18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Forsrh. hefur lýst yfir því, að höfuðtilgangur þessa frv. sé að draga úr dýrtíð og verðbólgu í landinu og á þeim grundvelli að tryggja rekstur atvinnuveganna, III. kafli frv., sem fjallar um festingu vísitölunnar, sé þungamiðja þess. Við skulum athuga frv. út frí þessu sjónarmiði. Hvaða ákvæði eru í frv., sem tryggja það, að verðlag í landinu lækki og að dregið verði úr dýrtíðinni?

Verðlagsvísitalan heldur vitanlega áfram að vera 328, þótt því sé logið í lagafrv., að hún sé ekki nema 300 stig. Samkv. frv. er verðlag í landinn ekki lækkað, heldur er kaupið lækkað með lagaboði.

En þá er að athuga: Hvaða áhrif hefur þetta á verðlagið? Samkv. 15. gr. frv. á að færa niður verðlag á ýmsum vörutegundum þannig, að greidd vinnulaun, sem reiknað er með í verðlagi þessara vara, lækki að sama skapi, sem vinnulaun lækka samkv. lagaboði. Hvað mundi þetta nema miklu. Forsrh. hefur það eftir einhverjum, að þetta mundi nema ca. 3%, svo að launaskerðingin mundi ekki verða nema á%. Nú er varlegt að treysta þessum manni, þar sem hann hefur verið staðinn að því að gefa þingheimi visvítandi rangar upplýsingar um opinberar „skýrslur“, sem hann hefur sjálfur í höndum. Sannleikurinn mun vera sá, að ef gert er ráð fyrir, að öll lækkun vinnulauna hafi að fullu áhrif til lækkunar á verðlag, mun hagstofan áætla, að þetta geli numið 1/3 af vísitölulækkuninni, í þessu tilfelli nokkuð innan við 3%. Gerum nú ráð fyrir, að þetta yrði, að þetta kraftaverk skeði. Hver yrði útkoman þá? Samkv. VII. kafla skal leggja 31/2% veltuskatt á meginhluta alls þess, sem keypt er og selt í landinu, undanskilið er aðeins landbúnaðarafurðir, fiskur og vörur til útgerðar. Samkv. þessu hækkar meginhluti þeirra vara, sem ganga inn í vísitöluna, um 31/2%, og ekki nóg með það, heldur líka allar aðrar vörur, sem ekki ganga inn í vísitöluna. En nú fer um það bil helmingur meðalverkamannalauna einmitt til kaupa á slíkum vörum og gæðum.

Ef allt færi nákvæmlega eftir kenningunni, mundi þetta nokkurn veginn vega salt, að því er vísitöluna snertir. En það fer fjarri því, að svo verði í rauninni.

Í fyrsta lagi gildir hin fræðilega eða réttara sagt ímyndaða verðlækkun, sem fram á að fara, ekki um allar þær vörur, sem í vísitöluna ganga. T.d. munu landbúnaðarafurðir lækka sáralitið í verði. Verð þeirra er nú miðað við vísitöluna 306, svo að verðlækkun þeirra ætti að nema þeim vinnulaunum, sem fólgin eru í þessum 6 stigum, sem eru fram yfir 300, eða með öðrum orðum, verðlækkun þeirra nálgast núll. En það, sem er aðalatriðið, er, að það er mjög erfitt og í flestum tilfellum ómögulegt að finna út með nokkrum líkum, hvað vinnulaun eru mikill hluti af verði vörunnar. Hér verður yfirleitt að fara eftir reikningum fyrirtækjanna sjálfra. Jafnvel þótt verðlagseftirlitið væri allt af vilja gert, gæti það ekki framkvæmt 15. gr. á þann hátt, sem verið er að telja landsmönnum trú um, að eigi að gera. Nú munu ýmsir efast um viljann, þegar fyrirmæli stjórnarvaldanna koma til.

Þá eru fyrirmæli um 10% lækkun húsaleigunnar í nýjum húsum. Þetta getur í langflestum tilfellum ekki orðið nema á pappírnum, vegna þess að húsaleiga er seld á svörtum markaði og hin raunverulega húsaleiga kemur hvergi fram. Venjan er sú, að leigumáli gildir um ákveðið tímabil og leiguupphæðin greidd fyrir fram og kemur hvergi fram á pappírnum, hver hin raunverulega upphæð er.

Þá eru tollarnir frá fyrra þingi framlengdir. Þetta hækkar enn fremur vísitöluna um nokkur stig og vöruverð um nokkur prósent. Þessi hækkun er að vísu þegar orðin, en það verður að hafa í huga, að hér er um verðhækkun og vísitöluhækkun að ræða, sem framkvæmd hefur verið af ríkisstj., sem þykist hafa það að aðaláhugamáli að berjast gegn dýrtíðinni.

Eins og sjá má af þessu, mun þetta frv. ekki hafa í för með sér lækkun dýrtíðarinnar, heldur verulega hækkun vöruverðs þegar í stað. Og það mun á engan hátt stöðva vöxt dýrtíðar og verðbólgu, heldur þvert á móti. Verð á erlendum vörum hækkar mjög ört. Og þegar vöruverð hættir að hafa áhrif á vinnulaun, er hætt við, að verðlagseftirlitið slappist. Og þegar niðurgreiðslur hætta að hafa áhrif á vinnulaun, þá er augljóst, að úr þeim verður dregið. Það er því alveg víst, að hin raunverulega vísitala mun stórhækka á næstunni. Það er ekki ólíklegt, að áður en langt um liður, verði hún komin upp í 350. En það skiptir ríkisstj. engu máli, því að kaupið verður reiknað með vísitölunni 300, þó að hin raunverulega vísitala komist upp í 400. Þetta þýðir, að með þessu frv. er verið að skapa óbærilega dýrtíð fyrir allan þorra landsmanna, fyrir alla þá, sem á launum lifa. Fyrir atvinnurekendur eina er þetta gróði. Aðeins fyrir þá „æti þetta talizt minnkandi dýrtíð, þ.e.a.s., ef fólkið léti sér þetta lynda. En að því kem ég síðar.

Annar höfuðtilgangurinn á að vera sá að tryggja rekstur bátaútgerðarinnar. Hvernig er það gert í þessu frv.? Ríkið tryggir bátaútgerðinni sama verð fyrir fiskinn og í fyrra. Þetta er tekið óbreytt úr frv. Sósfl. Sósíalistar hafa alla tíð sýnt fram á það með skýrum rökum, að þetta væri óhjákvæmileg nauðsyn. Stjórnarflokkarnir hafa talið þetta fjarstæðu og skrifað um það ótal greinar í móðursjúkum tón. morgunblaðið skrifar í forustugrein 13. nóv. s.l.:

„Nei, skrípaleikurinn er of auðsær til þess, að ekki verði séð í gegnum þann svikavef, sem kommúnistar eru að spinna. Krafan um „fast lágmarksverð fyrir fiskinn, er tryggi hlutarsjómönnum réttlát kjör“ er einhver heimskulegasta blekkingartilraun, sem íslenzkur stjórnmálaflokkur hefur leyft sér að gera. Setning ábyrgðarlaganna á síðasta þingi breytir þar engu.“

Nú er það komið á daginn, að Sósfl. er eini flokkurinn, sem litið hefur raunhæft á þetta mál. Samtök útgerðarmanna hafa knúið ríkisstj. til að taka upp þessa till Sósfl.

Þá eru teknar tvær aðrar till. frá Sósfl., önnur um stuðningslán til þeirra, sem töpuðu á síldveiðunum í sumar, og hin um lækkun á beituverði. En greinin um beituna er svo óákveðin, að ómögulegt er að sjá, hvaða gildi hún hefur eða hvort hún hefur nokkurt gildi. En aðalpúðrið til þess að bjarga útgerðinni á að vera launalækkunin, ákvæðið um að reikna vísitöluna 300 stig, hvað sem hún er í raun og veru. Við skulum athuga, hvað er raunhæft í þessu.

Ef tekið væri fullt tillit til lækkunar allra þeirra vinnulauna, sem inn í útgerðarkostnaðinn ganga, mundi þetta kannske nema allt að 5000 kr. á meðalfiskibát í hæsta lagi. Nú er þetta dreift á marga liði, sem mjög erfitt er að finna út úr, og um svo smáar upphæðir að ræða, að þeirra gætir óverulega á mörgum liðum. Það er því hægt að slá því föstu, að verðlag á útgerðarvörum verður ekki lækkað teljandi af þessum sökum. Verður olíuverðið t.d. lækkað? Það væri fróðlegt að fá svar við því.

Hin raunverulega vísitala, sem útgerðin verður að búa við, verður ekki 300, heldur um 330 stig fyrst um sinn. Og þessi raunverulega vísitala getur hækkað án takmarka. Útgerðin verður að búa við miklu meiri dýrtíð en áður, miklu meiri dýrtíð en s.l. ár. Sama er að segja um hlutarsjómenn. Hið raunverulega kaup þeirra lækkar stórum af þessum sökum. Það er því hin furðulegasta blekking og öfugmæli, sem hæstv. forsrh. sagði, að samkv. frv. mundi útgerðin búa við betri kjör en s.l. ár.

Ég hef nú sýnt fram á með rökum, sem ekki verða hrakin, að það er fjarri því, að þessi lög hafi þann tilgang eða miði að því, sem ríkisstj. vill vera láta. Þau draga ekki úr dýrtíðinni, heldur auka hana. Þau bæta ekki hag útgerðarinnar, heldur gera hann lakari.

Hvert er þá mark og mið þessa frv.? Tilgangur þess er að koma í framkvæmd þeirri eilífu hugsjón auðvaldsflokkanna að lækka laun vinnustéttanna í landinu, gera hina fátæku fátækari, til þess að hinir ríku geti orðið ríkari. Og þessum tilgangi nær frv., þ.e.a.s., ef ekki væri til nógu öflug verkalýðshreyfing í landinu til þess að brjóta það á bak aftur, ef það yrði annað og meira en pappírsgagn.

Með núgildandi vísitölu og óbreyttu verðlagi mundi kaup launamanna lækka um 81/2%. Nú hef ég sýnt fram á, að verðlag mundi ekki lækka, heldur hækka. Mun því láta nærri, að kauplækkunin yrði nú þegar um 10%. Hins vegar er fjarri því, að kauplækkunin yrði lægri, þegar frá liður, eins og hæstv. forsrh. sagði. Þessu er öfugt farið. Kauplækkunin yrði því meiri, sem lengra liði frá. Hún gæti vel orðið 15–20%, er frá líður. Ef miðað er við 8.5% kauplækkun, lækka laun lægst launuðu Dagsbrúnarmanna um 78 aura um tímann, eða grunnlaunin um tæpa 24 aura. Með þessu fer forgörðum meiri hl. af tveimur síðustu kauphækkunum Dagsbrúnar. Það er meira en sú kauphækkun, er járnsmiðir hafa náð nýlega með tveggja mánaða verkfalli. Dettur mönnum í hug, að Dagsbrún hafi haldið út í mánaðar verkfalli og járnsmiðir í tveggja mánaða verkfalli bara rétt svona að gamni sínu. Þessar stéttir hafa sannarlega ekki lagt niður vinnu og lagt svo mikið að sér nema vegna þess, að það var knýjandi þörf. óhjákvæmileg nauðvörn gegn pólitík ríkisstj. auðmannastéttarinnar. Og hvílíkur barnaskapur að halda, að þessar stéttir láti sér þetta lynda.

Ég skal nú nefna nokkur dæmi um það, hvernig þetta verkar fyrir hinar ýmsu launastéttir. Það eru nokkur dæmi um launalækkun á ári vegna vísitöluskerðingar frv. Hér er alls staðar miðað við dagvinnu:

Verkamenn í Rvík,

Dagsbrúnarmenn

kr.

1872.00

-

2040.00

Mánaðarkaupsmenn í Rvík.

Dagsbrúnarmenn

1780.80

-

1948.80

Fagmenn, svo sem trésmiðir,

prentarar, bifvélav., bókb.,

klæðskerar o.fl.

2184.00

2475.00

Starfsstúlkur á spítölum.

1176.00

Bifrstj., mánaðarkaupsm.

2116.80

2184.00

Hásetar á verzlunarskipum .

1478.8Ð

Hásetar á togurum

1208.28

Verzlunarstúlkur og afgrm.

840.00

1596.00

Starfsmenn Rvíkurbæjar, 8.

-15. fl.

1344.00

2520.00

Verksm.fólk, konur og karlar

1176.00

1831.20

Verkakonur og þvottakonur

1248.00

-

1344.00

Við þetta vil ég svo bæta, að lágmarkstrygging sjómanna samkv. kjörum Sjómannafélags Rvíkur lækkar um kr. 161.84 á mánuði og samkv. kjörum alþýðusambandsins um kr. 170.80.

Ég endurtek, — hvílíkur barnaskapur að halda, að launastéttirnar láti sér þetta lynda. Greiðslur samkv. alþýðutryggingal., meðlög, barnalífeyrir, ekkna og einstæðra mæðra, fjölskyldubætur, bætur og lífeyrisgreiðslur vegna slysa o.s.frv. lækkar einnig um 81/2%. Elli- og örorkulífeyrir lækkar á sama hátt, nema notuð verði heimild, sem stjórnin hefur nú verið knúin til að setja í frv. — Þá lækkar hann um 4%. Þetta er jólaglaðningur ríkisstj. til þeirra, sem eru verst stæðir í þjóðfélaginu.

Eins og ég hef sýnt fram á, verða launalækkanirnar meiri og vafalaust miklu meiri að nokkrum tíma liðnum. Fyrir því eru engin takmörk, hvað þessi launalækkun getur orðið mikil.

Það mun ekki vera fjarri lagi, að í fyrsta umgangi sé með þessu móti rænt um 50 millj. kr. á ári úr vasa launþeganna í landinu. Og hvað verður um þetta fé? Því er fljótsvarað. Það rennur í vasa atvinnurekenda. Það rennur ekki til þeirra, sem látið er í veðri vaka, að eigi að hjálpa, ekki til bátaútvegsmanna. Það rennur til þeirra atvinnurekenda, sem hafa mest af beinum launþegum í þjónustu sinni. Það rennur að langmestu leyti í vasa hinna auðugustu í landinu. Á móti þessu kemur svo eignaraukaskattur, er engar upplýsingar hafa verið gefnar um, hvað nemi miklu. Ef hann nemur 10 millj., fá eignamenn að meðaltali 40 millj. út úr frv. nettó. (Frá þessu dregst að vísu nokkur upphæð, sem ríkið hagnast um.)

Það þarf því meira en lítil brjóstheilindi til þess að halda því fram, að hér sé verið að skipta byrðunum réttlátlega og að „þeir, sem mest mega sin, beri þyngstu byrðarnar“ eins og forsrh. sagði. Sannleikurinn er sá, að hér er verið að gefa hinum ríku tugi milljóna á kostnað launastéttanna, ræna tugum millj. úr vasa hinna fátæku og millistéttanna og stinga þeim í vasa hinna ríku. Því verður ekki neitað, að yfirstéttin á sér húsbóndaholla þjóna, þar sem stjórnin er, en um hyggindin gegnir kannske nokkuð öðru máli. Af því hefur nú þegar fengizt nokkur reynsla, og þó er nú lögð enn meiri prófraun á hyggindi þeirra. Víst var það í þjónustu lítillar yfirstéttarklíku, sem árásin var gerð á kjör almennings með tollahækkuninni s.l. vetur. Það var í þjónustu þessarar klíku, sem aðalatvinnuvegirnir voru stöðvaðir í nærri því mánuð til þess að þröngva kosti verkamanna. Það var aðeins vegna þess, að viti bornir menn tóku fram fyrir hendur ríkisstj.. að síldarvertíðin var ekki stöðvuð alveg. En verkalýðurinn sigraði og tókst að halda kjörum sínum óskertum. En það var tugmilljóna tap fyrir þjóðina. Og það var mikið tap fyrir hina innlendu húsbændur ríkisstj. Það hefur líka sjálfsagt átt að vera í þjónustu húsbændanna, sem ríkisstj. stöðvaði járniðnaðinn í tvo mánuði. En sigur járnsmiðanna var alger. Hins vegar bakaði það þjóðinni milljóna tjón, að ríkisstj. hindraði, að samið væri í upphafi um þær kröfur járnsmiðanna, sem allir töldu, að væru réttmætar.

Svona hafa nú hyggindi ríkisstj. verið, og nú hefur hún lagt út í mestu ófæruna. Ef til vill er skýringin sú, að hím hefur farið eftir fyrirskipunum hinna amerísku húsbænda sinna. En finnst þá íslenzkum mönnum, hvar í stétt eða flokki, sem þeir standa, ekki nóg komið, því að það mun ekki líða á löngu, áður en atvinnurekendur verða að sanna það, að þeir munu ekki græða á því stéttastríði, sem þessi ameríska leppstjórn, öðru nafni „fyrsta stjórn Alþýðuflokksins“, hefur stofnað til.

Hvað hefur skeð, sem réttlætir það, að stofnað er til þessara óskapa? Hvaða nauðsyn ber til að hefja svo ósvífna árás á lífskjör almennings? Fyrir tæpu ári síðan var nóg atvinna í landinn, miklar framkvæmdir, vaxandi velmegun, allt líf þjóðarinnar einkenndist af bjartsýni og stórhug. Og nú á allt að vera á barmi glötunarinnar. Hefur hallæri dunið yfir landið? Ónei, það hafa aðeins orðið stjórnarskipti.

Hvernig eru svo afkomumöguleikar þjóðarinnar að öðru leyti?

Í tíð fráfarandi stjórnar aflaði þjóðin sér fullkomnari og betri framleiðslutækja en hún hefur nokkru sinni átt. Framleiðslugeta undirstöðuatvinnuveganna var tvöfölduð. Þessi tæki hafa þegar aflað þjóðinni geysimikilla auðæfa. Fyrstu nýsköpunartogararnir hafa þegar aflað gjaldeyris upp í verðmæti sitt. Á skömmum tíma munu þeir færa þjóðinni miklu meiri gjaldeyri en út var lagður fyrir þá. Allar helztu útflutningsvörur landsmanna hafa stórhækkað á heimsmarkaðinum. Síldarlýsið hefur á þessu ári hækkað um 50–100%, síldarmjöl yfirleitt um 25%, mikill hluti hraðfrysta fisksins um 25%. Ísfisksalan er með afbrigðum góð. Í fyrra var andvirði útflutningsins 291 millj. Nú er víst, að hann verður a.m.k. 350 millj. og meiri, ef öll vetrarsíldin er talin með. Gjaldeyristekjur þjóðarinnar í ár fara þannig fram úr öllum fyrri metum. Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir þá frammistöðu ríkisstj. í afurðasölumálunum, sem fræg er orðin að endemum. Nú fer verðlagið á matvælum mjög hækkandi um allan heim. hefur t.d. hækkað um 40–50% í Bandaríkjunum á stuttum tíma. Ríkisstj. viðurkennir sjálf, að verð á íslenzkum afurðum fari hækkandi og síðustu sölurnar séu beztar. Það eru því engar líkur til, að ekki fáist ábyrgðarverð fyrir fiskinn á næsta ári, nema selt verði beinlínis fyrir lægra verð en fáanlegt er, og þó einkum þegar tekið er með í reikninginn, að ríkisstj. gerir ráð fyrir í frv. að verðjafna afurðirnar, en enginn ágreiningur er um, að á næsta ári mun verða geysihátt verð á síldarlýsi. Hitt er eðlilegur hlutur, að eftir það, sem á undan er gengið, vilji útgerðarmenn og sjómenn ekki una neinni óvissu um fiskverðið, einkum þegar þess er gætt, að afurðasalan er í höndum manna, sem hafa notað hvert tækifæri, þegar hingað hafa komið erlendir verzlunarerindrekar, til þess að lýsa því yfir, að verðið á afurðum Íslendinga sé allt of hátt.

Samkv. síðustu framtölum voru þjóðartekjur Íslendinga í kringum 11 hundruð milljónir og raunar meiri, ef reiknað væri með hinum raunverulegu tekjum. Það mundi ekki fjarri sanni, að ef þjóðartekjum Íslendinga væri skipt jafnt niður, kæmi allt að 50 þúsund kr. á hverja 5 manna fjölskyldu, en mikill hluti þessa óhemju auðs er í höndum örfárra manna.

Samkvæmt framtölum 1946 er eignaskipting í Reykjavík þannig: 200 ríkustu einstaklingarnir og hlutafélögin eiga 103 milljónir í skuldlausum eignum, miðað við fasteignamat og nafnverð á verðbréfum. Það er ekki minna en 500 millj. kr., miðað við raunverulegt verðmæti, eða yfir 1/2 milljón, miðað við fasteignamat, en 21/2 milljón, miðað við söluverð nú, á hvern aðila. Eign allra skattþegna var á sama tíma 402 milljónir, miðað við fasteignamat og nafnverð. Og svo kemur ríkisstj. og ber það blákalt fram fyrir þjóðina, að allt sé að fara í kaldakol og að atvinnurekendur séu að sligast undir byrðunum. Og hún ætlar að ræna 50 millj. frá þeim, sem rétt hafa til hnífs og skeiðar, og stinga í vasa hinna, sem eiga 21/2 milljón að meðaltali hver í skuldlausum elgnum. Það eru vissulega engin takmörk fyrir mannlegu blygðunarleysi. Og þegar litið er sérstaklega til Alþfl., sem hefur forustuna í þessari ríkisstj.: Hvílíkt hyldýpi mannlegrar niðurlægingar, að láta hafa sig til slíkrar þjónustu fyrir svartasta afturhaldið, innlent og erlent.

En með þessu tiltæki sínu nær ríkisstj. ekki öðru en því, að sundra þjóðinni, egna til innanlandsófriðar, eyðileggja vinnufriðinn í landinu, sóa ógrynni verðmæta. Og hún hefur gert sér þetta fyllilega ljóst. Undirbúningur hennar hefur verið fólginn í því, að gera ráðstafanir til þess að koma á atvinnuleysi. Í því skyni hefur hún stöðvað íbúðarhúsabyggingar og er að stöðva mikinn hluta iðnaðarins. En þrátt fyrir allt þetta er ríkisstj. dæmd til ósigurs, algers ósigurs í þeim átökum, sem fram undan eru. Til þess eru samtökin nógu sterk, og árásirnar, sem á þau eru gerðar, nógu blygðunarlausar. Það er ekki aðeins velferð alþýðuheimilanna á þessu landi, sem er í húfi, heldur heiður verkalýðssamtakanna og frelsi þeirra. Það er barátta fyrir íslenzku lýðræði gegn erindrekum hins ameríska nýfasisma. Það er ekki hægt að lifa menningarlífi hér á landi fyrir minni laun en hinn almenni verkamaður hefur, þó að hann hafi vinnu alla virka daga úrsins. Og minnki atvinnan, hrekkur kaupið ekki til brýnustu nauðsynja.

Verkalýðssamtökin munu hrinda þessari árás af höndum sér, þessu ráni á vinnulaunum þeim, sem þau hafa tryggt sér með samningum. Þau hljóta að hækka grunnkaupið, sem því svarar, og ríkisstj. mun sitja eftir með skömmina. Ríkisstj. ætti að vera minnisstæð reynslan frá baráttunni gegn þrælalögunum 1939, gegn gerðardómslögunum 1942 og þeim tilraunum, sem hún hefur gert til þess að þrengja kosti launastéttanna á þessu ári. En því miður mun ríkisstj. ekki aðeins baka sjálfri sér háðung, ef frv. hennar nær fram að ganga, heldur þjóðinni mikið tjón. Þess vegna ríður á, að öll þjóðin sameinist nú þegar til þess að hindra framgang þess og knýi ríkisstj. til undanhalds, áður en meiri skaði er skeður.

Lúalegust er framkoma ríkisstj. gegn starfsmönnum ríkis og bæja, sem er bannað að gera verkfall. En ég er þess fullviss, að starfsmenn hins opinbera munu heldur ekki láta bjóða sér slíkt. Þeir munu líka finna leiðir til að verja sig og geta verið öruggir um öflugan stuðning alþýðusamtakanna.

Nú segja ráðherrar hrunstjórnarinnar, að það sé staðreynd, sem ekki verði á móti mælt, að eitthvað verði að gera til að tryggja rekstur bátaútvegsins. Setjum svo, að verðið á erlendum markaði sé ekki nógu hátt til þess að bera uppi rekstur bátanna, a.m.k. sumra þeirra, sem eru miður heppnir. Er þá nokkurt vit í því að stórlækka launatekjur allra landsmanna af þeim sökum, á sama tíma sem annar rekstur er rekinn með miklum gróða, þ. á m. aðrar greinar sjávarútvegsins og ýmis atvinnurekstur með ofsagróða, eins og raun ber vitni? Ef á að miða launakjör þjóðarinnar við þann atvinnurekstur, sem ber sig verst eða hefur lakasta útkomu á hverjum tíma, þá eru íslenzkar launastéttir dæmdar til að búa við hungurkjör um aldur og ævi. En þetta er einmitt grundvallarkenning þeirra yfirstéttaragenta, sem nú fara með völd í landinu. Þess vegna er það, að hvort sem Íslendingar búa við kreppu eða velmegun, hátt eða lágt verðlag, þá er kenningin sí og æ hin sama hjá þessum herrum: Kaupið verður að lækka. Það er bezt fyrir launastéttirnar sjálfar, annars er hrun fram undan.

Ef einhver atvinnuvegur eða grein atvinnuvegar á við örðugleika að stríða, þá er vitaskuld hið eina, sem vit er í, að jafna metin á kostnað þess rekstrar, sem rekinn er með miklum gróða. Nú fer fjarri því, að sjávarútvegurinn þurfi á hjálp að halda sem heild. Á honum byggist sá óhemju auður, sem safnazt hefur fyrir í landinu. Og ef bátaútvegurinn fengi að njóta ávaxtanna af því, sem hann aflar, þá þyrfti hann vissulega ekki að kvarta. Það er einmitt þessi leið, sem Sósfl. hefur bent á. Landsbankinn hefur grætt 14,2 millj. á s.l. ári. Hvaðan er þetta fé tekið? Af sjávarútveginum. Gróði heildsalastéttarinnar er nú alveg vafalaust yfir 50 milljónir kr. á ári. Hvaðan er þetta fé tekið? Það er tekið af sjávarútveginum. Það er tekið af verzlun með þann gjaldeyri, sem sjávarútvegurinn aflar. Ríkisstj. tekur nm 80 millj. með tollum. Hvaðan er það fé tekið? Að langmestu leyti af afla sjávarútvegsins. Ef bátaútveginum væri skilað, þó ekki væri nema litlum hluta þess fjár, mundi vissulega ekki vera hættusamt að stunda útgerð.

Nú er það svo, eins og ég hef sýnt fram á, að launarán ríkisstj. er engin hjálp fyrir bátaútveginn, siður en svo. En Sósfl. hefur lagt fram frv., sem mundi tryggja góða afkomu fyrir bátaútveginn með því að létta af honum nokkru af þeim byrðum, sem á honum hvíla. Sósfl. leggur til, að vextir verði lækkaðir, sem ekki er aðeins eðlileg, heldur sjálfsögð ráðstöfun, eins og nú standa sakir. Bankarnir munu nú þvert á móti hafa haft vaxtahækkun í undirbúningi og munu ætla að hækka innlánsvextina, af því að viðurkennt er, að bankarnir hafa haft óeðlilegan gróða. Hvaða vit er þá í því að lækka ekki útlánsvexti til útgerðarinnar, þegar hrópað er upp um erfiðleika hennar? Þá leggur Sósfl. til, að vátryggingagjöld bátaútvegsins séu lækkuð að mun og að útgerðarvörur, beita og viðgerðarkostnaður, séu lækkaðar mjög verulega og verðinu komið í eðlilegt horf. Með þessum ráðstöfunum mætti lækka tilkostnað meðalfiskibáts um 50–60 þús. kr.

Þá leggur Sósfl. til í frv. sínu, að vöruverð og vísitala séu raunverulega lækkuð, þannig að hægt sé að halda hinni raunverulegu vísitölu stöðugri í kringum 300. Þetta er hægt að gera með því að afnema tolla af nauðsynjavörum og breyta verzlunarfyrirkomulaginu í ódýrara horf. Ef þessir hlutir væru framkvæmdir, mundi bátaútvegurinn og hlutarmenn búa við betri kjör en s.l. ár og njóta raunverulega lægra verðlags. Hitt gagnar sjávarútveginum ekki nokkurn skapaðan hlut, þótt því sé logið í lögum, að vísitalan sé 300, sízt þegar verðlag fer í raun og veru hækkandi á sama tíma.

Að lokum vildi ég segja þetta: Íslenzkir kjósendur hafa nú fengið að sjá, hvert sá þingmeirihluti stefnir, sem þeir trúðu fyrir umboði sínu 1946. Fyrstu alvarlegu aðvörunina fengu þeir, þegar herstöðvasamningurinn var gerður og afturhaldinu tókst að rjúfa samstarfið um nýsköpunina. Nú hafa þeir fengið aðra alvarlegu aðvörunina. Það er ekki aðeins um efnahagslega afkomu íslenzks almennings að tefla, að það takist að hrinda þessari stjórn, heldur líka framtíð lýðræðisins og sjálfstæðis þjóðarinnar.

Íslenzka þjóðin, allir þeir, sem vinna og framleiða, þurfa að taka höndum saman til þess að vernda hagsmuni sína og vinna að því, að snúið verði af þeirri óheillabraut, sem horfið var að með tilkomu þessarar ríkisstj. Verkamenn og starfsmenn, bændur og útvegsmenn, menntamenn og allt frjálslynt fólk í þessu landi þarf að taka höndum saman og láta afturhaldinu ekki takast að sundra röðum sínum vegna mismunandi lífsskoðana eða flokkshleypidóma.

Allur almenningur þarf að styðja verkalýðshreyfinguna í þeirri miklu varnarbaráttu, sem hún á nú fyrir höndum, því að sú barátta er háð fyrir hagsmunum og frelsi allrar þjóðarinnar. Við þurfum sameiningu og samstarf. ekki sundrungu og ófrið.

Hinar vinnandi stéttir og allir þeir landsmenn, sem vinna þjóðnýt störf, þurfa að finna leiðir til samstarfs og til þess að skapa sér sameiginlegan meiri hluta á Alþingi þrátt fyrir allt hið smærra og fjarlægara, sem á milli ber. Það er skilyrði fyrir því, að hægt sé að hefja að nýju þá sókn framfaranna og athafnanna fyrir betra lífi og meiri menningu, sem hafin var á árunum 1944–46.