13.11.1947
Neðri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Sigfús Sigurhjartarson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði þegar fundi var slitið og þetta mál var til umr. síðast, að gefnu tilefni frá góðum flm., rakið nokkrum orðum sögu löggjafarinnar hvað áfengismál snertir allt til ársins 1922. Á því ári gerðist það, sem kunnugt er og ég hef þegar nokkuð lýst í ræðu minni, að leyft var að selja létt vín. svo kölluð Spánarvín. Að forminu til var banninu haldið með undanþágum, en í reyndinni var bannið á þessu ári afnumið. Reyndar var það, að banntímabilið endaði á þessu ári, þótt að forminu til sé bannlöggjöfin haldin, enda undanþágur svo stórfelldar. Þegar þetta spor var stígið, var því haldið fram af fjölmörgum mönnum hér og víðar, að þetta spor bæri að stiga til þess að bæta ástandið í málinu. Því var haldið fram, að af hinum léttu vínum yrði enginn ölvaður og afbrot mundu hverfa eins og dögg fyrir sólu og skapast það ástand hvað þessi mál snertir, að ölvun þekkist ekki. Þetta minnir á þær röksemdir, sem 1. flm. þessa frv. bar fram við umr.

Ég get ekki látið vera að geta þess, að það kom mér á óvart í ræðu 1. flm., er hann var að velta fyrir sér, hvað það vært sem æskan drykki í dag. Hann orðaði það svo, að það væri sterkt vín, sem væri óþverri og svo fram eftir götunum, og gat þess að hún ætti ekki á öðru völ. Mér varð þá á að hugsa: Hvað er nú orðið af léttu og heilnæmu vinunum frá 1922, sem þá áttu að bæta ástandið í málinu og gera það svo gott, að ekki yrði betra á kosið? Við erum sammála um það, ég og 1. fim., að ástandið í áfengismálunum hafi versnað mikið á þessum árum. Og það eru einmitt þessi ár, sem hv. þm. hlýtur að eiga við, þegar hann telur sig muna svo glöggt til bannáranna með þeirri spillingu, sem þá tíðkaðist við Ísafjarðardjúp, því að ekki hygg ég að Ísfirðingar séu betri í þessum sökum en aðrir. Sú slæma lýsing, sem hann gaf í því efni, hlýtur að vera frá árinu 1922, því að svo langminnugan ætla ég ekki hv. þm., að hann muni frá 1915 til 1922. Eftir því sem stendur skrifað, á hann að hafa verið fæddur 18. des. 1915 og því barn á þeim árum. Nú líður og bíður og umbótamenn á borð við 1. flm. verða ágjarnir um, að nú verði að breyta um í áfengismálunum. Hér sé svo mikið um lögbrot og vasapeladrykkjuskap. Nú sé nauðsynlegt að biðja um suðræn vín, sem nú eru talin óholl og skaðleg. Nú á að breyta um til að laga þetta. Nú var þessi áróður rekinn af þingbótamönnum, eins og hv. flm., og árangur þessa áróðurs var, að það formlega bann, sem var í gildi og í raun og veru var búið að afnema, var numið úr l. 1934. Nú skyldi maður ætla, að hin mikla gullöld væri runnin upp og nú gætu menn fengið heilnæmu og góðu vínin í staðinn fyrir óþverra. Nú átti að afnemast öll lögbrot og kenna, hvernig menn eiga að fara með áfengi. Nú veit ég vel, að ég og hv. 1. flm. erum sammála um það, að lítið hafi þokazt í áttina að því marki á þeim árum, sem liðin eru. Heldur þvert á móti. Ég er sannfærður um það, að við erum sammála um, að ástandið í áfengismálunum hafi farið versnandi síðan 1922. Og nú er svo komið, að þessi heilnæmu vín, sem allt áttu að laga 1934, eru í munni þessa þm. óholl og óþverri og skaðleg æskunni, — vitanlega af því, að hún hefur ekki fengið það í nógu smáum skömmtum. Þriggja pela flaska væri höfuðóvinur. Ef menn gætu fengið það í staupatali eins og í gamla daga, þá væri allt í lagi, æskan ekki í hættu, bara ef nógu greiður aðgangur væri að þessu áfengi, sem í öðru orðinu er kallað óhollt og óþverri.

Að gefnu tilefni hef ég rakið þessa sögu. sem af hlýtur að vera hægt að draga miklar ályktanir. Nú vil ég reyna að skýra það fyrir hv. 1. flm., hvernig hægt er að álykta af þeim gefnu forsendum sem við höfum.

Fyrst skal ég taka það fram, að við erum sammála um tvennt, — staðreyndir sem eru svo margframteknar og ágreiningur kemur ekki til greina um. Í fyrsta lagi var hér öflug bindindisstarfsemi. einkum 1884 fram til 1922 eða 1918. Árið 1915 var ástandið þannig, að menn skömmuðust sín fyrir að láta sjá sig ölvaða. Það þekkist ekki að kvenfólk væri ölvað og unglingar ekki heldur. Önnur staðreynd er, að ölvun hefur farið vaxandi frá ári til árs frá 1922. Sönnunin fyrir því, að þm. muni vera þessarar skoðunar, er sú, að nú á þessu ári hefur hann fengið sérstaka hvöt til að koma með úrbótatill. Þegar við athugum þessa staðreynd og lítum á hvert atriði löggjafarstarfseminnar í landinu, kemur í ljós, að frá því laust fyrir aldamót, einkum frá 1902–1915, er í raun og veru fylgt stefnu bindindismanna á löggjafarsviðinu. Þá var stigið hvert sporið í þá átt að þrengja að um sölu áfengis. Fyrst afnumið það, sem mér skilst að flm. vilji fá aftur, en það var staupasalan, og farið að selja áfengi í stærri skömmtum, sem bundinn var endir á. Með banninu 1915 breyttist þetta í meiri og meiri takmörkun á sölu áfengis og hömlur varðandi meðferð þess, sem gerir það að verkum, að ástandið fer batnandi frá ári til árs og minna og minna er drukkið. Árin 1918–1922 er snúið við og þá eru það ekki bindindismenn, sem móta löggjöfina, heldur andstaða þeirra. Frá þeim tíma ganga breytingarnar út á það að rýma um sölu áfengis. Fyrst hin svokölluðu Spánarvín. Svo er tekið að drekka og yfirleitt stefna að meira frjálsræði, fá fleiri víntegundir og ganga frá hömlunum þannig, að niðurstaðan verði meira áfengi fyrir þjóðina.

Af þessum forsendum get ég ekki dregið annað en það að meiri regla skapist, eftir því sem meiri þrengsli eru um sölu áfengis. Í raun og veru er þetta ekki nema sjálfsagður hlutur, því að það hlýtur öllum að vera ljóst að sömu lögmál eru um sölu á hvaða vöru sem er. Hver hygginn kaupmaður, sem vill selja vöru sína, leitast við að hafa hana sem víðast á boðstólum og mesta úrvalið. Yfirleitt leitast hann við að greiða kaupendum götuna að því að verzla. Ef honum er hins vegar illa við, að það er keypt af honum, reynir hann að hafa fánýta vöru og götuna sem torveldasta að búð sinni, Ef ríkisvaldið vill, að þjóðin fái sem minnst, þá fylgir því haftastefna, því meiri hömlur og reynslan hefur sýnt það, að þetta leiðir til minnkandi áfengisneyzlu.

Það er margsagt, að á tímabilinu fyrir bannið hafi ástandið verið þannig að menn hafi yfirleitt skammazt sín fyrir óhófsneyzlu áfengis og þá hafi kvenfólk ekki drukkið og ekki unglingar. Þetta er líka eðlilegt. Því að hvað sem sagt er um löggjöf, bönn og höft, og hvað sem sagt er um það, að visst hlutfall þurfi alltaf að vera á milli þess, sem löggjöfin býður, og þess, sem þjóðin vill, þá er hitt alveg víst að löggjöfin mótar hugsunarhátt þjóðarinnar. Ég viðurkenni það, að hver l. sem Alþ. setur, þurfi og eigi að hafa vissa stoð í réttarvitund þjóðarinnar. Allt annað leiði til þess, að þjóðin lítilsvirði þau. En það er vissa fyrir því, að þó að svo eða svo mikill hluti þjóðarinnar sé andvígur einhverri löggjöf, löggjöf, sem býður eða bannar ef á annað borð er gerð ærleg tilraun til þess að framfylgja henni og hún á hljómgrunn hjá einhverjum hluta þjóðarinnar, þá hefur löggjöfin mótandi áhrif á almenningsálitið í landinu. Og vissa er fyrir því, að haftastefna hvað snertir áfengismál átti hljómgrunn hjá þjóðinni og marga áhangendur. Og það er vissa fyrir því, að það, hvernig löggjöfin frá því fyrir aldamót og til 1915 eða 1918 gengur lengra og lengra inn á haftabrautina í þessum málum, hefur haft sýnileg áhrif á almenningsálitið og hefur átt kannske stærstan þátt í því að skapa það álit, að það sé vansæmandi að misnota áfengi svo sem hver sá gerir, sem ölvaður er. — Þetta var allt rifjað upp að gefnu tilefni frá hv. 1. flm. og til þess að leitast við að kenna honum nokkuð í löggjafarsögunni á þessu sviði og kenna honum að draga réttar ályktanir af staðreyndum, sem sagan hefur nú fram að bera. Og nú stöndum við hér í dag frammi fyrir því, að þessi mikli siðbótarmaður hefur hafið upp sína miklu rödd hér á Alþ. og viðurkennt, að ástandið hjá okkur í þessum málum sé mjög slæmt, og hitt verður líka að viðurkenna, að skoðanabræður hans hafa ráðið áfengislöggjöfinni nú um það bil í 30 ár. Nú ætlar þessi hv. þm. að bæta þetta ástand. Og endurbótin er að gefa mönnum enn þá kost á einni nýrri áfengisnautn. Vill ekki hv. flm. alvarlega hugsa um þá fyrirrennara sína, sem hér hafa staðið á þingi og árin 1921 og 1922 sögðu, að við yrðum að fá létt Spánarvín, þá batnaði ástandið. Þessir sömu fyrirrennarar hans sögðu svo 1932, 1933 og 1934 á Alþ.: Þessi léttu vín eru hreinasti óþverri og óholl þjóðinni, sterku vínin eru allt öðruvísi. — Þeir fengu sterk vín. Og nú segir þessi hv. þm., að þau séu óholl og hálfgerð ólyfjan og að við verðum að fá áfengt öl. Það getur verið, að svo komi enn nýr siðbótarmaður eftir nokkur ár og segi, að það sé um að gera að útrýma þessu sterka öli, því að það sé óhollt og í alla staði hið hættulegasta.

Ég vil líka biðja hv. 1. flm. þessa frv. að hugleiða það í alvöru, hvernig ástandið muni verða fyrir okkar unga fólk á skemmtunum þess, skólaskemmtunum og öðrum skemmtunum, þegar það á kost á áfengu öli, sem kostar aðeins nokkrar krónur, því að mér skilst, að það eigi að vera ódýrt. Og ég vildi nú aðeins biðja hann að hugsa sig nú vel um, áður en hann heldur fram þeirri fjarstæðu, að slík ölneyzla leiði ekki til ölvunar. Og ég vildi biðja hann að spyrja sjálfan sig að því, hvort honum finnst í raun og veru rétt að stuðla að því, að hver einasti snauður skólapiltur og hver einasta snauð skólastúlka, sem með litlum efnum fer á dansskemmtun hálfsmánaðar- eða mánaðarlega, venjist á hið áfenga öl í slíkum samkvæmum. Ég vildi líka biðja hann að athuga það, hversu mikinn vinning verkamenn okkar, sem yfirleitt eru litlir áfengisneytendur, mundu af því hafa að hafa í sínu vinnuskýli við Reykjavíkurhöfn áfengt öl og geta fengið áfengt öl á hverri einustu sjoppu, þar sem þeir margir kaupa mat, og geta á öllum stöðum, sem þeir umgangast, fengið hið sterka öl. Ætli það sé alveg útilokað, að það mundi leiða marga þessara manna fyrr en varir út á ákaflega hála braut áfengisnautnar í stærri stíl?

Ég veit, að samþykkt þessa frv. mundi verða mikið vatn á myllu hjá einum hópi manna í landinu, og það eru þeir ógæfusömu menn, sem hafa keypt áfengi fyrir margar kr. hjá ríkinu, borga af því háa skatta og látið manndóm sinn í kaupbæti. Því miður þekkjum við marga þessa menn og þeirra ömurlega rölt um götur bæjarins, þegar þeir eru að leita sér að nokkrum krónum til þess að „splæsa“ saman í eina flösku. Og við þekkjum svo aðferðina, þegar þeir eru búnir að ná í flöskuna. Þá ná þeir sér í nokkrar ölflöskur og blanda ölið með áfengi, og þannig geta þeir haldið við sínu ömurlega ástandi dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman. Það yrði miklu mögulegra fyrir þessa illa förnu menn að fá sér aura til þess að halda sér við á sterka ölinu. Það yrði því góð leið fyrir þá frá þeirra sjónarmiði, ef þeir fengju þetta sterka öl, því að þeir mundu hafa miklu minna fyrir því að viðhalda sínu eymdarástandi eftir að þeir fengju sterka ölið en áður. Það er kannske ekki stórt atriði hvort þeir hafa mikið eða lítið fyrir þessu. En hitt finnst mér vera augljóst, að ekki mundi sterka ölið, ef þeir ættu þess kost, auka á vonir um það, að þessir menn gætu endurheimt manndóm sinn, sem þeir hafa látið í kaupbætt, þegar þeir voru að kaupa áfengi af ríkinu. — Yfirleitt vil ég biðja hv. 1. flm. þessa frv. að gera sér það ómak að íhuga staðhæfingar sínar, m. a. hvaða menn það eru í landinu, sem líkur eru til, að þetta frv., ef að l. yrði, mundi hafa siðbætandi áhrif á. Ég veit ekki, hverjir það mundu vera. En eins og margbent hefur verið á og tekið er fram í grg. frv., er tilgangurinn með þessu frv. siðbót, mikil siðbót. Hvaða menn mundu siðbætast með slíkum l. sem þessum, ef frv. yrði samþ.? Eru það æskumenn okkar? Eru það verkamennirnir? Eru það ofdrykkjumennirnir? Hvaða stétt er þetta? Og hvernig í ósköpunum er hægt að rökstyðja þessa skoðun? Ég endurtek það, að ég bið hv. flm. um rök. Ég bið hann að sanna mál sitt með því að vitna í hagskýrslur og læknaskýrslur, sem leiði í ljós, að þá sé minna drukkið, ef meira er af áfenginu í heild. Ég hef skýrslur, sem sýna það gagnstæða, bæði eldri og yngri skýrslur. Og ég mun kannske, ef þetta mál verður langlíft í þinginu, sem ég vona, að ekki verði, afla mér meiri skýrslna. Það tekur tíma að fá skýrslur og vinna úr þeim. En siðbótarmaður, eins og hv. 1. flm. þessa frv., hlýtur að hafa gert sér það ómak, áður en hann fór af stað með þetta mál, að afla sér gagna, sem rökstyddu mál hans. Ég bið hann að afsanna skýrslur landlæknis, sem eru í þingtíðindunum frá 1931. Og ég bið hann að koma með skýrslur. sem styðji hans málstað og ef hann gerir það, þá skal ég sannarlega bera virðingu fyrir hv. 1. flm. þessa frv., þegar hann sýnir að hann geti þetta. Þá fer ég að skilja hann, skilja að þetta sé hreinn siðbótaráhugi, sem knýr hann til að bera fram þetta frv., ef hann getur leitt einhver rök að því, að samþykkt þessa frv. geti leitt til siðbótar.

Annars eru ákaflega mörg atriði í sambandi við þetta frv., sem vert væri að ræða og verða kannske rædd áður en umr. um málið lýkur. Einu atriði ætla ég að koma að enn og kannske raunar fleirum. Og til þess að hefja umr. um það atriði, verð ég að fá leyfi hæstv. forseta til þess að lesa hér upp nokkur orð úr grg. frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfsagt virðist, að hið erlenda starfslið Keflavíkurflugvallarins kaupi hið íslenzka öl meðan það er hér, og yrði þá tekið fyrir hinn óviðfelldna innflutning þess á þessum vörum.“

Það er nú svo. Fyrir tveimur árum síðan, eða 1. desember 1945, þá hafði ég átt von varðmannlegrar afstöðu hjá þessum hv. þm. gagnvart erlendri íhlutun um íslenzk mál, sem kemur fram í þessum orðum grg. Það er staðreynd, að hið erlenda lið, sem er hér suður á Keflavíkurflugvellu hefur brotið íslenzka löggjöf með því að flytja inn áfengt öl í mjög stórum stíl. Í einni slíkri sendingu voru t. d. 16 þús. kassar. Það hefur einnig flutt inn sterkt áfengi í stórum stíl. Það er staðreynd, sem hv. 1. flm. frv. virðist vita af, að þetta öl er selt og gefið Íslendingum í stórum stíl. Og þar með eru brotin landslög. Nú hefði maður vænzt þess, að sá hv. þm., sem talaði af glæsileik og myndarskap um sjálfstæðismál í útvarpið fyrir tveimur árum, hefði komið hér fram á vígvöllinn og sagt: Þetta verður að stöðva, við megum ekki leyfa erlendum mönnum að fótum troða hér lög og rétt og það á þann hátt, að leiði til stórkostlegs ófarnaðar fyrir fjölda Íslendinga, með því að hafa öl- og vínsmygl í frammi, sem hjá þessu liði á Keflavíkurflugvellinum hefur leitt til ófarnaðar á skemmtisamkomum hér suður með sjó og á kannske eftir að gera það enn meir. — Nei, það kom engin slík afstaða fram hjá hv. 1. flm. þessa frv., heldur þetta: Það er staðreynd, að Ameríkumenn hafa farið heldur leiðinlega með þetta öl, og þá er um að gera að hjálpa þeim við að brjóta landslögin, með því að breyta l. eftir þeirra óskum og vilja. — Þetta er kali út af fyrir sig og vissulega saga, sem vel er þess verð, að sögð sé í sambandi við þetta mál. Og ég vil spyrja hv. flm.: Hvar á að enda? Hve mörgum l. íslenzkum vill hann breyta, ef hann hefur staðið Ameríkana suður á flugvelli að því að brjóta þau? Er þessi hv. þm. kominn niður á það stig eymdarinnar, að ef nokkrir útlendir menn koma og rétta út hendur sínar og segja: Við viljum hafa þetta svo eða svo — þá komi sjálfstæðishetjan frá 1. des. 1945 og segi: Ég skal flytja frv. á Alþ.? — Þetta atriði er þáttur í röksemdum fyrir þessu máli, sem frv. er um, og er vissulega málstaðnum samboðið að öðru leyti. Sem sé, hér er allt á eina bók lært, bókstaflega allt, bæði að því er snertir afstöðu til erlends valds, til íslenzkrar æsku, til íslenzkra verkamanna, til íslenzku þjóðarinnar. Hér er bugtið og beygingarnar fyrir hinu erlenda valdi og lítilsvirðing á íslenzku þjóðinni.

Enn þá eru það nokkur atriði, sem ég þarf að tala um við hv. 1. flm. frv. Hann hefur sagt okkur það, að nokkrir kjósendur úr hans eigin kjördæmi, Norður-Ísafjarðarsýslu, hafi sent símskeyti og andmælt þessu frv. En hann var svo sem ekki í vafa um, að hann þyrfti ekki að taka sérstakt tillit til þess. Og það mátti greinilega heyra á honum, að hann teldi, að sig varðaði ekki um vilja kjósendanna í þessu efni. Hann væri ekki bundinn af neinu öðru en sinni sannfæringu. Það er hárrétt hjá hv. þm., að hann er af sannfæringu sinni einni bundinn. En það kom líka fram hjá honum, að honum þætti eðlilegt, að málið væri rökrætt og þjóðin fengi að segja álit sitt um það. Nú vill svo til, að þessum hv. þm. hefur boðizt ágætt tækifæri til þess að koma því til leiðar, að málið verði rætt frammi fyrir allri þjóðinni. Stórstúka Íslands hefur skrifað útvarpsráði og farið fram á að fá að eiga umr. í útvarpinu um málið, þar sem mættu til umræðnanna verjendur frv. Nú á hv. 1. flm. frv. sæti í útvarpsráði, og er það ekki vafamál, að honum er greið gata og auðgeng að því að fá því til vegar komið, að útvarpsráð fallist á þessa beiðni og málið verði þá rökrætt frammi fyrir þjóðinni. Nú vil ég spyrja þennan hv. þm.: Hefur hann ekki tekið þá sjálfsögðu afstöðu í útvarpsráði að stuðla að því, að málið verði þannig rökrætt frammi fyrir þjóðinni? Eða ef svo skyldi vera, að hann hefði ekki áhuga fyrir þessu, vill hann ekki koma því til leiðar með samkomulagi, að málið verði rökrætt á þingi? Það væri ákaflega æskilegt. Maður, sem telur sig hafa að flytja mikið umbótamál og mál, sem hann veit að þjóðin hefur á mjög skiptar skoðanir, — maður, sem viðurkennir að hún eigi að fá að heyra rök og gagnrök í málinu, hann ætti vissulega með einum eða öðrum hætti að stuðla að því, að þjóðin fengi að heyra rökræður um málið. Og nú hefur hann tvöfalt tækifæri til þessa. Hann getur sem útvarpsráðsmaður stuðlað að því, að orðið verði við beiðni Stórstúkunnar, sem ég gat um. Hann getur sjálfur mætt þar þeim fulltrúum, sem Stórstúkan mundi vilja senda á vettvang. Og hann hefur annað tækifæri í þessu efni. Hann getur stuðlað að því, að þjóðin fái að heyra umr. um málið frá sölum Alþ. gegnum útvarpið.

Ég kem svo síðast að því sem hv. 1. flm. frv. drap á um vilja kjósendanna, sem hann talaði svo kröftuglega um hér, að sér kæmi í raun og veru ekkert við. Hvað kemur honum við, hvað þeir segja í Bolungavík eða Súðavík? Það er nú heldur hinn voldugi umbótavilji og mikil sjálfsákvörðunarréttur hv. þm. sjálfs. sem þar á að ráða. En ég vil segja honum eitt í sambandi við þetta. Hv. þm. N-Ísf. er hér umboðsmaður, og hann hefur hér ekkert vald nema það, sem honum er gefið hér af öðrum — ekki neinum æðri máttarvöldum, heldur háttv. kjósendum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Og ef það skyldi nú vera svo, að hv. kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu væru alveg andstæðir hv. þm. þeirra í þessu máli, þá er hann að vísu ekki skuldbundinn að láta af sannfæringu sinni, en aðra leið á hann, sem er drengilegri og myndarlegri, og hún er að segja við sína kjósendur: Nú eru mínar skoðanir í ósamræmt við ykkar, meiri hluti ykkar er mér í þeim andvígur, og þið fáið að kjósa ykkur umbjóðanda á ný. Þetta getur þessi hv. þm. gert, ef hann vill tala við kjósendur sína með fullri virðingu og rökum. En hitt er ekki neitt sérstaklega demókratískt (svo ég noti það orð), að standa hér og hrista sig og steyta hnefa og segja: Mig varðar ekkert um, hvað kjósendurnir segja.

Ég vil nú að síðustu segja það. að mér virðist, að hv. 1. flm. þessa frv. eigi hér tvö áhugamál. Annars vegar : Hið sterka öl á hvers manns borð — og það m. a. til þess að verða við óskum ameríska hernámsliðsins á Keflavíkurflugvellinum — og hitt, að sterkir drykkir verði seldir í smærri skömmtum. Og til viðbótar það, að rýmkað verði á öllum sviðum um sölu áfengis. Þessi hv. þm. hefur staðhæft, að þetta leiddi til mikillar siðbótar. Ég bið hann um rök í stað staðhæfinga um málið. Ég bið hann hér að afsanna þá sögu, sem ég hef rakið varðandi áfengismál á Íslandi. Ég bið hann að reyna hér að hrekja tölur, sem fram hafa verið settar hér fyrr og síðar um málið og ég hef greint frá. Og ég bið um tölur, sem sanni málstað hv. 1. flm., ef þær eru fáanlegar. Hv. 1. flm. hefur haldið því fram hér, að það væru sérstaklega góð skilyrði til ölbruggunar hér á Íslandi vegna góðs vatns. Ég hef áður beðið um rök fyrir þessu. og ég endurtek hér með þá beiðni.

Enn eitt ætla ég að benda hv. þm. á í sambandi við þetta mál. Hv. 1. flm. ætlar að gera þetta áfenga öl að gróðavænlegri útflutningsvöru. Varla getur það reyndar talizt stórgróði fyrir ríkið, sem hv. þm. hefur hér hug á. því að það eru 10 aurar af útfluttri flösku, sem ríkinu á að hlotnast. Hann segir, að það séu hreinir smámunir. sem þurfi að flytja inn í landið til þess að framleiða áfengt öl. En hvaða skynsamleg rök hefur þessi hv. þm. fyrir því, að við getum keppt um markað í Englandi, Þýzkalandi, Frakklandi eða öðrum löndum álfunnar eða í Ameríku við öl, sem framleitt er þar á staðnum. þó að vatnið sé gott hér? Þó að vatnið sé gott, þá er það staðreynd, að við verðum að flytja til landsins hráefni í ölið og væntanlega flytja inn flöskur undir ölið, eða a. m. k. hráefni í þær, og síðan flytja út á dýran hátt okkar ágæta vatn, mengað með nokkrum ölgerlum. Eru nú líkur til, að þetta öl þyldi samkeppni á t. d. enskum markaði, þar sem hráefnið er framleitt og vatnið er sæmilegt, þó að það þurfi kannske að hreinsa það, og þar sem ekki þarf langan flutning hvorki á tómum né fullum flöskum? Og þannig get ég tekið hvaða land sem er, sem reynt mundi að flytja þetta öl til, ef til kæmi. Vill hv. 1. flm. koma með líkleg rök fyrir því, að íslenzkt öl gæti orðið samkeppnisfært í þessum löndum — einhvern snefil af rökum?

Ég skal nú ljúka máli mínu. Ég taldi í upphafi máls míns, að grg. og röksemdirnar fyrir þessu frv. byrjuðu á rökleysu. Og það er augljóst mál, að það er rökleysa að segja, að það eigi að gera tvennt með þessu frv., annars vegar draga úr neyzlu sterkra drykkja í landinu og hins vegar auka tekjur ríkissjóðs. Þetta er rökleysa. Ég skal svo ekki rifja upp neitt um þann veg, sem mér sýnist hv. flm. frv. ganga. En hinu spái ég, að svo sem vegur þessa máls hér á Alþ. byrjar með rökleysu, þá muni hann enda í vegleysu.