15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

179. mál, kjötmat o.fl.

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef áður bent á, að sum ákvæði í 1. um kjötmat eru þegar úrelt, og fól ég því 3 mönnum á s. l. sumri að endurskoða l., og liggja nú hér fyrir með frv. þessu þær breyt., sem n. þessi lagði til, að gerðar yrðu á l., sem nú eru í gildi. Þeir menn, sem unnu að samning frv., voru: Sæmundur Friðriksson. Jónmundur Ólafsson og Kristjón Kristjónsson. Þessir menn sömdu brtt. við l. og lögðu til, að nýtt frv. um kjötmat yrði borið fram á Alþ., og liggur það nú hér fyrir. Höfuðbreyting frv. þessa frá fyrri l. er fólgin í því, að áður var matsskylda aðeins á frystum kjötmat til útflutnings, en nú er þessi matsskylda yfirfærð á allt kjöt. Þá eru og ákvæði í frv. um eftirlit með sláturstörfum og um eftirlit með fé, áður en því er slátrað. Þá er og lagt til, að skipaðir verði 4 yfirmatsmenn fyrir allt landið, en þeir voru áður 3. Starf þessara manna hefur verið það umfangsmikið, að 3 menn hafa ekki komizt yfir umdæmi sín, og hefur 4. maðurinn undanfarið starfað fyrir Vestfjarðakjálkann, og sýnist því rétt að fjölga matsmönnunum úr 3 í 4. — Þá er lagt til, að einn þessara manna verði kjötmatsformaður, og er það gert í því augnamiði að fá frekara samræmi í störf þessara manna en nú er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. þetta. Það liggur ljóst fyrir og skýrir sig að öðru leyti sjálft. Ég vænti svo þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. og að hv. n. afgr. það fljótt.