27.02.1948
Efri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2201)

38. mál, iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Ég skal undirstrika það, að ég tek rökst. dagskrána ekki sem neinn fjandskap við iðnaðinn. Ég læt mér yfirleitt ekki detta í hug, þó að menn hafi mismunandi skoðanir á málum, að það skapist af neinum fjandskap, svo að það var ekki ástæða til þess fyrir hv. þm., sem síðast talaði, að gera ráð fyrir neinu slíku frá mér.

Ég sný mér þá að því sem hv. 1. þm. N-M. færði fram sem aðalástæðu fyrir því að hann gæti ekki verið með þessu frv., að ákvæði þess gripu svo mikið inn í verksvið fjárhagsráðs annars vegar og hins vegar inn í verksvið rannsóknaráðs ríkisins. En ég vil spyrja þennan hv. þm. að því hvað það sé yfirleitt af lögum hér á landi nú, sem ekki grípa inn í verksvið fjárhagsráðs. Ég held að það gangi jafnvel svo langt að fjárl. sjálf grípi svo inn í verksvið fjárhagsráðs og geti skapað slíka árekstra við starfsemi fjárhagsráðs, að það sé alveg vafasamt, hvort Alþ. verður ekki að lúta vilja þessarar stóru og miklu stofnunar, sem fjárhagsráð er. (PZ: Það er ekki vafi á því, að það verður að gera það). Ef því 1. um fjárhagsráð standa óbreytt, þá verður erfitt að semja lög, sem ekki rekast eitthvað á ákvæði l. um fjárhagsráð. Ég býst jafnvel við, að það væri óhætt að afnema allt Búnaðarfélagið ef til vill, ef það ætti að ganga út frá því, að fyrirmæli í l. mætti ekki rekast á l. um fjárhagsráð, ef það vildi beita þeim til hins ýtrasta. — Að sjálfsögðu á þessi stofnun, framleiðsluráð, að starfrækjast í því fulla trausti, að samkomulag verði við fjárhagsráð um viturlegar framkvæmdir. Og ég er viss um, að ef árekstur yrði út af því að fjárhagsráð beitti um of sínu valdi eftir l. um það ráð hvort sem það væri viðvíkjandi afgreiðslu fjárlaga eða öðru, þá yrði sannarlega að breyta l. um fjárhagsráð, svo að þeir sem í því ráði væru. gætu ekki lagt dauða hönd á málefni og framkvæmdir í landinu. — Ég álít því þessa röksemd hv. 1. þm. N-M. ekki koma til greina. — Við skulum hugsa okkur t. d. raforkuráð. Ef þessi hugsun, sem hv. 1. þm. N-M. var með, ætti að ganga eins og rauður þráður í gegnum það, hvaða lagaákvæði ættu að gilda í landinu, hvort þau l. gripu að einhverju leyti inn í 1. um fjárhagsráð eða ekki, þá yrðu lagaákvæði um raforkuráð fremur hart úti, því að raforkuráð verður að gera till. um verklegar framkvæmdir á raforkumálasviðinu, og þessar till. verða allar að leggjast fyrir fjárhagsráð. Fjárhagsráð getur neitað um framkvæmd á þessum till. En ég er ekki viss um. að hv. 1. þm. N-M. vilji þrátt fyrir það afnema 1. um raforkuráð. Kannske hann vildi það? En ég veit þó, að meiri hl. hæstv. Alþ. vill ekki gera það. Nákvæmlega sama á að gilda um framleiðsluráð. — Ég tel því að þessi mótbára hv. 1. þm. N-M. hafi ekki við nein rök að styðjast.

Þá kem ég að því, hvort þetta frv. rekst á ákvæði laga um rannsóknaráð ríkisins. Hér er í brtt. frá meiri hl. n. gert ráð fyrir, að breytt verði orðalagi á frv. til þess að fyrirbyggja, að þessi skilningur verði á l., ef frv. verður samþ., enda er annars staðar tekið fram að samvinna eigi að vera ekki aðeins við þessa stofnun. heldur margar aðrar stofnanir landsins svo sem hagstofuna.

Ég verð að halda, að hv. frsm. minni hl. iðnn. hafi ekki kynnt sér frv. þó að hann sé búinn að hafa það til athugunar alllangan tíma. Verkefni iðnaðarmálastjóra á að vera tvíþætt samkv. frv. Í fyrsta lagi á hann samkv. 4. gr. að undirbúa till. og áætlanir um ný iðjuver. sem ríkissjóður lætur reisa eða leggur fram styrk til að koma upp svo og um endurbætur eða stækkanir iðjuvera, sem starfrækt eru af ríkissjóði eða hann styrkir með lánum, framlögum eða á annan hátt. Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hv. minni hl. n.: Hefði hann talið það alveg einskis virði að slíkur aðili hefði verið fyrir hendi, þegar verið var að undirbúa byggingu síldarverksmiðjanna á vegum ríkisins? Ætli það hefði ekki verið hægt að beina skeytum sínum til hans um sígandi lýsisgeyma, um fallandi geymslur o. fl., sem kostað hefur ríkissjóð milljónir? Ætli það hefði ekki verið meiri trygging fyrir því, að slíkar framkvæmdir hefðu verið vel undirbúnar; ef það hefði verið gert af manni, sem hefði haft eitthvert vit á þessum málum og ábyrgð gagnvart ríkissjóði, heldur en með því að afhenda þennan undirbúning sem aukavinnu til manna, sem voru, ef ekki fullkomlega hlaðnir störfum, þá áreiðanlega fullhlaðnir launum úr ríkissjóði fyrir ýmis störf? Ætli það hefði ekki verið réttara að fela þetta aðila, sem bæri ábyrgð gagnvart ríkissjóði á sinn hátt eins og húsameistari ríkisins ber ábyrgð á sínu sviði? (PZ: Ábyrgð hans er ekki mikils virði). Svo mikils virði þó, að ekki hefur þótt ástæða til að vilja honum úr embætti. Svo hefur hann verið verðlaunaður í fimm ár með 10 þús. kr. aukagreiðslu fyrir ákveðið verk. Og hvað sem út af fyrir sig má segja um verk húsameistara ríkisins, þá verður því ekki neitað, að húsameistari ríkisins hefur á þeim tíma, sem hann hefur starfað fyrir landið, gert mikið og unnið mörg verk, sem hefði kostað miklu meira að láta vinna, ef það hefði átt að kaupa þá vinnu út með öðrum hætti, enda þótt húsameistari sé sjálfsagt breyskur eins og við allir og ekki almáttugur. En ég álít miklu heppilegra að fela þetta manni, sem hefur það fyrir ákveðið lífsstarf, heldur en að fela það manni, sem annan daginn kannske blandar tóbak í nefið á þjóðinni og hleypur svo í annað starf og hefur svo mjög takmarkaða ábyrgð gagnvart þjóðinni.

Þar að auki er ætlazt til þess, að iðnaðarmálastjóri hafi yfirumsjón með öllum framkvæmdum viðkomandi iðjuverum fyrir hönd ríkisins. — Það gæti verið, að þetta ákvæði mundi fyrirbyggja það, að menn hefðu 6 stunda vinnu á sólarhring. — Þessi maður á enn fremur að veita bæjar- og sveitarfélögum og einstaklingum aðstoð viðkomandi sömu framkvæmdum eins og hann á að hafa yfirumsjón með fyrir hönd ríkisins. Einn einstaklingur, sem ekki hafði möguleika til að snúa sér til svona aðila, varð fyrir því óhappi, að sá maður sem hann sneri sér til, hafði gert þau mistök, sem kostuðu hlutaðeiganda hálfa millj. kr. á einu ári. — Ég hygg að það sé mjög mikil skammsýni að halda, að það fé sem færi í að launa svona embættismann, ef þetta yrði að l., margborgaði sig ekki fyrir þjóðina, þó að ekki væri vegna annars en þessa síðast talda þáttar af starfinu.

Svo er einn þáttur hinna sameiginlegu verkefna iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráðs að annast rannsóknir á skilyrðum til fullkominnar hagnýtingar á öllum þeim hráefnum, sem landið hefur yfir að ráða. Það má segja, að þetta sé að nokkru starf rannsóknaráðs. En eins og lagt er til að gr. þessari verði breytt, þá er ekki verið að taka þetta af rannsóknaráði, heldur miklu frekar að stuðla að því, að þetta verði gert í samráði við þann mann, sem á að bera ábyrgð á þessum málum öllum og hafa heildareftirlit um þessi mál í landinu. Þetta tel ég til bóta.

Síðan eiga iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð að gera árlega till. til ríkisstj. um heildartilhögun á sviði iðnaðarmála með það fyrir augum, sem tekið er fram hér í gr. En í sambandi við þetta bendi ég á, að að því leyti sem þetta snertir fjárhagsráð, þá held ég að þetta sé styrkur fyrir fjárhagsráð við störf, því að vitanlega yrðu þessar till. að fara til fjárhagsráðs, alveg eins og till. frá raforkuráði ganga nú til fjárhagsráðs, áður en þær eru samþ. af Alþ. Og ég vil benda á, að fjárhagsráð hefur þegar ákveðið að taka slíkan mann í sína þjónustu, án löggjafar og án nokkurrar ábyrgðar. Ég veit ekki betur en að fjárhagsráð hafi sett upp sérstaka deild til þess að vinna algerlega fyrir sig, einmitt um þessi mál, til að athuga, hvernig eðlilegast sé að skipta bæði byggingarefni og vinnuafli til bygginga. Ég átti síðast tal við þennan mann í morgun, og hann sagði, að það væri fullt starf fyrir sig að gera þetta, svo að ég sé ekki að það sé mikill aukakostnaður, sem yrði við það í þessu efni, þó að frv. væri samþ. En það veltur náttúrlega alveg á því, hve góður maður og hæfur væri valinn í stöðu iðnaðarmálastjóra, hvernig starfið væri leyst af hendi, alveg eins og gildir um t. d. búnaðarráðunauta. Í ráðunautarstarf getur valizt handónýtur maður. en hins vegar getur líka valizt í það maður, sem vinnur á við tvo eða kannske marga.

Eftir frv. ber iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráði að stuðla að umbótum á vinnslu og meðferð framleiðslunnar með því, sem sagt er í a-, b-. c. og d-liðum 3. gr. frv. Ég veit ekki til, að þetta heyri undir rannsóknaráð í dag. Ég held, að það geri það ekki, og ég álít, að þessi ákvæði kæmu ekki til með að rekast á ákvæði l. um rannsóknaráð ríkisins.

Ég hef haft náið samband við rannsóknaráð um samningu þessa frv., og þar hafa ekki komið fram þau sjónarmið, sem fram komu hjá hv. frsm. minni hl. n., nema síður sé. Þar að auki liggur hér fyrir umsögn frá ráðuneytinu. Og ég skora á hv. minni hl. n., ef hann getur, að benda á eitthvað, ef það finnst í þessari umsögn, sem styðji hans sjónarmið í málinu.

Samkv. 4. gr. frv. eiga iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð að stuðla að því, að ekki sé fluttur inn fullunninn varningur, ef unnt er og hagkvæmt að vinna hann hér á landi, heldur sé hann fluttur inn á því stigi, sem hann er ódýrastur, en þó hæfur til að vinnast að fullu í íslenzkum iðjuverum. Þetta eru verkefni, sem ekki heyra undir rannsóknaráð ríkisins á nokkurn veg. Og mér skilst, að þetta heyri ekki undir neina stofnun, nema ef það er innflutningsnefnd. En að sjálfsögðu hefði innflutningsnefnd alveg stórkostlegan styrk að því að hafa aðila eins og hér er gert ráð fyrir til ráðuneytis um þessi mál. Þessi þáttur starfsemi þessara aðila, sem frv. gerir ráð fyrir yrði einn veigamesti þátturinn í að skapa gjaldeyri fyrir landið ásamt því, ef hægt væri að selja okkar framleiðsluvörur sem mest unnar út úr landinu, að flytja inn í landið vörur, sem við þyrftum að borga sem minnst fyrir, til þess að geta unnið þær hér heima til fullnustu. — Ég er undrandi yfir því, ef hv. minni hl. iðnn. vill halda fram, að þetta heyri undir starfssviði rannsóknaráðs.

Í fimmta lagi eiga iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð eftir frv. að fylgjast með framleiðslu. eftirspurn og sölu á íslenzkum iðnaðarvörum á hverjum tíma, svo og með innflutningi á samskonar vörum, gæðum þeirra og verði. — Ég veit ekki til þess, að nein sérstök stofnun hafi með höndum að fylgjast með þessu, ekki heldur rannsóknaráð. — Og í sjötta lagi eiga þessir aðilar að vinna að aukinni hagnýtingu markaða fyrir íslenzkar iðnaðarvörur utan lands og innan. Ég veit ekki heldur til þess, að þetta heyri undir rannsóknaráð ríkisins.

Í sjöunda lagi eiga eftir frv. verkefni þessara aðila að vera að gera tillögur til ríkisstj. um ný iðjuver, sem hagkvæmt þykir að reist verði á kostnað ríkissjóðs. Ég hygg, að það sé ekki lítið verkefni að sjá um, að ekki verði flanað út í að reisa ný iðjuver að óathuguðu máli. En sannleikurinn er, að það hefur verið gert ákaflega mikið að því. Um það hafa ráðið sérhagsmunasjónarmið einstakra héraða, hvar settar hafa verið síldarverksmiðjur niður í landinu. Fleira má telja. Nú er reipdráttur um það, hvar setja beri upp fiskiðjuver í landinu. Og ég held, eftir því, sem fram hefur komið, að um það hvar hafi verið settar verksmiðjur, hafi ekki alltaf ráðið það sjónarmið, hvar hentugast væri að setja þessar stofnanir upp heldur hitt, hverjir hafa sótt það fastast að fá þetta sett upp hjá sér vegna sérhagsmuna héraðanna. — Ég vil leyfa mér að benda á að það er komið upp nú, sem einhvern tíma hefði þótt merkilegt mál, og það hefur verið mjög um talað, að ekki sé víst, að rétt sé að setja upp síldarverksmiðjur með þeim vélaútbúnaði sem nú er notaður, heldur taka upp allt aðrar og breyttar aðferðir. Það væri kannske ekkert lítið atriði í málinu, að maður væri eins og iðnaðarmálastjóri, sem hefði það fyrir lífsstarf m. a. að kynna sér hinar beztu aðferðir á þessu sviði og öðrum slíkum. Sannleikurinn er sá, að verkefnin eru svo margvísleg að enginn einn maður kemst yfir það, sem þessum aðilum er eftir frv. ætlað að inna af höndum. En hitt er annað mál, hvort ekki er hægt að byrja þetta starf með einum manni, en auka svo við starfsliði eftir því, sem þætti borga sig fyrir landið sjálft. En slíkt verður að vera undir mati Alþ. og ríkisstj. á hverjum tíma.

Enn fremur eiga þessir aðilar að hafa með höndum eftir frv. að gera till. um söluiðjuvera ríkisins, ef hagkvæmara þykir, að þau séu starfrækt af öðrum aðilum. Það má segja að þetta, að selja iðjuver ríkisins, heyri undir ráðuneytið á hverjum tíma. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að ráðuneytið hafi sérþekkingu á þessum málum, heldur yrði það að styðjast við till. þeirra manna, sem ráðh. á hverjum tíma velja til þess að segja álit sitt um þessi mál. Og ég álit heppilegra, að ákveðin stofnun og ákveðinn umboðsmaður hafi með það að gera að gera þessar till., heldur en að hafa það þannig að leitað sé í þessum efnum til einnar stofnunar í dag og annarrar á morgun. sem kannske hafa þá sérstakra pólitískra hagsmuna að gæta.

Svo á það eftir frv. að vera hlutverk iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráðs að athuga ársreikning og fjárhagsáætlanir iðjuvera ríkisins og gera till. til úrbóta, ef sýnt er, að fyrirtækin séu starfrækt með tapi. Mér finnst þetta ekki alveg einskis virði. Ekkert af þessu gerir rannsóknaráð ríkisins. Sé það nú t. d. raunverulega svo að þau stórkostlegu iðjuver sem síldarverksmiðjur ríkisins eru, séu rekin með tapi, og ef það skyldi nú vera þriðja árið, sem þær eru reknar með stórtapi, þá álít ég ekki ástæðulaust að gera gangskör að því að reyna að koma þeim í hagkvæmari rekstur. Reikningar þeirra benda til þess, að rekstri þeirra þyrfti að haga á annan hátt, af hverju sem það stafar. Ekki þarf að tala um landssmiðjuna. Hefði kannske ekki verið hagur að því að hún hefði verið undir sterkari stjórn heldur en verið hefur?

Ég tel algerlega röng rök hv. minni hl. n., sem hann færir fram til stuðnings því, að samþykkja beri rökst. dagskrána. og algerlega byggð á röngum forsendum. Ég vænti þess því. að hún verði felld, en frv. samþ.