25.11.1947
Neðri deild: 24. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

14. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það eru nokkur orð í tilefni af ræðu hv. þm. N-Ísf. Hann taldi þetta frv. fjárhagsráði óviðkomandi og ástæðulaust að senda það þangað til umsagnar og hins vegar, að fjárhagsráð hefði enga umsögn sent. Það er rétt, fjárhagsráð sendi enga umsögn. Um það, af hverju það stafar, skal ég ekki segja. Ég tel það ekki lofsvert, að þeir aðilar, sem Alþ. telur ástæðu til að leita umsagnar hjá, svari ekki, heldur er það miklu fremur ámælisvert. Eins og ég drap á í gær sem frsm. minni hl., þá er gert ráð fyrir því í fjárhagsráðsl., að fjárhagsráð geti falið vinnumiðlunarskrifstofunum viss verkefni, svo sem að safna skýrslum um vinnuafl í landinu. Þess vegna var eðlilegt, að ráðinu væri sent frv. um breyt. á gildandi l. til umsagnar. Hitt er annað mál, að fjárhagsráð hefur ekki talið þetta atriði skipta sig máli. Það stendur hins vegar óhaggað, að fjárhagsráð hefur til athugunar l. um vinnumiðlun og till. um breyt. á þeim, og er ástæðulaust að draga í efa að svo sé.

Hv. þm. vefengdi mjög, að ekki væri hægt að hafa það gagn af vinnumiðlunarskrifstofunum, sem ætlazt er til í l. um fjárhagsráð. að l. óbreyttum. Ég vil benda hv. þm. á, að í l. um fjárhagsráð er gert ráð fyrir, að þessum skrifstofum sé falið að safna skýrslum um atvinnuskiptinguna um land allt. Ég sýndi hins vegar greinilega fram á í gær, að eins og löggjöfin er nú, þá hafa vinnumiðlunarskrifstofurnar alls ekki nægilega heimild til að safna slíkum upplýsingum. Þær geta engar upplýsingar heimtað af iðnrekendum, engar af útgerðarmönnum, engar af öðrum en þeim, sem hafa í þjónustu sinni verkamenn í þessa orðs þrengstu merkingu. L. ná aðeins til kaupstaða, en skýrslur þarf að fá um landið allt. Það er ótvírætt, að eins og löggjöfin er nú, þá getur fjárhagsráð ekki notað vinnumiðlunarskrifstofurnar til að koma upp greinargóðri atvinnustatistík, eins og gert er ráð fyrir í löggjöfinni, Þess vegna er það, að við í minni hl. leggjum til, að þetta tækifæri verði notað til að minna á, að löggjöfina þarf að endurskoða, ef ákvæði fjárhagsráðsl. eiga að verða framkvæmanleg að þessu leyti. Á því er dagskráin byggð, og það verður ekki hrakið.

Í þessum umr. hafa af hálfu hv. frsm. meiri hl. og hv. flm. ekki komið fram nein ný rök fyrir réttmæti þessa frv., réttmæti þess að svipta ríkisvaldið öllum áhrifum á stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna, þó að það greiði af rekstrarkostnaði þeirra. Einu rökin voru þau, að þessar skrifstofur séu bæjarstofnanir einvörðungu, eða a.m.k. fyrst og fremst. Það er búið að sýna fram á, að þetta er rangt. Þetta eru ekki bæjarstofnanir. Það segir í l., að þær eigi að úthluta atvinnubótavinnu, sem styrkt sé af bænum og ríkt. Þetta getur ekki verið, að bæirnir eigi eingöngu að úthluta atvinnubótavinnu. sem kostuð er af ríkinu. Þetta eru því að verulegu leyti ríkisstofnanir, og þess vegna borgar ríkisvaldið verulegan hluta af kostnaðinum. Þess vegna er ekki til of mikils mælzt, að ríkisvaldið fái einn af fimm í stjórnina. Einu rökin, sem flutt hafa verið, fá því ekki staðizt. Það er mjög sæmilega séð fyrir áhrifum bæjanna, þar sem þeir kjósa tvo menn af fimm í stjórn og aðrir tveir eru líka tilnefndir af aðilum úr bænum. Það eru því fjórir af fimm stjórnarfulltrúum úr bænum, og þá er sízt of mikið, að ríkisvaldið fái einn af fimm, þó að formaður sé, einkum þegar tillit er tekið til þess, að ríkið borgar verulegan hluta af kostnaðinum.

Ég leyfi mér því að vænta þess, að Alþ. samþykki hina rökst. dagskrá, því að sú breyt., sem fram á er farið í frv., er ástæðulaus, óeðlileg og ranglát og líka sérstaklega af því, að svo stendur á, að fjárhagsráð hefur ákveðið að gera uppkast að breyt. á l. Mun það leggja fram till. um víðtækar breyt., og er fyrir það enn síður ástæða til að hrapa að breyt. nú. Það er skynsamlegast að bíða eftir þeim breyt.. sem munu koma frá fjárhagsráðl. áður en langt líður.