25.11.1947
Neðri deild: 24. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

14. mál, vinnumiðlun

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Mér finnst fjöllin hafa tekið jóðsótt, þegar svo er komið, að til þess að hægt sé að framkvæma l. um fjárhagsráð, þurfi að breyta l. um vinnumiðlunarskrifstofur. Með hinni merku löggjöf um fjárhagsráð á að skipuleggja og umskapa okkar atvinnurekstur og þjóðlíf á velflestum sviðum, og nú á ekki að vera hægt að framkvæma þetta nema með því að breyta löggjöfinni frá 1935. (GÞG: Að þessu leyti). Þetta er dálítið dæmi um, hvernig smáatriði geta ruglað gersamlega dómgreind mætra manna: Ég hafði ekki við því búizt, að jafngreindur maður og hv. 4. þm. Reykv. notaði þessi rök fyrir afstöðu sinni.

Það er misskilningur hjá honum, að ég hafi véfengt, að fjárhagsráð hafi gagn af vinnumiðlunarskrifstofunum, en ég held því fram, að það hafi af þeim jafnmikið gagn, þó að bæjarstjórnirnar hafi þar meiri hluta. Það er það. Ég hef aldrei verið því mótfallinn, að vinnumiðlunarskrifstofurnar hafi nána samvinnu við ríkisvaldið og stofnanir þess. Ég tel eðlilegt, að sú samvinna haldist, þó að hún hafi ekki verið mikil undanfarin ár. En það eru engin rök gegn því, að bæjarfélögin, sem borga 2/3 kostnaðarins, megi kjósa meiri hl. stjórnarinnar.

Hv. þm. benti á, að vinnumiðlunarskrifstofurnar gætu alls ekki heimtað upplýsingar um ástand vinnuaflsins í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði o.s. frv. Það má vera, en ég vil benda á, að það eru aðrar stofnanir starfandi, sem hafa það hlutverk að veita þar allar upplýsingar, Landssamband iðnaðarmanna og Félag íslenzkra iðnrekenda hafa skrifstofur, sem undanfarin ár hafa haft á reiðum höndum nákvæmar upplýsingar um, hvernig ástand iðnaðarins er á hverjum tíma, hve margt fólk er í hverri iðngrein, hvernig atvinnuhorfur eru þar o.s. frv. Það er því óþarfi að búa til nýja stofnun eða fela þetta starf vinnumiðlunarskrifstofunum, vegna þess að fjárhagsráð getur með einu bréfi fengið þær upplýsingar frá stofnun, sem er til og starfar í landinu. Það er ótrúlegt, að jafngreindur maður og hv. frsm. minni hl. viti þetta ekki. Ég get búizt við, að Búnaðarfélag Íslands og fleiri samtök landbúnaðarins geti gefið ýmsar upplýsingar varðandi landbúnaðinn í þessu efni. Líka er kunnugt, að sjávarútvegurinn hefur sín skipulögðu samtök, sem stunda m. a. margs konar upplýsingastarfsemi viðvíkjandi þeirri atvinnugrein, bæði Fiskifélag Íslands og Landssamband ísl. útvegsmanna. Þetta vita allir, og það þýðir ekki að telja mönnum trú um, að það þurfi að fela vinnumiðlunarskrifstofunum að afla þessara upplýsinga. Auk þess geta vinnumiðlunarskrifstofurnar fengið upplýsingarnar frá þessum aðilum, ef það þykir henta betur. Nei, þessi mótbára er ekki mikilvæg. Það ber því allt að sama brunni með rök gegn þessu máli, að þau eru harla veigalítil, og er því ástæðulaust að samþykkja dagskrána, sem hér hefur verið flutt fram af hv. minni hl.

Ég skil varla þessa hörðu andspyrnu frá hv. minni hl. og sumum hv. þm. úr ákveðnum stjórnmálaflokki. Þeir segja öðrum þræði, að þetta sé smábreyt., en hinum þræðinum, að þetta sé þvílíkt stórmál, að allt velti á, að ekki sé að því hrapað.

Hvaða rök eru þetta? Ég fæ ekki betur séð en þetta reki sig hvort á annars horn.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég veit að þingið mun sjá, hvað er kjarni þessa máls, nú eins og í fyrra, og vænti þess. að það fari sína leið nú eins og þá.