28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2102)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Þetta frv. á þskj. 20. sem hér er til umr. fer fram á það í stuttu máli, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til verzlana og iðnfyrirtækja fyrir skömmtunarvörum skuli veita þessum innflytjendum í samræmi við afhenta skömmtunarseðla þeirra til viðskiptanefndar.

Þegar innflutningurinn getur ekki verið frjáls, er það ávallt mikið vandamál, hverjum skuli veita leyfi til innflutnings og eftir hvaða reglum. Gildir þá einu, hvort um skömmtunarvörur er að ræða eða aðrar vörur, sem ekki eru skammtaðar til neytenda, ef ekki er hægt að láta flytja þær inn eins mikið og óskað er eftir. Hafa ýmsar reglur verið uppi í því sambandi. t. d. hin svokallaða „höfðatöluregla“ og „kvótareglan“, sem báðar hafa verið framkvæmdar nokkuð á undanförnum árum. „Höfðatölureglan“ fer í þá átt að miða innflutningsleyfin hlutfallslega við þann viðskiptamannafjölda, sem á bak við innflytjandann stendur, og hefur mest verið fram haldið af kaupfélögunum og forsvarsmönnum þeirra, sem hafa haldið því fram, að innflutningurinn skyldi miðast við félagatölu kaupfélaganna annars vegar og mannfjölda utan kaupfélaganna hins vegar, og skyldi innflutningur til kaupfélaga og annarra skiptast í sömu hlutföllum. — „Kvótareglan“ aftur á móti sem mest hefur verið farið eftir á undanförnum árum, miðar innflutningsleyfin við innflutning undanfarinna ára, þannig að hver innflytjandi fái sama eða svipaðan hundraðshluta af leyfunum eins og hann áður hafði af innflutningnum að meðaltali um nokkur ár.

Báðar þessar reglur hafa til síns ágætis nokkuð og báðar sína galla.

Báðar þessar reglur hafa þann mikla kost, að þær eru tiltölulega auðveldar í framkvæmd, það er hægt að reikna út, nokkuð nákvæmlega, hvað hverjum ber samkvæmt þeim, svo um þá hlið málsins þarf ekki að deila, „Kvótareglan“ hefur hins vegar þann annmarka, að hún heldur innflutningnum í svo rígföstum skorðum, að þar verður vart nokkru um þokað. Þeir, sem einu sinni eru komnir þar að, standa báðum fótum fast í jötu, og nýir menn komast ekki að. Þetta er augljós galli, sem gerir það að verkum, að margir hafa — með réttu orðið óánægðir og þykir sinn hlutur fyrir borð borinn. Höfðatölureglan aftur á móti hefur þann ókost, að það er svo um marga meðlimi kaupfélaganna, að þó að þeir hafi megnið af viðskiptum sínum þar, vilja þeir þó hafa frjálsræði til að verzla einnig annars staðar, ef þeim finnst að því hagur fyrir sig — og þetta frjálsræði hafa þeir vissulega og notfæra sér margir. Höfðatalan ein gefur því ekki fullkomlega rétta mynd af viðskiptunum.

Eins og af þessu má sjá er hvorug þessara reglna þannig, að ekki megi út á setja og með rökum, þó að báðar hafi ýmsa kosti eins og lýst hefur verið.

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, var þetta mál mjög til umræðu og brotið upp á ýmsum leiðum, sem fara mætti. Niðurstaðan af þeim bollaleggingum varð sú, sem lýst er í stjórnarsamningnum þannig:

„Ríkisstjórnin leggur áherzlu á að innflutningsverzluninni verði hagað svo að verzlunarkostnaðurinn verði sem minnstur — Reynt verði eftir því sem frekast er unnt að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu, hvort sem þar er um að ræða einstaklinga eða félög.“

Eins og sést af þessari yfirlýsingu, er hér farið inn á alveg nýjar brautir. Í stað þess, sem gömlu reglurnar miðuðu áður við ýmist viðskiptamannafjölda eða fyrri ára innflutning, er nú ákveðið að veita þeim leyfin fyrst og fremst, sem hagkvæmust innkaup gera og telja sig geta sýnt fram á, að þeir selji vöruna við ódýrustu verði til neytenda. Enginn mun geta haldið því fram með rökum, að þetta sá óeðlileg eða ósanngjörn regla sem meginregla, en það verður þó að segjast, að einnig hún hefur sína galla. Gallinn við þessa aðferð er sá, að hún er erfið í framkvæmd. Þó er þetta mjög misjafnt, eftir því hvaða vöruflokka er um að ræða. Í ýmsum tiltölulega stórum vöruflokkum, þar sem gerð vörunnar og vörugæði liggur nokkurn veginn fast, gera þessir örðugleikar ekki vart við sig, t. d. við ýmsar byggingarvörur, sement, járnvörur, timbur, ýmsar matvörur, kornvörur o. fl. ýmsar útgerðarvörur, kol, salt, olíur o. þ. h. En ýmsar iðnaðarvörur. t. d. vefnaðarvara, skófatnaður o. fl. þ. h., verða erfiðari viðfangs. þar sem þarf að meta vandséðan gæðamun til verðs. Þó er þetta regla, sem í flestum tilfellum ætti að vera hægt að hafa hliðsjón af, að minnsta kosti, og í mörgum tilfellum að fara alveg eftir, og ef hægt reynist að vinna bug á þeim agnúum, sem eru á framkvæmd hennar, er um það fullt samkomulag með stjórnarflokkunum, að heppilegri leið sé vart unnt að finna og sanngjarnari, bæði frá því sjónarmiði að spara sem mest gjaldeyri — gera heppilegustu innkaupin — og frá sjónarmiði neytandans, að fá vöruna fyrir sem ódýrast verð. Þau verzlunarfyrirtæki, sem standa á gömlum merg og hafa sitt dreifingarkerfi í bezta lagi, hafa þá mesta möguleikana til ódýrra innkaupa og sölu, en hins vegar eru nýir kraftar ekki útilokaðir, ef þeir hafa upp á eitthvað gott að bjóða og ódýrt.

Þann stutta tíma, sem fjárhagsráð og viðskiptanefnd hafa enn starfað, hefur engin reynsla á þetta kerfi fengizt af þeirri einföldu ástæðu, að starf þeirra að þessu leytinu til er ekki komið í fastar skorður. Ég fyrir mitt leyti hefði því haldið, að svo marga kosti sem þetta kerfi hefur fram yfir þau gömlu, sem áður hefur verið farið eftir, yrði að reyna það til hlítar áður en farið er að hyggja á breytingar. og að ekki væri rétt að binda hendur þeirra aðila, sem um þetta eiga að fjalla, áður en nokkur reynsla er af því fengin umfram það, sem í upphafi hefur verið gert með sjálfri meginreglunni. Komi það í ljós, að einhverjir agnúar eða örðugleikar verði á framkvæmdinni, þá er að athuga þá, þegar þar að kemur, en ég tel rétt og sjálfsagt að gera tilraunina fyrst.

Breytingartillaga sú. sem hér liggur fyrir í frumvarpsformi, gerir hins vegar ráð fyrir, að hér verði á gerð sú breyting nú þegar að því er skömmtunarvörur snertir, að innflutningsleyfin verði miðuð við skilaða skömmtunarseðla, og flutningsmaður telur að það sé hinn réttasti og þægilegasti mælikvarði á ódýr viðskipti. — Því ber að vísu ekki að neita, að úthlutun leyfa samkvæmt þeirri reglu væri handhæg og þægileg í framkvæmd, en hitt þarf ekki nauðsynlega að vera fyrir hendi. að þessu fylgi hin ódýrustu innkaup. Það er nú einu sinni svo, að menn eru meira og minna bundnir í sinni verzlun, bæði af vana, kunningsskap og ýmsu öðru, þannig að það fer alls ekki ævinlega saman, að menn geri kaup sín þar, sem varan er seld ódýrustu verði, þó að það hins vegar sé líklegt í mörgum tilfellum. Ég tel því engan veginn tryggt, að meginreglunni verði ávallt fullnægt með ákvæðum frumvarpsins, enda sjálfsagt ekki það, sem fyrir flutningsmönnum vakir fyrst og fremst, eins og ég mun koma nánar að síðar.

Hins vegar er rétt að taka það fram hér, að samvinnumenn hafa oft á fundum sínum í S.Í.S. og víðar talið sig afskipta um innflutning á vefnaðarvörum, búsáhöldum, skófatnaði o. fl. Hafa komið fram frá þeim tillögur til úrbóta í þessu efnt. Hefur undir þessar till. verið tekið á Alþ. af samvinnumönnum þar bæði í Framsóknarflokknum og öðrum þingflokkum, og ég býst við, að þegar gengið var frá þeirri meginreglu um innflutningsverzlunina, sem ákveðin var í stjórnarsamningnum, þar sem þeir áttu að fá innflutningsleyfin, sem ódýrustu innkaupin gerðu og lægstan hefðu dreifingarkostnaðinn. þá hafi það vakað fyrir þessum mönnum fyrst og fremst að tryggja hag samvinnufélaganna, þar sem þeir hafi trú á því, að þessi skilyrði uppfylltu þau bezt. Og ég hefði því haldið, að bezt væri fyrir þessu máli séð á þann hátt, að yfirburðir samvinnufélaganna hefðu fengið að koma í ljós og innflutningurinn þá af sjálfu sér, samkvæmt þessari reglu, meira og meira færzt til þeirra.

Nú hafa hins vegar fulltrúar Framsfl. í fjárhagsráði ekki viljað bíða eftir því, að reynsla fengist af þessari aðferð, sem ákveðin er í stjórnarsamningnum og borið þar fram till. nákvæmlega samhljóða þessari — efnislega — sem hér liggur fyrir.

Ríkisstjórnin í heild hefur ekki enn tekið afstöðu til till., hvorki með né móti, en eins og ég hef áður lýst, hafði ég þá skoðun og hef enn, að æskilegast hefði verið að nokkur reynsla fengist af hinu nýja fyrirkomulagi, áður en farið er að gerbreyta því.

Hv. frsm. Sigfús Sigurhjartarson, sagði að fulltrúi Alþfl. í ríkisstjórn hefði staðið gegn fulltrúa Alþfl. í fjárhagsráði.

Út af þessu vil ég aðeins segja þetta: Þegar ríkisstjórnin ákvað að fresta að sinni að taka ákvörðun um að breyta stjórnarsamningnum að þessu leyti, var það gert á sameiginlegum fundi ríkisstjórnarinnar, fjárhagsráðs og viðskiptanefndar. Allir viðstaddir alþýðuflokksmenn, þar á meðal Finnur Jónsson, og fulltrúi flokksins í viðskiptanefnd voru á einu máli um þetta, og var um það enginn ágreiningur milli Finns Jónssonar og mín.

Af þessu hafa kommúnistar fundið lyktina. Þeir telja sig hafa fundið það út, að ekki væri enn komið samkomulag um afgreiðslu málsins í ríkisstjórninni. enda hefur frá því verið skýrt í blöðum. Þeir telja þá sínum málstað bezt borgið á þann hátt að ganga á lagið, freista þess, hvort ekki er hægt að skapa varanlega sundurþykkju innan ríkisstjórnarinnar út af málinu, kannske með þeim árangri að svo alvarlegur brestur kæmi í stjórnarsamstarfið. að örðugt yrði úr að bæta. Þetta og þetta eitt er það sem fyrst og fremst vakir fyrir þeim herrum. Ef það hefði verið áhugi fyrir málum samvinnumanna og kaupfélaganna, sem réði gerðum þeirra, hvers vegna báru þeir þá ekki fram till. í þessa átt, þegar þeir höfðu bezta aðstöðuna til þess og þeir sjálfir voru í ríkisstjórn. — þegar „kvóta“-reglan var aðalúthlutunarreglan? En það var hún í þeirra stjórnartíð. Hvers vegna fara þeir fyrst á stað með málið eftir að numin hafði verið úr gildi sú úthlutunarregla og tekin upp önnur, sem hafði í sér fólgna möguleika fyrir aukningu kaupfélaga-innflutningsins, svo framarlega sem þau gátu sýnt yfirburði í vöruverði?

Já, hvers vegna? Það örlar ekki á áhuga hjá þeim fyrir þessu máli fyrr en þeir eru komnir úr stjórninni og eftir að hið nýja kerfi kom fram og þar með verstu hindruninni fyrir vexti kaupfélaganna hafði verið rutt úr vegi.

Og það þarf ekki að fara í neinar grafgötur til að leita að hvötum þeim, sem þessu hafa ráðið. Þetta er ekki fyrst og fremst barátta fyrir auknum innflutningi kaupfélögunum til handa. Nei, það er barátta fyrir auknum erfiðleikum stjórninni til handa.

Þeir vita sem er, að það standa fyrir dyrum hörð átök í okkar litla þjóðfélagi, átök um það, hvort beitt skuli raunhæfum aðgerðum til að koma efnahags- og atvinnumálum okkar á réttan kjöl. Þeir vita, að þessi barátta verður háð milli kommúnistaflokksins — í þrengstu merkingu — annars vegar og allra annarra flokka hins vegar. Þeir vita líka, að úrslit þeirrar baráttu geta orðið örlagarík, ekki einasta fyrir íslenzku þjóðina, heldur einnig fyrir þeirra pólitísku starfsemi í landinu. Þess vegna hafa þeir fundið upp þetta herbragð til að reyna að tvístra liðinu á síðustu stundu. Því að þeim er fullljóst að takist flokkunum þremur, sem nú standa að ríkisstjórninni, að halda saman í þeirri baráttu, er tryggt, að ósigur kommúnista verður mikill. Því aðeins hafa þeir von, að þeim takist að deila liðinu og koma af stað innbyrðis sundurlyndi.

Mér er mætavel ljóst, að það ber mikið á milli í stefnumálum flokkanna þriggja, sem að stjórninni standa, og að það er auðvelt verk að vekja þar ágreining, en fyrir mér liggur málið þannig, að eitt sé nú nauðsynlegast af öllu, sem allt annað verði að víkja fyrir í bili, og það er að fá skynsamlega lausn þessara vandamála, efnahags- og atvinnumála þjóðarinnar, þannig að framleiðslustarfsemin geti haldið áfram ólömuð og utanríkisverzlun okkar haldið í horfinu og aukizt.

Í þessu sambandi tel ég það nánast algert aukaatriði, hvort það mál, sem hér liggur fyrir, verður leyst nú, eða hvort heldur verður kosið að bíða með það þangað til séð verður, hvort hinar nýju reglur um innflutninginn, sem felast í stjórnarsamningnum, leysa það af sjálfu sér á næstunni. Að láta það, eða hvernig það verður leyst, ráða úrslitum hinna þýðingarmestu mála — teldi ég óforsvaranlegt. Á engu ríður þjóðinni meira nú en að standa saman um aðalmálin og láta allt annað, sem deilum getur valdið, bíða á meðan.

Ég tel víst, að framsóknarmenn hafi borið fram þessa till. í fjárhagsráði vegna þess, að þeir hafi talið það öruggustu leiðina fyrir kaupfélögin og S.Í.S. til þess að auka innflutningshlutfall sitt í þessum vörum, enda má telja líklegt, að í framkvæmd mundi þessi aðferð gefa svipaða raun og höfðatölureglan. Sjálfstæðismenn hafa á hinn bóginn ávallt talið sínum hag bezt borgið og sinna umbjóðenda með „kvótaregiunni“, þar sem öllu er haldið í óbreyttum hlutföllum frá því, sem verið hefur. Alþfl. telur hins vegar, að æskilegasti mælikvarðinn, sem leggja beri á innflutninginn, sé verðlagið, bæði innkaupsverðið og verðið til neytenda. Þess vegna lagði hann til, að þetta yrði tekið upp í stjórnarsamninginn, og inn á það var gengið af báðum flokkunum, Framsókn og sjálfstæðismönnum, sem meginreglu. Reynslan á svo eftir að skera úr um það, hvernig þetta fyrirkomulag gefst. Ég fyrir mitt leyti tel, að finnist á þessu heppilegt form í framkvæmd, sé enginn vafi á því, að það muni verða þjóðinni fyrir beztu. Þá fær sá innflutnings- og gjaldeyrisleyfin, sem bezt innkaup gerir og tekur minnst fyrir dreifinguna til neytandans.

Með réttu hefur verið að því fundið, að eins og fyrirkomulagið var á innflutningsverzluninni og tilhögun álagningar, virtist svo sem möguleikarnir til verzlunarhagnaðar væru mestir hjá þeim innflytjanda, sem lakast keypti inn, þ. e. a. s: dýrustu verði, því að honum var leyfð hæsta álagning í krónum. Var það almannaskoðun orðin, að með þessu væru innflytjendur lítt hvattir af hálfu hins opinbera til þess að hugsa um að kaupa sem ódýrast inn og þeir beinlínis verðlaunaðir, sem dýrt keyptu. Ég skal ekkert um það segja, hvort eða hve mikil brögð hafi verið að því, að menn féllu fyrir þessari freistingu, en það breytir engu um það, að freistingin var beinlínis þannig lögð fyrir menn með opinberum aðgerðum. — Einnig þennan agnúa á hið nýja fyrirkomulag að geta útilokað.

Á þessum síðustu og erfiðustu tímum, þegar draga verður úr allri gjaldeyriseyðslu eins og frekast má, hefur það vissulega mikið að segja, að innflytjendur séu hvattir til að kaupa sem hagkvæmast inn, og að þeir finni hvöt hjá sér til þess að gera það þannig, að þeir verði látnir sitja fyrir, sem bezt innkaupin gera. En á þetta hefur mjög skort, eins og kunnugt er.

Í verzlun þeirri. sem hv. flm. þessa frv., Sigfús Sigurhjartarson. stjórnar, KRON, er mér til dæmis sagt, að fáist lúxuskaffibollar, sem kosta um 100 kr. parið, eða 12 manna kaffistell á 1500 krónur. Þegar þessir 100 kr. bollar eru bornir saman við það, að hér í bæ hafa nú á sama tíma fengizt bollar fyrir 3–4 kr. parið, þá sést, að á þessu er geipimunur. Það skal að vísu játað, að þessir síðarnefndu bollar voru úr allt öðru efni, og einnig hitt, að það getur vel verið, að 100 kr. bollarnir séu 100 kr. virði út af fyrir sig, en ég tel þó, að lúxusbollarnir hefðu átt að bíða þangað til búið var að tryggja, að nóg væri til af hinum.

Mér hefur einnig verið tjáð, að hv. þm. selji í sömu búð postulínsvasa og glerkýr fyrir allt að 1000 kr. stykkið, og bendir þetta til þess, að einnig hann og sú verzlun, sem hann stjórnar. hafi fallið fyrir þeirri freistingu að taka til sölu þær vörur, sem mestan hagnað gefa, án tillits til þarfa neytandans og hvað honum hentar bezt, og fyrst svona er um hið græna tréð, hversu mun þá farið um hitt?

Nei, það veitir sannarlega ekki af, að innflytjendum sé fyrst og fremst haldið að nauðsynjavörukaupum og að því að gera þau á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðarheildina. og þeir verðlaunaðir með auknum leyfum, sem það gera, en ekki hinir, sem dýrast kaupa.

Þegar veiting innflutningsleyfa verður miðuð við verðlag, hlýtur það að verða hvöt hjá hverjum innkaupanda til að gera eins hagkvæm kaup og möguleikar standa frekast til, enda virðist það svo sjálfsagt, að ekki er umtalsvert.

Allt í allt get ég ekki séð annað en kosti við þetta fyrirkomulag og að sjálfsagt sé að sjá nú til. hvernið það reynist. — Ég vil þó ekki fyrir mitt leyti standa á móti því, að málið fái venjulega þinglega afgreiðslu og verði vísað til nefndar, og mun ég því greiða atkvæði með því, að málinu verði vísað til 2. umr. og n.