30.10.1947
Neðri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

49. mál, brunatryggingar á Akureyri og Siglufirði

Flm. (Sigurður E. Hlíðar) :

Herra forseti. Mér heyrist, að hæstv. forsrh. sé allheitur í þessu máli og búi allmikið í brjósti, þegar hann ræðir um þetta mál. Mér er vel kunnugt um, að þessi hæstv. forsrh. var forstjóri Brunabótafélags Íslands, svo að honum rennur blóðið til skyldunnar og heldur, að hér sé verið að taka eitthvað frá félaginu með, þessari breyt., ef hún yrði að l.

Mér skildist hann veitast sérstaklega gegn Akureyri og vill halda fram, að þetta félag, sem sé 30 ára, hafi ekki haft annað en tap af viðskiptunum við Akureyri. En hvers vegna er þá félagið að halda í viðskiptin við Akureyri, fyrst það gerir ekki annað en tapa á þeim og þessum gömlu hjöllum, sem brenni og muni brenna? Ég mótmæli því, að verið sé að tala um, að það muni kannske brenna. Það eru meiri framfarir á Akureyri hvað brunatryggingar snertir, og að því leyti er þar allt annað nú en fyrir nokkrum árum og þess vegna miklu minni hætta á stórfelldum brunum, og þess vegna er nú meiri ástæða til að lækka iðgjöldin á Akureyri. Fyrir mörgum árum síðan var farið að ítreka, að iðgjöldin fengjust lækkuð, en það var ekki við það komandi. Í síðustu 12–15 ár hefur Akureyri haft við að búa verri kjör en þeim hafa staðið til boða, því að þeim stendur til boða lækkun, ekki hjá útlendu félagi, heldur innlendu. Það mun vera sama félagið og Reykjavíkurbær hefur samninga við. Hvers vegna á stærsta bæjarfélagið að hafa rétt til að mega leita hagkvæmari kjara? Er það af ófélagshyggju hjá Reykjavíkurbæ eða hvað? (SH: Má maður fá að sjá þetta tilboð?) Ég hef það ekki við höndina, en Akureyrarbær segir, að hann hafi fengið tilboð frá Almennum tryggingum, og Reykjavíkurbær hefur tryggt þar allar sínar eignir. Ég veit ekki, hvort það skilyrði fylgir, að það sé aðeins til bráðabirgða, mér þykir það ólíklegt, þar sem bærinn hefur tryggt þar á 3. tug ára. Ég hef því enga ástæðu til að halda, að þessi kjör, sem Akureyri eru boðin, eigi aðeins að gilda um stuttan tíma, heldur hef ég ástæðu til að halda, að það sé til lengri tíma. Og meðan Akureyrarbúar geta ekki fengið tilboð um betri kjör hjá Brunabótafélagi Íslands, þá getur enginn láð bæjarfélaginu, þó að það vilji sæta betri kjörum, þegar þau standa til boða. Þess vegna er frv. fram komið.