29.01.1948
Efri deild: 50. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2320)

139. mál, útsvör

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þessu stóra og viðkvæma máli var útbýtt hér fyrir tveimur dögum, og í ýmsum þeim önnum, sem þm. hafa að sinna, er ekki von, að menn geti nú rætt ýmsar gr. frv. ýtarlega. Auk þess teldi ég, að um svo stórt og viðkvæmt mál hefði verið mjög æskilegt, að þm. hefði verið fenginn nokkru betri tími til þess að athuga málið heldur en hægt er á þessu þingi, áður en því er slitið, sem væntanlega verður ekki beðið eftir í mánuði. Útsvarsmál og skattamál yfirleitt eru viðkvæm mál. Nú hefur þetta mál verið í undirbúningi árum saman og m. a. hefur því verið lofað hér á tveimur undanförnum þingum, að þetta mál skyldi verða vel undirbúið lagt fyrir þm. með nægum fyrirvara o. s. frv. Og hér er það þá komið nú í fyrri d. á síðari hluta þessa þings. Ég hafði búizt við eftir allan þann undirbúning, sem mál þetta hefur haft, að ýmsir agnúar, sem á núverandi löggjöf eru, mundu verða afnumdir, og þá ný ákvæði sanngjarnari og betri, sett í staðinn. En mér sýnist, að langflestir agnúar, þeir sem á núgildandi l. eru séu þar enn þrátt fyrir þetta frv., þótt samþ. væri. Og mest af því, sem nýtt er hér í frv., er verra heldur en það sem í gildandi 1. er og ákvæði frv. eiga að breyta. Það hefur verið bent á þetta nokkuð af tveimur hv. þm. Skal ég gera þessu nokkru nánari skil. Hæstv. ráðh. talaði um, að höfuðbreyt. í frv. væri skipting á útsvörum á milli heimilissveitar og atvinnusveitar. Það er að nokkru leyti rétt. En hér er í því ekki betur farið að heldur en í gildandi l. Ég held, að þessi skipting, sem gert er ráð fyrir í frv. í þessu efni, valdi ekki minni óánægju og skapi engu minni erfiðleika í þessum efnum heldur en gildandi lagaákvæði gera. Og ég vil vekja athygli hæstv. félmrh. á þessu máli, sem er eitt af vandamestu málum þjóðfélagsins, að þegar ákveðið var með núverandi löggjöf, að atvinnusveit ætti kröfurétt á heimasveit manna, sem vinna utan sinnar heimasveitar, um hluta af útsvari, þá var þetta gert með þeim forsendum, að úr sveitunum kæmu til bæjanna hópar af mönnum í atvinnuleit og tækju mjög mikið af atvinnu frá íbúum höfuðborgarinnar og annarra bæja, sem atvinnu vantaði, sem sé frá heimilisföstum mönnum þar, sem bakaði aftur á móti þeim bæjum þá erfiðleika, að þeir yrðu að taka þá menn í atvinnubótavinnu og á atvinnubótastyrk, sem stjakað væri, frá vinnu af aðkomumönnum. En nú hefur þetta snúizt við. Bæði Reykjavík, Hafnarfjörður og fleiri bæir draga kjarnann af vinnukraftinum frá sveitunum, ekki til þess að baka þessum bæjum byrðar, heldur til þess að hjálpa til þess að halda uppi styrkara atvinnulífi í þessum bæjum. Þetta hefur ekki aðeins mokað fé í sveitarsjóðina í þessum bæjum, heldur er þetta bókstaflega að þurrka út margar hverjar af sveitum á landinu að íbúum. Þess vegna er nauðsynlegt. að í þessa löggjöf sé sett ákvæði um það. að þessir menn greiði ekki útsvar á þeim stað, sem þeir leita sér atvinnu á, því að þeir eru ekki fyrst og fremst að leita sér atvinnu fyrir sitt sveitarfélag, heldur verður vinna þeirra í annarri sveit en þeirra heimilissveit til þess, að íbúarnir á staðnum, þar sem þeir vinna, hafa hagsmuni af vinnu þeirra. Ég verð því ekki með því að samþykkja þetta ákvæði um skiptingu útsvaranna og það mætti segja mér, að mjög hörð átök yrðu um þetta, því að það er öruggasta leiðin til þess að þurrka sveitirnar út, ef þetta er samþ., eins og ætlazt er til í þessu frv.

Annað atriðið er það, sem hv. 1. þm. N-M. minntist á álagning útsvara á skipin. Það er sjáanlegt, að það er ekki hægt að framkvæma fyrirmæli l., eins og ákveðið er í þeirri gr. frv., því að það gæti þá orðið að leggja á þessi skip kannske á fimm eða sex stöðum á landinu. En hver viðkoma, þar sem þessi skip koma, gefur einhverjum aðila tekjur, sem viðkomandi bæjarfélag leggur svo útsvar á. Það er ekki hægt að afgreiða hér í Reykjavík t. d. togara, sem á heima á Seyðisfirði nema einhver hafi tekjur af því hér, höfnin fyrst og fremst og svo verkalýðurinn við að skipa upp úr skipinu eða í það, svo að það er ekki réttlátt að gera það að skilyrði og möguleika fyrir útsvarsskyldu gagnvart einu skipi, að það hafi komið við á einhverjum stað til þess að lesta þar í höfninni. Það er hreint nýmæli, sem alls ekki mundi verða hægt að framfylgja nema að mjög litlu leyti.

Sama er að segja um sérútsvör giftra kvenna. Ég hygg að þeir aðilar, sem hafa samið það ákvæði, hafi alveg gleymt því, að tekjur manns og konu, sem eru í hjónabandi, eru sameiginlegar. Það er sameiginlegt fyrirtæki, sem bæði hjónin reka, en þau reka það ekki hvort í sínu lagi. Ef ætti að samþykkja ákvæði frv. að þessu leyti, þá ætti líka að breyta skattal. um það að gift kona yrði þá skattskyld sérstaklega, ef ætti að skipta þessu viðkomandi greiðslu útsvara. Ég man ekki, hvort fyrir liggur frv. um það til þess að lækka sameiginlega skatta búsins hjá giftu fólki. En það er, hvað sem því líður, ekki stefna sem ég tel heppilega í þessu máli.

Um greiðslur á útsvörunum minntist hv. 1. landsk. þm. á það, að það þyrfti að setja hér mun sterkari ákvæði viðkomandi skyldum atvinnurekenda um innheimtu útsvara af starfsfólki sínu. Það er mjög vafasamt, að rétt sé að hallast að því að setja þessar skyldur á atvinnurekendur. Hér er verið að setja innheimtuskyldu á atvinnurekendur, sem það opinbera verður að fá greitt 4% af gjaldaupphæðunum fyrir að innheimta, en hefur valdið viðkomandi fyrirtækjum stórkostlegum útgjöldum og allmiklum erfiðleikum. Ég held, að það ætti að reyna að finna aðra leið heldur en þá að gera fyrirtækjunum það að skyldu að innheimta útsvörin, sem svo síðan verða að færa peningana niður á skrifstofu hér í Reykjavík. Ef svo ætti enn að koma til greina sú kvöð, að fyrirtækin væru látin sæta ábyrgð á því, ef þetta er ekki gert, og greiða sjálf útsvörin, ef eitthvað út af ber, þá held ég að það þyrfti að athugast hvort ekki sé hægt að finna sanngjarnari leið heldur en farin er viðkomandi innheimtu útsvaranna að þessu leyti. Hins vegar álít ég rétt að taka þessar greiðslur mánaðarlega af mönnum. Bæði tel ég það betra fyrir gjaldendurna og líka fyrir viðkomandi sveitarfélög.

Þá vil ég benda hér á eitt mjög mikilvægt atriði, sem ég tel til mikils óhagnaðar. Það er að lögbinda rekstrarútsvör, sem aldrei hafa verið lögheimiluð áður. Menn hafa að vísu tekið sér það vafasama vald hér að leggja á veltuútsvör. En nú á að lögbinda það, að það megi leggja rekstrarútsvör á fyrirtæki, þó að þau stórtapi, tapi jafnvel kannske öllum sínum eignum. Og meira að segja er till. hér um að ákveða, að þetta rekstrarútsvar geti orðið allt að ½%. Og það er sagt í grg. frv., að þeir sem sömdu þetta, hafi ekki viljað ákveða þetta hærra, því að vitað er, að eftir að búið er að lögbinda það, þá muni allar sveitir fara í hámark með það útsvar. En hér í Reykjavík hefur ekki verið farið lengra með þennan útsvarshluta heldur en í 1–2 prómille. (PZ: Hann er sex þar sem hann er hæstur.) Já, en sums staðar er hann ekki nema 1–2 af þúsundi. En hér er lagt til, að þetta verði ½%. fimm af þúsundi. Og langflestum þeim fyrirtækjum, sem bera uppi þjóðarbúskapinn, þeim er að mestu nú hlíft við þessu gjaldi, nema um sé að ræða gróða hjá þeim. En nú á að lögbinda, að fyrirtæki sem rekin eru yfirleitt, hvort sem um gróða er að ræða hjá þeim eða ekki, skuli greiða þetta rekstrarútsvar, jafnvel þó að tap verði á rekstri fyrirtækjanna. T. d. þessir nýju togarar, sem hafa 4 millj. kr. veltu, ég get fullyrt, að enginn þeirra getur náð saman endum með tekjur og gjöld á árinu 1948, nema þeir fái brúttótekjur 4 millj. kr. En það eru 20 þúsund kr. í sveitarsjóð, sem þeir verða að greiða, ef þetta frv. verður að l., jafnvel þó að þeir geri ekki betur en að ná saman endum með tekjurnar og gjöldin, samkv. því, sem ég hef sagt ef leyft verður að leggja rekstrarútsvar á þá og þeir verða að greiða það líka, þó að það verði 500 þús. kr. tap á rekstri þeirra. Ég tel því að þetta ákvæði sé stórkostlega til hins lakara frá því, sem nú er. Ég veit að venja hefur verið um þetta. En það hafa staðið um það málaferli hvort heimilt sé að leggja á veltuútsvar. En eftir að búið væri að samþykkja þetta frv., eins og það er að þessu leyti, þá er ekki tækifæri fyrir neina aðila að fá úrskurð dómstóla um það, hvort þetta skuli gerast.

Þá vil ég benda á ákvæði um úrskurð ríkisskattanefndar um upphæð útsvara. Ég er ekki viss um, að rétt sé að láta þau mál ganga eins og nú er. Hér er oft um ærið stórar fjárhæðir að ræða, en það er ekki hægt yfirleitt fyrir gjaldþegnana að koma neins staðar að neinni vörn í þessum málum. Þau ganga fyrst til skattanefnda, síðan til yfirskattanefnda og svo til ríkisskattanefndar. Það eina sem gjaldþegn hefur rétt til í sambandi við kæru út af útsvarsupphæð er að senda inn bréf sem hann hefur enga tryggingu fyrir að séu lesin. Hann hefur ekki rétt til þess að láta verja mál þessi fyrir neinum dómstóli á þessari leið. Og síðasti dómurinn sendir aðila kannske þannig bréf: „Kæran ekki tekin til greina.“ — Ég tel að þetta fyrirkomulag sé óviðunandi með öllu. Ég get líka sagt hv. þd. það, að ríkisskattan. leyfir sér að fella svona úrskurði án þess að vera fullkomlega skipuð, úrskurði um útsvör upp á tugi og hundruð þúsunda, þar sem einn eða tveir nm. víkja sæti í n., af því að þeir eru hliðhollir. og úrskurður getur þá orðið felldur af tveimur mönnum í n., sem er rangt. Ég hef skriflega viðurkenningu af ríkisskattan. um það, að þetta hafi verið gert hvað eftir annað, og ég álít að slíkt megi ekki koma fyrir og að í lögin eigi að koma ákvæði um, að svona megi ekki fara með þessi mál, heldur að það sé ekki lokadómur hjá ríkisskattan., nema því aðeins að tekinn verði upp sá háttur að aðilar megi verja a. m. k. fyrir síðasta dómstigi mál út af útsvörum, sem sé kærur, eins og eigi að verja það fyrir hæstarétti. Það hafa verið sótt og varin fyrir hæstarétti smærri mál heldur en mál, sem gilda hundruð þús. kr. eða milljónir, eins og hér getur átt sér stað í þessum málum.

Ég vil enn fremur benda á það að ég tel alveg óviðeigandi, að hinu sama ranglæti sé haldið í sambandi við samvinnufélögin eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Ef þau vilja vera á sama viðskiptagrundvelli í landinu eins og aðrir aðilar, eiga þau að bera sömu gjöld. En hér er gert ráð fyrir, að þau hafi meiri rétt. Og t. d. þar sem er kaupfélag, sem hefur samkeppni við einstaklingsverzlun á vissum stað, þar hefur hin verzlunin — ekki kaupfélagið — orðið að bera mest af útsvörunum. En undireins og hin verzlunin hverfur, hefur þetta verið fært á kaupfélagið, hvað sem útsvarsl. hafa sagt. Hvers vegna er þetta gert, að mismuna svona? Er það til þess, að verzlunin, sem ekki er kaupfélag, hverfi frá, en verzlun á þeim stað verði samvinnuverzlun? En þegar þetta gerist, að einstaklingsverzlunin hættir, þá munu skattarnir flytjast um leið yfir á samvinnufélögin. Ég veit ekki, hvort það er þetta, sem leitazt er eftir með því að halda þessum mjög svo ranglátu ákvæðum, að útrýma öðrum verzlunum en samvinnuverzlunum.

Ég læt þetta nægja á þessu stigi. — Hvað snertir þá n.. sem koma eigi til með að fjalla um þetta frv., þá hefur það verið svo að þeim frv. til l. um útsvör eða um breyt. á l. um útsvör, sem hafa komið fram í þessari hv. d., síðan ég kom á Alþ., hefur verið vísað til allshn. En ég tel það rangt að vísa þessu máli til allshn., því að þetta er hreint félagsmál. En það að láta allshn. fjalla um svona mál mun hafa helgazt af þeirri venju, að allshn. hafi haft þessi mál til meðferðar, áður en heilbr.- og félmn. var stofnuð. Ég geri þetta ekki að kappsmáli. Mig langar ekkert til þess að fá þetta mál í heilbr.- og félmn. til þess að pæla í því. En ég tel, að málið eigi heima í heilbr.- og félmn.