04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að gera grein fyrir afstöðu minni til frv. á þskj. 20 og enn fremur nál. á þskj. 177. Hv. þm. V.-Ísf., form. fjhn., hefur skýrt afstöðu okkar, en ég vildi koma nokkru nánara inn á viðhorf mitt til málsins.

L. um fjárhagsráð eru ný og þá auðvitað líka 12. gr., sem frv. þetta miðar til breytinga á. Eðlilegast er að l. um fjárhagsráð fengju að sýna sig nokkuð í framkvæmd, áður en farið væri að gera breyt. eins og þessa. Frv. sjálft er að efni til eins og till. Hermanns Jónassonar og Sigtryggs Klemenzsonar. sem borin var fram í fjárhagsráði í sept. 1947. áður en tekið var að framkvæma 12. gr. l., en sú till. var byggð á gamalli fundarsamþykkt S.Í.S. á s. l. sumri.

Flm. hefur ekki sýnt fram á, að skortur hafi orðið á skömmtunarvörum eða öðrum vörum nokkurs staðar á landinu, sem stafi af því, hvernig 12. gr. l. um fjárhagsráð er orðuð nú.

Ef till. verður samþ., skapast það ósamræmi að tvenns konar reglur eiga þá að gilda um veitingu innflutningsleyfa. Annars vegar yrðu skömmtunarvöruleyfi, sem færu eingöngu eftir skiluðum skömmtunarmiðum, en hins vegar allar aðrar vörur, er færu þá eftir hinni almennu reglu um leyfisveitingar, eins og þær eru nú. L. um fjárhagsráð segja, að veiting leyfa skuli miðast við gjaldeyrissparnað og hver selji vörur sínar bezt og ódýrast. Sýnist ástæðulaust, að við veitingu leyfa fyrir skömmtunarvörum megi ekkert tillit taka til þess tvenns, heldur aðeins til miðanna, sbr. orðalag frv. „skulu“ í 1. málsgr. 2. línu.

Ef frv. yrði að l., mundi verða stórfellt kapphlaup milli verzlana innbyrðis um miðana. Það kom einnig fram við úthlutun epla samkvæmt stofnauka fyrir jólin, að kaupfélög og verzlanir auglýstu í útvarpinu eftir slíkum stofnauka og lofuðu fríðindum í staðinn. Þá var þetta frv. aðeins komið fram, en yrði það að l., má nærri geta hvernig færi. Ef veiting leyfa er beinlínis harðbundin við miðana, eins og frv. ætlast til, yrði það slík hvatning til verzlana að smala saman miðum, að skapa mundi augljósan rugling og óheilbrigði, ekki sízt þegar litið er á, hve leyfi eru naum fyrir mörgum tegundum og því mikið keppikefli að ná í miða fyrir þeim.

Auk seðlakapphlaups munu hljótast af frv., ef það yrði að l., óeðlilegir verzlunarhættir, sem yrðu öllum almenningi til stórtjóns. Framkvæmd frv. mundi leiða til þess, að mikill fjöldi manna legði alla miða sína fyrir fram inn til ákveðinnar verzlunar. Ættu þeir, sem það gerðu, þá mikið á hættu um það, hvernig með miðana yrði farið, og mundi slíkt skapa neytendum vandræði og öryggisleysi, sem sjálfsagt er að forðast. Reglan á að vera: Vara gegn seðli, eins og alls staðar tíðkast. Hvergi nokkurs staðar í þeim löndum, sem við þekkjum og skömmtun hefur verið, er innkaupaheimild verzlana miðuð við skömmtunarseðla, eins og hér er gert ráð fyrir.

Á bls. 5 í frv. 6. þm. Reykv. er tekið upp það, sem þeir Hermann Jónasson og Sigtryggur Klemenzson tala um svartan markað. Skömmtun á nauðsynjavörum var fyrst tekin upp á stríðsárunum, og gafst þá vel. Það, sem af er, verður að segja hið sama um nýja skömmtunarfyrirkomulagið. Ekki er vitað, að borið hafi á svörtum markaði, og væri algerlega óverjandi að setja lagaákvæði. sem mundu leiða af sér margs konar vandræði. eins og áður hefur verið bent á, til að forðast hættu, sem alls ekkert hefur borið á, þótt möguleikar kynnu að vera fyrir því, að hún gæti komið í ljós síðar. Þörf slíkra aðgerða gegn svörtum markaði er ekki til nú, og þótt slíkt fyrirbrigði kæmi upp, mundi verða gripið til allt annarra ráðstafana.

En frv. 6. þm. Reykv., ef að l. yrði, gæti leitt til annars, sem jafna má við svartan markað, en það er, að skömmtunarseðlar fari að ganga kaupum og sölum meðal manna innbyrðis eða verzlana annars vegar og neytenda hins vegar. Sú hætta er augljós og mikil, einkum ef þrengist um innflutning, sem allt útlit er á. Nægir í því sambandi að minna á, hvernig gjaldeyrisleyfi gengu kaupum og sölum á krepputímanum.

Ég vildi með þessum fáu orðum taka undir till. hv. þm. V.-Ísf. Lögin eru ekki það gömul, að vert sé að breyta þeim strax. Það er rétt, að það komi betur í ljós, hvernig þau verða í framkvæmd, áður en farið er að breyta þeim. Ég er sannfærður um, að þessi breyting yrði jafnslæm bæði fyrir kaupfélög og kaupmenn.