05.03.1948
Neðri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

7. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Það stendur þannig á með þetta mál. að hæstv. forsrh. þarf alveg nauðsynlega að vera við umr., og vil ég fara fram á það við hæstv. forseta að honum verði gert aðvart, áður en ég byrja mál mitt.

Þetta er ekki nýtt mál í d., og get ég af þeirri ástæðu verið fáorður. Frv. samhljóða þessu lá fyrir síðasta þingi, en var nú lagt fyrir aftur í þingbyrjun. Það hefur orðið langur dráttur á, að n. skilaði málinu af sér, en það á sínar orsakir eins og margt annað.

Frv. fékk þá meðferð á síðasta þingi að meiri hl. sjútvn. lagði til að það yrði fellt, en minni hl., að það yrði samþ. óbreytt. Þannig fór það til 2. umr., en þeirri umr. varð aldrei lokið.

Um efni þessa máls þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Það er hv. þm. vel kunnugt, þar sem frv. hefur legið fyrir tveimur þingum, því síðasta og þessu þingi.

N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Frv. var upphaflega sent til umsagnar þeim aðilum. sem mest eiga þarna hlut að máli, en það eru þeir, sem vinna á togurunum. og þeir, sem gera togarana út m. ö. o. sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði og Landssamband útgerðarmanna. N. barst aldrei svar nema frá Landssambandi útgerðarmanna, sem andmælti frv., Sjómannafélag Hafnarfjarðar hefur ekki sent sitt svar til n., en minni hl. n. hefur skýrt frá, að það hafi verið lagt fram á lestrarsal, en n. hefur aldrei fengið það í sínar hendur. Nú hefur borizt svar frá starfandi sjómönnum á togaraflotanum, sem eindregið leggja með, að frv. verði samþ. Hér standa þess vegna tveir aðilar á öndverðum meiði.

Sjútvn. hefur þess vegna álitið, að hér væri um nokkuð breytt viðhorf að ræða. Form. n. hefur rætt málið við hæstv. forsrh., sem þetta mál mun heyra undir, hvernig stj. mundi líta á það. ef því yrði vísað til stj. til athugunar, og mun hann hafa lýst yfir, að hann mundi láta slíka athugun fara fram, ef til kæmi.

Þeir menn í sjútvn., sem lögðu til á síðasta þingt. að frv. yrði fellt, hafa nú fallizt á að málið fari til rannsóknar eða athugunar hjá ríkisstj., og af þeirri ástæðu hafa fjórir nm. skilað áliti, þar sem lagt er til, að málinu verði vísað til ríkisstj. Minni hl. mun gera grein fyrir sínu máli, og að sjálfsögðu, eins og fram er tekið í hans nál., leggur hann til, að frv. verði samþ., en að öðru leyti mun hann gera grein fyrir sínu máli. Ég hef því ekki annað fram að bera f. h. meiri hl. n. en að óska þess, að málinu verði vísað til ríkisstj.