29.01.1948
Efri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2317)

139. mál, útsvör

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. þessa frv., er það samið af mþn., sem skipuð var á sínum tíma af félmrh. og í samræmi við ályktun, sem gerð hafði verið á Alþ. um endurskoðun á útsvarsl.

Nú í vetur lauk n. þessum störfum og skilaði áliti til félmrn., og hefur n. orðið sammála í meginatriðum, þó að tveir nm. gerðu nokkurn ágreining út af einstökum, að því mér virðist, minni háttar atriðum. Ráðuneytinu þótti því hlýða að leggja þetta frv. fyrir hv. Alþ., eins og n. hafði skilað því í hendur ráðuneytisins.

Eins og tekið er fram í upphafi grg. fyrir frv., vildi félmrn. gjarnan eiga þess kost að ræða við þá n., sem fjallaði um frv. hér í hv. d., og mun ráðuneytið þá benda á viss atriði, sem það fyrir sitt leyti telur, að munu betur fara en í frv. sjálfu var, þegar því var skilað frá n. Hins vegar taldi ráðuneytið rétt að leggja frv. óbreytt fyrir Alþ., eins og n. hafði gengið frá því. svo að Alþ. sæi hver hefði orðið niðurstaða mþn. eftir athugun á þessum málum.

Ég vil geta þess um leið, að sama n. samdi frv. um lögheimili og frv. um manntal. En ráðuneytinu virtist, að þessi frv. væru þannig, og þá sérstaklega frv. um lögheimili, að það vildi ekki leggja þau fyrir eins og frá þeim var gengið. En það er nú í sérstakri athugun innan ráðuneytisins, og mun það ef til vill verða síðar lagt fram sem eitt frv. með bæði nýjum og nokkuð skýrari ákvæðum um lögheimili og einnig um manntal.

Ég tel mikla nauðsyn á því að setja nýja löggjöf um manntal. Eins og kunnugt er, fer eitt allsherjar manntal fram í landinu tíunda hvert ár, og nokkuð langur tími líður frá því og þangað til hagstofan hefur unnið úr því. Hins vegar eru þau manntöl, sem fram fara árlega í einstökum héruðum, að undantekinni Reykjavík, heldur ófullkomin, og ákvæðin um þau eru á þann veg að þau gefa ekki tryggingu fyrir því að öruggt og skýrt manntal geti farið fram.

Það er þá í sambandi við útsvarsl., og þá ekki sízt vegna þeirra ákvæða, sem ég mun minna á hér á eftir, en það er ekki aðeins nauðsynlegt vegna útsvarsl. yfirleitt að koma á nokkuð skýrari skipan um manntal, heldur er það vegna ýmissa rannsókna og framkvæmda, sem þarf að gera á hverju ári og þá ekki sízt í sambandi við störf fjárhagsráðs, nauðsynlegt, að sem fullkomnast manntal liggi fyrir á öllu landinu og að úr því sé hægt að vinna og það sem allra fyrst.

Ég geri ráð fyrir, að síðar verði lagt fram frv. um manntal, ef til vill í sambandi við frv. um lögheimili og mun þá verða þar lagt til, að manntal fari fram á sama tíma á öllu landinu og það verði framkvæmt af þeim mönnum. sem til þess verða kjörnir með l.

Ég sé ekki mikla nauðsyn að fara mörgum orðum um þetta frv., þar sem því fylgir góð grg., þar sem rakin er saga þessa máls yfirleitt og hvaða breyt. felast í frv. frá gildandi l. um þetta efni. En höfuðbreytingin, sem hér hefur verið lögð til að gerð verði með þessu frv., er sú, að skiptingu á útsvörum milli heimilissveitar annars vegar og atvinnusveitar hins vegar verði breytt þannig, að það verði lagt á hlutaðeigandi aðila útsvar í heimasveit hans, en hins vegar verði atvinnusveit hans veittur sérstakur réttur að uppfylltum vissum skilyrðum, sem fram eru tekin í þessu frv., til þess að leggja á menn eða fyrirtæki, sem atvinnu hafa utan heimilissveitar sinnar. Þessi ákvæði er sérstaklega að finna í 5. gr. og 6. gr. frv., og sé ég ekki ástæðu til þess að fara inn á það öllu nánar á þessu stigi málsins. Þetta er, eins og ég hef áður sagt. höfuðbreytingin, sem í frv. felst frá því, sem er í gildandi útsvarsl. Að vísu eru nokkrar aðrar breytingar í frv. en ég hef minnzt á, en þær eru veigaminni, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. að þessu sinni. En ég vildi ítreka það sem ég sagði í upphafi þessara orða, að félagsmrn. vildi gjarnan fá aðstöðu til þess að ræða við þá n., sem fjallar um þetta frv., og láta henni í té þær athuganir og þær breytingar, sem ráðuneytið kynni að vilja gera, enda þótt það vildi leggja frv. fyrir þingið óbreytt eins og það kom frá mþn.

Ég óska eftir, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til n., væntanlega allshn. eða félmn., ég veit ekki hvort réttara þætti. Áður en félmn. kom til skjalanna. var það allshn., sem tók við slíkum málum. Ég skýt því til hæstv. forseta, hvaða venja kann að vera í þeim efnum varðandi frv. um útsvör.