30.10.1947
Neðri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

49. mál, brunatryggingar á Akureyri og Siglufirði

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vil á sama hátt og á síðasta þingi, þegar þessi mál voru til umr., láta þessu máli fylgja nokkur varnaðarorð til hv. þm. Þeir sem hafa kynnzt Brunabótafélagi Íslands, hvað snertir brunatryggingar á fasteignum á Íslandi vita, að fyrir rúmum 30 árum tókst fyrir góðra manna atbeina, fyrst og fremst núverandi hæstv. forseta Íslands að brjóta á bak aftur útlenda vátryggingarhringa, sem höfðu einokað brunabætur á fasteignum hér á landi. Það voru gerðar miklar tilraunir af dönskum brunabótafélögum til að buga íslenzka fyrirtækið, þegar það var stofnað. Það var reynt að gera tilraun til að fá öll endurtryggingarfélög á Norðurlöndum til að bindast samtökum að neita að aðstoða íslenzka ríkið í að stofna sérstakt vátryggingarfélag. Eitt norskt félag skarst úr, Store Brand í Osló, og lá við borð að það yrði rekið úr félagsskap skandinaviskra vátryggingarfélaga, sem áður réðu ein öllu um íslenzkar brunatryggingar. Félagið var stofnað sem íslenzkt félag, sem félag íslenzku þjóðarinnar, allrar þjóðarinnar. Þetta félag hefur starfað í 30 ár sem eign íslenzku þjóðarinnar og er eign allra þeirra, sem hafa tryggt hjá þessu félagi um 30 ára skeið.

Nú er farið að reka áróður fyrir því hér á þingi, að þetta félag, sem er eign íslenzku þjóðarinnar, verði rofið. Nú eru bæjarfélög að leita eftir því að fá að tryggja hjá öðrum félögum, kannske útlendum, til að sigrast á þrjátíu ára baráttu innlends vátryggingarfélags, sem er rekið hér á landi og er eign þjóðarinnar. Ég vara mjög eindregið við, að þetta verði gert. Um það er talað, að Akureyri geti fengið annars staðar hagkvæmari tryggingarskilmála. Það kemur mér kynlega fyrir sjónir, ef það er hægt, a. m. k. til langframa. Síðustu 10 ár hefur Brunabótafélag Íslands tapað á þeim tryggingum, sem það hefur haft með höndum fyrir Akureyri. En ætla má, að áhættan verði minni á Akureyri, eftir því sem fram líða stundir, af því að steinhúsum fjölgi, en timburhúsum fækki, m. a. af því að þau brenna. Stóru gömlu timburhúsin, sem eru einkennandi fyrir Akureyrarkaupstað, standa hvert við annað og vátryggt hvert á mörg hundruð þúsund. Þetta vita allir, sem til þekkja á Akureyri. Ég veit, að ennþá er áhættan svo mikil á Akureyri, að mér þykir næsta ólíklegt, að möguleikar séu til langframa að fá hagkvæmari samninga en verið hefur. Það má vera, að einhverju félagi, kannske útlendu, sé mikið í mun að brjóta á bak aftur Brunabótafélag Íslands, eign íslenzku þjóðarinnar, til þess að reyna að koma að aftur öngum sínum, sem það áður teygði yfir allt hér á landi, og má vel vera, að það vilji einhverju fórna fyrstu árin til að geta aftur náð valdi á tryggingunum hér á landi. Brunabótafélag Íslands endurvátryggir allt hjá öðru innlendu félagi, sem hefur verið nefnt Stríðsslysatryggingarfélag Íslands, en nú heitir það Endurtryggingarfélag Íslands, svo að tryggingin er alveg innlend og eign íslenzku þjóðarinnar.

Ég vil þess vegna mjög alvarlega vara við, að farið verði inn á þessa hálu og hættulegu braut og rjúfa þessi samtök þjóðarinnar, kannske fyrir stundarhagsmuni einstakra bæjarfélaga, sem þau sjá hilla undir til bráðabirgða. Ég efast um. að það liggi fyrir bæjarfulltrúunum nægilegar upplýsingar um málið. Ég efast líka um, að þegar á að fara að gera samninga við önnur félög, að það fengjust nema þá rétt í bráðina hagkvæmari kjör. Akureyri og Siglufjörður hafa mikla möguleika í framtíðinni til að fá lækkuð iðgjöld hjá Brunabótafélagi Íslands. Það er alltaf verið að smálækka iðgjöldin í kaupstöðunum og kauptúnunum eftir því, sem reynslan sýnir, að hægt sé. Samt var það svo á síðasta reikningsári félagsins, að enginn tekjuafgangur varð af iðgjaldagreiðslum, heldur var hann eingöngu fólginn í tekjum af þeim varasjóðum, sem félagið hafði safnað upp síðustu 30 ár. Það getur vel verið, að það takist síðar á Siglufirði og Akureyri að fá iðgjöld lækkuð, eftir því sem útlitið verður betra. Ég er ekki heldur viss um, að önnur brunabótafélög bjóði strax Akureyri stórfé að láni til að koma upp slökkvistöð, eins og Brunabótafélag Íslands hefur gert. En svo á að hverfa burt úr allsherjarsamtökum þjóðarinnar til einkafyrirtækis með lánið á bakinu. Það er ekki sterk þjóðfélagshyggja, sem lýsir sér í þessu máli.

Ég vil sem sagt alvarlega vara við að fara inn á þessa að mínu viti mjög hættulegu braut.