17.12.1947
Neðri deild: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er, ef svo mætti segja, aukin og endurbætt útgáfa af svipuðu frv., sem var til umr. hér í þinginu aðallega eina kvöldstund fyrir ári síðan. Aðalhöfundur þess frv. og þar með líka þessa frv. er hv. þm. Siglf., sem þá var atvmrh. Það spor, sem þá var stigið ettir nokkurt hik, er ákaflega merkilegt í sögu okkar. Vil ég því við þessa lokaumr. segja nokkur orð um þetta frv., af því að nú er lagt til að halda þessari nýjung áfram, sem er eins konar brú yfir það ástand, sem nú varir, en væntanlega verður ekki til frambúðar. eftir því sem horfur eru í heiminum.

Það hefur oft verið tekið fram, bæði af skáldum og öðrum mönnum, að Ísland sé land mótsetninganna. Annars vegar eldur logandi undir fjöllunum, hins vegar jökuldyngjur og jökulhvelfingar yfir eldinum. Einu sinni fyrir tuttugu árum síðan lagði kunnur danskur stjórnmálamaður út af því, að svona væri landið og svona vær í þjóðin, og færði þar til þessi rök, sem ég þarf ekki að endurtaka hér. hetta er rétt. Það er eðlilegt, að þjóðin neri einhver merki þessarar náttúru lands síns.

Þessar sömu andstæður elds og ísa voru í fjármálaástandi okkar eftir stríðslokin. Nægir þar að benda á eitt atriði, greiðslugetuna við útlönd. Þegar Þjóðverjar gáfust upp, voru Íslendingar tiltölulega ríkasta þjóð veraldar. Þeir áttu 600 millj. kr. í sterlingspundum og dollurum. Er það svo mikil upphæð, að ekki er vitað, að nokkur þjóð önnur hafi haft slíkt fé handbært, miðað við fólksfjölda sinn. En nú um það bil, sem frv. er lagt fram, þá hitti ég af tilviljun mann, sem mikið fæst við skógrækt. Hann sagðist hafa fengið um 100 plöntur frá Noregi í tilraunaskyni nú í sumar. Ég hef af tilviljun fylgzt með þessu og þekki það vel. Hann fékk þessar plöntur út úr tollinum með hálfgerðum vélum, því að hann fékk ekki gjaldeyri til að borga þær fyrr en nú í fyrradag, þá fékk hann loks gjaldeyri til að greiða þessar 100 plöntur. Þetta er ekkert einsdæmi, heldur eitt dæmi af mörgum. að við, sem áttum 600 millj. kr. í erlendum gjaldeyri fyrir tiltölulega fáum mánuðum, stöndum nú í margra mánaða vanskilum fyrir andvirði 100 plantna. sem fengnar eru frá Noregi í tilraunaskyni. (ÓTh: Það eru nógar plöntur til á Íslandi.) Það eru öðruvísi plöntur. Um það má deila, hvort við, þurfum mikinn skóg, en hvað sem því líður, þá er þessi upphæð svo lítil, að það sýnir okkur bezt, hvernig komið er, að við skulum þurfa að láta standa á greiðslunni.

Þessi mikla breyt., sem orðið hefur á svo stuttum tíma, stafar af því, að í þessu landi hafa, eins og víða annars staðar, verið uppi tvær stefnur, gerólíkar lífsskoðanir, byltingarstefna og þróunarstefna, austræn kúgun og vestrænt frelsi. Og það hefur ljóslega komið fram, að austrið og vestrið er ekki hæft til að vinna saman. Austrið lokar sér eftir sínum reglum og vill eyðileggja vestrið, og vestrið er nú farið að sjá, að sú samleið, sem það lengi vonaði, að það gæti átt með austrinn, er ekki til.

Ástæðan til þess, að þetta ástand er hér á landi, er ekki aðeins þetta undarlega ástand gjaldeyrismálanna, heldur það, sem er öllu einkennilegra, en það er það, sem þetta frv. gengur út á, að það er búið að koma atvinnu- og framleiðslumálum Íslendinga svo fyrir, að við, sem erum í ýmiss konar störfum, mismunandi þörfum, við erum komnir á svo hátt kaup, að atvinnuvegir landsins geta ekki þolað það. Á Vesturlöndum er það sá heilbrigði vettvangur, að atvinnuvegirnir gangi sinn gang, þeir verði að bera sig, og það, sem þjóðin fær fyrir afurðir sínar, gangi fyrst og fremst til að halda atvinnu í landinu og gangi í skatta til þess að launa störf annarra manna. En í staðinn fyrir þetta fyrirkomulag hefur nú verið farin önnur leið. Nú á framleiðslan að fá miklar tekjur, sem tilheyra ekki henni sjálfri. Þær eru teknar af okkur og greiddar sem útflutningsverðlaun fyrir framleiðsluna. Eitthvað er bogið við það, þegar gefa þarf fé með atvinnuvegunum, sem eiga að bera uppi þjóðfélagið fjárhagslega.

Við getum hugsað okkur þrjú lönd, í fyrsta lagi t.d. Bandaríkin, að þau hefðu tekið upp þá háttu að greiða stórkostleg útflutningsverðlaun, t.d. 20–30%, fyrir bíla, en þeir eru ein stærsta framleiðsluvara þeirra, eða England væri að verðbæta útflutt kol eða Noregur færi að styrkja sinn mikla skipaflota til að sigla um heimshöfin. Þetta dettur engum í hug, heldur þvert á móti í þessum efnum, og alls staðar annars staðar í heilbrigðum þjóðfélögum fær framleiðslan sínar tekjur og borgar sínum mönnum, og þjóðfélagið fær, eftir því sem framleiðslan þolir, til sinna þarfa. Hver er ástæðan til þess, að við erum komnir í þessa öfugu aðstöðu að þurfa að gefa með atvinnuvegunum og taka hið frjálsa framtak af þeim? Það vitum við allir, að þegar svo er komið, að hver mótorbátseigandi veit, að hann fær upp borið frá einhverjum óþekktum mönnum geysimikið af því, sem útgerð hans kostar, þá hefur hann ekki þá sömu hvöt og alltaf hefur verið í vestrænu þjóðfélagi til að láta atvinnureksturinn bera sig. Ástæðan er sú, að við höfum vestrænt stjórnarfar og hér á Alþ. eru 42 af 52 þm., sem telja sig fylgja vestrænn skipulagi, en 10, sem fylgja því austræna. En fyrir rás viðburðanna hefur farið svo, að menn hafa ekki áttað sig betur en það á málunum, að þessir 10 hafa ráðið. Það eru þeir, sem hafa ráðið því að eyða gjaldeyrinum. Þeir vilja gera það og segjast vilja gera það, fara ekki í launkofa með það. Þeir unnu að því í fyrra og komu því fram að skattleggja landsfólkið, til þess að von væri til, að hægt væri að halda framleiðslunni gangandi. Það væri ekki úr vegi að minna á þetta undarlega atvik, sem kom fyrir í fyrra, sem ég tel svo merkilegt, að þar séu tímaskipti í sögu okkar, þegar hv. þm. Siglf. kemur með frv. um að greiða uppbætur til útgerðarinnar. Fyrst þegar hann kemur með það, kom mönnum þetta dálítið spánskt fyrir, og féllu hörð orð um það. En svo líður ekki nema stutt stund, þar til þetta er samþ. af öllu þinginu að mér undanskildum og svo hæstv. fjmrh., sem sat hjá. Í stuttu máli, það eru ekki aðeins kommúnistar, heldur ganga svo að segja allir hinir borgaralegu þm. inn á þessa stefnu. Þetta hefur ekki fyrr tíðkazt, þar sem vestrænt skipulag ríkir, en í öðrum herbúðum hefur það átt sér stað, þar sem hið austræna skipulag á sér stað. Við vitum, að Rússar fara ekki dult með það, að þeir fara eftir kenningum Marx, Lenins, Trotzky og Stalíns. Þar ríkir kommúnistaskipulag, sem gerir ráð fyrir, að allar eigur séu teknar af borgurunum og sett upp skipulag, þar sem vestrænt atvinnuskipulag getur ekki þrifizt. Það er það merkilega, að þetta hafa leiðtogarnir ekki komið auga á, og það er næstum eins og maður efist um vitsmuni vestrænna manna, að þessu hafa þeir ekki viljað trúa, en sjá. það nú svart á hvítu í hruni hverrar þeirrar þjóðar, sem Rússar hafa lagt undir sig á síðustu mánuðunum.

Við erum nú svo undarlega staddir hér á Íslandi, að við höfum vestrænt þjóðskipulag og höfum hér á þingi geysisterkan meiri hluta, 42 menn, og 6 manna ríkisstj., hvort tveggja valið lið, en til andstöðu og til eyðileggingar eru aðeins 10 menn og það engin sérstök stórmenni. En það er ekki annað hægt en að viðurkenna vissa hæfileika hjá þeim, hvernig sem þeir eru til komnir, því að þessir 42 þm. og 6 ráðh. hafa tekið þann kostinn að láta þessa 10 kommúnista ráða. Eins var það, þegar þing kom saman í haust, þá kallaði hæstv. ríkisstj. saman nokkurs konar þing, einn mann frá hverri stétt, til þess að finna þar leið út úr þeim vanda, sem fyrir hendi var. Svo kemur þetta þing saman, og þar var einn kommúnisti, einn þm., sá, sem talaði hér síðast. Niðurstaðan verður sú, að þessi eini kommúnisti gengur milli manna og býður þeim mjög elskulega eins konar fóstbræðralag, öllum, sem vilji steypa stjórninni og setja upp aðra betri. Allt gekk þetta eins og þegar slægir eiga við saklausa, að þingið leystist upp og ekkert ráð fannst þar til að setja niður dýrtíðina.

Eftir þetta misheppnaða stéttaþing buðu kommúnistar út her og héldu fundi, og á hverju kvöldi komu fréttir frá þessum fundum. Ég hef enga aðstöðu til að meta, hvað þeir unnu á. Þeir komu þar með stór orð og eitthvað af austrænum rökum. En það, sem er klárt, er það, að hér í Rvík voru hinir 42 stuðningsmenn stjórnarinnar engu lakari en þessir 10 — ég vil ekki gera upp á milli, en mismunurinn er ekki mikill, þar að auki hefur stjórnarliðið mörg stór blöð — en þeir sátu heima. Ef þessir borgarar hefðu verið klárir yfir því, sem var að gerast, að ekki var hægt að sameina austrið og vestrið, sbr. árangurinn af fjögurra ráðh. fundinum, sem nýlega endaði í Lundúnum, þá hefði stjórnin sagt: Nú skiptum við okkur út á landið, höldum stóra fundi og tölum við fólkið og segjum því satt um það, hvernig þetta er, að þetta gengur ekki svona. Það væri hægt að segja, hvað vísitalan er há í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, þar sem hún er miklu lægri en hér. Og það væri hægt að segja fólkinu, að verkamannastjórnin í Noregi með stuðningi borgaranna berjist af öllu afli fyrir því að halda dýrtíðinni og vísitölunni í skefjum. Það væri rétt að segja þjóðinni, að Norðmenn séu á undan okkur að rétta við og einnig Svíar. Ég mundi ekki hika við að segja við þá menn, sem hafa kosið mig á þing: Mjólkin í Svíþjóð er 50 íslenzkir aurar, en hjá okkur nærri 2 kr. og veitir ekki af vegna þess, hve dýrtíðin er mikil. Við verðum að þola að horfast í augu við það, að nágrannar okkar og keppinautar hafa annað lag hjá sér en við hjá okkur. Við getum kannske flotið um tíma, t.d. hálft ár eða eitt ár, með því að stinga höfðinu ofan í sandinn eins og strúturinn, en okkur getur ekki orðið stætt á þessu til lengdar.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að minnast á till., sem ég bar fram í fyrra, en var grafin í n. Till. þessi var um það, að afla skyldi gegnum sendisveitirnar í Osló og Lundúnum glöggrar vitneskju um framleiðslukostnað, laun og húsaleigu í þessum löndum og gefa út skýrsluform handa okkur með hliðsjón af því, hvernig okkar ástand er. — Allshn. Sþ. afgreiddi þetta með rökst. dagskrá, sem gekk í þá átt að vísa till. til ríkisstj., að hún skyldi afla þeirra upplýsinga, sem þyrfti, og þm. fengju að kynna sér þær. Það er furðulegt, að slíkt skyldi koma fyrir, og sýnir, að þessi hópur, sem styður stjórnina og ber ábyrgð á stjórnarfarinu, treystir sér ekki til og vill ekki tá vitneskju um það, sem gerist í löndunum kringum okkur, heldur vill stinga höfðinu í sandinn eins og strúturinn til þess að sjá ekki hættuna.

Ég hef verið í 25 ár á þingi, og ég get borið um það, að mér finnst mannfólkið nú álíka og fyrir 25 árum, þegar ég kom hingað í þingsalinn, hvorki betra né verra. (ÓTh: Jú, hv. þm. S-Þ. hefur farið mikið fram á þessum tíma.) Það er þá a.m.k. svo lítil breyting, að hún hefur enga þýðingu fyrir heildarútkomuna. Í þann tíma var þingið í 12 vikur, og var þá strax byrjað að vinna að fjárl., og það gekk svona eins og þegar verið er að draga síldina upp úr Hvalfirðinum nú. En í fyrra sátum við í O mánuði yfir fjárl., þegar þau voru búin hjá hv. þm. Barð., varð að gera á þeim þá allsherjar klásúlu, að stjórnin þyrfti ekki að fara eftir þeim nema að litlu leyti. Og nú er þetta þing búið að sitja í 10 vikur og ekkert búið að gera, því að þetta frv. nú er hlekkurinn, sem vantaði. Þegar fjárlfrv. var loksins lagt fram, var það bara form, sem ekkert var að marka. Nú er komið að jólum. Þm., sem ekki eiga hér heima, fara heim, engin fjárl. til og eiginlega ekki byrjað á þeim eftir venjulegum mælikvarða. Ef einhverjir okkur ekki velviljaðir dæmdu um þetta. mundu þeir segja: Þetta hljóta að vera einhverjir ógurlegir idjótar, sem sitja á þinginu. — En ég held því fram, að þetta sé alveg meðalfólk, eins og alltaf hefur verið, kannske ekki neinir snillingar, en sannleikurinn er sá, að við erum komnir í þoku, höfum villzt.

Ég get ekki samþykkt þetta frv., því að það er byggt á öðrum anda en okkar stjórnskipulag. Helzta afsökunin eða skýringin á framferði ríkisstj. liggur máske frekast í því, að þessir menn. sem voru á stéttaþinginu, voru eins og við, hvorki verri né betri, og sögðu allir það sama: Það er hægt að lækka dýrtíðina, þið hinir getið lækkað, ég bara get það ekki. — Þetta er það, sem stendur á hjá okkur og sennilega eina afsökunin fyrir því, að stjórnin verður með því liði, sem hún getur til þess fengið, að samþykkja þetta og láta bara fljóta í bili. Þjóðin veit ekki sannleikann í þessum efnum. Menn lesa í öllum blöðunum, að togararnir selji fyrir svo og svo mikið í Englandi. Svo er fjöldi fólks, sem á börn erlendis í skólum og vantar peninga, og því er sagt, að það séu engir peningar til. Þetta fólk trúir þessu ekki. Það heyrir um þessa peninga, en ekkert blaðanna segir, að inn í bankana kemur að öllum jafnaði helmingurinn af þessum peningum, hitt fer í kostnað. Hvers vegna má ekki fólkið vita það sanna? Það er kannske alveg rétt, eins og Magnús Jónsson gerði að nokkru leyti, að segja mönnum, hvað skuldirnar eru miklar. En þetta er ekki sagt, heldur eru mönnum gefnar falsvonir, að við lifum á annan hátt en við gerum og lifum við öryggi, sem við höfum ekki.