09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2138)

20. mál, fjárhagsráð, innflutningsverslun og verðlagseftirlit

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég kveð mér enn hljóðs utan dagskrár vegna 20. máls, sem er frv. til l. um fjárhagsráð. innflutningsverzlun og verðlagseftirlit. Ég þarf ekki að rekja þá sögu hér, hve treglega gekk að fá meiri hl. fjhn. til þess að skila áliti um málið, því hefur raunverulega aldrei verið skilað, en forseti varð við þeirri beiðni d. að taka málið á dagskrá, þótt nál. væri ekki fyrir hendi, og umr. um málið stóðu stutta stund og var skjótt lokið. Síðan hefur málið tvívegis verið á dagskrá og eftir eindreginni ósk forseta verið tekið af dagskrá og atkvgr. ekki farið fram, og nú er það ekki sett á dagskrá. Ég vil fara þess á leit við forseta, að hann taki þetta mál á dagskrá og atkvgr. megi ganga um það, til þess að menn sjái, hvort þingvilji er fyrir því eða ekki. Mér finnst þessi dráttur ekki afsakanlegur. Þetta er ekki hæstv. forseta að kenna, hann hefur ekki tafið málið, en mér finnst sjálfsagt að taka málið á dagskrá.