07.11.1947
Sameinað þing: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

50. mál, fjárlög 1948

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Fjárlagafrv. það, sem hér er til umræðu, ber þess merki að breytingar eru að gerast á högum þjóðarinnar. Það ber að mörgu leyti merki óvissu þeirrar, sem ríkir um atvinnumál landsmanna og fjárhag ríkissjóðs og er engin ástæða til að undrast það. En eins og hæstv. fjmrh. hefur tekið fram, verður það á valdi Alþingis svo sem áður hefur tíðkazt, hverja afgreiðslu frv. þetta fær að lokum, og er mikið undir komið, að giftusamlega takist.

Það er nokkuð erfitt að átta sig á einstökum tölum, sem hæstv. fjmrh. hafði um hönd, en ef ég hef tekið rétt eftir, gerði hann ráð fyrir í sambandi við áætlun tolla um 220 milljón króna innflutningi til landsins. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að með því verðlagi, sem nú er í heiminum, mun innflutningsþörf okkar nema hátt á þriðja hundrað milljónum króna á ári. Er þá ekki gert ráð fyrir innflutningi á vörum, sem verðtollur er greiddur af, svo að neinu nemi, og getur það enn lækkað verðtollstekjur ríkisins. en í 220 milljón króna innflutningi yrði ekki unnt að flytja inn neinar vörur sem verðtollur er greiddur af.

Hæstv. fjmrh. komst að orði á þá leið að stóriðja á vegum ríkisins virtist ekki gefast vel. Ég vil í þessu sambandi minna á síldarverksmiðjur ríkisins, sem til voru fyrir stríðið og áður en byggðar voru hinar nýju undir forustu hinnar dæmalausu byggingarnefndar fyrrv. hæstv. atvmrh., Áka Jakobssonar. Síldarverksmiðjurnar voru búnar að borga sig og eignast nokkrar milljónir að auki. Allt öðru máli gegnir um Landssmiðjuna, einkum undir stjórn fyrrv. atvmrh., Áka Jakobssonar, og um ríkisreksturinn gildir það sama og um rekstur einstaklinga, að þar „veldur hver á heldur.“ Oft hefur ríkt mikil óvissa um tekjuöflun ríkissjóðs. og að þessu sinni er óvissan meiri en nokkru sinni fyrr. Hinar erlendu innistæður eru þrotnar og okkar vantar, með því útliti, sem enn er um sölu útflutningsafurða, sem liggja í landinu, allt að 90 milljónum króna í erlendri mynt til þess að hreinsa þau vanskil, sem við erum komnir í, og greiða ýmsar áfallnar skuldbindingar, svo og til þess að sjá okkur fyrir helztu nauðsynjum til vertíðarinnar, sem nú fer í hönd. Þrátt fyrir það, að skorin hafi verið niður öll leyfi fyrir nýjum innflutningi síðari hluta ársins, nema fyrir brýnustu lífsnauðsynjum og ýmsum vélum og áhöldum til framleiðslunnar, er svona komið með gjaldeyrinn. Vegna hinna miklu birgða. sem til voru í landinu, hefur þó ekki enn að neinu leyti sorfið að neinum til matar eða fata. Hins vegar er margs konar efni til iðnaðar og húsabygginga á þrotum, og veldur það tvímælalaust atvinnuleysi, ef ekki verður unnt að bæta úr þeim skorti. Hinir kommúnistísku leiðtogar Sósfl. hér á Alþingi halda því fram. að núv. ríkisstj. sé að búa til kreppu í landinu til þess að fá tilefni til að ráðast á launastéttirnar og heimta kauplækkun. Nú vita allir, að fjárkreppa og gjaldeyriskreppa valda fyrst og fremst ríkisstj. vandræðum og áhyggjum. Því að eins og von er til, krefjast menn af henni, að hún komi með tillögur um að leysa hvers konar vandræði, sem ekki er á valdi einstaklinga eða félagsheilda að leysa. Það mætti því vera undarlega gerð ríkisstj., sem hagaði sér eins og kommúnistar lýsa. Enda er það svo að gjaldeyrisvandræði og fjárkreppa er ekki eingöngu íslenzkt fyrirbrigði. Viðskiptin í Evrópu og kaupgeta þjóðanna er lömuð eftir heimsstyrjöldina síðustu. Þjóðirnar sem urðu fyrir þyngstu búsifjunum vegna ófriðarins, eru enn í sárum. Þær hafa ekki ráð á því að kaupa vörur annarra þjóða, sem eitthvað hafa til þess að selja, nema gegn vörukaupum, og öll viðskipti hafa farið úr skorðum af þeim sökum. Allir sem lesa blöðin og hlusta á útvarpið, vita þetta. Eða er ekki daglega talað um Marshalláætlunina, þ. e. tillögur Marshalls utanríkisráðherra Bandaríkjanna um að lána ýmsum löndum í Evrópu samtals um 3000 milljónir dollara í vörum og peningum í því skyni að forða fjölda manns frá hungurdauða í bágstöddum löndum og liðka fyrir viðskiptum? Öll stórveldin í Evrópu þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana vegna gjaldeyrisskorts. Og nú er svo komið. að flestar þjóðirnar krefjast jafnvirðiskaupa í viðskiptum. Eru það þá nokkur undur, þó að gjaldeyrisskortur sé einnig orðinn hjá oss Íslendingum, sem lifum tiltölulega meira á því að verzla við aðrar þjóðir en nokkur önnur þjóð í Evrópu? Vissulega ekki. En hinu má þó ekki neita, að við hefðum getað treint okkur gjaldeyrisforðann, sem við eignuðumst í stríðinu, betur en við gerðum. En þótt svo sé, verður þeirri staðreynd ekki í móti mælt, að við höfum enn, þrátt fyrir gjaldeyrisskort okkar og vandræði annarra þjóða, meiri möguleika en flestir aðrir til þess að lifa góðu lífi. Þótt nokkru af gjaldeyriseign okkar hafi verið varið miður en skyldi, höfum við notað mikinn hluta hennar til þess að búa okkur undir framtíðina. Þessi forsjálni getur fleytt okkur yfir örðugleikana, ef við viljum viðurkenna staðreyndir og lifa samkvæmt þeim. Ég hef fyrir nokkru í útvarpi héðan frá Alþingi lýst þessari skoðun minni og vil í því efni vitna til allra, sem mál mitt heyrðu, að íslenzka þjóðin hefur aldrei fyrr verið eins vel búin út í lífsbaráttuna. Það er því á hennar eigin valdi, hvernig eða hvort hún notar skipin, vélarnar, tækin og menninguna, sem hún hefur eignazt. Um alla Evrópu er enn skortur á matvælum. Við getum framleitt mikið af þeim. En við eigum í samkeppni við aðra og kaupgeta margra er lítil. Enn þá hefur ekki orðið verðfall á matvælum, en þó er nú svo komið, að við erum ekki samkeppnisfærir við aðra. Hvað mundi þá, ef verðfall kæmi á afurðir erlendis? Þetta er hinni innlendu dýrtíð og verðbólgu langmest að kenna. Og þetta getum og eigum við sjálfir að lagfæra, og ef hér verður atvinnuleysi, stafar það, þrátt fyrir hið háa markaðsverð erlendis, eingöngu af gjaldeyrisskorti og verðbólgu. Við getum bætt úr gjaldeyrisskortinum með því að koma aðalútflutningsvegi okkar, útgerðinni, á heilbrigðan grundvöll. Afkoma manna og atvinna er undir því komin, að þetta takist vel. Og alþýða manna í landinu, sem þarf að vinna fyrir sér, veit þetta og skilur, þótt hins vegar séu til einstaka fáráðlingar, sem þola ekki að heyra þennan sannleika nefndan, svo að þeir eigi úthverfist. Slíkir vesalingar fussa við hinum sáru þörfum iðnaðarmanna og verkamanna fyrir gjaldeyri og kalla það „gjaldeyrisspangól“. Daglega heyrist um fjölda manns, sem hafa í höndum, lögleg innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, en fá ekki yfirfærslur hjá bönkunum vegna hins geipilega gjaldeyrisskorts. Þessir menn kvarta, sem von er til, yfir gjaldeyrisskortinum. Atvinna margra þeirra er í veði og ástvinir margra eru félitlir í útlöndum. Kommúnistablaðið Þjóðviljinn hefur heyrt kvartanir þessara manna, og orðabókarhöfundurinn, sem stjórnar blaði kommúnistaflokksins, tekur kvörtunum þessum þannig að hann líkir hinum kvartandi mönnum við hunda og segir, að þeir reki upp „gjaldeyrisspangól“. Sem betur fer er blað kommúnista eitt um það að sýna þeim, sem ekkert hafa unnið til saka annað en vanta gjaldeyri, slíkan vitnisburð. Hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, fulltrúi flokks þess, sem svarar gjaldeyrissveitandi mönnum með slíku orðbragði, talar hér næstur á eftir mér og gefur þá væntanlega skýringar á þessu viðurstyggilega framferði flokksblaðs síns. — Í starfi mínu í fjárhagsráði hef ég kynnzt vandræðum margra manna í þessu efni, og þau eru vissulega ekki í flimtingum hafandi, svo sem kommúnistar láta sér sæma, þegar þeir geta ekki lengur neitað staðreyndum, eins og nú standa sakir. Efni eru engin til úrlausnar, en sú er bót í máli, og verður ekki nógsamlega haldið á lofti að gjaldeyrisskorturinn þarf ekki að vera annað og meira en stundarfyrirbrigði meðan verðlag það helzt, sem nú er fyrir útflutningsvörur okkar á erlendum markaði, ef þjóðin ber gæfu til þess að bindast samtökum til þess að vinna bug á verðbólgunni og dýrtíðinni.

Samhliða gjaldeyrisskortinum hefur hin öra fjárfesting, sem átt hefur sér stað í framkvæmdum innanlands, valdið skorti á lánsfé. Á þessa hættu var bent í áliti hagfræðinganefndar, sem kom út síðastliðið haust, en þrátt fyrir það hefur því máli verið lítill gaumur gefinn. Ég vil því, með því að þetta efni er mjög skylt afgreiðslu fjárlaganna, fara um það nokkrum orðum. Fjárhagsráð tók til starfa í byrjun júlímánaðar í sumar. Þá. var svo umhorfs, að mikil innflutnings- og gjaldeyrisleyfi voru í umferð, og hafði þó verulegur hluti þeirra verið framlengdur frá árinu 1946. Fyrsta verk fjárhagsráðs var að gera sér hugmynd um, hvernig ástandið væri í gjaldeyrismálum og byggingarmálunum. Leiddi bráðabirgðaathugun í ljós að skortur gæti orðið á byggingarefni. Samkvæmt l. um fjárhagsráð var ákveðin skömmtun á byggingarefni um miðjan ágúst. Jafnframt var auglýst eftir umsóknum til þess að halda áfram eða hefja framkvæmdir. Streymdu umsóknir þessar brátt inn til fjárhagsráðs og var þegar tekið að vinna úr þeim. Voru umsóknir þessar flokkaðar í þrjá flokka eftir því, hve langt framkvæmdirnar voru á veg komnar og enn fremur í sex flokka eftir tegundum framkvæmda: 1) íbúðarhús. 2) opinberar byggingar og framkvæmdir, 3) iðnaðarfyrirtæki. 4) framleiðslufyrirtæki. 5) verzlunarhús, 6) útihús. Enn fremur voru umsóknirnar flokkaðar eftir sýslum og kaupstöðum og síðan eftir landshlutum. Umsóknum þessum var í mjög mörgu ábótavant. Um margt það, er spurt var um, voru engar upplýsingar gefnar og í öðrum atriðum voru þær oft rangar eða villandi. Eigi var unnt að koma við fullnaðarendurskoðun eða leiðréttingum á skýrslum þessum vegna þess hve tími var naumur og áliðið sumars. Var því það ráð tekið að láta byggingarfróðan mann endurskoða skýrslurnar í því skyni að reikna út efnisþörfina. svo að byggingarframkvæmdir yrðu eigi fyrir óþörfum töfum. Alls var sótt um leyfi fyrir 2599 byggingarframkvæmdum er skiptust þannig:

Íbúðarhús

1863

Opinberar byggingar og framkvæmdir

210

Iðnaðarfyrirtæki

86

Framleiðslufyrirtæki

76

Verzlunarfyrirtæki

74

Útihús

290

Samtals

2599

Sementsþörf í byggingar þessar var áætluð um 45 þúsund smálestir, en sementsbirgðir og útgefin innflutningsleyfi voru aðeins um 15 þúsund smálestir. Í þessu sambandi verða menn að hafa í huga, að hér er eingöngu um að ræða þörfina 5 síðustu mánuði ársins. Engar byggingar eða framkvæmdir, sem lokið var við fyrri hluta ársins, áður en fjárhagsráð tók til starfa, eru hér með taldar. En á þeim tíma var búið að nota af því, sem flutt hafði verið inn, hér um bil 36 þús. smálestir af sementi. Fjárhagsráð veitti ný leyfi fyrir innflutningi á rúmum 6000 smálestum af sementi, þannig að allur innflutningurinn nemur samtals á árinu um 57 þús. smálestum. Vegna hins mikla gjaldeyrisskorts þótti eigi fært að veita meira á árinu. Jafnframt voru settar fastar reglur um úthlutun sements, til þess að tryggja það, að unnt væri að ljúka byggingum þeim, sem lengst voru komnar áleiðis, mjaka öðrum nokkuð áfram, en forða þeim, sem ekki voru byrjaðir, frá því að hefja byggingar, bæði til þess að þeir legðu ekki í óþarfa kostnað og í því skyni, sem áður segir, að nýjar byggingar eyðilegðu ekki möguleika, sem fyrir hendi voru til að ljúka byggingum, sem langt voru komnar, því að augljóst er, að heppilegast er fyrir alla að ljúka sem allra flestum byggingum á sem skemmstum tíma en láta ekki fjöldann allan af byggingum í landinu stöðvast vegna efnisskorts. Fjárhagsráð er nú að láta gera skýrslu um byggingarframkvæmdirnar. Þeirri skýrslu er enn eigi lokið, en upplýsingar þær, sem ég hef í höndum, sanna það er ég áður sagði.

1. Íbúðarhús. Alls voru í smíðum eða ráðgert að byggja að öllu eða einhverju leyti samkvæmt umsóknum íbúðarhús með 3154 íbúðum, og var áætluð sementsþörf til þeirra framkvæmda frá 15. ág. til ársloka 23855 tonn, þar af í Rvík. 840 hús með 1871 íbúð og áætlaðri sementsþörf um 13505 tonn. Íbúðarhús þessi skiptust þannig niður eftir flokkum, að í 3. flokki, þ. e. íbúðarhús, sem voru fokheld 15. ág. eða lengra komin, voru samtals 931 hús með 1601 íbúð og áætlaðri sementsþörf til að fullgera húsin um 4186 tonn, þar af í Rvík einni 518 hús með 1125 íbúðum og sementsþörf um 2795 tonn. Í 2. flokki. þ. e. íbúðarhús, þar sem að minnsta kosti kjallarabotn var steyptur 15. ágúst, en húsið ekki fokhelt, voru samtals 504 hús með 886 íbúðum og áætlaðri sementsþörf um 7363 tonn, þar af voru í Rvík 162 hús í þessum flokki, með 416 íbúðum og sementsþörf um 3490 tonn. Í 1. flokki. þ. e. íbúðarhús, sem lítið eða ekkert var byrjað á 15. ág. voru samtals 428 hús með 666 íbúðum og áætlaðri sementsþörf um 12306 tonn.

2. Útihús (hlöður, fjós, safnþrær og annað þess háttar). Alls voru í byggingu eða ráðgert að byggja 290 útihús fyrir haustið 1947, og var sementsþörfin áætluð samkvæmt umsóknum 1945 tonn.

3. Opinberar byggingar og framkvæmdir. Alls voru í byggingu eða ráðgert að byggja að öllu eða einhverju leyti á þessu ári 210 opinberar byggingar, og var sementsþörf áætluð 8175 tonn og heildarkostnaður framkvæmdanna kr. 138181000.00, en kostnaður við að fullgera þessar framkvæmdir áætlaður kr. 82075000.00. Má þó þegar slá föstu, að allar þessar tölur um áætlaða sementsþörf og kostnað eru mjög ófullkomnar og yfirleitt allt of lágar, því að mjög víða vantaði í umsóknirnar allar upplýsingar varðandi þessi atriði. Þessar opinberu byggingar skiptast þannig eftir tegundum;

Fjöldi framkv.

Sementsþörf

Áætlaður heildarkostn.

1000 kg.

1000 kr.

Hafnargerðir og vitabyggingar

34

1553

18844

Rafveitur

28

1055

33237

Vatnsveitur og hitaveitur

12

450

7565

Sjúkrahús

15

470

18605

Skólabyggingar

55

2677

39678

Félagsheimili og sundlaugar

41

1083

11461

Annað

25

887

8791

Samtals

210

8175

138181

4. Framleiðslu-. iðnaðar- og verzlunarfyrirtæki. a) Framleiðslufyrirtæki. Alls var ráðgerð nýbygging eða mjög stórfelldar viðbyggingar á 76 framleiðslutækjum, og var sementsþörfin til þessara framkvæmda áætluð 4303 tonn og heildarkostnaður kr. 47891000,00, en kostnaður við að ljúka framkvæmdunum kr. 29183000.00, þar af í Rvík og Hafnarfirði 14 fyrirtæki með sementsþörf 535 tonnum og áætluðum heildarkostnaði kr. 7279000.00, og er fróðlegt að bera það saman við verzlunar- og iðnfyrirtækin hér á eftir. En þess ber að gæta hér, eins og við opinberar byggingar og framkvæmdir og enn fremur iðnaðar- og verzlunarfyrirtæki, að allar tölur varðandi sementsþörf, en þó sérstaklega varðandi áætlaðan heildarkostnað og kostnað við að ljúka framkvæmdunum, eru mjög ónákvæmar og í flestum tilfellum allt of lágar, vegna þess að upplýsingar þær, er fjárhagsráði bárust þar að lútandi, voru ófullnægjandi og víða alveg sleppt. Framleiðslufyrirtækin skiptast þannig eftir tegundum, að hraðfrystihús voru alls í 1., 2. og 3. flokki 30 að tölu, fiskþurrkunar- og söltunarhús 12, niðursuðuverksmiðjur 2, fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur 8, síldarverksmiðjur 5, verbúðir og geymslur 7, slátur- og kjötfrystihús 6, mjólkurvinnslustöðvar 4 og ullarvinnslustöðvar 2. b) Iðnaðarfyrirtæki, Iðnaðarfyrirtækin voru í 3. flokki 31 að tölu í 2. flokki 24 og í 1. flokki 31. eða samtals 86 og áætluð sementsþörf 3131 tonn, heildarkostnaður kr. 18740000.00. en kostnaður við að ljúka framkvæmdunum kr. 12035000.00. Af þessu voru í Rvík og Hafnarfirði 49 iðnaðarfyrirtæki, og var sementsþörf þeirra 2560 tonn og áætlaður heildarkostnaður 15463000.00 kr. Iðnaðarfyrirtækin skiptast þannig niður eftir tegundum: Dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar voru samtals í öllum flokkum 7 að tölu, vélsmiðjur 5, bifreiðaviðgerðaverkstæði 11. matvælaiðnaðarverksmiðjur 7. vefnaðarvöruiðnfyrirtæki 3. netavinnslustöðvar 4 og ýmislegt 18.

c.) Verzlunarfyrirtæki. Verzlunarhúsin, sem eru í byggingu eða ráðgert að byggja á þessu ári. voru samtals 74 og áætluð sementsþörf 3702 tonn. Áætlaður heildarkostnaður nam kr. 25973000.00, en kostnaður við að ljúka framkvæmdum 21347000.00 kr. Skiptust þessar framkvæmdir þannig eftir flokkum, að í 3. flokki voru samtals 31 hús. í 2. flokki 16 og í 1. flokki 27. Af þessum verzlunarfyrirtækjum voru 34 í Rvík og Hafnarfirði og var sementsþörf þeirra 2971 tonn, en áætlaður heildarkostnaður kr. 19470000.00 og kostnaður við að ljúka framkvæmdum kr. 15670000.00. Á þessu sést, að af 74 verzlunarhúsum í nýbyggingu voru 34 eða nær helmingur í Rvík og Hafnarfirði, en af 76 framleiðslufyrirtækjum aðeins 14 eða tæplega 1/5 hluti á sömu slóðum. Rannsókn á byggingum og byggingarframkvæmdum, sem gerð var eftir umsóknum þeim um fjárfestingarleyfi, sem ráðinu bárust, leiddi í ljós, að heildarsementsþörf landsins til áramóta frá 20. ág. mundi vera um 45111 tonn. en heildarsementsmagnið í landinu, þar með talinn væntanlegur innflutningur til landsins, aðeins um 20000 tonn. Var því það ráð tekið að synja og fresta til næsta árs þeim byggingarframkvæmdum, sem yfirleitt voru skemmst á veg komnar, þ. e. a. s. þeim byggingum, sem taldar eru undir 1. flokk. Hafði þetta þann kost í för með sér, að þó að sementsþörfin væri þannig skorin niður um rúman helming, þá þurfti ekki að synja eða fresta nema tæplega 1/5 hluta þeirra byggingarframkvæmda, sem ráðgerðar höfðu verið á árinu, eða alls 479 byggingarframkvæmdum af 2599. Hvað snertir fjárfestingu til þeirra byggingarframkvæmda, sem ráðgerðar höfðu verið, skiptist hún þannig:

Áætl. kostn. við að ljúka framkvæmdum

ráðgert

leyft

synjað

1000 kr.

millj.kr.

1000 kr.

1.

Opinb. byggingarframkv.

82075

35.2

46893

2.

Verzlunarfyrirtæki

21347

5.0

16478

3.

Iðnaðarfyrirtæki

12035

5.3

6749

4.

Framleiðslufyrirtæki

29183

16.0

13057

Samtals

144640

61.5

83177

Samtals hafa því verið leyfðar framkvæmdir fyrir um 60 millj. kr., en synjað eða frestað um fjárfestingarleyfi fyrir um 83 millj. kr., en báðar tölurnar eru þó raunverulega allt of lágar, þar eð víða vantar upplýsingar um kostnað. Þá vantar algerlega allar upplýsingar um kostnað við að ljúka þeim íbúðarhúsum, sem synjað var um fjárfestingarleyfi fyrir 325 íbúðarhúsum öllum í 1. flokki, eða samtals 525. Hins vegar voru veitt leyfi fyrir um það bil 1/3 hluta af sementsþörf 103 íbúðarhúsa í sama flokki í þeim landshlutum, þar sem sementsástandið var bezt, þannig að ráð var gert fyrir, að mögulegt yrði að ganga frá grunni þessara húsa fyrir árslok 1947. með það þá sérstaklega fyrir augum, að fljótlegra yrði að hefja framkvæmdir að vori. Aftur á móti var synjað um nokkuð af því sementsmagni, sem þurft hefði til að ljúka við íbúðarhús í 2. flokki á þeim stöðum, þar sem sementsástandið var alvarlegast, og mun því láta nærri, að það sement sem leyft var í hús í 1. flokki, vegi upp á móti því sem synjað var um í 2. flokki, þannig að gera megi ráð fyrir því í áætlun á heildarkostnaði þeirra íbúðarhúsa, sem synjað var eða frestað til næsta árs, að það sé kostnaðurinn við að byggja upp þau hús, sem töldust til 1. flokks þann 15/8. Sé áætlað að vísu mjög lágt, að íbúð í Reykjavík kosti um 120 þús. kr. að meðaltali og annars staðar á landinu um 100 þús. kr. að meðaltali, hefur þannig verið synjað um fjárfestingu á þessu ári, í Reykjavík 330 íbúðir á 120 þús. kr., eða um 40 millj. kr., og annars staðar á landinu 336 íbúðir á 100 þús. kr., eða 33 millj. kr., eða alls á öllu landinu um 72 millj. kr. Samanlagt hefur fjárhagsráð þannig synjað um fjárfestingu á þessu ári fyrir um 155 millj. kr., og er þó sú tala eingöngu lausleg áætlunarupphæð. Leyfð hefur verið bygging á um 2400 íbúðum af rúmum 3100, sem sótt var um. Enn fremur opinberar framkvæmdir og fleira. Mætti áætla kostnað við þetta samtals um 350 millj. kr. og er þó sennilega allt of lágt reiknað. Má af þessum tölum fá nokkra hugmynd um, hvers konar risabákn hér er um að ræða og hvað mens hafa ráðgert að leggja í af byggingarframkvæmdum án þess að gera sér grein fyrir, hverjir möguleikar voru fyrir hendi til þess að ljúka þeim. Er enn fremur hægt að mynda sér nokkra skoðun um það, hvers konar ástand hefði skapazt í byggingarmálum þjóðarinnar í heild, ef ekki hefði verið tekið í taumana með þeim afleiðingum. sem orðið hafa. Má gera ráð fyrir. að þá hefðu mörg hús og aðrar nauðsynlegar framkvæmdir stöðvazt hálfgerðar, eða rúmlega það, sem nú verður mögulegt að ljúka á þessu ári.

Þetta er lítil spegilmynd af hinni öru fjárfestingu, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og hefur farið svo vaxandi, að hún hefur vaxið bæði hinum einstöku lánsstofnunum og hinu opinbera langt yfir höfuð. Einstaklingarnir hafa keppzt við innbyrðis og það opinbera hefur keppt við einstaklingana um að festa sem allra mest fé á sem skemmstum tíma. Árangurinn hefur orðið sá út á við, að gjaldeyririnn er þrotinn, en inn á við sá, að mjög er nú orðið erfitt að fá peningalán og það til hinna allra nauðsynlegustu framkvæmda. Að þessu athuguðu er öllum ljóst, að við komumst ekki hjá því að breyta um stefnu. Sá tími, þegar hægt var að vísa á ríkissjóð til þess að taka ný og stór útgjöld, er liðinn. Sá tími þegar unnt var að gefa ótakmörkuð gjaldeyrisleyfi, er liðinn. Sá tími, þegar bankarnir virtust hafa ótakmarkað fé til útlána, er liðinn. Þessum staðreyndum verður ekki neitað í neinni alvöru. Hins vegar hlýtur fulltrúi Sameiningarflokks alþýðu, hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, sem talar hér næst á eftir mér, að neita þeim öllum, ef hann reynist trúr flokki sínum og þeirri stefnu, sem kommúnistar halda fram í blaði sínu viku eftir viku. Enn munu þeir, þrátt fyrir talandi staðreyndir, vera á uppboði og haga boðum sínum eftir því, við hverja þeir tala í þetta eða hitt skiptið. Þeir lofa öllum stéttum gulli og grænum skógum, hverri eftir sínum óskum. Ég heyrði í fyrrakvöld hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, halda eina slíka uppboðsræðu á fundi Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Þar var útvegsmönnum lofað öllu fögru. Loforðin voru í 12 liðum, og þau voru gefin á fundi útvegsmanna. og þar kom hv. 2. þm. S-M. fram sem útvegsmaður og talaði eins og þeir vildu heyra. Sami hv. þm. er fulltrúi Alþýðusambands Íslands á stéttaráðstefnunni, og þar er annað hljóð í strokknum. Þar vill hann lækka áætlanir L. Í. Ú. um útgerðarkostnað niður úr öllu valdi og telur þær fjarri sanni. Í ræðu þeirri, er ég gat um áðan, var 12. liður loforð fyrir útgerðarmenn um að lækka vísitöluna stórlega, með því að lækka afurðaverð bænda, sem ræðumaður sagði, að væri reiknað út á „bandvitlausum grundvelli.“ Þetta er sú hlið kommúnista, sem snýr að útgerðarmönnum. Sú hliðin sem snýr að bændum, er allt önnur. Þar er verðið aldrei nógu hátt. En engin stétt í landinu lifir á loforðum kommúnista. Fulltrúafundur L.Í.Ú. situr nú á rökstólum. Þar sitja menn af öllum stjórnmálaflokkum og þar eru skoðanir mjög skiptar í ýmsum málum en um eitt eru menn sammála og það er, að með núverandi dýrtíð og verðbólgu séu engin starfsskilyrði fyrir útgerðina. Slíkt ástand torveldar mjög að hægt sé að afgr. fjárlög sem nokkurt vit sé í og það verður að breytast. Menn horfa til ríkisstjórnar og Alþingis um tillögur til að bæta úr ástandinu, því að það er ekki á valdi neinna annarra að gera það og mikill þorri kjósenda setur traust sitt og von sína á að þeir þrír stjórnmálaflokkar, sem nú mynda ríkisstjórn, bindist samtökum um að leysa þetta mikla vandamál, samhliða því og afgreidd verða fjárlög í samræmi við það ástand, sem nú er í landinu. Menn vænta þess, að Alþingi geri skyldu sína í þessum efnum og það sem allra fyrst því að óðum líður nú að vertíð og engan tíma má missa, svo að ekki hljótist tjón af. Jafnvel þótt við Íslendingar finnum enn þá lítið til fjárkreppunnar, sem liggur eins og mara á mörgum hinum þjáðu þjóðum Evrópu, verðum við samt sem áður til þess að firra okkur vandræðum að athuga okkar gang bæði hvað snertir afgreiðslu fjárlaga og atvinnuvegi landsmanna. Við höfum betur ráð á því en áður. Við höfum eignazt ágæt framleiðslutæki. Við höfum eignazt margar góðar byggingar og mikil lífsþægindi. En þetta megum við ekki láta villa okkur sýn. Enn er margt ógert. Enn búa margir í heilsuspillandi íbúðum. Nóg eru verkefnin við þurfum að starfa. Við verðum að koma fjármálum okkar og framkvæmdum í lag til þess að forðast atvinnuleysi. Við verðum að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavaldsins og við verðum umfram allt að koma aðalútflutningsframleiðslu okkar á heilbrigðan og samkeppnisfæran grundvöll. Þessi verkefni Alþingis eru mikil og vandasöm, og við skulum vona, að Alþingi beri gæfu til að leysa þau af hendi á þann hátt, sem þjóðinni er fyrir beztu.