25.11.1947
Neðri deild: 24. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2177)

14. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði í ræðu hv. þm. N-Ísf., sem ég vildi minnast á. Hann dró raunar einnig í efa enn á ný, að ekki væri hægt að framkvæma hina miklu löggjöf fjárhagsráðs án þess að breyta jafnlítilmótlegri löggjöf og vinnumiðlunarlöggjöfinni. En þessa firru er ég búinn að hrekja svo oft, og ætla ég ekki að endurtaka það enn.

Hv. flm. taldi alveg ástæðulaust yfirleitt að vera að gera ráð fyrir, að sérstakar stofnanir eins og vinnumiðlunarskrifstofurnar önnuðust þessa atvinnuskráningu. Það væri ekkert annað en að leita til þeirra stofnana, sem þegar eru fyrir hendi: Fiskifélags Íslands. Landssambands iðnaðarmanna, Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Búnaðarfélags Íslands og fleiri stofnana. En hv. þm. fer hér villur vegar, hér skjátlast honum. Þessar stofnanir hafa ekki tæmandi upplýsingar yfir atvinnuskiptinguna. Fiskifélagið veit ekki, hve margir menn fást við sjávarútveg. Búnaðarfélagið heldur ekki um atvinnuskiptinguna innan landbúnaðarins, og Landssamband iðnaðarmanna hefur enn síður nokkrar tæmandi upplýsingar. Mér er mjög vel kunnugt um þetta, þar sem ég hef fengizt við slíkar athuganir og veit að þessar stofnanir hafa ekki nægilega glöggar upplýsingar um þessi atriði: Í þessu sambandi má geta þess, að bæjarstjórn Reykjavíkur taldi nýlega ástæðu til að afla sér upplýsinga um atvinnuskiptinguna í bænum, — hvers vegna skyldi bæjarstjórnin ekki hafa farið þessa einföldu leið, að skrifa einhverju félaginu til þess að fá þessar upplýsingar? Bæjarstjórnin setti sérstaka nefnd til þess. Af hverju? Af því að hún vissi, að þessar upplýsingar eru ekki fyrir hendi hjá þeim stofnunum, sem þm. nefndi. Þótt ég hafi mjög takmarkaða trú á meiri hl. bæjarstjórnar Reykjavíkur, held ég þó ekki, að hún væri að skipa sérstaka nefnd, ef það nægði að skrifa þessum stofnunum.