgerðaleysi. Frjáls verzlun, frelsi í hvers konar athöfnum og framkvæmdum, sem til heilla horfðu, var ráðandi í landinu.

En þótt mikið hafi áunnizt, eru samt mörg verkefni óleyst. Enn er landið ekki ræktað nema að litlu leyti. Enn er afl fallvatnanna að litlu leyti notað. Enn þá eru mörg verkefni til sjós og lands fyrir menn til athafna og mikilla framkvæmda. Þjóðin stenzt því ekki við að hefta allar athafnir og framfaraviðleitni. Það er hættulegt að draga úr mönnum kjark og sjálfsbjargarhvöt með því að prédika stöðugt vonleysi og hrun. Kaupsýslumennirnir hafa mikið og vandasamt hlutverk að leysa. Eins og störf þeirra voru þýðingarmikil um það leyti, sem verzlunin fluttist inn í landið, svo eru þau það einnig enn í dag.

Íslendingar eiga eftir að kynna framleiðsluvörur sínar víða um lönd og útvega markaði fyrir þær. Til þess þarf á hverjum tíma ötula og vel menntaða kaupsýslumenn, sem hafa lagni og hæfileika til að koma vörum landsmanna í gott verð. Íslenzka þjóðin er háðari innflutningi en margar aðrar þjóðir. Framleiðsla okkar er svo einhæf, að við hljótum ávallt að flytja til landsins margs konar iðnaðarvörur og annað, sem við getum ekki framleitt hér.

Hér á landi er tiltölulega fjölmenn stétt manna, sem annast innflutning hinna ýmsu vara. Margir innflytjendur hafa sýnt dugnað og árvekni í starfi sínu. En eins og oft vill verða, þar sem margir eiga hlut að máli, verða oft ýmis mistök, sem spilla áliti stéttarinnar. Duglegir kaupsýslumenn, sem leggja sig fram til þjónustu fyrir almenning og vinna störf sín samvizkusamlega, innan þess ramma, sem löggjafinn setur, vinna þjóðnýt störf og verðskulda ekki þær svívirðingar, sem stöðugt koma frá vissum flokkum og mönnum.

Það hefur verið oft deilt um það, hvernig deila skuli innflutningnum. Ýmsir menn hafa kvartað undan því að S.Í.S. fái ekki rétta hlutdeild í honum. Hafa framsóknarmenn oft og nú loks kommúnistar talið, að hlutur S.Í.S. sé fyrir borð borinn, ef miðað er við þann fjölda, sem vill hafa viðskipti sín við kaupfélögin. Því hefur oft verið haldið fram, að við sjálfstæðismenn viljum ganga á rétt S.Í.S. Þetta er hreinasta fjarstæða. Við sjálfstæðismenn styðjum samvinnuverzlun. Enda er vitað að mörg þúsund sjálfstæðismenn um land allt eru félagsmenn í kaupfélögunum. En við sjálfstæðismenn höfum alltaf talið að öryggi almennings og góð og heilbrigð viðskipti fengjust helzt með því, að verzlunin væri frjáls, og þeir, sem mestan dugnað sýna og bezt kjör bjóða, hafi möguleika til að starfa.

Við sjálfstæðismenn viljum ekki einræði, hvorki í verzlunarháttum né öðrum greinum.

Það þóttu góð tíðindi, sem bárust frá aðalfundi S. Í. S. 1946. Á þeim fundi var samþykkt till., sem bar algerlega heim við stefnu okkar sjálfstæðismanna í verzlunarmálum. Fundurinn lýsti því sem stefnu sinni, að vinna bæri að því að gera verzlunina í landinu frjálsa.

Mun forstjóri S.Í.S. Vilhjálmur Þór, hafa beitt sér fyrir tillögunni og fengið hana samþykkta. Þótt núverandi ástand, þar sem um skömmtun á ýmsum nauðsynjavörum er að ræða, leyfi ekki frjálsa verzlun, munu þó þeir, sem vilja stefna að frjálsri verzlun svo fljótt sem möguleikar leyfa, vilja stuðla að því, að eins mikið frelsi ríki í verzlunarmálunum og unnt er, við þær aðstæður, sem við nú búum við.

Ég býst því við, að frv. það, sem hér um ræðir og hv. 6. þm. Reykv. og fulltrúi framsóknarmanna hafa lýst, sé ekki borið fram eftir ósk eða vilja S. Í. S.

Hugtakið frjáls verzlun og þetta frv. er svo ólíkt að það getur á engan hátt samrýmzt frelsisunnandi hugsunarhætti. Frv. hv. 6. þm. Reykv. er byggt á höftum og ófrelsi. Hv. flm. þykist vera að vinna fyrir kaupfélögin með flutningi frv. Hann hefur einnig sagt, að það tryggi hagsmuni og frelsi almennings. Meiri fjarstæðu mun sjaldan hafa verið haldið fram hér í sölum Alþingis.

Ég mun sanna, að hagsmunir fólksins eru fyrir borð bornir, ef farið verður eftir till. hv. flm. og kaupfélögin geta á engan hátt hagnazt á því, þótt frv. þetta verði samþykkt.

Í 12. gr. l. um fjárhagsráð, innflutning og verðlagseftirlit stendur þetta orðrétt. — með leyfi hæstv. forseta:

„Úthlutun innflutningsleyfanna sé við það miðuð að verzlunarkostnaður og gjaldeyriseyðsla verði sem minnst. Reynt verði eftir því sem frekast er unnt að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Skal þetta gilda jafnt um kaupmannaverzlanir og samvinnuverzlanir og miðað við það, að neytendur geti haft viðskipti sín þar, sem þeir telja sér hagkvæmast að verzla.“

Þessi ákvæði laganna, sem ég nú las, tryggja hagsmuni almennings. Þessi grein tryggir það, að neytandinn fær vöruna á hverjum tíma með þeim beztu kjörum, sem fáanleg eru.

Nú, þegar gjaldeyrir þjóðarinnar er mjög takmarkaður, er meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að úthluta innflutningsleyfum samkvæmt þessari lagagrein og tryggja með því, að gjaldeyrinum verði vel varið. Í landi samvinnunnar, Svíþjóð, hefur sú regla gilt að láta þá fá innflutningsleyfi, sem gera bezt innkaup. Svíar eru nægilega miklir fjármálamenn til að sjá, að sú regla er hagkvæmust. Með því móti er unnið gegn dýrtíðinni í landinu. Með því að nota þá reglu sparast erlendur gjaldeyrir, um leið og neytendum er veittur sá mikilsverði og eftirsótti réttur að kaupa góðar vörur með vægu verði.

Hér í landi hefur þessi regla enn ekki verið framkvæmd, þrátt fyrir ákvæði laga um fjárhagsráð og innflutningsverzlun. Til þess liggja þær ástæður, að með setningu lagarma var ákveðið að leggja viðskiptaráðið niður. Það dróst að vísu í nokkra mánuði, en þar sem viðskiptaráðsmenn vissu að þeir áttu að hætta störfum, og gerðu ráð fyrir, að það yrði miklu fyrr en raun varð á, þótti þeim ekki taka að vinna eftir nýjum regium við úthlutun innflutningsleyfa og héldu sér því við þær reglur, sem áður giltu um þessi efni. Þegar viðskiptaráðið hætti, var viðskiptanefndin skipuð. Síðan er ekki langur tími, enda hefur hún enn lítið veitt af innflutningsleyfum, eins og kunnugt er.

Það höfðu allir gert ráð fyrir því að viðskiptanefndin starfaði í samræmi við 12. gr. l. um fjárhagsráð og innflutningsverzlun, þangað til fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði komu með nýjar till. sem starfsgrundvöll fyrir nefndina, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur borið fram í frumvarpsformi.

Fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði munu þó ekki hafa ætlazt til. að till. þessar væru fram bornar á hæstv. Alþ. Ef svo hefði verið, hefðu framsóknarmenn flutt þær inn í þingið sem sitt áhugamál. En hv. 6. þm. Reykv. tók þessar till. upp og hugsaði sér að nota þær sem sprengjur á stjórnarherbúðirnar. En sú tilraun hv. 6. þm. Reykv. mun bregðast, og verða það óneitanlega vonbrigði fyrir kommúnista. Með tillögum þessum er lagt til, að bætt verði við 12. gr. áðurnefndra laga, að á meðan fleiri eða færri vörutegundir eru háðar skömmtun til neytenda, skuli innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til verzlana og iðnfyrirtækja fyrir hinni skömmtuðu vöru vera í samræmi við hina afhentu skömmtunarseðla þeirra til viðskiptanefndar. — En sagan er ekki öll sögð. Því samkvæmt till. er viðskiptamönnum heimilt að afhenda skömmtunarseðla sína fyrirfram, ef vörurnar eru ekki fyrir hendi hjá viðkomandi verzlunum. Afleiðingin af þessu verður sú, að verzlanir gera það, sem í þeirra valdi stendur, að safna skömmtunarseðlum, til þess að fá út á þá innflutningsleyfi. Stórum hluta viðskiptamanna er því ætlað að gera kaup að óséðu, í trausti þess, að sú verzlun, sem seðlana fékk, geti síðar látið viðskiptamennina í það sem þeim hentar. En takist það ekki, hafi nú önnur verzlun hentugri vörur, ódýrari og betri vörur að bjóða en sú sem fékk seðlana fyrirfram, er réttur neytandans lítill orðinn. Því hann getur ekki keypt þá vöru, sem hann helzt kýs, af því að önnur verzlun hefur fengið skömmtunarseðlana. Það mundi einnig valda ósamræmi að veita innflutningsleyfi út á skömmtunarseðla, sem látnir hafa verið fyrir innlendar vörur, svo sem fataefni og innlenda skó. Hin mikla eftirspurn eftir skömmtunarseðlum, ef að þessu ráði væri horfið, mundi leiða til þess, að ýmsir reyndu að gera þá að verzlunarvöru. Má vera, að ýmsum detti í hug að vinna bug á dýrtíðinni með því að stuðla að slíkri verzlun.

Hv. flm. segist flytja þetta frv. til að tryggja hagsmuni almennings og í nafni samvinnunnar. Ég hef bent á að frv. mun ekki vera flutt eftir ósk framsóknarmanna. þótt þeir hafi borið upp sams konar till. í fjárhagsráði. Ég hef sannað, að þessar till., ef að lögum verða, vinna gegn hagsmunum fólksins og samrýmast ekki sjálfsákvörðunarrétt manna. Í öllum löndum er upp tekin vöruskömmtun og hefur víðast verið frá byrjun styrjaldarinnar. En engin þjóð hefur notfært sér þann vísdóm, það réttlæti, sem hv. kommúnistar og nokkrir framsóknarmenn þykjast sjá í till.

Eins og áður er sagt, hafa ýmsir kvartað undan því, að Sambandið fái ekki innflutningsleyfi í réttu hlutfalli við viðskiptamannafjöldann. Þær kvartanir eru ekki á rökum reistar, því S.Í.S. hefur mætt skilningi og velvild innflutningsyfirvaldanna á hverjum tíma, sem og réttmætt er. Að S.Í.S hefur fengið næg innflutningsleyfi sést bezt á því að það hefur ekki notað öll þau innflutningsleyfi, sem kaupfélögin hafa fengið, og kaupfélagsstjórar sambandsfélaganna því farið með mikið af innflutningsleyfum til annarra innflytjenda og fengið vörur hjá þeim.

Ef Sambandið hefði verið afskipt við veitingu innflutningsleyfa, ætti þetta sér ekki stað. Eða trúir hv. 6. þm. Reykv., að kaupfélagsstjórar sambandsfélaganna afhendi öðrum innflytjendum en Sambandinu innflutningsleyfi, af því að þeir bjóði ódýrari og betri vörur en Sambandið? Má vera, að hv. 6. þm. Reykv. vantreysti núverandi stjórnendum S.Í.S. til þess að hafa Sambandið samkeppnisfært í innkaupum. Má vera, að hann hafi flutt frv. þetta þess vegna og það sé ástæðan fyrir því, að hann hefur ekki óskað eftir, að 12. gr. l. um fjárhagsráð og innflutningsverzlun verði framkvæmd eins og hún er nú.

Ég hef alltaf haldið, að S.Í.S. væri samkeppnisfært með verð og vörugæði. Ég hygg því. að þetta dulbúna vantraust hv. 6. þm. Reykv. á Sambandið sé ástæðulaust með öllu. En hvað sem því líður, er augljóst, að S.Í.S. hefur ekki verið afskipt við úthlutun innflutningsleyfa.

Íslendingar eru fámenn þjóð og hafa ekki efni á að eyða tíma og orku í látlausar deilur. Þeir eins og aðrar þjóðir, eru verzluninni háðir. og skiptir miklu um afkomu almennings, að viðskipti öll séu hagstæð. Það er því nauðsynlegt að í landinu starfi dugandi og samvizkusamir kaupsýslumenn. Heilbrigð og eðlileg samkeppni þarf að þróast ef hagsmunir almennings eiga að vera tryggðir. Við stöndumst ekki við því að færa verzlunina á eina hönd og kasta allri samkeppni fyrir borð.

Þegar 12. gr. l. um fjárhagsráð og innflutningsverzlun kemur til framkvæmda. mun þróast hér heilbrigð og eðlileg samkeppni til hagsbóta fyrir almenning. Með því móti verður unnið gegn dýrtíðinni í landinu. Á þann hátt verður fyrir því séð, að ekki fari meiri erlendur gjaldeyrir fyrir hverja vörutegund en nauðsynlegt er. Með því móti verður hagur almennings bezt tryggður og þau mistök sem óneitanlega hafa stundum átt sér stað í innflutningi ýmissa vara munu ekki endurtaka sig.

Þegar unnið er eftir þessum reglum, fá þeir innflutningsleyfi sem gera hagkvæmust og bezt innkaup. Þeir einir standast samkeppnina. sem til þess vinna. Á þann hátt verður komið í veg fyrir, að þeir menn geri kaupsýslu að atvinnu sinni, sem ekki eru starfi sínu vaxnir.

Ef hv. 6. þm. Reykv. og aðrir kommúnistar meina það, að hér á landi sé hættulegt afl, sem kallað er heildsalavald, ættu þeir að standa með þeim, sem vilja framkvæma þá stefnu í innflutningsmálum, sem ég nú hef lýst, og skapa þannig réttláta samkeppni í vöruvöndun og verðlagi. Þá gætu kommúnistar með réttu sagt, að þeir væru að vinna fyrir almenning í landinu og vildu koma í veg fyrir það að fámenn stétt manna auðgist án verðleika.

Skömmtun á nauðsynjum manna hlýtur að valda óþægindum og ýmiss konar erfiðleikum. Það munu því flestir óska þess að tímarnir breytist og skömmtunin verði afnumin. Um stundarsakir eru gjaldeyrisástæður þjóðarinnar þannig að ekki verður komizt hjá því að hafa skömmtun á flestum erlendum vörum.

Ýmsir eru áhyggjufullir og horfa með kvíða til framtíðarinnar. Efast sumir um að þjóðfélagið okkar litla og fámenna standi af sér þá ólgu og brotsjó, sem yfir heiminn ganga á sviði fjármála- og viðskiptalífs. En íslenzka þjóðin hefur eigi að síður mikla möguleika og jafnvel meiri möguleika en nokkru sinni fyrr til þess að vera efnalega sjálfstæð og veita þegnum sínum góð lífskjör.

Miklum hluta af þeim gjaldeyri, sem þjóðin átt í erlendum bönkum hefur verið breytt í nýtízku tæki til sjós og lands. Þessi tæki eru ekki enn farin að gefa arð nema að litlu leyti. En á næstu mánuðum og árum mun árangurinn verða meiri en ýmsir hafa gert sér grein fyrir, ef við berum gæfu til að tryggja atvinnulífið og láta atvinnutækin ganga.

Í sveitir landsins er komið mikið af vélum og tækjum, og bændur hafa hug á að hagnýta sér nútímatækni. Eigi að síður vantar fjölda bænda dráttarvélar og önnur tæki, af því að erlendar verksmiðjur hafa ekki afgreitt á undanförnum mánuðum nema brot af þeim pöntunum, sem borizt hafa frá Íslandi.

Enda þótt gjaldeyrir sé nú takmarkaður, verður ekki hjá því komizt að flytja til landsins á næsta ári mikið af landbúnaðarvélum, svo að landbúnaðurinn, annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, verði færari um að leysa sitt mikilsverða hlutverk í þjóðfélaginu.

Á næsta ári munu Íslendingar eiga 35 nýja togara, og auk þess gömlu togarana, sem flestir eru nú í sæmilegu standi. Ef ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir til kaupa á togurunum, væru framtíðarhorfur okkar í fjármálum ekki glæsilegar nú. Togararnir færa björg í bú og skapa mikinn gjaldeyri. Vélbátar verksmiðjur og frystihús, sem nauðsynleg eru í sambandi við útgerðina, munu einnig eiga drjúgan þátt í að skapa hér góða tíma, ef þannig verður að atvinnuvegunum búið að þeir beri sig fjárhagslega. En það er það mikilvægasta og þýðingarmesta að atvinnuvegirnir séu ekki reknir með tapi. Að þeir sem leggja sig fram við atvinnurekstur beri meira úr býtum en þeir, sem ekkert eiga á hættu, en taka laun sín hjá öðrum.

Verzlun, vöruskömmtun og margt annað, sem rifizt er um eru aukaatriði ef þannig er að atvinnuvegunum búið, að þeir geta ekki þrifizt, því þeir eru undirstaðan og þeir máttarstólpar, sem öll þjóðfélagsbyggingin hvílir á.

Nú stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, að atvinnulíf þjóðarinnar er lamað. Vélbátar nýkeyptir til landsins og önnur atvinnutæki sem kostað hafa þjóðina stórfé, eru ekki í notkun, af því að eigendur þeirra þola ekki að tapa meiru en þeir hafa nú gert. Það er augljóst að ekki má lengur dragast að koma framleiðslunni á traustan grundvöll. Það er vitað, að þetta er erfiðleikum bundið en eigi að síður verður Alþ. og ríkisstjórn að hafa leyst þessi mál fyrir n. k. áramót. Atvinnutækin eru til í landinu, og er það mikils um vert. Það má einnig segja að verð afurðanna sé ágætt.

Skilyrði til þess að afla gjaldeyris og tekna í þjóðarbúið eru því fyrir hendi, ef ekki eru gerðar hærri kröfur til framleiðslunnar en atvinnuvegirnir þola.

Það er ljóst að við verðum að færa tilkostnaðinn við framleiðsluna niður. Allar stéttir þjóðfélagsins verða að taka höndum saman og lækka kröfurnar. Stórra fórna þarf ekki að krefjast. — það teljast ekki stórar fórnir, þótt menn slaki á kröfunum, til þess að atvinnuvegirnir megi ganga.

Aðalatriðið er, að allir taki þátt í því, sem gera þarf og að réttur grundvöllur verði fundinn í þessu efni.

Kommúnistar hafa leynt og ljóst reynt að slá ryki í augu almennings og telja mönnum trú um, að hægt væri að selja íslenzkar vörur mun hærra verði en gert hefur verið. Hafa þeir leyft sér að nefna hæstv. utanrrh. landráðamann, sem vinni gegn íslenzkum hagsmunum og noti ekki þau tækifæri, sem bjóðast við sölu íslenzkra afurða. Blekkingarstarfsemi kommúnista ætti öllum að vera ljós. Þeir slá þessum fjarstæðum fram vegna þess, að þeir vinna að upplausn og vilja ekki að atvinnuvegir Íslendinga og efnalegt sjálfstæði þróist. Þeir vita að aðeins með því að upplausnarástand ríki getur þeim tekizt að halda hér uppi flokksstarfsemi og nokkrum hóp manna til fylgis við sig.

Og nú þegar kommúnistar búast við, að stjórnarflokkarnir séu að því komnir að semja um lausn málanna, reyna þeir af veikum mætti að flytja mál hér í Alþ., sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki verið sammála um, en meiri hluti hennar mælti gegn. Þetta er tilraun til að spilla nauðsynlegu samstarfi núverandi stjórnarflokka.

Í heiminum takast nú á tvær stefnur, annars vegar einræði og harðstjórn kommúnismans og hins vegar stefna lýðræðis og mannréttinda. Ljóst er að kommúnistar hér á landi, eins og kommúnistar annarra landa, eru háðir erlendu valdi og verða að hlýða fyrirskipunum frá erlendu stórveldi. Málstaður Íslands er því ekki aðalatriðið í þeirra augum.

Þótt lýðræðisflokkana í landinu greini á um stefnur í innanlandsmálum, er þó eitt víst, að þeir hafa það sameiginlegt að vilja, þegar á reynir, þjóna hagsmunum Íslands. Sú stund er upprunnin, að þessir flokkar, þrátt fyrir misjöfn sjónarmið á ýmsum málum og þrátt fyrir deilur, sem oft hafa verið illvígar, verða nú að sameinast um það að koma framleiðslu þjóðarinnar á traustan grundvöll. Eitt er víst, að mestur hluti íslenzku þjóðarinnar, fólkið í landinu, á ekki aðra ósk heitari en þá, að þessir flokkar, með góðri forustu, vinni nú heiðarlega saman að því að vernda sjálfstæði þjóðarinnar, efnalega og andlega.

Verði sú ósk uppfyllt, náist slík samvinna, munu allir erfiðleikar verða yfirstignir og yfir þjóðina koma nýir blóma- og velgengnistímar.