07.11.1947
Sameinað þing: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (2256)

50. mál, fjárlög 1948

Helgi Jónasson:

Fjárlfrv. er að þessu sinni nokkuð síðbúið. Það eru 5 vikur síðan Alþ. var kvatt saman, og nú fyrst í dag fer fram 1. umr. fjárl. Að vísu eru nokkrir dagar síðan frv. var útbýtt meðal þm., og fjvn. er þegar farin að vinna að undirbúningi fjárl. Þetta er raunar ekkert einsdæmi. Hin síðari ár hefur það dregizt allt of lengi, að fjárlfrv. væri lagt fram. því að nauðsynlegt er, fyrir þinghaldið, að fjvn. geti sem allra fyrst hafið starf sitt, því að venjulegast er það svo, að afgreiðsla fjárl. er það, sem ræður því. hvað þinghaldið er langt í hvert sinn. Það er því nauðsynlegt, að fjárlfrv. sé lagt fram strax í þingbyrjun, eins og þingsköp mæla fyrir. Það má vel vera, að hæstv. fjmrh. hafi í þetta sinn nokkra afsökun og erfitt hafi reynzt fyrir hann að láta enda fjárl. ná saman, eins og það er kallað, eða með öðrum orðum láta tekjurnar hrökkva fyrir útgjaldaþörfinni. Þetta hefur að vísu ekki tekizt, því að í frv. er rekstrarhallinn áætlaður rúmar 876 þús. kr. og greiðslujöfnuður óhagstæður um rúmar 19 millj. kr. En þar með er sagan ekki öll. Þegar farið er að athuga niðurstöðutölur frv., þá kemur það í ljós, að þær eru allmiklu lægri en á gildandi fjárl., bæði tekjur og gjöld. Það út af fyrir sig er ekkert athugavert, þótt reiknað væri með lægri tölum og niðurfærsla í rekstrarútgjöldum hefði átt sér stað. En svo er ekki. Rekstrartekjur ríkisins samkvæmt rekstraryfirliti eru áætlaðar á frv. 155 millj. og 235 þús. kr., en voru í gildandi fjárl. 202 millj. og 239 þús., eða tekjurýrnun. er nemur 47 millj. kr.

Við athugun á hinum einstöku liðum tekjuáætlunarinnar kemur í ljós, að lækkunin er svo að segja eingöngu bundin við tollana, verðtollinn og vörumagnstollinn. Verðtollurinn var í ár áætlaður 72½ millj. kr., en mun ekki gefa (eins og hæstv. ráðh. gat um) nema 61–62 millj. kr. á þessu ári. Vörumagnstollurinn hefur einnig verið stórhækkaður, eða um 5,4 millj. kr., frá því sem er í fjárl. þessa árs, enda skilar hann ekki áætlunarupphæð á þessu ári. — Það er fullvíst, eins og nú er komið gjaldeyrismálum þjóðarinnar, að innflutningurinn hlýtur að stórminnka frá því, sem nú er og alveg sérstaklega á þeim vörum, sem hæstan verðtoll gefa. En verði l. frá síðastliðnu þingi um hækkun á verð- og vörumagnstolli framlengd. má sennilega hækka þennan tekjustofn eitthvað talsvert og ef eitthvað úr rætist með útflutningsverzlunina.

Um hina aðra tekjustofna er það að segja, að þeir hafa á þessu ári gefið allmiklu meiri tekjur (eins og fram kom í skýrslu hæstv. ráðh.), t. d. tekju- og eignarskattur. sem bæði stafar af aukinni dýrtíð (þar af leiðandi fleiri krónur til launþega og hækkaður tekjuskattur) og enn fremur, að því er fróðir menn telja á þessu sviði, stórbættu tekju- og eignaframtali sökum hins margumtalaða eignauppgjörs, sem í vændum er. En þessir tekjustofnar eru að ýmsu leyti sömu lögmálum háðir og ég gat um áður um tollana, því að með samdrætti í verzlun og iðnaði og vaxandi örðugleikum atvinnuveganna, þá hlýtur tekjuskatturinn að stórlækka hjá öllum þessum aðilum. Auk þess má alltaf, ef eitthvað harðnar í ári, búast við meiri vanhöldum en verið hafa um skeið á innheimtu slíkra gjalda.

Hið sama er að segja um tekjur af áfengis- og tóbakssölu. Sá tekjustofn hefur, eins og þið hafið heyrt af skýrslu þeirri, er hér var áðan upp lesin, farið allmikið fram úr áætlun, og sú hefur einnig verið venjan undanfarandi ár. En allt er í heiminum hverfult og þetta getur breytzt áður en varir og þess er ég fullviss, að ef peningaveita þjóðarinnar minnkar eitthvað og almenningur hefur minna handbært fé úr að spila, þá komi það fyrst fram í minnkuðum kaupum á þessum vörum, eða þess verður að minnsta kosti að vænta. Auk þess er vitanlegt. að á Alþ. er mikill vilji fyrir því hjá fjölda þm. og margar till. liggja fyrir, sem ganga í þá átt, ef samþ. verða að draga úr áfengisflóðinu.

Að öllu þessu athuguðu og miðað við það ástand, sem nú ríkir í fjárhags- og atvinnumálum þjóðarinnar, þarf engan að undra, þótt hæstv. ráðh. hafi ekki séð sér fært að hafa tekjuáætlunina hærri en gert er í frv. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að ekki verði úr meira fé að spila hjá ríkissjóði á næsta ári en áætlunin ber með sér, og þó því aðeins, að gerðar verði raunhæfar aðgerðir í dýrtíðarmálunum, svo að framleiðslan komist aftur á réttan kjöl.

Við athugun á gjaldabálki fjárlfrv. kemur í ljós, að útgjöld á rekstrarreikningi eru allmiklu eða um 40 millj. kr., lægri en í gildandi fjárl., en þar er ekki um neinn sparnað á rekstrarútgjöldum ríkisins að ræða, þar sem felldir eru niður liðir, sem álitamál er, hvort hægt sé að sleppa, og á ég þar aðallega við 35 millj. kr. á 19. gr. í fjárl. þessa árs til dýrtíðarráðstafana.

Í fjárlfrv. eru framlög til verklegra framkvæmda, svo sem vega, brúa, hafnargerða og skólahúsbygginga, allverulega lækkuð frá fjárl. þessa árs. Það má vel vera að nauðsynlegt reynist að draga eitthvað úr verklegum framkvæmdum í bili meðan þjóðin á í þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem nú steðja að, en það verður ófrávíkjanleg krafa almennings í landinu, ef nauðsynlegt reynist að skerða framlög til nauðsynlegustu framkvæmda. að þá um leið verði athugaður og færður niður hinn gífurlegi kostnaður, sem nú er orðinn við alla starfrækslu ríkisins og stofnana þess. Kostnaður við þessa starfrækslu hefur farið svo ört vaxandi hin síðustu ár, að við slíkt verður ekki unað, og það er augljóst mál að með þeim öra vexti og útþenslu, sem í allan þann rekstur er hlaupinn, stefnir beint að því, og það áður en langt um líður, að tekjur ríkisins gera ekki betur en standa undir beinum rekstri ríkisbáknsins og ekkert fé verður handbært til verklegra framkvæmda eða í aðrar þarfir hins opinbera.

Árið 1938 var sá háttur upp tekinn af þáv. fjmrh., Eysteini Jónssyni, að láta prentaða starfsmannaskrá fylgja með fjárlfrv., þar sem fram var tekið um tölu starfsmanna í hverri stjórnardeild og ríkisstofnun. Þetta var ágæt ráðstöfun og skapaði víst aðhald gegn starfsmannafjölgun, og fjvn. og Alþ. gat á auðveldan hátt, með því að bera saman skrárnar frá ári til árs, glöggvað sig á þeim breytingum. sem á yrðu. En þessari reglu var aðeins fylgt í 3 ár, frá 1938–'40, og féll niður, er Eysteinn Jónsson lét af embætti fjmrh. Síðan hefur það oftast gengið mjög erfiðlega fyrir Alþ. að fá haldgóðar upplýsingar um starfsmannahald og fleira viðvíkjandi hinum einstöku stjórnardeildum og stofnunum. Að vísu gaf utanþingsstjórnin út vélritaða bók með starfsmannaskrá og fleiri upplýsingum viðvíkjandi rekstri ríkisins, og var það góðra gjalda vert. En síðan 1944 hafa allar slíkar upplýsingar verið mjög í molum og af skornum skammti, enda hefur hækkunin á rekstrinum aldrei verið eins ör og síðan. Þetta var fjvn. strax ljóst, og á vetrarþinginu 1945 bar n. fram till. til þál. um athugun á starfskerfi og rekstrarútgjöldum ríkisins. Till. þessi var samþ. á fundi Alþ. 3. marz 1945 af öllum viðstöddum alþm. Till. fylgdi ýtarleg grg. og fskj., þar sem meðal annars var sýnt fram á, að bein rekstrarútgjöld ríkisins voru á fjárl. 1945 rúmar 46 millj. kr. og hliðstæð útgjöld ríkisstofnana 27 millj. og 300 þús. kr. Samtals bein útgjöld ríkisins og stofnana, sem koma fram í fjárl., voru því 73 millj. og 300 þús. kr. En séu öll rekstrarútgjöld talin hjá ríkisstofnunum, einnig sá hluti þeirra, sem ekki kemur á niðurstöðutölur á rekstrarreikningi, en er greiddur af tekjum frá stofnununum sjálfum, nema öll rekstrarútgjöld ríkis og ríkisstofnana 127 millj. kr. Fer þá meira en helmingur, eða 58% af útgjöldum á rekstrarreikningi fjárl. fyrir árið 1945, til beinna rekstrarútgjalda ríkisins og stofnana þess, er hér koma til greina. Fullvíst er, að síðan hafa rekstrarútgjöldin stórhækkað og hlutfallið enn óhagstæðara en 1945.

Enn fremur gerði n. samanburð á rekstrarkostnaði áranna 1939, sem var síðasta árið fyrir stríð, og árinu 1945 og sýndi sá samanburður, að rekstrarútgjöldin á fjárl. 1945 voru 598% hærri en á fjárl. 1939. Síðan hefur sú hlutfallstala stórhækkað og bilið orðið miklu meira en þá var og skal ég nefna nokkur dæmi því til sönnunar.

Ég skal þá fyrst taka kostnaðinn við:

1. Dómgæzlu og lögreglustjórn. Fjárlög 1939: 1 millj. 190 þús. kr. 1945: 7 millj. kr. Frv. 1948: 10 millj. 600 þús. kr.

2. Kostnaður við opinbert eftirlit. Fjárlög 1939: 129750. 1945: 607 þús. Frv. 1948: 1129688 kr.

Hækkunin á þessum litla lið nemur 1 millj. kr. og hefur tífaldazt.

3. Kostnaðurinn við innheimtu tolla og skatta. Fjárlög 1939: 425400 kr. 1945: 2 millj. 756 þús. kr. Frv. 1948: 4 millj. 785 þús. kr.. eða hækkun síðan 1939 4 millj. og 300 þús. kr.

Ég hirði ekki að nefna fleiri dæmi. Þetta er aðeins lítið sýnishorn úr einni gr. fjárl., en það á að vera nóg til þess að sýna, hvert straumurinn liggur í þessu efni, og ber það með sér, að hækkunin á rekstrinum er miklu meiri en að það verði skýrt með launa- og vísitöluhækkun einni saman. Hér hlýtur einnig að koma til greina óeðlilegur ofvöxtur og útþensla í ótal myndum, og svipuð þessu er útkoman hvar sem gripið er niður í rekstrarútgjöld fjárl. hin síðari ár.

Eins og vænta mátti, gerði fyrrv. ríkisstj. ekkert af því, sem Alþ. fól henni að gera með þál. frá 3. marz 1945. Þess var ekki heldur að vænta, að hún sinnti slíkum málum. Hún starfaði á allt öðrum nótum, eins og kunnugt er. En hún gerði annað, hún gaf sem sé út reglugerð hinn 11. marz 1946 um vinnutíma starfsmanna ríkis og ríkisfyrirtækja, hið furðulegasta plagg, sem verkaði í þveröfuga átt við flest af því, sem Alþ. fól henni að lagfæra 1945.

Við umr. um l. 1945 var því mjög haldið á lofti, að nauðsynlegt væri að koma á nýjum launal. Ósamræmið væri orðið svo mikið og hin lágu laun væru bætt upp með óeðlilegri eftir- og aukavinnu. Nokkuð var til í þessu, en með hinum nýju launal. átti að gæta meira samræmis í launagreiðslum fyrir svipaða vinnu hjá hinum ýmsu stjórnardeildum og stofnunum og komast að mestu hjá eftir- og aukavinnu. Grunnlaunin voru stórhækkuð frá því, sem áður var, og voru miðuð við það, að eftirvinna og aukavinna yrði lögð niður. En með reglugerðinni 1946 er gert ráð fyrir því, að eftirvinna skuli greidd með yfirvinnukaupi og á yfirvinnukaupið skuli koma 50–100% álag, eftir því í hvaða launaflokki vinnuþiggjandi er og svo vísitölu bætt ofan á allt saman. Með þessum hætti gátu ýmsir starfsmenn krækt sér í 4 tíma eftirvinnu á dag fyrir 20–30 kr. um tímann, eftir því hvað grunnlaunin voru há, og er það náttúrlega dálaglegur skildingur ofan á há laun. Þessi reglugerð hækkaði útgjöld sumra stofnana svo að skipti hundruðum þúsunda króna. t. d. landssímans, og hefur síðan reynzt mjög erfitt að láta þá stofnun bera sig fjárhagslega. þrátt fyrir nefndarskipanir og hækkuð símgjöld. Að vísu sé ég, að nú er á frv. ½ millj. kr. rekstrarafgangur, en til þess að hægt væri að sýna rekstrarafgang hjá þessu mikla fyrirtæki. sem eru áætlaðar tekjur upp á 19 millj., varð að lækka framlagið til notendasíma í sveitum um ½ milljón kr. — Þessa reglugerð þarf tafarlaust að afnema.

Þá hafa utanríkismálin tekið til sín mikið fé undanfarin ár. Á þessu frv. er gert ráð fyrir að verja til utanríkismála allt að 2 millj. kr. Vitanlega þurfum við á utanríkisþjónustu að halda og hafa sendiherra og umboðsmenn í helztu viðskiptalöndum okkar, en við megum ekki ætla okkur þá dul, að við getum haft sendiherra með heilan herskara af skrifstofufólki í öðru hverju landi í Evrópu. Það er fullkomin ofrausn og engin sæmilega vitiborinn Íslendingur hefur trúað því, að við þurfum að hafa 3 sendiherra á Norðurlöndum með heilan hóp af aðstoðarfólki. Nei, þar nægir sannarlega einn.

Undanfarandi ár hefur starfað hér fjöldi n. á vegum ríkisins og ríkisstofnana. Hvað margar þær eru, veit ég ekki, en 1943 voru þær 59 talsins og kostuðu 3 millj. kr., og ekki fækkaði þeim eða lækkaði kostnaður við þær næstu árin þar á eftir. Vitanlega er það nauðsynlegt að láta sérfróða menn inna af höndum ýmis mikilvæg störf í n. og ýmsar þessar n. hafa unnið þjóðnýt og merkileg störf, en af öllu má of mikið gera, og því verður ekki neitað, að eftir ýmsar n. hefur ekki sézt neinn árangur og virðast þær lítið hafa afrekað annað en hirða laun sín úr ríkissjóði.

Hér verður að koma fullkomin stefnubreyting á öllu þessu, frá því sem nú er. Allt fjármálalíf síðustu ára var á sandi byggt og hlýtur að hrynja til grunna strax og eitthvað á bjátar, eins og mjölskemman og lýsisgeymarnir á Siglufirði.

Það verður að taka öll þessi mál, er ég hef rakið hér, til rækilegrar meðferðar og rannsóknar, og bæta úr því ófremdarástandi. sem hefur þróazt hér í þessum efnum hin síðustu ár.

Það getur vel farið svo, að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að draga verði úr nauðsynlegum verklegum framkvæmdum, meðan við erum að komast úr því feni, sem við erum nú fastir í, en það verður ófrávíkjanleg krafa allra, að gætt verði meira hófs í rekstri þess opinbera en verið hefur og faríð sparlegar með almannafé.

Víma stríðsáranna er liðin hjá, við verðum aftur að horfast í augu við veruleikann. Við verðum að minnast þess, að við erum fámenn þjóð í strjálbýlu landi og verkefnin æði mörg, sem krefjast úrlausnar. Við verðum því að gæta þess að fara vel með það fé, sem þjóðin getur látið af hendi rakna til sameiginlegra þarfa. Það verður á næstu árum að veita miklu fjármagni út um byggðir landsins til þess að bæta atvinnuskilyrði þess fólks, sem þar býr. Okkur vantar fleiri vegi, fleiri síma og brýr, skóla og sjúkrahús. Það vantar fé til hafnargerða og lendingarbóta víðs vegar við strendur landsins, svo að kleift verði að nota alla þá báta og skip, sem þjóðin hefur eignazt. Rafmagnstaugarnar verða á næstu árum að teygja greinar sínar út um landsbyggðina.

Til alls þessa þarf mikið fjármagn og það verður að koma, ef byggðin á ekki að fara í auðn. Þjóðin hefur ekki efni á því, að alltaf hverfi fleira og fleira fólk frá nytsömum framleiðslustörfum og þyrpist í bæina og margt af þessu fólki tekur upp óarðbæra vinnu, sem þjóðfélagið gæti sér að skaðlausu verið án. Flóttinn frá framleiðslunni verður ekki stöðvaður með öðru en því að bæta atvinnuskilyrðin, svo að fólkið, sem að henni vinnur úti um byggðir landsins, í sveit og við sjó, geti veitt sér svipuð lífsþægindi og bæirnir hafa upp á að bjóða. Þetta er ekki eingöngu mál dreifbýlisins, þetta er alþjóðarmál og snertir hag allrar þjóðarinnar. Framtíð hennar og lífshamingja byggist ekki sízt á því, að fólkið, sem landið byggir, sinni framleiðslustörfum til sjávar og lands.

Fjvn. og Alþ. fer nú af kappi að undirbúa fjárl. samkv. þessu frv., er fyrir liggur, en til þess að hægt verði að afgreiða viðunandi fjárl. að þessu sinni, verður að draga úr því óhófi, sem nú er á ríkisrekstrinum, og lækka dýrtíðina. Um dýrtíðina er mikið búið að tala og skrifa á undanförnum árum. Lengi framan af var hún af mörgum ekki talin hættuleg. Hún var ágætt meðal til auðjöfnunar og gerði alla ríka. Nú held ég, að sé svo komið, að allir álíti dýrtíðina hættulegan þjóðarsjúkdóm, sem verði að lækna, hvað sem það kostar. Að vísu er það svo. Dýrtíðin er alvarleg meinsemd, sem allt of lengi er búin að grafa um sig og festa rætur út í yztu greinar þjóðarmeiðsins. Þessa meinsemd verður að uppræta. en það kostar óþægindi og sársauka. Þann sársauka og óþægindi verðum við að þola, ef við viljum vera fjárhagslega sjálfstæð þjóð í frjálsu landi.