24.10.1947
Neðri deild: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

40. mál, orlof

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég flutti frv. þessu samhljóða ásamt hv. 8. þm. Reykv. (SG) á síðasta þingi. Það frv. náði því miður ekki fram að ganga. Og með hliðsjón af því, hve hér er um mikið nauðsynjamál að ræða fyrir verkalýðsstéttina í landinu, flytjum víð þetta frv. nú saman á ný. — Sú breyt., sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir með þessu frv., er um það, að þeir menn, sem eru hlutarsjómenn í bátaútveginum og tekið hafa þátt í útgerðarkostnaði, fái fullt orlofsfé, en nú fá þeir það ekki nema hálft. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hver sanngirni mælir með því, að þessir menn fái fullt orlofsfé eins og aðrar stéttir landsins.

Síðara atriðið, sem við leggjum til að breytt verði í þessum l., eru ákvæðin um fyrningu á kröfum um orlofsfé. Við leggjum til, að fyrningar á þessum kröfum fylgi sömu reglum og gilda um aðrar kaupkröfur. Ástæðan fyrir þessu er sú, að margir erfiðleikar eru því samfara, að kaupkröfur og kröfur um orlofsfé skuli ekki fylgjast að. Skv. núgildandi 1. um orlof fyrnast kröfur sem stofnast á hendur atvinnurekendum um orlofsfé, ef þær hafa ekki verið viðurkenndar eða lögsókn hafin, áður en næsta orlofsár er liðið frá því er kröfurnar stofnuðust. En þessi fyrningarfrestur er 4 ár, ef um aðrar kaupkröfur er að ræða.

Nú er það föst regla, að greiðsla kaups og orlofsfjár fer saman, þannig að ef maður á inni kaup hjá vinnuveitanda, þá á hann orlofsfé inni líka. Það virðist því eðlilegt, að þetta fylgist að, þannig að sömu reglur gildi um fyrningu á kaupkröfum og kröfum um orlofsfé. Um kostnað fyrir ríkissjóð í þessu sambandi er varla að ræða. En það mundi verða til mikils hagræðis fyrir launþega, ef þetta tvennt væri látið fylgjast að. — Ég vænti því, að þetta frv. fái skilning hæstv. Alþ. og hv. þd., og mælist til, að því verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. félmn.