22.03.1948
Efri deild: 84. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

115. mál, þurrkví við Elliðaárvog

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. — Eins og hv. þdm. muna, var á fyrri hluta þessa þings samþ. þáltill., sem heimilaði ríkisstj. að taka lán fyrir Slippfélagið til þess að koma upp slipp hér í bænum. Þessi ábyrgðarheimild hefur verið notuð og er óhætt að fullyrða, að þessi slippur, sem verið er að byggja í Vesturbænum, verði fullgerður á næsta sumri. Þegar hann er kominn upp, má segja, að bætt sé úr brýnni þörf fyrir skipaflota landsmanna, þó að það sé hvergi nærri að öllu leyti. Þessi slippur er ekki stærri en það, að honum er ekki ætlað að taka stærri skip en 1500 smálesta, og er þar með sæmilega séð fyrir þörfum togaranna í þessum efnum. En hins vegar eru mörg skip okkar, sem munu þurfa sams konar þjónustu og togararnir, og þeim skipum mun fjölga mjög á næstu mánuðum og árum. Ný skip, sem Eimskipafélagið og fleiri hafa fest kaup á, eru öll stærri en svo að slippurinn í Vesturbænum geti tekið þau upp. — Í frv. á þskj. 183 er lagt til, að ríkissjóður láti að loknum nauðsynlegum undirbúningi byggja og starfrækja á sinn kostnað þurrkví við Elliðaárvog, ásamt nauðsynlegum skjólgörðum, bryggjum, vélum og áhöldum, og er ætlazt til, að þurrkvíin verði svo stór, að hún geti tekið a. m. k. 6000 smálesta skip.

Sjútvn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, og ég hygg, að óhætt sé að segja, að nm. séu allir sammála um, að stefna beri að því, að þurrkví eigi að koma upp hér á landi. Hins vegar eru flestir nm. þeirrar skoðunar, að mál þetta sé enn ekki svo vel undirbúið, að rétt sé að setja strax um það löggjöf. Í frv. er svo ráð fyrir gert, að þurrkvíin verði sett inn við Elliðaárvog, og er það álit manna, að með því að hafa hana þar muni ekki hægt að starfrækja geðveikrahælið á Kleppi, þar sem það nú er, og mundi þurfa að flytja það. Ef til þess kemur, þá hefur sjúkrahúsið illu heilli verið stækkað mjög mikið nýlega. Þar með er þó ekki sagt, að byggingarnar þarna væru ónothæfar, en vitanlega þyrfti að breyta þeim mjög mikið. Enn þá hefur engin áætlun verið um þetta gerð, en vitað er, að geysikostnaðarsamt yrði að flytja þetta mikla hæli, og hlypi sá kostnaður vafalaust á mörgum millj. króna. Af þessum sökum þótti n. rétt að athuga, hvort ekki mundi hægt að finna annan hentugan stað fyrir þurrkvína, til þess að forðast þennan kostnað.

Enn er órannsakað, hvort hægt er að fá nægilegt fé til þessara framkvæmda og vafamál, hvort l. um þetta mundu nokkuð flýta fyrir málinu. Kostnaðaráætlanir, sem gerðar hafa verið, eru tæplega svo fullkomnar, að ekki þurfi að fara nánar yfir þær. Allt þetta hefur orðið til þess, að sjútvn. hefur orðið sammála um að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, en hana er að finna á þskj. 533. Ég vil taka það fram, að orsökin til þess að n. leggur til, að málið sé afgr. þannig, er ekki sú, að hún telji frv. á þskj. 183 vitlaust, heldur aðeins það, að hún álítur, að það sé ekki tímabært.

Ég hef svo ekki fleiru við þetta að bæta, en legg til, að málið verði afgr. með áðurnefndri rökst. dagskrá.