23.03.1948
Efri deild: 86. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

76. mál, ríkisborgararéttur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Út af fyrirspurn, sem til mín var beint, þykir mér rétt að taka fram eftirfarandi. Hæstv. dómsmrh. hefur nokkuð fylgzt með meðferð þessa máls í n., og ég hef rætt um það við hann hvað eftir annað og orðið þess var, að hann telur það nokkru máli skipta, hvaða meðferð þetta mál fær hér í hv. d. Hann hefur ekki óskað eftir því við mig, að ég beindi þeim tilmælum til hæstv. forseta, að málið yrði ekki afgr. vegna hans fjarveru, sem kemur til af því, þykist ég vita, að þessum hæstv. ráðh. sé ekki kunnugt um, að þetta mál sé hér nú til umr. Það hefur nú ekki verið útbýtt prentaðri dagskrá fyrir þennan fund, og ég hygg, að hæstv. dómsmrh. sé ókunnugt um, að þetta mál sé hér til umr. nú. En ég hef fullkomna ástæðu til að ætla, að ef hæstv. dómsmrh. vissi að málið er hér á ferð, þá mundi hann vilja vera viðstaddur, þegar málið væri afgr. Og ég undirstrika þessi tilmæli, sem ég kom með til hæstv. forseta. — Hitt er rétt að n. hefur haft mikinn tíma til að afgreiða málið. En það, sem tafið hefur málið, er eins og áður er sagt að umsóknir hafa verið að berast fram á síðustu daga um ríkisborgararétt. Og gögn hafa verið að berast í þessum efnum fram á síðustu stundu.