27.02.1948
Efri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

38. mál, iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð

Fram. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Máli þessu var vísað til iðnn. þann 23. okt. s.l., og hefur það síðan legið til athugunar hjá n. N. hefur haldið fimm fundi um málið og sent það til umsagnar Landssambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda. Landssambandi útvegsmanna, Búnaðarfélagi Íslands, rannsóknaráði ríkisins og fjárhagsráði. Allar þessar stofnanir voru beðnar að segja álit sitt um málið, og hafa þær allar sent n. álit og umsagnir um málið, að undanteknum tveim aðilum. Landssambandi ísl. útvegsmanna og fjárhagsráði. Ég var satt að segja alveg hissa á því, að fjárhagsráð skyldi ekkert segja um þetta mál. Það kann að vera að það, sem þessu veldur, sé að þessi stofnun hefur geysilega mikið að starfa og margt kalli þar að sem brýnni nauðsyn sé að afgreiða og athuga en þetta mál. En allir þeir aðilar sem sent hafa álit og umsagnir um málið, ljúka upp einum munni um málið og mæla með frv., en leggja til. að nokkrar smábreytingar verði á því gerðar. N. hefur talið rétt að láta umsagnir þessara aðila fylgja nál.

Þrátt fyrir það að allir þessir aðilar, sem ég nefndi legðu eindregið til, að frv. yrði samþ., gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Minni hl. iðnn., hv. þm. N-M. (PZ) og hv. 6. landsk. þm. (StgrA). hefur skilað séráliti. Meiri hl. vill afgreiða frv. með þeim breytingum, sem prentaðar eru á þskj. 346, en hér er um að ræða samræmingu vegna óska nokkurra aðila, sem sendu álit á málinu og óskuðu breytinga á frv.

Það verður ekki um það deilt, að iðnaðurinn er nú þegar stór þáttur í atvinnulífi þúsunda manna á Íslandi, sem byggja afkomu sína á þessari atvinnugrein: Það má nú telja, að iðnaðurinn vegi salt á móti hinum aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, og hann vex og eykst með árunum. Því er vart hægt að neita, að það er mjög aðkallandi, að þessum atvinnuvegi sé sýnd meiri rækt af hálfu þess opinbera en hingað til og að hann sé settur á bekk með landbúnaði og sjávarútvegi og virðist svo vera, að sjálfsagt sé, að skipaður verði iðnaðarmálastjóri. Engu síður en búnaðarmálastjóri og fiskimálastjóri. Ég rakti þetta allýtarlega í framsöguræðu minni með málinu, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka það hér, og skal ég ekki fara út í það hér að nýju. En ég bendi hér á það, að þeir menn, sem með iðnaðarmálin fara í landinu, telja það brýna nauðsyn, að frv. þetta verði samþ.

Þær breyt., sem meiri hl. n. hefur gert á frv., eru:

1. Við 2. gr.

a. Í stað orðsins „vélaverkfræðingur“ í 1. mgr. komi verkfræðingur.

Það þótti of þröngt sniðið að einskorða þetta við vélaverkfræðinga, að þeir einir gætu hlotið starf iðnaðarmálastjóra, en hér koma til greina vélaverkfræðingar og efnaverkfræðingar. Till. hefur og borizt frá Landssambandi iðnaðarmanna um það, að væntanlegur iðnaðarmálastjóri hafi sérþekkingu í iðnaði, en skipun hans verður á valdi ráðh., sem gefur út reglugerð um málið, og er ekki ástæða til þess að binda þetta ákvæði frekar.

b. 2. málsl. 2. mgr. orðist svo: Skal það skipað til 4 ára í senn: einum að fengnum tillögum frá Landssambandi iðnaðarmanna, öðrum að fengnum tillögum frá Félagi ísl. iðnrekenda og þeim þriðja án tilnefningar, og er hann formaður ráðsins.

Þetta er önnur skipan en gert var ráð fyrir í frv., en þar var gert ráð fyrir, að ráðh. skipaði 3 manna framleiðsluráð iðnaðarmálastjóra til aðstoðar, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, annan skv. tilnefningu rannsóknaráðs ríkisins, og þann þriðja án tilnefningar. Þessi breyting virðist vera eðlileg, að hver fyrr greindra aðila fái að hafa fulltrúa í ráðinu, því að málið snertir þá mjög mikið. Ég hef sem flm. frv. rætt þessa breytingu við rannsóknaráð ríkisins, og hefur það fallizt á þessa breytingu, enda er það á valdi ráðh. að skipa formann ráðsins úr rannsóknaráði ríkisins. Meiri hluti er því með þessari breytingu.

2. Við 5. gr.

a. Upphaf 1. tölul. orðist svo: Að stuðla að rannsóknum á skilyrðum. — í stað þess „Að annast rannsóknir á skilyrðum, “ eins og segir í frv. Er gert ráð fyrir, að Atvinnudeild háskólans annist slíkt sem hingað til og að hún hafi áhrif á, hvað rannsakað er á hverjum tíma.

b-. c- og d-liðirnir eru breyt., sem miða í þá átt, að skilja í sundur hugtökin iðja og iðnaður. Landssamband iðnaðarmanna hefur ef til vill mjög réttilega bent á, að þessi hugtök séu ekki nægilega skilgreind í frv., og hefur n. því þótt rétt að gera þessar orðalagsbreytingar.

e. Töluliður 3. d orðist svo: Að hvetja til tilrauna til endurbóta á hinum ýmsu sviðum iðju og iðnaðar.

f- og g-liðurinn eru til samræmingar við þessa breytingu.

3. Við 7. gr. Þar er aðeins um umorðun að ræða, en hún er um hlutverk framleiðsluráðs að hafa heildaryfirlit yfir iðju- og iðnaðarmálin í landinu. og þótti n. rétt að umorða gr.

4. brtt. n. er efnisbreyting, að við 8. gr. frv. bætist ný mgr., er orðist svo: Upplýsingar um tæknilegt fyrirkomulag og skipulagningu einstakra fyrirtækja, er iðnaðarmálastjóri. starfsmenn hans eða framleiðsluráð kunna að komast að í starfi sínu, en ekki hefur verið opinbert almenningi, skal fara með sem einkamál og gæta þagnarskyldu um. — Meiri hluti iðnn. varð sammála um að setja þetta inn í n.

Ég hef átt viðtöl við hæstv. iðnmrh. um frv. þetta, og hefur hann lagt eindregið til, að það nái fram að ganga. Hann er og sammála þeim mönnum, sem telja að frv. þetta verði til bóta iðnaðinum, nái það fram að ganga, og að með því sé fengið skipulag um framtíðarlausn þessara mála. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið.

Hv. minni hl. n. mun gera grein fyrir sinni sérstöðu, og gefur það mér kannske tilefni til að ræða málið nokkru nánar. En fyrir hönd meiri hl. iðnn. legg ég til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem meiri hl. n. gerir ráð fyrir á þskj. 346.

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) : Þegar iðnn. fór að athuga þetta frv., þá kom það greinilega í ljós, að töluvert miklum hluta og jafnvel mestum hluta af þeim málefnum, sem frv. þetta fjallar um og framleiðsluráði og iðnaðarmálastjóra er ætlað að fjalla um eftir frv., er nú eftir öðrum l. ætluð önnur meðferð. Og það, sem við í minni hl. n. höfum alveg sérstaklega við þetta frv. að athuga, er það, að það sé ekki nógu vel undirbúið að því leyti til. að það er ekki samið í samræmi við önnur l. eða ekki lagt til, að öðrum l. sé breytt til samræmis við það, eftir því sem þessi l. yrðu, ef frv. væri samþ. Á ég þar við tvenn lög. Annars vegar ákvæði 1. um rannsóknaráð ríkisins. sem er II. kafli í l. um náttúrurannsóknir. — Og réttast væri að leiðrétta það í dagskrártill., að þar eru l. nefnd l. um rannsóknaráð ríkisins. en ætti að standa þar l. um náttúrurannsóknir. — En rannsóknaráð ríkisins á að vinna að eflingu rannsókna á náttúru landsins, samræma slíkar rannsóknir og safna saman niðurstöðum þeirra. Undir starfsemi þessa ráðs heyrir það að hafa eftirlit með öllum rannsóknum, sem gerðar eru á náttúru landsins, og öllu þar að lútandi. Og undir iðnaðardeild, sem er undirdeild Atvinnudeildar háskólans, heyrir að annast rannsóknir í þágu iðnaðar, svo sem rannsóknir hráefna og annars þess háttar hér á landi. Ef ætlazt er svo til, að komið sé upp nýrri stofnun, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., sem fyrir liggur, sem sjái um þetta að öllu leyti og taki þetta í sínar hendur, þá þarf að skipa rannsóknaráð ríkisins með öðrum hætti og breyta verkefni þess. Hér virðist mér eiga með ákvæði þessa frv. að taka af rannsóknaráði ríkisins talsvert af því verkefni, sem því samkv. gildandi l. er ætlað að hafa. Og ég fæ ekki séð, að það sé nokkur meining í því að setja þannig tvenn l., sem gert ráð fyrir, að það séu tveir aðilar, sem hafi þessi verkefni með höndum. — Hin l., sem mér finnst þetta frv. rekast á, eru l. um fjárhagsráð. En með þeim l. er búið þegar að taka fram fyrir hendurnar á rannsóknaráði ríkisins, þar sem það á nú ekkert að gera, að því er mér skilst, nema fjárhagsráð vilji, því að fjárhagsráð á að hafa yfirumsjón með því, að innflutningur til landsins og stofnun nýrra fyrirtækja í landinu sé í fullu samræmi við áætlun, sem það gerir um það, hvernig þjóðarbúskapnum sé bezt fyrir komið. Það segir sig sjálft, að ef sett er rannsóknaráð eða framleiðsluráð, sem hefði þau verkefni, sem frv. talar um að framleiðsluráð eigi að hafa, en ekki fengi svo að flytja inn þau efni, sem þyrfti, fyrir fjárhagsráði. sem væri þar eitthvað á öðrum línum, þá mundi þar koma fram „konflikt,“ svo að ekkert væri hægt að gera. — Við í minni hl. n. teljum, að það þurfi að skipa iðnaðarmálunum sterkari og starfsamari yfirstjórn heldur en nú er. Og vil ég í því sambandi benda á það, að þessi hugsun að skipa iðnaðarmálastjóra er ekki ný. Hún hefur komið fram áður. En að samþykkja ákvæði frv. að þessu lútandi er hið sama og að skapa fleiri en einn tígulkóng í sömu spilum, og þá er ekki víst hvernig fer.

Þess vegna er það okkar till., sem erum í minni hl. iðnn., að ríkisstj, taki þetta mál allt til meðferðar og láti endurskoða þetta frv. með hliðsjón og tilliti til þessara tveggja laga, sem ég hef nefnt, annars vegar l. um náttúrurannsóknir og hins vegar l. um fjárhagsráð og samræmi þetta þrennt þannig að ekki komi fram árekstrar, þegar á að fara að framkvæma öll þessi l. Ég gæti lesið upp gr. bæði úr l. um náttúrurannsóknir og úr l. um fjárhagsráð og svo gr. úr þessu frv., sem hér liggur fyrir, sem sýna, að öllum þeim aðilum. sem þessi þrenn ákvæði taka til er ætlað í raun og veru að vinna það sama verk. Og í því er ekkert vit. Þess vegna leggjum við til. að málið verði afgreitt með rökst. dagskrá. sem prentuð er á þskj. 349. — En eins og ég áðan sagði er þar vitnað í II. kafla í l. um náttúrurannsóknir, sem heitir „Um rannsóknaráð ríkisins,“ og í dagskrártill. er orðalagið þannig, að þessi kafli er nefndur lög um rannsóknaráð ríkisins, sem þyrfti að leiðrétta og setja þar í staðinn: lögum um náttúrurannsóknir. Ég vil leyfa mér að skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki mætti skoða það sem leiðréttingu að setja þarna inn „náttúrurannsóknir“ í staðinn fyrir „rannsóknaráð ríkisins“.

Ég get alveg búizt við því, að einhverjir segi, að ég sé að fjandskapast við iðnaðinn með afstöðu minni í málinu. En slíkt læt ég mér alveg í léttu rúmi liggja. Það eina, sem fyrir okkur vakir, sem viljum láta athuga þetta mál betur er að koma á þetta framtíðarskipulagi að vel athuguðu máli.