07.11.1947
Sameinað þing: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2255)

50. mál, fjárlög 1948

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var eins og hv. þm. Ísaf. væri órótt út af því að vita, að ég ætti að tala hér á eftir honum. Ég mun ekki á neinn hátt misnota þá aðstöðu mína, en það kom í ljós við útvarpsumræður, sem fram fóru ekki alls fyrir löngu. að hv. þm. Ísaf. kann að notfæra sér það að vera síðasti ræðumaður, þegar enginn getur komið á eftir og svarað.

Þessi hv. þm. brá nú ekki vana sínum um sannleiksást. Hann reyndi að venju að kasta skít í fyrrv. atvmrh. og okkur sósíalista yfirleitt og talaði um það, að Þjóðviljinn kallaði gjaldeyrishungrandi menn hunda, sem rækju upp gjaldeyrisspangól. Þetta er ámóta sannleikur og þegar þessi sami hv. þm. sagði að á fundum okkar sósíalista í sumar hefðu mætt svona 2–12 menn, en þessir fundir voru vel settir og Þjóðviljinn hefur aldrei talað um þá menn, sem skortir gjaldeyri sem hunda er reki upp gjaldeyrisspangól.

Þessi hv. þm. kvartaði og yfir því, að ég í ræðu minni á fundi útvegsmanna hefði talað sem útvegsmönnum líkaði. Hv. þm. var á þessum fundi og hefur líklega ekki liðið sem bezt, þegar hann heyrði mig benda á leið út úr ógöngunum, en vissi með sjálfum sér að hann og sú ríkisstj.,. er hann styður er gersamlega ráðþrota. — Það er alrangt að ég hafi viljað lækka afurðaverð bænda og skal ég víkja að því síðar.

Fjárlfrv. það sem hér liggur fyrir til umræðu, er á margan hátt glöggt dæmi um það ráðleysi og fálm sem einkennir stefnu núv. ríkisstj. um allt það sem varðar fjárhags- og atvinnumál þjóðarinnar. Það er fyrst þegar vika er liðin af nóvembermánuði og Alþingi hefur verið haldið aðgerðalausu í rúman mánuð að sjálft fjárlfrv. er til 1. umr. Og þá var það þannig úr garði gert, samkvæmt eigin umsögn ríkisstj., að búast má við, að því verði að gerbreyta í stóru og smáu, þegar loks að því kemur að stj. kemur sér saman um einhverja stefnu í atvinnu- og fjárhagsmálunum. En þó að fjárlfrv. stj., sem í sjálfu sér á þó að marka stefnuna í fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar, sé þannig úr garði gert, þá gefur það nokkuð til kynna, hvað stj. hyggst fyrir og hvers konar till. frá henni megi vænta.

Í grg. frv. segir t. d., að gert sé ráð fyrir stórlega minnkandi innflutningi á vörum á næsta ári. Fjvn. hefur fengið þá skýringu á þessu að reiknað sé með, að vöruinnflutningurinn á næsta ári verði aðeins helmingur þess, sem var á s.l. ári. Það er alveg augljóst mál, að slíkur stórfelldur niðurskurður getur ekki átt sér stað, nema kallað sé yfir þjóðina atvinnuleysi og lífskjör almenninga stórlega rýrð frá því, sem nú er. Svo naumur innflutningur mundi auðvitað gersamlega útiloka allar nýjar framkvæmdir og áframhald nýbyggingarinnar í atvinnulífi landsins yrði þá endanlega stöðvað. Þannig niðurskurður á innflutningi er auðvitað með öllu ástæðulaus, því að gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er eins og nánar mun vikið að síðar, miklu meiri en sem þessu nemur á hverju ári svo framarlega sem ætlunin er að halda framleiðslunni í gangi og selja framleiðsluvörurnar á því verði, sem hægt er fyrir þær að fá.

Í fjárlagafrv. stj. er gert ráð fyrir að skera stórkostlega niður allar verklegar framkvæmdir. Þannig er sagt til, að varið verði til nýrra þjóðvega tæplega helmingi þess, sem var í ár. Til brúargerða 1,0 milljón í stað 2,4 millj. í ár. Til hafnargerða 3,5 millj. í stað 6,3 í ár. Til byggingar barnaskóla, gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla 5,8 millj. í stað 9,3 millj. í ár. Á sama tíma er hins vegar lagt til, að fjárveiting vegna embættisrekstrar ríkisins stórhækki á öllum sviðum. Til stjórnarráðsins er áætlað 5,2 millj. kr. í stað 4,3 millj. í ár. Til dómgæzlu og lögreglustjórnar. opinbers eftirlits og innheimtu 17,4 millj. í stað 14,2 millj., í ár. Ótalið er svo allt hið gífurlega embættisbákn og kostnaðurinn af því, sem komið hefur verið upp að undanförnu og virðist vera í fullum vexti og bæti við sig fólki og húsnæði á hverjum degi, sem líður. Það er ekkert smáræðis embættisbákn, sem heitir fjárhagsráð, með öllum undirdeildum, viðskiptan. með sínum undirn. og síðast en ekki sízt allt skömmtunarbáknið. Það virðist ekki valda ágreiningi í ríkisstj. að þenja út embættisbáknið og gera það sífellt kostnaðarsamara. Útgjöld af því tagi þolir ríkið og slíkar ráðstafanir koma víst ekki að sök í baráttu stj. við verðbólguna. En hins vegar er allur munur talinn á því að veita fé til þess, að verkamenn leggi vegi, byggi brýr og geri hafnir, slíkt leiðir til aukinnar verðbólgu að dómi stjórnarinnar.

Nú, þegar komið er fram í nóvembermánuð og fullur undirbúningur ætti að vera hafinn undir næstu vetrarvertíð, þá stendur ríkisstj. landsins rugluð og ráðlaus og horfir á stöðvun framleiðslunnar án þess að aðhafast nokkuð. Enn hefur stj. enga stefnu í þeim vandamálum, sem að steðja í atvinnumálum landsins, það ber fjárlfrv. glögglega með sér.

Núv. ríkisstj. hefur mikið af því látið, að hún mundi berjast gegn dýrtíð og verðbólgu. Hún hefur í þeim efnum enga stefnu haft, enda orðið til að auka dýrtíðina verulega. Hún sleit frið við verkalýðssamtökin í landinu og lagði marga tugi millj. í tollum á innfluttar vörur gegn mótmælum verkalýðssamtakanna. Sú ráðstöfun leiddi af sér mikla hækkun á dýrtíðinni og síðan kauphækkanir. Till. frá stj. gegn vaxandi dýrtíð hafa engar sézt, en hún hefur stórlega spillt fyrir samkomulagi á milli þeirra aðila í landinu, sem allar dýrtíðarráðstafanir verða að byggjast á. Þegar í sumar gerði Alþýðusamband Íslands tilraun til þess að koma á viðtölum milli fulltrúa frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Alþýðusambandsins um vandamál dýrtíðarinnar. Eftir nokkurt þóf tókst ríkisstj. að koma í veg fyrir beint samstarf þessara stærstu aðila dýrtíðarmálsins, með því að hlaupa fram fyrir skjöldu og kalla saman stéttaráðstefnuna svonefndu. 11. sept. kom stéttaráðstefnan saman til þess að fjalla um hið mikla dýrtíðarvandamál. Varla höfðu fulltrúar stéttanna á þessari ráðstefnu hafið hin eiginlegu störf, þegar ríkisstj. óskaði eftir því, að ráðstefnunni yrði frestað um óákveðinn tíma. Frá 16. sept. og þar til 7. nóv. hefur ráðstefnan ekki haldið almenna fundi, utan einn skyndifund. og hefur ríkisstj. þannig orðið þess valdandi, að störf stéttaráðstefnunnar hafa engin orðið. Úrræðaleysi ríkisstj. og pólitísk hræðsla hennar við fulltrúa stéttanna hafa einkennt framkomu hennar í þessu máli eins og fleirum.

Núv. ríkisstj. hefur frá upphafi talið það sitt höfuðhlutverk að boða þjóðinni óhjákvæmileik hrunsins og nauðsyn þess, að lífskjör almennings verði rýrð. Hún hefur hatazt við bjartsýni og framfarahug landsmanna og í rauninni haldið því fram. að slíkt þýddi aðeins dýrtíð og verðbólgu. Ríkisstj. hefur verið trú þessu höfuðhlutverki sínu. Hún hefur skipulagt áróður í útvarpi og blöðum, sem einbeitt hefur verið að því að drepa kjarkinn úr þjóðinni og flytja henni boðskapinn um hrunið. Ráðherrarnir hafa sjálfir gengið fram fyrir skjöldu í þessu efni og flutt margar útvarpsræður og skrifað langt mál í blöðin í þeim tilgangi að sanna þjóðinni óhjákvæmileik hrunsins. Utanrrh. flutti þannig langa ræðu í útvarpið, sem átti að sanna að erlendar þjóðir vildu yfirleitt ekki kaupa íslenzkar afurðir og að minnsta kosti ekki fyrir nema helmingi lægra verð en við teljum okkur þurfa að fá. Niðurstaða ráðh. varð svo auðvitað sú, að óhjákvæmilegt væri að við lækkuðum fiskafurðir okkar um helming, ef þannig mætti þá með einhverjum ráðum fá vinsamlegar þjóðir til að kaupa þær. Ráðh. gat þess auðvitað ekki, enda eflaust ekki vitað það, að þó öll vinnulaun við hraðfrystingu á fiski og öll vinnulaun sjómanna við að afla fisksins væru strikuð út eða sleppt með öllu, þá stæðu frystihúsin samt ekki undir öðrum kostnaði af rekstri sínum með því að selja pundið af frysta fiskinum á 6 d. eins og hann hélt, að væri heimsmarkaðsverð. Aðrir ráðh. hafa svo þrástagazt á því, að ekki sé hægt að selja afurðirnar og að verðið verði að stórlækka. Í sambandi við þetta eru svo sagðar kynjasögur um fjárfúlgur þær, sem ríkið þurfi að greiða með útfluttum sjávarafurðum í ár vegna fiskábyrgðarlaganna. Vísir segir, að greiða þurfi með fiskinum 70 millj. kr., en sjálfir ráðherrarnir segja marga tugi milljóna.

Jafnhliða þessum áróðri kemur svo fjárhagsráð stj. og þykist sanna með tölum algert neyðarástand í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Ráðh. koma svo hver á eftir öðrum með skýringarræður í útvarpið við skýrslu fjárhagsráðs og boða enn sem fyrr óhjákvæmileik hrunsins. Gjaldeyririnn er allur búinn, allur uppétinn, uppurinn hver eyrir og aðalskýringin er, að kommúnistar hafi eytt þessu öllu saman.

Það er ekki látið sitja við áróðurinn einan saman. Með ótrúlegustu ráðstöfunum er öllu athafnalífi landsmanna komið í slíkt öngþveiti, að furðulegt má telja. N. upp af n. er skipuð til þess að úthluta hinum margeydda gjaldeyri. Innflutningur er stöðvaður á nauðsynlegustu vörum til framleiðslu og atvinnulífs í landinu. Vitlausasta skömmtunarkerfi sem sögur fara af, er komið upp og leyfi þarf til allra hluta smárra og stórra. Og til þess að undirstrika alvöruna í hlutunum og hin föstu tök ríkisstj. á vandanum, er slíkri flækju komið á alla hluti, að nú getur t. d. bóndi úti á landi eða verkamaður í smáþorpi ekki fengið leyfi til þess að gera við húskofann sinn eða byggja við hann nema útfylltar séu flóknar skýrslur og þær sendar til Reykjavíkur til athugunar og umsagnar. — Þannig er með áróðri, nefndafargani, embættisbákni og hvers konar hindrunum reynt að lemja inn í þjóðina hrunið og vandræðin og á þann hátt á að telja henni trú um, að óhjákvæmilegt sé, að allir verði að fórna.

En sjálfur sannleikurinn um ástandið er hulinn fyrir mönnum. Það er ekki sagt frá því um gjaldeyrismálin sem mestu skiptir, og það er ekki heldur sagt frá því, hvernig í reyndinni hefur gengið að selja framleiðslu þjóðarinnar og við hvaða verði hún hefur verið seld. Það er ekki sagt frá þeim miklu möguleikum, sem þjóðin nú hefur til aukinnar framleiðslu, til meiri gjaldeyrisöflunar og til enn betri hagnýtingar á því, sem aflað er. Frá slíku er ekki skýrt. En á hinu er hamrað, að gjaldeyririnn sé upp étinn, að öllu sé eytt, og því er ekki gleymt að kommúnistar hafi staðið fyrir eyðslunni. Hvað er hið sanna í þessu? Miklu af gjaldeyrisforða þjóðarinnar var ráðstafað til kaupa á nýjum framleiðslutækjum. Keyptir voru á milli 30 og 40 nýir togarar fyrir um 100 millj. kr., á annað hundrað fiskibátar, byggðar síldarverksmiðjur. hraðfrystihús víðs vegar um landið, fiskimjöls- og niðursuðuverksmiðjur, hafnir gerðar o. s. frv. Fyrir þessari ráðstöfun á allmiklum hluta af gjaldeyriseign landsins beittum við sósíalistar okkur. Þessi ráðstöfun heitir nú á máli ríkisstj. eyðsla, upp étinn gjaldeyrir o. s. frv., og reynt er á lævíslegan hátt að blanda þessu saman við þá raunverulegu eyðslu og í ýmsum efnum sóun á gjaldeyri, sem fram hefur farið og fer enn undir ráðsmennsku núv. stjórnarliðs. Ráðstöfun gjaldeyrisins til nýsköpunarinnar hefur reynzt þjóðinni giftudrjúg og mun þó eiga eftir að gera það betur. Nú þegar munu nýsköpunartækin standa undir um það bil helmingnum af gjaldeyrisöfluninni, og skarð mundi nú fyrir skildi, ef nýju tækin væru ókeypt og gömlu og lélegu tækin ættu ein að standa undir gjaldeyrisöfluninni. Það er furðulegt, að þeir menn og flokkar, sem hæddust að nýsköpunarframkvæmdunum og sífellt töldu öll tormerki á þeim, skuli ekki nú, þegar reynslan hefur sýnt sig, fyrirverða sig fyrir alla þá andspyrnu og ógagn, sem þeir sýndu nýsköpunarstefnunni í upphafi.

En jafnhliða því, sem sósíalistar beittu sér fyrir ráðstöfun gjaldeyris til nýsköpunarinnar. þá voru aðrir önnum kafnir að eyða gjaldeyri í óþarfa innflutning á skrani, í lúxusferðalög í innflutning lúxusbíla frá Ameríku og innflutning efnis til byggingar skrauthýsa. Það voru sannarlega ekki sósíalistar, sem stóðu fyrir slíkri eyðslu, og það var ekki eftir óskum almennings í landinu, að slík eyðsla átti sér stað. Það verzlunarskipulag, sem felur 222 heildsölufyrirtækjum innflutning á vörum til landsins, leiðir af sér óhófsinnflutning, og það sem verra er, að auk þess fylgir því skipulagi ólögmætur gjaldeyrisflótti úr landinu. Þannig hefur gjaldeyri þjóðarinnar verið og er enn beinlínis eytt eða skotið undan í stórum stíl m. a. vegna þess verzlunarskipulags, sem núv. stjórnarflokkar standa fastast að og hafa alltaf ráðið öllu um. Þessi sannindi hefur ekki mátt segja þjóðinni, en hitt hefur þótt rétt, að tala um eyðslu sósíalista, um eyðsluna, sem fór í nýsköpunina.

Fjárhagsráð var ekki að skýra frá þeirri staðreynd, að aldrei hefur þjóðin aflað meiri gjaldeyris á einu ári en einmitt í ár. Það er líka látið liggja í láginni, að öll rök benda til þess, að gjaldeyrissöfnunin verði meiri á næsta ári, ef framleiðslan fær að ganga. Nýju togararnir hafa aðeins að litlu leyti tekið þátt í gjaldeyrisöflun þessa árs, og verði meðalsíldarár næsta sumar, þýðir það enn aukinn gjaldeyri. Það er með öllu ástæðulaust að prédika gjaldeyrisöngþveiti. Og það er heldur engin ástæða til þess, að rýra þurfi lífskjör almennings, en það er hins vegar nauðsynlegt að afmá það verzlunarólag, sem felur í sér gjaldeyrisflótta og óhagstæð innkaup fyrir þjóðina.

Þrátt fyrir allar ræður ríkisstj. um vandræði afurðasölunnar þá liggur það nú fyrir, að svo að segja öll framleiðsla ársins er að fullu seld. Nokkur hluti framleiðslunnar hefur verið seldur undir ábyrgðarverðinu, þ. e. megnið af saltfiskinum og nokkuð af frosna fiskinum. Aðrar vörur hafa selzt á hærra verði en búizt var við. Greiðslur þær sem ríkið þarf að inna af hendi samkv. ábyrgðarlögunum með þessari framleiðslu, eru miklu lægri en gefið hefur verið í skyn. Enn liggur ekki nákvæmlega fyrir hve mikill saltfiskurinn reynist, og nokkuð er eftir af frosna fiskinum. svo að nákvæmlega verður ekki sagt um, hvað ríkið þarf að greiða. En heildarupphæðin getur ekki orðið meiri en 15–16 millj., og þar á móti á að vera til um 3½ millj. í síldarkúfnum svo nefnda, því að eins og kunnugt er, voru teknar af hverju síldarmáli sem veiddist í sumar, 4 kr., og skyldi sú upphæð samkv. ábyrgðarl. ganga upp í tap ríkisins vegna ábyrgðarinnar. Þannig ætti ríkið í mesta lagi að þurfa að greiða samkv. ábyrgðarl. um 12–13 millj. kr. Það hefði ábyggilega verið hægt að sleppa algerlega við þennan mismun, ef betur hefði verið haldið á afurðasölunni. Það er staðreynd að hagsmunir útflutningsins hafa alltaf verið látnir víkja til hliðar fyrir kröfum innflytjendanna, fyrir kröfum heildsalanna. Þannig hefur verið krafizt nær eingöngu frjáls gjaldeyris fyrir saltfiskinn og frysta fiskinn, þó að sumar viðskiptaþjóðirnar hafi af þeim sökum lækkað verðið nærri um helming fyrir vikið. Innflutningsverzlunin hefur krafizt hins frjálsa gjaldeyris, svo að áfram yrði hægt að halda gömlu viðskiptasamböndunum og hefur í þessu efni engu verið skeytt um aðstöðu og þörf útflutningsins. Í þessu efni er skemmst að minnast yfirlýsingar, sem sjálfur núv. sjávarútvegsmálaráðh. gaf í útvarpsræðu, þar sem hann ræddi viðskiptin við Tékkóslóvakíu. Hann sagði orðrétt:

... Þessi stofnun (viðskiptaráð) sýndi bæði á árinu 1946 og meðan hún starfaði á yfirstandandi ári lítt verjandi áhugaleysi á því að nota samningana við Tékkóslóvakíu til vörukaupa, sem aftur leiddi til þess að varið var að óþörfu bæði sterlingspundum og dollurum til kaupa á sams konar vörum í öðrum löndum, sem vel hefði mátt kaupa frá Tékkum og bæta með því aðstöðu okkar til að selja þeim íslenzkar afurðir.“

En þetta dæmi um Tékkóslóvakíu er ekki það einasta og það var ekki heldur aðeins viðskiptaráð sem hér stóð í veginum. Ríkisstj. sjálf og bankarnir hafa staðið gegn vöruskiptaverzlun, þó að hagstæðu afurðaverði útflutningsins væri með því stefnt í hættu.

En hvað er svo að segja um 12–13 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði vegna ábyrgðarl.? Er það einhver óskaplegur hlutur sem aldrei hefur sézt áður? Vegna þessarar ábyrgðar starfaði allur bátaútvegurinn af fullum krafti á s. l. vertíð. Hann færði í þjóðarbúið gjaldeyri sem nam á annað hundrað milljónum, og sá gjaldeyrir hefur ábyggilega fært heildsölunum nokkra tugi millj. króna.

Fyrir nokkrum dögum var till. flutt á Alþ. um heimild handa einkabílaeigendum til þess að fá að kaupa benzín utan skömmtunarinnar. Þar bentu þeir á sem töluðu máli einkabílaeigenda, að ef þeir fengju rétt til að eyða gjaldeyri fyrir eina milljón í benzín gæti ríkið fengið 12 millj. kr. í gróða af því. Greiðslur ríkissjóðs vegna ábyrgðarl. til þess að tryggja rekstur útgerðarinnar verða sennilega svipaðar og lúxusbílaeigendur bjóða fram til þess að tryggja sér ótruflaða notkun á bílum sínum. Það eru til peningar til slíkra ráðstafana, en ef útvegsmenn og sjómenn eiga í hlut, þá eru engir peningar til og þá ætla forráðamenn stjórnarliðsins æfir að verða. Það hefur verið lögð mikil áherzla á að telja mönnum trú um, að ríkisábyrgð á fiskverði sé eitthvað óguðlegt og stórhættulegt. Hér er um hinn mesta misskilning að ræða. Ábyrgð á fiskverði er alveg óumflýjanleg, ef ekki liggur þegar fyrir fyrirframsala á framleiðslunni. Launagreiðslur sjómanna eru nú orðnar í því formi að ómögulegt er að komast hjá að greiða aflann allan út jafnóðum og hann veiðist. Fast verð verður því að liggja fyrir. Það er líka ofur eðlilegt, að ríkið, sem hefur í sínum höndum afurðasöluna og tekur allan gjaldeyrinn og ráðstafar honum, tryggi fast verð fyrir aflann.

Hitt er annað mál að rétt er að haga ábyrgðinni sem næst því, sem telja má líklegt að fáist fyrir framleiðsluna, og þó má alls ekki hallast á framleiðendur og launakjör þeirra verða að vera hliðstæð annarra stétta. Áhætta útvegsmanna og sjómanna er nægileg vegna óvissunnar um aflamagnið, þó að afurðasalan á erlendum markaði sé ekki einnig eingöngu þeirra áhætta. Þá áhættu og þann vanda á þjóðin öll að hafa.

Hér er ekki tími til að rekja afurðasöluna í ár, en tækifæri til þess gefst vonandi áður en langt líður og læt ég það því bíða.

Afgreiðsla fjárl. fyrir komandi ár er í rauninni ógerleg, nema um leið sé ákveðið, hvað gera skuli í vandamálum dýrtíðarinnar og til tryggingar á rekstri útgerðarinnar. Ríkisstj. hefur enn engar till. í dýrtíðarmálunum og hún hefur engar till. til stuðnings útgerðinni. Fjárlfrv. og ráðstafanir stj. að undanförnu benda til, að stj. ætli að fara svipaðar vandræðaleiðir og hún hingað til hefur gert. Niðurskurður á innflutningi er leið til atvinnuleysis, og aukið og stækkað embættisbákn, en niðurskurður á verklegum framkvæmdum, það eru leiðir stj. Og engin raunveruleg samvinna við þá, sem mestu máli skipta um lausn vandamálanna. En hvað á að gera? spyrja menn. Hvernig verður framleiðslan tryggð, og hvernig verður tryggt. að lífskjör almennings verði ekki skert? Ég skal nú gera hér nokkra grein fyrir þeim till., sem við sósíalistar viljum gera í þessum málum, en tímans vegna er ekki hægt að rekja till. okkar nákvæmlega eða láta þeim fylgja þá grg., sem við vildum og við munum gera þegar till. verða lagðar fram á Alþingi.

1. Ríkið ábyrgist bátaútveginum að minnsta kosti jafnhátt fiskverð á næsta ári og ábyrgzt hefur verið í ár. Sams konar ábyrgð verði veitt hraðfrystihúsunum og útgerðinni tryggðir sölumöguleikar á aflanum. Slík ábyrgð er óhjákvæmileg til þess að tryggja rekstur útgerðarinnar en jafnhliða þarf svo að gera sérstakar ráðstafanir til þess að lækka rekstrarkostnaðinn og bæta þannig afkomuskilyrðin.

2. Vextir af öllum lánum útgerðarinnar lækkaðir niður í 2–2½%. Vaxtabyrðin liggur nú eins og mara á útgerðinni, og má benda á að í ýmsum tilfellum þurfa hraðfrystihús að greiða 1/3 og upp í ½ í vexti á móti vinnulaununum. Öll aðstaða er til að lækka vextina. Bankarnir hafa grætt meir en nokkru sinni fyrr, og nam gróði Landsbankans t. d. á s. 1. ári 14,2 millj. kr.

3. Lánstími fastra lána útgerðarinnar og útgerðarfyrirtækja verði lengdur upp í 20–30 ár, miðað við nýjar eignir. Meðallánstími útgerðarinnar er nú allt of stuttur og hvíla afborganir því með of miklum þunga á rekstrinum.

4. Til lækkunar á viðhaldskostnaði útgerðarinnar skal afnumin reglan um %-álagningu viðgerðarverkstæðanna. Samtök útvegsmanna fái vald til að fylgjast nákvæmlega með verðlagningu verkstæðanna. Viðgerðarkostnaðurinn er óhóflegur og er óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja slíkt.

5. Vátryggingargjöld vélbáta verði lækkuð verulega, miðað við. að iðgjöld af nýjum bátum séu eigi hærri en 4%. Nú eru iðgjöld víða 7%, og nær slíkt auðvitað engri átt á nýjum bátum. Reynslan hefur sýnt, að þennan lið er hægt að lækka.

6. Veiðarfærakostnaður útgerðarinnar verði lækkaður m. a. með því, að ríkisvaldið veiti samtökum útvegsmanna aðstöðu til að hafa með höndum alla verzlun og innlenda framleiðslu veiðarfæra. Þessi till. þarf ekki skýringar við. Það er kunnugt, að verzlun með veiðarfæri er þannig nú að ekki er viðunandi.

7. Olíuverðið sé lækkað m. a. með því, að ríkið taki að sér innflutning á olíum og hafi með höndum heildsölu þeirra. Samtök útvegsmanna annist dreifingu og hafi fulltrúa í stjórn olíuverzlunar ríkisins.

8. Ráðstafanir séu gerðar til að lækka verð á beitu.

9. Stuðningslán sé veitt öllum þeim útgerðarfyrirtækjum, sem töpuðu á síldinni í sumar. Slíkt lán yrði veitt á svipaðan hátt og gert var 1945.

10. Afborganir yfirstandandi árs af stofnlánum útvegsins verði ekki innheimtar í ár.

Þá verði gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að búa betur að afurðasölunni en nú er. Salan sé dregin úr höndum pólitísku flokkanna og fengin sem mest í hendur samtökum þeirra, sem að framleiðslunni vinna. Til lækkunar á vísitölunni og verðlaginu innanlands verði m. a. gerðar þessar ráðstafanir :

1. Verzlunarskipulaginu skal gerbreytt og sé breytingin miðuð við að fáir aðilar með eftirliti ríkisins hafi innflutninginn með höndum. Jafnframt sé samtökum framleiðenda gefinn kostur á að flytja inn vörur til framleiðslunnar. Með breyttu verzlunarskipulagi ætti að vera hægt að lækka vöruverðið og þar með vísitöluna og koma í veg fyrir gjaldeyrisflótta.

2. Afnema skal tolla af nauðsynjavörum og lækka vísitöluna þannig um 20 stig. Ríkið missir nokkrar tekjur við þessa ráðstöfun, en auðvelt er að bæta það upp á annan hátt og munum við bera fram sérstakar till. um það á sínum tíma.

3. Vísitölugrundvelli landbúnaðarvara verði breytt og verði ekki lengur miðað við meðalbú, heldur lagt til grundvallar bú, sem telja verður að hafi tvímælalaust góð framleiðsluskilyrði og sé sæmilega vel rekið. — Þessar ráðstafanir ættu að miða að talsverðri lækkun vísitölunnar og koma framleiðslunni þannig til stuðnings, en hins vegar er ekki gengið á raunveruleg launakjör launþega. — Jafnhliða þessum ráðstöfunum þyrfti svo að tryggja næga atvinnu og að fjármagn þjóðarinnar sé notað í þágu gagnlegrar uppbyggingar.

Sósfl. mun næstu daga leggja till. sínar um þessi mál fyrir Alþ. Ég hef hér aðeins lauslega drepið á þessar till., en það er alveg víst, að fengjust þær framkvæmdar, væri hægt að tryggja gang framleiðslunnar án verulegrar áhættu fyrir ríkissjóð, sjómönnum og útvegsmönnum hagstæðari kjör en áður og almenningi í landinu óskert lífskjör.

Framkvæmd þessara till. veltur eflaust á því, hvort samstarf tekst með höfuðstéttum þjóðfélagsins. Takist það, fer vel og þá eru fullir möguleikar til góðrar lífsafkomu fyrir þjóðina.