03.11.1947
Efri deild: 13. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

56. mál, ræktunarlönd og byggingarlóðir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Eins og segir í grg., þá á þetta frv. rætur sínar að rekja til ályktunar. sem samþ. var á Alþingi 12. apríl 1943, um það, að ríkisstj. léti athuga og undirbúa till., á hvern hátt megi veita kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum, eignar- eða umráðarétt yfir nauðsynlegum löndum og lóðum með sanngjörnum kjörum, án þess að gengið verði of nærri hagsmunum nágrannasveita þeirra.

Skv. þessari ályktun var skipuð mþn. til þess að athuga þetta mál. Nefnd þessi skilaði áliti og sendi félmrn. það í frv. formi. en þar sem ýmis ákvæði þess þóttu orka tvímælis, leitaði ráðuneytið umsagnar hæfustu lögfræðinga, og var það þeirra álit, að nokkur ákvæði þess mundu brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og var frv. þar af leiðandi ekki flutt. Hins vegar var það flutt óbreytt eins og það kom frá nefndinni og með greinargerð hennar af tveim þm., þeim Lúðvík Jósefssyni og Einari Olgeirssyni, á þinginu 1945–'46.

Þegar núverandi stjórn var mynduð, var samið um, að þetta mál skyldi fá afgreiðslu, en skv. úrskurði færustu lögfræðinga varð að gera á frv. nokkrar breytingar, þar sem sum ákvæði þess brutu í bága við stjskr. Þessar breytingar lét ég gera.

Höfuðtilgangur frv. er sá að tryggja bæjum og þorpum nokkurt land, bæði til ræktunar og sem lóðir. Þetta er mjög aðkallandi mál, því að mörg þorp, kaupstaðir og kauptún hafa ekki neitt land til ráðstöfunar handa íbúunum. Ég tel óþarft að rekja efni frv. að öðru leyti, því að rækileg grg. frá n. fylgdi frv., þegar það var lagt fyrir Alþingi 1945–46 og nægir að vísa til hennar um þau atriði, sem ekki hefur verið breytt, svo og skýringanna við einstakar greinar frv. — Ég vænti svo að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn. að lokinni þessari umr.