30.10.1947
Neðri deild: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

49. mál, brunatryggingar á Akureyri og Siglufirði

Áki Jakobsson:

Ég held, að engin ástæða sé til að vera með neinn æsing út af þessu frv. Það er einfalt mál. Bæjarstjórnir Akureyrar og Siglufjarðar eru held ég, sammála um að ef þær fá heimild fyrir að vera ekki bundnar við Brunabótafélag Íslands, þá geti þær komizt að mjög miklu hagkvæmari vátryggingarskilmálum annars staðar, svo að það munar allverulegri upphæð. Þær hafa beðið okkur um að bera þetta mál fram, svo að þessir kaupstaðir hafi sömu réttindi og Reykjavíkurbær. Þess vegna flytjum við þetta frv. Það kann að vera erfitt að svara því, hvort rétt sé að veita tveimur kaupstöðum þessi réttindi eða ekki, en fyrst íslenzkt löggjafarvald telur það sæmilegt, að Reykjavíkurbær sé undanþeginn, þá sé ég ekki neitt vera því til fyrirstöðu, að tveir aðrir kaupstaðir fái þessi réttindi líka. Hitt er svo annað mál, sem sjálfsagt er að athuga. að n. fái einnig það frv. til athugunar, sem hér er fram komið um tryggingar, og þá í því sambandi athugi, hvort setja skuli almenna heimild til þess, að bæjar- og hreppsfélög geti tekið tryggingarnar í sínar hendur. Mér finnst hæpið að leggja kvaðir í þessum efnum á íbúa landsins utan Reykjavíkur, þannig að þeir þurfi að greiða hærri iðgjöld til Brunabótafélags Íslands heldur en Reykvíkingar. Þetta félag, sem þjóðin hefur sett á fót, verður á hverjum tíma að vera fært um að halda þannig á málum, að hagsmunum fólksins sé borgið og að það sæti þar betri kjörum en annars yrði. En samkvæmt upplýsingum frá bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar fer því fjarri, að Brunabótafélag Íslands hafi haldið þannig á þessum tryggingarmálum, að Siglfirðingar hafi haft hag af því að vera í viðskiptum við félagið, og enda þótt Brunabótafélagið hafi á sínum tíma verið stofnað til þess að koma í veg fyrir féflettingu erlendra tryggingarfélaga, þá er ekki þar með sagt, að þetta félag geti á hverjum tíma haldið þannig á þessum málum. að það eitt réttlæti þessar kvaðir á landsmenn. — Hæstv. forsrh. talaði um það, að búast mætti við því, ef þessi háttur yrði upp tekinn, sem frv. fjallar um, að erlend brunabótafélög kynnu að sjá sér hag í því að gera óeðlilega lág tilboð, þótt þau bindi sér bagga með því í nokkur ár, til þess að ná í tryggingar hér á landi. Ég sé enga ástæðu til að óttast slíkt, af því að það er beinlínis gert ráð fyrir því í frv., að einmitt slíkir óeðlilegir hlutir eigi ekki að geta skeð, með því að þar er kveðið á um það, að atvmrh. eða sá ráðh., sem þessi mál heyra undir á hverjum tíma, skuli staðfesta slíka samninga, áður en þeir öðlast gildi. Hefur ráðh. þannig aðstöðu til að fylgjast með öllum samningagerð um og gæti hann tekið fram fyrir hendur bæjarfélaganna, ef slíkt kæmi fyrir.

Ég vil ekki slá neinu föstu um það, að Brunabótafélagið fengi ekki þessar tryggingar, þótt bæjarfélögin hefðu aðstöðu til að leita tilboða annars staðar, en þar með væru þau ekki lengur háð því, að Brunabótafélagið geti með reglugerð hvenær sem er ákveðið að hækka iðgjöldin — kannske um 50%.

Þess ber og að gæta að bæjarfélögin komast ekki hjá því að leggja fram stórfé til þessara mála, þ. e. til brunavarna, og er mér kunnugt um það, að bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar telur, að Brunabótafélagið taki ekki nægilegt tillit til þess, hvað kaupstaðurinn hefur aukið mikið brunavarnir sínar, sem svo kemur fram sem hagnaður fyrir Brunabótafélagið, og hefði slíkt átt að gefa því tækifæri til að lækka iðgjöldin. — Það er í rauninni ekki farið fram á neitt annað í þessu frv. en að bæjarfélögin eigi þess kost að leita tilboða í brunatryggingar, annaðhvort hjá Brunabótafélaginu eða öðrum félögum. Er ég sannfærður um, að þau kysu helzt að hafa viðskipti við Brunabótafélagið, ef það aðeins sýndi þeim meiri tillitssemi heldur en það hefur gert til þessa. Auk þess hefur Brunabótafélagið miklu sterkari aðstöðu til að ná samningum við bæjarfélögin með frjálsum samningum heldur en nokkurt félag einstaklinga. — Þá er það stórt atriði, en sjálfsagt, að Brunabótafélagið starfi þannig fyrir bæjarfélögin, að þau séu látin sitja fyrir um lánveitingar.

Hv. þm. V-Húnv. talaði um nauðsyn þess, að endurtryggingarnar kæmust sem mest á innlendar hendur, og er ég sammála honum um það. Eins og fram kom í ræðu hans, er það rétt, að hin erlendu endurtryggingarfélög hafa aldrei tapað á þessum viðskiptum við okkur. Má búast við því, að ef þessar erlendu endurtryggingar yrðu gerðar upp, sem orðið hefur að greiða í erlendum gjaldeyri, en ella hefði áskotnazt þjóðinni, að þær skipti milljónatugum. Ég er viss um það, að þjóðin hefur verið allt of skammsýn í því að taka ekki á sig áhættuna af þessum endurtryggingum, og þarf hún sem fyrst að losa sig við að greiða gjöldin af þeim út úr landinu.

Víð flm. erum vitanlega ekki að krefjast þess, að þetta verði endanlega samþ. að óathuguðu máli. Við viljum, að málið hafi þinglega meðferð, og ætlumst til þess, að sú þn., sem fær það til meðferðar, snúi sér til Brunabótafélags Íslands og fái greinargerð þess um málið, og síðan verði bæjarstjórnirnar á viðkomandi stöðum látnar bera fram sínar rökst. skoðanir móti því áliti, sem fram kann að koma. Sakir standa þannig, að bæjarstjórnir Akureyrar- og Siglufjarðarkaupstaðar telja sig geta sparað stórfé, ef þær hefðu sams konar rétt og Reykvíkingar til þess að semja sjálfstætt um þessar brunatryggingar í stað þess að vera bundnar með l. við Brunabótafélag Íslands, sem getur með reglugerðarákvæðum ákveðið iðgjöldin hvenær sem er.