17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Ég hafði nú flutt brtt. við þetta frv., en þeim hefur enn ekki verið útbýtt. En með leyfi hæstv. forseta mun ég eigi að síður tala um þær brtt., nema mér gefist þá tækifæri til þess síðar að mæla með brtt., eftir að þeim loks hefur verið útbýtt, því að það hefur enn ekki unnizt tími til að prenta þessar brtt. og útbýta þeim. Ég hefði kosið að breyta þessu frv. mjög verulega, eins og fram er komið áður, og hafði ég staðið að því, að hér væru fluttar um það brtt. En þær hafa verið felldar, og það virðist vera nokkurn veginn ráðið mál af stjórnarflokkunum að koma þessu máli í gegnum þingið þannig, að frv. verði aðeins í örfáum og litlum atriðum breytt. En ég vil þá freista þess enn þá nú við 3. umr. að fá nokkrar leiðréttingar á þeim ákvæðum í frv., sem alveg augljóst er, að eru þess eðlis, að þau eru mjög ósanngjörn og óeðlileg. Og það verður að fá það alveg fullprófað, hvort hv. þm. eru svo fast bundnir af samþykktum ríkisstj., að þeir fái ekki einu sinni gert á frv. mjög eðlilega lagfæringu.

Ein sú brtt., sem ég flyt nú, er um ákvæði í 14. gr. frv. Fyrri málsgr. þeirrar gr. gerir ráð fyrir því að fella niður þá undanþágu, sem sjómenn hafa notið á undanförnum árum í skattgreiðslu vegna þess hluta af launum þeirra, sem þeir hafa tekið sem áhættuþóknun. M.ö.o., hér er farið inn á þá braut að fella niður skattívilnanir, sem þessir aðilar hafa haft. Mér þætti ekki óeðlilegt, um leið og lagt er til að fella niður þessa skattívilnun, sem sjómenn hafa fengið af áhættuþóknuninni, að þá muni líka vera þingvilji fyrir því að afnema sérstakar skattívilnanir aðrar, sem aðilar hafa samkv. núgildandi skattal. Það er kunnugt, að hlutafélög, sem ekki hafa sjávarútveg með höndum sem aðalatvinnuveg, en reka verzlun eða þess háttar, fá nú að leggja 20% af nettótekjum sínum í varasjóð, án þess að sú upphæð komi til skattgreiðslu. Þetta eru sérstök skattfríðindi, sem þessir aðilar hafa fram yfir t.d. einstaklinga, sem sams konar rekstur hafa með höndum. Og við vitum, að það hefur sótt í það horf á undanförnum árum, að fleiri og fleiri hafa verið að reyna að nota sér þessa skattívilnun með því að breyta rekstri sínum, þótt ekki hafi verið nema að forminu til, í hlutafélagsform og ná sér þannig í þessa skattívilnun. Nú vildi ég fá úr því skorið, þegar á að afnema þessi skattfríðindi sjómanna í sambandi við áhættuþóknun, hvort þá væri ekki þingvilji fyrir að afnema sams konar skattívilnanir, sem gróðafélög hafa haft og hafa nú. Sjómenn, sem fengið hafa skattfríðindi í sambandi við áhættuþóknun sína, hafa fengið þá áhættuþóknun fyrir vinnu, sem þeir hafa innt af höndum, en hinir hafa tekjur sínar af gróðabralli, sem þeir hafa ekki lagt hönd sína að og ekkert unnið fyrir, en aðeins lagt fram nokkuð af fé sinn til þess að fá ágóða af því. Er það meiningin að skerða aðeins réttindi þeirra, sem vinna haki brotnu fyrir tekjum sínum, en að það megi alls ekki rýra þessi réttindi þeirra aðila„ sem ekkert hafa fyrir tekjum sínum? Um þetta atriði flyt ég því brtt. við 14. gr. frv., og mun þeirri brtt. verða útbýtt síðar hér á fundinum.

Þá flyt ég aðra brtt., einnig út af ákvæðum 14. gr. frv., en í síðari málsgr. þeirrar gr. er talað um, að forsjármenn heimila, eins og það er orðað, skuli njóta ákveðins skattfrádráttar, ef þeir vinna fjarri heimilum sínum. Þarna er gert ráð fyrir, að t.d. sjómenn, sem atvinnu stunda fjarri heimilum sínum, fái rétt til þess að draga nokkra upphæð frá tekjum sínum vegna fæðiskostnaðar síns, áður en skattur er á þær lagður, og sama er látið gilda um aðra, sem stunda atvinnu fjarri heimilum sínum. En þetta ákvæði er í frv. bundið við það, að viðkomandi skattþegn sé sem sagt forsjármaður heimilis. Mér þykir þetta ákaflega undarlega upp sett. Og í framkvæmdinni yrði þetta í raun og veru mjög ójafnt og óeðlilegt. Ég sé ekki ástæðu til þess, að sjómaður, sem stundar atvinnu fjarri heimili sínu, þó að hann sé ekki raunverulega forsjármaður heimilis, skuli ekki fá á sama hátt að draga frá tekjum sínum, áður en skattur er á þær lagður, maður, sem vinnur þó nákvæmlega sömu vinnu og undir sams konar kringumstæðum eins og et það er forsjármaður heimilis. Ég flyt því brtt. um það. að ákvæði þessarar gr. verði á þá lund, að þessara ívilnana skuli njóta allir þeir skattþegnar, sem vinna fjarri heimilum sínum, en ekki aðeins þeir, sem nefnast forsjármenn heimila.

Þriðja brtt., sem ég hef lagt fram, er við brtt. á þskj. 213, 5. lið í þeim brtt. En þar er nú ákveðið, að á „meðan ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins, sbr. 17.–20. gr., er í gildi, má ekki hækka vexti af rekstrarlánum útgerðarinnar frá því, sem nú er.“ Ég hef lagt til, að breytt verði þarna um þannig, að þetta ákvæði gildi ekki aðeins um rekstrarlán útgerðarinnar. heldur gildi þetta ákvæði um allar lánveitingar til útgerðarinnar. Það er sem sagt kunnugt, að útgerðin verður að taka lán til rekstrar síns oft. án þess að slík lán falli beint undir ákvæði um rekstrarlán. Og væri því alveg auðvelt — ef meiningin er sú á annað borð, eins og mér skilst. að hækka útlánsvexti í bönkunum — þá væri auðvelt að gera þetta ákvæði í 5. lið brtt. á 213 svo að segja haldlaust eða gagnslaust fyrir útveginn, ef leyft verður að hækka útlánsvexti bankanna á öllum öðrum lánum, sem til útvegsins eru veitt, heldur en rekstrarlánum, sem heita því nafni. Sé það í rauninni meiningin, að það eigi að tryggja útgerðinni það, að hún skuli ekki fá, meðan þessi ábyrgðarlög eru í gildi, vaxtahækkun á þeim lánum. sem hún verður að taka, þá er sjálfsagt að ákveða það á þá lund, að ekki verði þar undan smogið, sem sagt þannig, að þetta gildi um allar, lánveitingar til útgerðarinnar, en nái ekki aðeins til svo nefndra rekstrarlána.

Mér skilst það á þeim brtt., sem fluttar hafa verið nú hér við 3. umr. frá hv. meiri hl. fjhn., að hæstv. ríkisstj. hafi nú þegar eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, tekið nokkurt tillit til þess, sem fram hefur komið hér í umr. frá hálfu stjórnarandstöðunnar. Hæstv. ríkisstj. er, eins og ég spáði hér fyrr í umr., smátt og smátt að verða það ljósara, að þær till., sem hún hefur flutt í upphafi í frv. um dýrtíðarráðstafanir, eru ófullnægjandi og munu ekki koma að því gagni, sem ætlazt er til. Þær geta ekki tryggt áframhaldandi rekstur útvegsins á komandi ári. Því er horfið hér að því að bæta nokkuð um, taka upp nokkur ákvæði, sem stjórnarandstaðan hefur bent á hér í umr. og gera hér nokkra bót á. En það er alveg víst, að enn þá verður hæstv. ríkisstj. að læra meira og betur í þessu máli, ef lausn þess á að verða á þá lund, að að gagni komi, því að þessar breyt., sem er að finna till. um á þskj. 213, eru enn alveg ófullnægjandi. Það er að vísu hægt að samþykkja frv. í þessu formi, og alþm. geta farið heim og tekið sitt jólafrí. En hitt er víst, að útgerðin verður ekki rekin eftir áramótin af neinum teljandi krafti, ef á að afgreiða málið eins og hér er gert ráð fyrir. Það er ég alveg fullviss um.

Fyrsta brtt. á þskj., 213 gerir ráð fyrir því, að þeim tekjum, sem inn koma vegna skatts af ákvæðum II. kafla frv., eignaraukaskattsins, skuli skipta á milli framkvæmdasjóðs að jöfnu og afla- og hlutatryggingasjóðs fyrir bátaútveginn, ef slíkur sjóður verður stofnaður. — Í fyrsta lagi vil ég um þennan lið brtt. segja: Hvers vegna er orðalag þessarar brtt. eins og raun er á? Hvernig stendur á, að hér er höfð hálfkveðin vísa ? — Það er talað um, að helmingurinn af þessum skatti skuli renna í sjóð, ef hann verður stofnaður. Hvers vegna má ekki ákveða hreinlega, að þessi sjóður skuli stofnaður og að þetta fé skuli í hann leggjast? Það virðist einfalt mál að ákveða það, ef það er meiningin, að þessi sjóður skuli vera stofnaður og að fé skuli í hann leggjast, en ekki að segja: „Nú verður stofnaður afla- og hlutatryggingasjóður fyrir bátaútveginn“ og þá skal leggja í hann helminginn af þessum tekjum. Það hefur verið til umr. í nokkur ár að stofna til slíkrar tryggingar, en það hefur ekki komizt í gegn. En eins og þetta er orðað hér, er hér ekki um nema málamyndaloforð að ræða, nema skýlaus yfirlýsing verði gefin frá hæstv. ríkisstj. um það, að svona stofnun skuli verða sett á fót. og að öðru leyti yfirlýsing um, að helmingur af tekjum samkv. II. kafla frv. verði látinn renna til þessa tryggingasjóðs. — En eigi að síður verður maður að segja, að þessi 1. brtt. er þó í rétta átt og til bóta.

3. brtt. á þskj. 213 er verulega til bóta. Það er alveg rétt. Hún miðar að því að bæta talsvert hag þeirra, sem að sjávarútvegi vinna. og mundi tryggja það mun betur en ákvæði frv. gera, að einhverjir aðilar fengjust til að taka fiskinn til verkunar af bátunum og tryggja á þann hátt afsetningu aflans. Og þar álít ég, að hæstv. ríkisstj. hafi látið undan í einna ríkustum mæli í sambandi við þetta mál, því að ákvæði 3. brtt. eru til talsvert mikilla bóta fyrir útveginn.

4. brtt. á þessu sama þskj. er orðrétt sú breyt., sem ég og hv. þm. Siglf. höfðum þegar flutt við 2. umr. þessa máls, svo að það var í raun og veru óþarft að taka þessa brtt. upp, því að hún er orðrétt eins og sú brtt., sem hér lá fyrir við frv. Og það hefði ekki verið nema ofur eðlilegt, að n. hefði séð sér fært að samþykkja þessa brtt., sem lá fyrir, í stað þess að flytja nákvæmlega sams konar brtt., eftir að búið var að sannfæra stjórnina alla um það, að þetta frv. væri óviðunandi og þyrfti að breyta á þá lund, sem við lögðum til. En hvað um það. Það er strax til bóta, að þeir hafa sannfærzt um þetta og vilja breyta í þessu efni.

5. brtt. á þessu þskj. á svo að vera til bóta fyrir útveginn, en er það í raun og veru ekki á neinn hátt. Krafa útvegsins hefur verið í þessu efni sú hin sama sem fram hefur komið í brtt. okkar hér í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að vextir til útgerðarinnar yrðu lækkaðir allverulega frá því, sem nú er. Þessi krafa okkar hefur verið rökstudd með því, að það er ljóst, að þeir aðilar, sem lána útveginum, hafa góða aðstöðu til að lækka vextina. Bankarnir hafa grætt stórfé á því að lána til útvegsins. Landsbankinn græddi þannig 14.2 millj. nýlega yfir árið og hálfu meira árið áður, svo að hann hefur fullkomlega ástæður til þess að lækka nokkuð útlánsvaxtatekjur sínar. En í staðinn fyrir að verða við þessari réttlátu beiðni og sjálfsögðu kröfu, þá er hér flutt till. þess efnis, að bankarnir megi nú ekki hækka vextina. Það er allt og sumt, að þeir mættu ekki hækka vextina, og þó er þar aðeins miðað við rekstrarlán til sjávarútvegsins. Samkvæmt þessari brtt. mega bankarnir hækka vexti af öllum öðrum lánum til útvegsins. Það er kunnugt, að bankarnir hafa þegar ákveðið að hækka útlánsvexti til minna frá því, sem nú er. Og útvegurinn má því búast við því, að vaxtaútgjöld hans verði enn þyngri á komandi árum en þau hafa verið. Það hefur þó mjakazt í gegn, að þetta yrði samþ. í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að bankarnir mættu þó ekki hækka vexti af rekstrarlánum til útvegsins. En það virðist nú — svo vera, að það þýði ekki um það mál frekar að tala. Það verður sennilega ekki hægt að sanna hæstv. ríkisstj. það og forsvarsmönnum hennar hér á Alþ., að það sé nauðsynlegt og réttlátt að lækka nokkuð vextina, sem nú hvíla á útgerðinni. Sú sönnun verður líklega að fást í gegnum reynslu. Líklega verður hún að koma á þann hátt fram, að þeir fái að þreifa á því í framkvæmdinni, að útgerðin verði ekki rekin nema með hálfu afli. m.a. vegna þess, að því ákvæði hefur ekki fengizt framfylgt að létta vaxtabyrðinni af rekstrinum. Það er alveg staðreynd, sem hér hefur verið bent á og ekki hefur verið reynt að mótmæla af neinum, að það liggja fyrir reikningar frá frystihúsi, sem greiddi 300 þús. kr. í vinnulaun, og þetta sama frystihús greiddi á sama ári 100 þús. kr. í vexti. Vaxtabyrðin, sem þannig hvílir á rekstri sjávarútvegsins, er gífurlega mikil, og það mundi því muna mjög miklu fyrir reksturinn, ef þessari vaxtabyrði yrði að nokkru af létt. En það virðist vera svo, að það sé ekki enn runnið upp fyrir hæstv. ríkisstj., að nauðsynlegt að að létta nokkuð á þessari byrði. Og verður þá svo að fara, að frv. verði þannig afgr., sem nú er ætlazt til, en ríkisstj. fái hins vegar að þreifa á afleiðingunum af því síðar.

Það er augljóst, að ef frv. er afgr. í því formi, sem það er nú, og það virðist vera meining hæstv. stjórnar, þá hlýtur bátaútvegurinn og frystihúsin að búa við mun lakari starfsskilyrði fjárhagslega næsta ár en þessir aðilar hafa búið við á yfirstandandi ári. Þó er kunnugt, að þessir aðilar hafa mjög kvartað og það með réttu yfir, að fjárhagsleg útkoma þeirra hafi verið erfið á s.l. ári. En sem sagt, þegar Alþ. og ríkisstj. hafa tekið sig til að setja löggjöf til stuðnings útgerðinni. til viðreisnar þessum atvinnuvegi, þá er síður en svo bætt fyrir þeim rekstri frá því, sem verið hefur. Hins vegar eru sett ákvæði, sem greiða fyrir öðrum atvinnuvegum. Landbúnaðurinn fær stórfelldar umbætur frá því, sem hann hafði við að búa í fyrra og á yfirstandandi ári, því er ekki hægt að mótmæla. Í 21. gr. er ákvæði, sem tryggir landbúnaðinum á næsta ári a.m.k. 9–10 millj. kr. Þetta er staðreynd. M.ö.o., þegar hæstv. stjórn tók sig til að setja löggjöf til stuðnings sjávarútveginum, þá fær hann ekkert út úr því. Honum er sagt: Það vantar peninga í kassann, það er ekkert eftir handa þér. Samt er hægt að koma með till. um að borga með útfluttu kjöti 9–10 millj. kr. til viðbótar við það, sem nú er. Það geta vel orðið 12 millj. kr., ef útflutningurinn vex. Það kann vel að fara svo, að útflutningurinn aukist. Reynslan hefur sýnt, að þegar trygging liggur fyrir, að ríkissjóður ætli að borga verðuppbót til bændanna á útflutt kjöt, þá hefur krafan verið sífellt sú, að meira væri flutt út, un minni áherzla verið lögð á það að selja á innlendum markaði. Þessi uppbótargreiðsla gæti því leitt til þess, að meira væri flutt út og öll uppbótargreiðslan orðið 12 millj. kr. Svo koma ákvæði í 22. gr., sem veita stjórninni heimild til að taka þær framleiðsluvörur sjávarútvegsins, sem betur seljast eða seljast tiltölulega háu verði, og hnýta þær að meira og minna leyti saman við allar aðrar framleiðsluvörur, og þar eru ekki undanleknar framleiðsluvörur landbúnaðarins, sem fluttar eru úr landinu, og láta verðmiðlun fara þar fram á beinan eða óbeinan hátt. Samkv. þessari gr. frá., 22. gr., hefur stjórnin heimild til að binda þetta þannig saman, að útkoman verði sem bezt fyrir þjóðarheildina, eins og það er orðað. M.ö.o., ef einhver þjóð spyr eftir íslenzkum framleiðsluvörum, t.d. lýsi, og býður fyrir þær hátt verð, þá hefur stjórnin heimild til samkv. frv. að selja með þessum vörum ull, gærur, kjöt og annað þess háttar, ef hægt er að búast. við, að með þessum hætti sé hægt að fá hæst heildarverð fyrir þessar vörur til landsins. Ef litið er á fengna reynslu, þá getur þetta hæglega orðið til þess að lækka verð á framleiðsluvörum sjávarútvegsins, til þess að hægt sé að koma út lítt eftirspurðum vörum, eins og ýmsum útflutningsvörum landbúnaðarins, með tiltölulega hagstæðu verði. Það eru allar líkur til, að þetta verði framkvæmt þannig, að það verði útveginum til fjárhagslegs tjóns, en landbúnaðinum til verulegra hagsbóta. Yfirleitt virðist mér þetta frv. vera þannig, að það tryggi landbúnaðinum verulegar bætur og það jafnvel beinlínis á kostnað sjávarútvegsins. Svo er þetta kallað ráðstafanir til að tryggja rekstur útvegsins. Það kann vel að vera, að landbúnaðurinn þurfi að fá einhverjar uppbætur frá því, sem hann hefur nú, en mér finnst miklu hreinlegra og eðlilegra að láta það koma skýrt fram, að þessar ráðstafanir, sem hér er verið að gera, séu gerðar til að bæta bændum upp verulega það verð, sem þeir fá nú fyrir framleiðslu sína, enda er hér gert ráð fyrir, að þeim verði greiddar 9–10 millj. til viðbótar við það, sem þeir geta fengið fyrir útfluttar vörur. Það hefur verið reynt að halda fram, að vegna þess að í þessu frv. er veitt ábyrgð á framleiðsluvörum bátaútvegsins, því að ríkið tekur að sér að ábyrgjast ákveðið verð fyrir bátaútveginn, þá sé líka réttmætt að veita landbúnaðinum sams konar ábyrgð. Ég hef bent á, að allar líkur bendi til þess, að ríkissjóður þurfi ekki að taka á sig neinar greiðslur vegna ábyrgðar á fiskverðinu. Hins vegar vita allir, að ábyrgð í sambandi við útflutt kjöt þýðir sama og bein fjárgreiðsla. Við vitum, að það verður ekki hægt að fá meira en kr. 4.50 fyrir kg af útfluttu kjöti, þó að innanlands sé það selt á 10–11 kr., og að samþ. um að verðbæta útflutt kjöt upp í innanlandsverð er sama og bein og ákveðin fjárgreiðsla.

Til þess að mæta þessu sjónarmiði hef ég flutt till. um, að landbúnaðurinn skuli fá samsvarandi hlutfallslega greiðslu úr ríkissjóði fyrir útflutt kjöt og aðrar afurðir eins og sjávarútvegurinn kemur til með að fá samkv. þessum l. M.ö.o.. fari svo, eins og ég álít, að ríkissjóður þurfi ekki að greiða neitt með útfluttum sjávarútvegsvörum, þá fær kjötframleiðslan ekki heldur neina greiðslu úr ríkissjóði. En fari svo, að verðbæta þurfi útfluttar sjávarafurðir, t.d. 10%, til þess að komast upp í fullt ábyrgðarverð, þá verði útflutt kjöt verðbætt með 10%, miðað við erlent markaðsverð, og þá standa báðir aðilarnir jafnt að vígi og fá báðir sams konar fríðindi úr ríkissjóði. Fari svo, að þessi till. verði felld, þá sýnir það, að hér er ekki um það að ræða að setja ákvæði til styrktar útveginum, heldur um að setja lagakafla um að greiða kjötframleiðslunni ákveðna upphæð úr ríkissjóði vegna útflutts kjöts og hækka verðið á kjötframleiðslunni frá því, sem verið hefur. Þetta á að gera undir því yfirskini, að verið sé að hjálpa sjávarútveginum, enda er kjötuppbótin ákveðin í kafla, sem heitir: Um ríkisábyrgð til bátaútvegsins.

Nei, það er augljóst mál, eins og ég hef bent á áður, að þrátt fyrir samþykkt þessa frv., eins og það liggur fyrir frá ríkisstj. hálfu, verður rekstraraðstaða bátaútvegsins fjarri því að verða þannig, að hún geti gengið af fullum krafti. Ég vil því enn einu sinni skora á hæstv. ríkisstj. að endurskoða afstöðu sína til þessa máls og bæta enn við nokkrum af þeim till., sem Sósfl. hefur flutt áður, taka upp enn fleiri till. frá okkur. Hún hefur tekið ákvæðið um 65 aura lágmarksverð, sem hún fussaði lengi við og taldi óhæfu að samþykkja. Síðar sannfærðust þeir um, að rétt væri og sjálfsagt að ganga inn á þessa till., og nokkrar fleiri till. frá okkur hafa þeir tekið upp. Það er gott, það sem það nær, en þó verða þeir að ganga inn á enn fleiri till. frá okkur, ef þeir vilja tryggja, að útgerðin geti gengið af fullum krafti á komandi ári.

Svo hef ég ekki fleira um málið að segja að sinni. Það virðist þýðingarlítið að ræða þetta frekar. Það virðist, að búið sé að binda hendur manna svo mjög, að ekki sé von til, að fást muni nein af þeim leiðréttingum, sem nauðsynlega þarf að gera á þessu frv.