23.10.1947
Efri deild: 8. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2192)

38. mál, iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef á þskj. 42 borið fram frv. um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð, og vil ég nú gera stuttlega grein fyrir því.

Um aldaraðir hefur landbúnaðurinn verið aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, og þegar endurreisn hófst með þjóðinni eftir margra alda vesaldóm og kúgun, þá voru honum þegar sköpuð skilyrði fyrir þróun, eftir því sem hægt var. Þá var lagður grundvöllur að Búnaðarfélagi Íslands og sérstökum mönnum falin stjórn þessara mála, fyrst búnaðarmálastjóra og síðar landnámsstjóra, en ríkissjóður hefur staðið undir kostnaðl. sem af þessu hefur leitt, og á síðari árum hafa svo bætzt við margir ráðunautar. Allt þetta hefur ríkissjóður stutt með fjárframlögum. Um síðustu aldamót rís svo upp allöflugur sjávarútvegur, og framfarir í þeim atvinnuvegi hafa orðið ennþá stórstígari en á sviði búnaðarmálanna, og er hann nú af alþjóð viðurkenndur sá atvinnuvegur, sem efnahagsleg afkoma þjóðarinnar veitur á. Alþingi hefur stutt hann með ríflegum fjárframlögum, og enginn ágreiningur hefur verið um að standa undir árlegum kostnaði af fiskifélögum, fiskimálastjóra og margvíslegri tilraunastarfsemi í þágu fiskveiðanna. Í skjóli þessara tveggja aðalatvinnuvega hefur svo vaxið upp þriðji atvinnuvegurinn, sem nú er einnig orðinn þriðji aðalatvinnuvegur þjóðarinnar, en það er iðnaðurinn. Mér virðist, að honum hafi ekki verið gert eins hátt undir höfði og hinum tveim fyrrnefndu, og er það ein meginorsökin til þess, að ég flyt nú þetta frv. um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð. Ég hygg, að á iðnaðinum veiti nú einnig afkoma þjóðarbúsins að allverulegu leyti og að mikið sé undir því komið, að honum sé fullur sómi sýndur.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um frv. sjálft, 1. kafli fjallar um yfirstjórn þeirra mála, sem lögin fjalla um, og er ætlazt til, að þau skuli heyra undir ráðherra þann, sem með iðnaðarmál fer. Ráðherra skal skipa iðnaðarmálastjóra og setja honum erindisbréf, og skal hann (iðnaðarmálastjóri) fara með störf þau, sem honum eru ætluð í lögum þessum. Þessu er svipað varið og með raforkumálastjóraembættið. Ég hef talið heppilegt, að iðnaðarmálastjóri væri vélaverkfræðingur að menntun og væru laun hans eftir 3. flokki launalaganna. eins og laun vegamálastjóra, vitamálastjóra o.fl. Auk þessa hef ég lagt til, að ráðherra skipi 3 manna framleiðsluráð iðnaðarmálastjóra til aðstoðar. Það skal skipað til 4 ára í senn þannig: Einn er skipaður samkv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna. annar samkv. tilnefningu rannsóknaráðs ríkisins og sá þriðji án tilnefningar, og skal hann vera formaður ráðsins. Að vísu verða nokkur útgjöld fyrir ríkissjóð að greiða þessum mönnum laun, en hins vegar má gera ráð fyrir, að á móti komi nokkrar tekjur. Iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð eru ráðunautar ríkisstjórnarinnar í iðnaðarmálum. II. kafli frv. fjallar um verksvið þessara aðila. Ég hef í fyrsta lagi hugsað mér, að iðnaðarmálastjóri hafi yfirumsjón með öllum iðjuverum ríkisins. og undirbúi hann tillögur og áætlanir um ný iðjuver, er ríkissjóður lætur reisa, svo og um endurbætur eða stækkanir iðjuvera, sem starfrækt eru af ríkissjóði eða styrkt með lánum, framlögum eða á annan hátt. Ég hygg, að að þessu væri mikil bót, því að þessi maður bæri ábyrgð á ýmsu því, er enginn sérstakur hefur hingað til verið sérstaklega ábyrgur fyrir. Ég vil leyfa mér að minna hér á það, að mikið hefur verið deilt á yfirumsjón síldarverksmiðjanna fyrir öll þau mistök, er þar hafa átt sér stað, enda sízt að furða, og verður slíkt ekki þolað öllu lengur. Sérstaklega hefur verið deilt á þáv. ráðh., en öllum hlýtur að vera ljóst, að ráðh., af hvaða flokki sem er, getur ekki haft yfirumsjón með slíku, en hans sök var, að hann skipaði ekki í þetta embætti mann, sem væri vandanum vaxinn. Ef sérstakur maður hefði á hendi yfirumsjón með þessum málum og embætti hans væri fast embætti, þá kæmi í þetta miklu meiri festa. Ég þarf ekki að lýsa öllum þeim mistökum, sem orðið hafa vegna reiðuleysis þessara mála og hve mikið þau hafa kostað ríkissjóð. Þök hafa hrunið og geymar sigið, svo að verðmæti hafa spillzt og eyðilagzt, en ekki hefur verið mögulegt að láta neinn sæta ábyrgð vegna þessara mistaka, og er slíkt óviðunandi, því að það ber sorglegan vott um það, að yfirstjórn þessara mála er ekki í höndum ábyrgra aðila, og má ekki lengur við svo búið standa, og hefði trauðla farið svo illa, ef öðruvísi og betur hefði verið fyrir þessum málum séð, og geta má nærri, hvort kostnaðurinn hefði ekki verið aðeins lítið brot af þeim miklu mistökum, sem átt hafa sér stað í þessum efnum, en þau hafa skapað ríkissjóði stórkostleg fjárútlát.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á að í þau 25–30 ár, sem þessi iðjuver hafa verið starfrækt af ríkisins hálfu, hafa einstaklingar. sem reka verksmiðjur eða siglingar, talið það vera hag, að komið yrði hér á auknu eftirliti. Þetta er annar hluti þess verkefnis, sem gert er ráð fyrir, að iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð hafi samkvæmt þessu frv. — Það má teljast nauðsynlegt, að eitthvert eftirlit sé haft með iðjuverum ríkisins og jafnframt þeim iðjuverum, sem ríkið styrkir eða kostar að einhverju leyti með fjárframlögum, og á sama regla að gilda, hvort heldur kostnaðurinn er borinn af bæjum eða einstaklingum. Þetta mundi skapa mun meira rekstraröryggi en eins og nú háttar. Iðnaðarmálastjórinn undirbyggi allar áætlanir um ný iðjuver, áður en byrjað væri á byggingarframkvæmdum. svo og stækkun þeirra og endurbætur. Það ætti að tryggja, að kostnaður við þessar framkvæmdir færi ekki helming fram úr áætlun, sem oft hefur komið fyrir.

Sameiginleg verkefni iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráðs eru að annast rannsóknir á skilyrðum til fullkominnar hagnýtingar á öllum þeim hráefnum, sem landið á yfir að ráða, hvort heldur er úr lofti, jörðu eða sjó. Geri ég ráð fyrir, að þessar rannsóknir fari fram á vegum Atvinnudeildar háskólans og Fiskifélagsins. Væri hér því ekki um neinn teljandi aukakostnað að ræða, þar sem þessar stofnanir eru þegar fyrir í því augnamiði m. a. að framkvæma svipaðar rannsóknir og hér er átt við. — Í öðru lagi skulu þau gera tillögur árlega til ríkisstj. um heildartilhögun á sviði iðnaðarmála með það fyrir augum, að eðlileg og holl hlutföll haldist á milli atvinnuvega þjóðarinnar um skiptingu á vinnuafli, rekstrarfé, fjárfestingu og opinberri aðstoð. Til þess að þessari skipan verði komið á, þurfa nákvæmar upplýsingar að liggja fyrir um atvinnuvegi þjóðarinnar í heild.

Iðnaðurinn er nú þegar svo stór og þýðingarmikill atvinnuvegur eða atvinnugrein. að ekki er hollt, að hann sé lengur algerlega óskipulagður. Stefnan hefur verið sú, að þótt landbúnaðurinn eigi eftir að aukast, þá þarf mun færra fólk við þá starfsemi en áður fyrr vegna þeirrar skipulagningar. sem átt hefur sér stað á undanförnum árum á þeim málum, og aukinnar notkunar véla við landbúnaðarstörfin. Þá þurfa aðrir atvinnuvegir að taka við því fólki, sem þar losnar. Þess vegna er hér lagt til, að þessi starfsemi verði skipulögð, m. a. til þess, að ekki fari fram kapphlaup á milli atvinnuveganna um vinnuaflið. — Þá er lagt til, að framleiðslunni sé beint að þeim greinum, sem hagfelldastar eru fyrir þjóðina og samrýmast bezt þörfum hennar á hverjum tíma. Eins og nú háttar, er það hending ein, hvort vinnuaflinu er beitt að hagkvæmum viðfangsefnum, en það er mjög nauðsynlegt, að því sé beitt þar, sem þess er mest þörf. — Þá er í þriðja lagi lagt til, að hendi sé ekki sleppt af neinum afurðum okkar fyrr en þær hafa verið svo vel nýttar, að þær skili landinu sem mestum gjaldeyri, ef út eru fluttar, en spari hins vegar gjaldeyri, ef þær eru seldar innanlands. Í sambandi við þetta vil ég benda á. að ef ýmis hráefni eru athuguð, sem unnin eru hér úr sjó og flutt eru út lítt eða ekkert unnin, þá er það bersýnilegt, að mun betur mætti vinna úr sumum þeirra en nú er gert, og get ég tekið hér sem dæmi lýsið, sem getur verið glöggt dæmi um það, hvernig unnið hefur verið undanfarið og hvað megi vinna úr hinum ýmsu hráefnum. sem þjóðin aflar. 1929 er framleitt meðalalýsi, sem lætur nærri að vera 49% af þorskalýsisframleiðslu landsmanna. 1933 er það komið upp í 89% og nú upp í 95%, auk þess sem nú er 30% betri nýting lifrarinnar. Er allt það aukna fé, sem hér hefur fengizt, komið inn fyrir aðgerðir iðnaðarins. En nú eru vísindin komin á hærra stig og möguleikar eru á því að skilja öll vítamínin úr lýsinu og herða það síðan og nota til sápugerðar og fá þannig margfalt verð fyrir það. Þetta er mjög athyglisvert rannsóknarefni fyrir atvinnudeildina. Sama er að segja um fiskimjölið. Þar fara hráefni forgörðum fyrir tugi þúsunda, að ég segi ekki milljónir króna á ári hverju. Nú er hugsanlegt að breyta mjölvinnslunni þannig, að í stað þess að þurrka hausa og bein, er líklegt að vinna megi eggjahvítuna sér úr mjölinu. Þetta er svo stór tekjuauki, að vert er, að þetta sé athugað ýtarlega. — Sama er að segja um fiskroðin. S. l. ár verkaði ein verksmiðja í Danmörku fiskroð fyrir 5–6 milljónir króna. Ég veit eftir lauslega athugun á þessu, hver óhemju stoð slík verkun yrði iðnaðinum. Ég veit um eitt skip, sem veiddi hákarl, að hann var svo lítt verkaður, að meginhluta skrokksins var hent. Enn sem komið er þekkist hákari hér ekki öðruvísi en kæstur, og er þá venjulega nótaður með brennivíni. Það er mikið verðmæti í hákarlsskrokknum, og sé skrápurinn klofinn, þá má hagnýta hann í þvottaskinn, skinn í stólsetur, bílsæti og bókband. Þá má minna á það, að alls konar úrgangur rennur burt frá síldarverksmiðjunum, sem í felst geysilegt verðmæti til áburðar. Hagnýting þessa fiskúrgangs ætti að geta sparað stórlega innflutning tilbúins áburðar.

Hér gerist vart þörf að minnast á niðursuðuvörurnar. Nú er t. d. byrjað að hagnýta þunnildin, sem síður hefur verið að kasta. Sama er að segja um fiskþurrkunina. Hún þarf að taka miklum endurbótum. Ríkisstj. hefur skipað nefnd til þess að taka það mál til ýtarlegrar rannsóknar.

Líkt er varðandi fiskumbúðirnar, sem tekið hafa miklum stakkaskiptum hin síðari ár. Til skamms tíma hefur ekki verið hægt að geyma beitusíld í frystihúsunum nema um eins árs tíma, og hefur orðið að fleygja beitusíld árlega fyrir tugþúsundir króna. Nú hafa tilraunir, sem gerðar hafa verið, að vísu aðeins í smáum stíl enn, leitt í ljós að geyma má beitusíld í 3 ár, án þess að nokkur skemmd eigi sér stað. Síldin er þá geymd í sérstökum umbúðum. Slíkur iðnaður á skilið að fá aðstoð til framkvæmda. — Þetta og líkt mætti lengi rekja.

Í sambandi við landbúnaðarvöruna má benda á að hún er að mestu flutt út óunnin, og hefur hún verið fjárhagslegur baggi á ríkinu. Á sama tíma og landbúnaðarvaran er flutt út óunnin, eru fluttar inn unnar landbúnaðarvörur úr íslenzkri ull. Hér þarf því nauðsynlega rannsóknar við, hvernig gera megi innlendu landbúnaðarvöruna verðmætari, 1945 voru um 160 smálestir af húðum og skinnum fluttar út og gáfu af sér um 3 milljónir króna. Gærurnar eru fluttar út óunnar, og mér hefur verið sagt, að erlendis sé framleitt úr þeim svitaskinn í karlmannahatta. Nú skilst mér, að selja megi allar íslenzkar gærur í þann iðnað, og það er enginn vafi á því. að það er hægt að hafa miklu meira upp úr íslenzku skinnunum en nú er gert. Sama er að segja um íslenzka kjötið. Ég ritaði 1939 greinarkorn um spaðfrystingu dilkakjöts. Það þótti víst heldur lítið til þeirrar hugmyndar koma þá, en nú hef ég heyrt, að þessi siður hafi verið upp tekinn allvíða. Til útflutnings fæst gott verð fyrir spaðfrysta kjötið — og mun hærra verð fyrir úrvalið. Sama er að segja um niðursuðuvörurnar. Kjötbúðingur, sem framleiddur var hér á landi og seldur til meginlandsins, fékk svo góða dóma, að mig hefði ekki dreymt um það. Líkt er að segja um annað í þessu sambandi, t. d. herðingu og görfun vamba. Úr vömbum eru búnar til kventöskur, sem er hrein lúxusvara. Mjög margt fleira mætti drepa á, t. d. áburðarvinnslu úr þara og þangi, sem vafalaust á mikinn rétt á sér. og loks get ég getið þess, að mér hefur nýverið borizt fyrirspurn um útvegun á 150 smálestum af fjallagrösum, en þau eru mjög eftirsótt til límgerðar og liggur í þeim stórkostlegt verðmæti. Að vísu veit ég ekki um möguleika á að útvega 150 smálestir fjallagrasa, en þannig liggja mörg auðæfi í skauti náttúrunnar. Verkefnin eru ótæmandi að hagnýta auðsuppsprettur landsins.

Þá er þess brýn þörf, að framleiðslan sé endurbætt eins og hægt er, þannig, að fylgzt sé nákvæmlega með öllum nýjungum í iðnaðinum. Meðferð iðnaðarvörunnar er afar stórt atriði, og engu að síður er það mikilsvert, að atvinnurekendum sé leiðbeint um þær helztu nýjungar, sem fram koma hverju sinni. Það hefur geysilega þýðingu fyrir afkomu iðnaðarins, og eftir því sem vinnuaflið er dýrara, er þörf enn frekari skipulagningar, að sem fæst fólk þurfi við framleiðsluna og sem mest sé unnið vélrænt. Síldarverksmiðjurnar hafa t. d. sparað bæði fólk og tíma með því, að sett hafa verið upp flutningsbönd, sem flytja síldina frá skipunum í þrærnar. Fiskiðjuverin hafa einnig komið upp þessum útbúnaði hjá sér, og flutningsbönd eru nú í flestum frystihúsum landsins. Að vísu hefur það viljað brenna við, að þessum útbúnaði hafi verið komið fyrir af handahófi, og er hér sem víðar þörf fyrir, að mönnum sé leiðbeint af kunnáttu um fyrirkomulag slíkra hluta.

Varðandi verðmæti hráefnanna komi rannsóknir á vegum atvinnudeildarinnar, og síðan verði þeim tilraunum haldið áfram til endurbóta. Það er mest aðkallandi að finna leiðir til endurbóta á framleiðslunni, og lagt er til, að eitt aðalverkefni þessarar stofnunar verði, að meiri rækt verði lögð við vinnslu úr innfluttum hráefnum sem innlendum. Þetta atriði ber að athuga mjög nákvæmlega. Það væri hægt að spara mikinn gjaldeyri með því að fullvinna ýmsar þær vörur hér heima, sem venja hefur verið að kaupa inn fullunnar. Frekari hagnýting útfluttrar og innfluttrar vöru er hlutur, sem mun spara okkur mikinn erlendan gjaldeyri.

Þá er bygging iðjuvera og stækkun eldri iðjuvera. Fjárhagsráð mun að vísu hafa með þetta að gera, en það er miklu æskilegra, að framleiðsluráðið hafi um þau mál að fjalla, enda er það hvergi tryggt, að fjárhagsráð hafi nægilegt vit á þessum málum. T. d. hafa komið hér fram raddir um það að selja ýmis iðjuver ríkisins, og má hér minna á verksmiðjuna á Norðfirði, og það er vitanlegt, að það iðjuver er hvergi sambærilegt við mörg þeirra iðjuvera. sem einstaklingar eiga, og er því vafaatriði, hvort ekki sé réttara að selja en gera því mikið til úrbóta. Nú er vitað mál, að sum af iðjuverum ríkisins hafa stórtapað, á meðan sambærileg fyrirtæki í eigu einstaklinga hafa stórgrætt. Má hér t. d. minna á landssmiðjuna. Á rekstri hennar hefur orðið stórkostlegt tap undanfarin ár. á meðan önnur hliðstæð fyrirtæki voru með hæstu skattgreiðendum. t. d. vélsmiðjan Héðinn, sem er, að ég held, hæsti skattgreiðandinn í Reykjavík eins og stendur. Þegar svona er ástatt, þá er það verkefni þessarar stofnunar, sem gert er ráð fyrir í frv. að á stofn verði sett, að gera úrbætur á slíkum rekstri, og það er alls ekkert ólíklegt, að niðurstaðan yrði sú t. d. með landssmiðjuna, að réttast væri að leggja hana niður. Sama er að segja um síldarverksmiðjurnar. Þar er um stórkostleg töp að ræða, og það er meir en að ríkissjóður tapi. Það er stór hluti tekinn af sjómönnum líka og jafnvel þótt líklegt sé, að þeir fengju meira í arð, ef annað fyrirkomulag væri á þeirri starfsemi. Til þess að hægt sé að starfrækja þessar athuganir nákvæmlega, þarf að framkvæma allýtarlegar skýrslusafnanir. Gert er ráð fyrir í 7. gr. frv., að hægt verði að fá slíkar skýrslur með aðstoð hagstofunnar og annarra stofnana, sem safna, skýrslum. Ef iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð verða ekki sammála um afgreiðslu máls til ríkisstj., ber hverjum aðila fyrir sig að gera henni grein fyrir því, í hverju ágreiningurinn er fólginn og, hvernig atkvæði féllu um málið í ráðinu. Skulu sérálit aðilanna síðan send með málsskjölunum til ríkisstj.

Þá eru í III. kafla frv. teknar fram þær skyldur, sem hvíla á fyrirtækjum eða stofnunum að láta í té upplýsingar, er ráðinu geta að gagni komið, og um skyldur Atvinnudeildar háskólans og annarra stofnana, sem starfræktar eru fyrir fé úr ríkissjóði; að veita framleiðsluráði alla nauðsynlega aðstoð við rannsóknir og tilraunir. Þá er lagt til, að ráðherra setji nánari ákvæði er nauðsynleg þykja, um framkvæmd þessara laga, m. a. ákvæði um gjöld fyrir veitta aðstoð til iðjuvera.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég geta þess, hvers íslenzkir iðnaðarmenn eru yfirleitt megnugir. Ég leyfi mér þá fyrst að benda á hin nýju glæsilegu húsakynni í Reykjavík. Ég vil einnig benda á það verk, sem unnið var í skipinu Laxfoss. Það var þannig af hendi leyst, að það var sambærilegt við það, sem erlendar skipasmiðastöðvar gera bezt. Íslenzkir iðnaðarmenn hafa framkvæmt hreinustu listaverk í þessum efnum og unnið af þeirri snilld, að margir hafa dáðst að. Um verðið er hins vegar það að segja, að það er mál, sem leysa á á öðrum vettvangi. Ef íslenzkir iðnaðarmenn hefðu sömu aðstöðu og erlendir, þá veit ég. að ekki þarf að óttast verðið. Ég legg svo að endingu til, að málinu verði vísað til hv. iðnn., og vænti þess. að formaðurinn taki málið fyrir eins fljótt og mögulegt er. Ég vildi óska þess, að málið gæti fengið afgreiðslu á þessu þingi.