24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2170)

14. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Þetta mál var afgr. hér í fyrra, en fékk ekki úrslitaafgreiðslu í hv. Ed. Það þarf því ekki að orðlengja um það hér nú, því að það var raunar útrætt hér í fyrra. Heilbr.- og félmn. hefur klofnað varðandi þetta mál, og vill meiri hl. samþykkja frv., en minni hl. vill vísa því frá. Það er náttúrlega matsatriði, hvort í stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar á að vera 1 maður skipaður af ríkisstj. eða þrír tilnefndir af bæjarfélaginu, en meiri hl. hefur lagt til, að hlutur bæjarfélaganna í stjórn skrifstofanna verði meiri, enda er það ekkert einsdæmi, að ríkið styrki stofnanir án þess að eiga fulltrúa í stjórn þeirra, má þar t. d. nefna fræðsluráð. Núverandi fyrirkomulag er til þess bezt fallið að koma pólitískum fleygum inn í starfsemi skrifstofanna. eins og reynslan hefur sýnt. Má í því sambandi minna á, er Reykjavíkurbær setti upp sína vinnumiðlunarskrifstofu, þá var flutt frv. um, að ríkið skyldi skipa fulltrúa í stjórn skrifstofunnar, til þess að skrifstofan yrði ekki algert bæjarfyrirtæki. Síðan hafa tvær skrifstofur veríð starfandi, og mætti sameina starfsemi þeirra með því að samþykkja þetta frv. Að lokum held ég, að það sé ofrausn við fjárhagsráð að vísa þessu máli frá hér á Alþ. í trausti þess, að málið verði athugað í fjárhagsráði. Ég held, að gangur mála yrði hér þunglamalegur, ef slíkan hátt ætti að viðhafa. Ég álít, að ekki þurfi að tefja þetta frv., þótt fjárhagsráð óski annarra breyt. á l. um vinnumiðlun, því að þær breyt, geta síðar fram komið. Tel ég því ekki rétt að fallast á rök minni hl.