17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. — Meiri hl. fjhn. ber fram brtt. á þskj. 213, og eru þær komnar fram í samráði við ríkisstj. Fyrsta brtt. fjallar um breytingar á ráðstöfun eignaraukaskattsins. Í frv. er gert ráð fyrir, að hann renni í framkvæmdasjóð ríkisins sbr. l. nr. 55 1942. Með þessari breyt. er gert ráð fyrir, að helmingur skattsins renni í afla- og hlutatryggingasjóð fyrir bátaútveginn, ef sá sjóður verður stofnaður með l. Ég þarf ekki að ræða hlutverk slíks sjóðs, því að það er þm. kunnugt um.

Önnur brtt. er við 12. gr. frv. og fjallar um það, að elli- og örorkulífeyri samkv. l. nr. 50 1946, um almannatryggingar, megi greiða með verðlagsuppbót, er nemur allt að 315 vísitölustigum. Þessi breyt. byggist á því, að slíkur lífeyrir er ekki kaup, heldur miðaður við lægstu framfærsluþörf, en auk þess liggur þessi till. fyrir við breyt. á 1. um almannatryggingar.

Þriðja brtt. er um það, að greiða megi útvegsmönnum bætur úr ríkissjóði vegna rýrnunar á saltfiski, er stafar af langri reynslu, enda eigi útflytjandi ekki sök á drættinum. Geymslan er að öðru leyti á ábyrgð útflytjanda. Það er gert ráð fyrir, að þessi brtt. komi sem viðbót við 19. gr. Hún er fram komin vegna þess, að það hefur komið í ljós, að útkoman á saltfisksverðinu hefur orðið miklu lakari en búizt var við og stafar það af því, að útflutningurinn fór fram miklu seinna en ætlað hafði verið. Þetta olli allmikilli rýrnun á fiskinum og bakaði útvegsmönnum mjög mikið tjón. Af þessum ástæðum þótti ekki hægt að standa á móti því, að nokkurt tillit yrði tekið til rýrnunar, sem stafaði af langri geymslu, sem útvegsmenn ættu ekki sök á, og hún bætt að einhverju leyti.

Þá leggur meiri hl. fjhn. til, að orðin „svo og lögum nr. 97 1946“ í lok 22. gr. frv. falli niður. En í því felst, að enda þótt jafnað sé á milli yfirráðs og undirverðs, sem verða kann, miðað við ábyrgðarverð, þá skuli sú jöfnun ekki ná milli ára. Í frv. er gert ráð fyrir, a.ð jafnað skuli milli ára eða frá árinu 1947, ef yfirverð fengist á árinu 1948, en samkv. þessari breyt. er aðeins um að ræða að jafna milli verðflokka á árinu 1948.

Fimmta brtt. fjallar um það, að á meðan sú ábyrgð vegna bátaútvegsins, sem gert er ráð fyrir samkv. 17.–20. gr. frv., er í gildi, þá megi ekki hækka vexti af rekstrarlánum útgerðarinnar frá því, sem nú er. Ég þarf ekki að gera grein fyrir, hvaða þýðingu þetta hefur, því að það er öllum kunnugt.

Sjötta brtt. er við 27. gr. og felur í sér heimild fyrir ríkisstj. til að hækka lántökuupphæðina vegna síldarkreppunnar úr 3 millj. kr. upp í allt að 5 millj. Það er ekki hægt að segja neitt um það, hversu mikið fé þarf til að bjarga útvegsmönnum út úr þeirri kreppu, sem síldarútgerðin á síðasta sumri hafði í för með sér, en hins vegar má vænta, að sá síldarafli, sem nú fæst, hjálpi nokkuð, og ætti þessi upphæð því að nægja til að bæta úr brýnustu þörfunum og koma í veg fyrir, að útgerðin þurfi að stöðvast.

Ég hef þá gert nokkra grein fyrir þessum till. meiri hl. fjhn., en auk þeirra flytur meiri hl. n. 3 brtt., sem ekki eru komnar. Meðal annars er í þeim sú breyt., að í stað orðsins vísitala komi kaupvísitala. 13. gr. hljóðar þannig, með leyfi forseta: „Nú fær fastlaunamaður heildarlaun, án þess að sérstök grunnlaun hafi verið ákveðin, og lækka þau þá eftir gildistöku laga þessara hlutfallslega við þá lækkun vísitölunnar, sem ákveðin er í 12. gr.“ Hér er talað um vísitölu í nokkuð villandi merkingu, því að vísitalan lækkar ekki, heldur verðlagsuppbótin, en þó höfum við ekki valið það orð, heldur kaupvísitala. Þessar till. eru í sjálfu sér frekar leiðréttingar en breytingar. Þá höfum við borið fram skriflegar brtt., sem ýmist eru sjálfsagðar eða nauðsynlegar. Við leggjum til, að orðin: „svo og sala eigin vinnu“ í 41). gr. falli niður. Þetta er ekki efnisbreyt., heldur aðeins til þess að forðast tvítekningu, því að þetta ákvæði kemur fram í 41. gr. 2. tölul. Við 42. gr. leggjum við til, að fyrsta dagsetningin, 31. marz, verði felld niður, og er þetta gert í samráði við eða eftir ábendingu skattstofunnar. því að þessi stofnun er svo störfum hlaðin fyrstu mánuði ársins. að hún hefur ekki talið sér fært að bæta við þau með óbreyttu starfsliði. Og ekki eru heldur efnisbreyt. á því þskj., sem bráðum verður útbýtt. En brtt. á þskj. 213 eru allar efnisbreyt., sem ég hygg, að séu svo vaxnar, að þær nái fylgi hv. þd. Ég leyfi mér svo að afhenda hæstv. forseta þessar skrifl. brtt.