17.11.1947
Neðri deild: 19. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

59. mál, ölgerð og sölumeðferð öls

Halldór Ásgrímsson:

Ef dæma má eftir málflutningi 1. flm. og þeirri grg., sem fylgir frv., mætti ætla, að þeim sem af alvöru vilja vinna gegn áfengisbölinu í landinu, hafi bætzt nýr liðsmaður. Því er haldið fram, að þetta eigi að vera mjög siðbætandi í sambandi við nautn áfengis, en ráð þessara manna í sambandi við nautn áfengis er, að enn sé veitt nýju áfengi, sem selt sé við hvert búðarborð, á hverjum veitingastað og á hverri skemmtun og enn fremur, að framleiðendur geti selt það beint til neytenda, en ekki minna en 25 flöskur. Samkvæmt þessu verður að álykta, að þeim mun meira áfengi, þeim mun minni drykkjuskapur, en ég held að þessi röksemdaleiðsla þeirra sé jafnfjarri lagi og annað, sem þeir hafa fært fram máli sínu til stuðnings.

Það er réttilega fært fram í grg., að það sé mikil ómenning samfara þeirri áfengisnautn, sem nú er, og sérstaklega hinna sterku drykkja. En yrði það þá minna, ef menn fá áfengt öl?

Okkur eru gefin mjög mörg fögur fyrirheit í sambandi við þetta frv. Okkur er lofað sjúkrahúsum, bara ef við drekkum nóg af áfengu öll. Það má segja, að út af fyrir sig sé það þakkarvert, að þessum mönnum hefur dottið í hug, að það þurfi aukinn sjúkrahúsakost, þegar ölspillingin fer að sækja út í þjóðfélagið. Það er svo sem víst, að öll nautn áfengra drykkja hefur heilsuspilli í för með sér, og má segja, að það sé þakkarvert að vilja nota hagnaðinn til að auka sjúkrahúsakostinn, og blandast engum hugur um, að eins og ástandið er í sjúkrahúsmálum okkar væri æskilegt, að bætt væri úr. En það þarf ekki síður að auka heilsuvernd þjóðarinnar, og ég verð að ætla, að ekki sé minna í þá heilsuvernd varið, sem bætir úr áfengisbölinu, — ég tala ekki um þann ávinning, sem fengist með aukinni hófsemi einstaklinganna. Ég held þess vegna, að þótt hægt yrði að afla tekna, eins og okkur er lofað, með sölu öls, að það verði of dýru verði keypt að afla þjóðinni tekna á þann hátt til þess að byggja upp sjúkrahús landsins, og að betra væri að afla þeirra tekna öðruvísi.

Það eru margir landsmenn, sem halda því fram, að draga beri úr áfengisnautn með því að fækka útsölustöðum. Þeir benda á það, að þar sem tiltölulega erfitt er að ná í áfengi, sé minni drykkjuskapur, en flm. líta svo á að það beri að gera mönnum létt fyrir að afla áfengis. En þetta er kannske ekki það alvarlegasta. Hitt er alvarlegra, að það má telja það víst, að ýmsir. sem ekki neyta áfengis, muni neyta þessa öls, m. a. af því að þeim er talin trú um, að það væri ekki hættulegt af því hvað það inniheldur lítið áfengi. En það má telja tiltölulega víst, að þegar þeir verða búnir að venja sig á það áfengi, sem er í ölinu, muni þeir reyna að ná sér í annað sterkara, og þá held ég, að við séum komin að því, sem er hættulegast í þessu máli, en það er hættan fyrir æskuna í landinu. Því hefur verið haldið fram í þessum umr., að ekki sé mjög mikil hætta á að æskan sækist eftir þessu öli, vegna þess hvað það er bragðvont. Það hefur oft verið nefnt, hvað svartidauði væri bragðvondur, en það virðist ekki standa í vegi fyrir því, að hann sé drukkinn. Og hafa menn athugað það, hvað þetta öl á að vera víða? Það er sem sé gert ráð fyrir því, að það verði rétt að mönnum við hver vegamót, og má þá búast við, að áhrifa þess gæti fljótt inn í raðir þeirrar æsku, sem ekki er farin að nota áfengi. Og það er ekki einasta æskan. Það eru líka börnin.

Þá er í grg. þessa frv. rætt um innflutning áfengis til starfsliðs Keflavíkurflugvallarins og að hægt muni vera að afnema hann, ef þetta áfenga öl verður á boðstólum. Það má vel vera, að svo sé, en ég held, að það væri of dýru verði keypt, ef ekki er hægt að fjarlægja þetta á annan hátt, sem ég vona, ef um leið á að hleypa þessu áfenga öli út til þjóðarinnar.

Það hefur verið sagt í sambandi við þetta, að hægt sé að afla verulegs gjaldeyris með ölframleiðslunni. Það vita allir, hve gjaldeyrisvandræðin eru mikil, og er gott fyrir þessa menn að geta sagt, að við fáum gjaldeyri. En ég tel það ólíklegt, þegar við getum ekki keppt við nokkra þjóð um framleiðslu, að við getum á þessu sviði, þrátt fyrir Gvendarbrunnavatn, orðið samkeppnisfærir við þjóðir, sem búa við betri framleiðsluskilyrði og aldagamla tækni á þessu sviði. Nei, það er allt á sömu bókina lært um málflutning 1. flm. og í grg. Ég held, að það ætti að duga að gefa stutt og laggott svar, eitthvað svipað því, sem gefið var uppi á háu fjalli í fyrndinni, þegar gert var svipað tilboð.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða marga liði þessa máls. Það er búið að hrekja ýmsar helztu firrurnar, eins og þá, hvílík fjarstæða það sé, að bæði sé hægt að afla nýrra tekna með áfengissölu og samtímis draga úr áfengisnautn.

Eitt er athugavert í sambandi við þetta frv. Því er haldið fram, að tvær ástæður liggi til þess, að það eigi að ná samþykki, en það er siðsemin og fjáraflanir til þess að byggja upp sjúkrahús landsins. En það hefur gleymzt að gæta þess, að þessar tekjur renni til ríkisins. Það er sem sagt hugsað, að hér geti skapazt einstaklingsgróði í skjóli þessarar framleiðslu. Og það eitt fyrir sig er vitanlega stór afturför í áfengismálum okkar frá því, sem nú er. Og það má segja, að það sé furðulegt þar sem nú er þó viðurkennt, að það sé á engan hátt betur komið hagnaðinum af áfengisverzlun en hjá ríkinu. Það er þess vegna sjáanlegt, að hv. flm. þessa frv. hafa látið sér detta í hug að færa þessi mál í það form, sem einu sinni ríkti. — sem sé að einstaklingar geti gert sér áfengismálin að féþúfu og það svo freklega sem ætla mætti að hægt væri í gegnum þetta.

Það eru margar athyglisverðar setningar í grg. þessa frv. Og mér verður á að líta hér á niðurlagið, þar sem ég les m. a. þessar setningar. með leyfi hæstv. forseta:

„Íslendingar fara illa með vín. Það er staðreynd, sem ekki verður gengið á snið við. því miður. En þeir mundu halda áfram að gera það, ef ekkert er gert til þess að skapa aukna umgengnismenningu á þessu sviði. Framleiðsla og sala góðs öls í landinu sjálfu er tilraun til umbóta. Sú tilraun er ekkert fálm út í loftið. Reynsla fjölmargra menningarþjóða hefur sannað árangur hennar. Þess vegna verður að vænta þess, að þessu frv. verði tekið af skilningi á því mikla vandamáli, sem það miðar að umbótum á.“

En ég held að það sé aðeins einn skilningur réttur á þessu máli, að fella þetta frv. strax við. þessa umr.

Ég get svo ekki neitað mér um að víkja fáeinum orðum að ræðu hv. 2. flm. frv. (StgrSt). Það mátti segja að þar kvæði við talsvert annan tón en hjá hv. 1. flm., — tón, sem var karlmannlegri og yfirdrepslausari. Mér virtist hv. 1. flm. ganga hreint til verks og kalla eftir meira áfengi eða a. m. k. fleiri áfengistegundum. Hann gat þess þó að vísu, að hann gæti sætt sig við einhverjar takmarkanir á sterkum drykkjum, og er það út af fyrir sig þakkar vert. En ræða hv. 2. flm. var yfirdrepslaus og ekki með neinum loforðum. sem hann vissi, að hann gæti ekki staðið við. Hann boðaði enga siðbót, lofaði engum sjúkrahúsum. Hann lofaði aðeins því, sem hægt er að standa við í þessu sambandi. og það er það að hafa meira áfengi á boðstólum. — Það var líka athyglisvert hjá þessum hv. þm., 2. flm. að hann lýsti yfir, að hann væri alls ekki ánægður með þetta afkvæmi sitt. Það var bara eins og manni gæti dottið í hug, að hann hefði eignazt það eitthvað óviðkomið og hann sæi fram á, að honum yrði það að lítilli gleði nú þegar og eftir því sem stundir liðu.

Þessi hv. þm. heimtaði rök frá andmælendum frv. Já, það má nú einlægt heimta. En það er dálítið furðulegt, að hann skyldi óska eftir meiri rökum, þó að vafalaust væri hægt að bera þau á borð fyrir hv. flm., því að það er vitað mál og augljóst, að með rökum andstæðinga þessa frv. var búið að tæta hverja einustu forsendu. sem lögð var fram til stuðnings þessu frv. En ég tel víst, að hægt væri að bera mörg fleiri rök á borð fyrir hv. flm., ef þeir óska eftir.

Þessi hv. 2. flm. frv. lýsti drengilega yfir því, eins og hans var von og vísa, að hann væri jafnvel tilbúinn að ganga gegn þessu frv., ef hægt væri að sanna honum, að þetta frv., ef samþ. yrði mundi verða til þess að auka drykkjuskap æskunnar. En hvað eru sannanir? Það er staðreynd, að eftir því sem fleiri áfengistegundir eru fáanlegar og eftir því sem auðveldara er að ná í áfengi, eykst drykkjuskapur óhjákvæmilega meira og eftir því sem meira er á boðstólum af vægum víntegundum, því hættulegra verður áfengið fyrir alla byrjendur. — Hv. 2. flm. líkti þessu öll við fæðutegund, jafnvel dilkakjöt, og þótti mér þar nokkuð langt gengið. Það getur vel verið að þetta öl eigi að hafa inni að halda einhver sérstök bætiefni, sem ekki er búið að boða okkur. Það getur verið, að þetta öl eigi meira að segja að vera svo að gera ónauðsynlegan innflutning á ávöxtum. En hvað er það, sem búið er að boða okkur um það, hvað þetta öl eigi að hafa fram yfir þær viðurkenndu öltegundir, sem nú eru hér til staðar? Er ekki framleiddur hér nógu góður pilsner eða nógu góður bjór eða maltöl eða hvað það nú er af öltegundum. sem hér eru til staðar? Hvað á þetta nýja öl að hafa fram yfir þær öltegundir, sem við höfum hér fyrir? Það er ekki búið að upplýsa, að það eigi að hafa neitt þar fram yfir annað en áfengi. Það ber þess vegna alls staðar að sama brunni, að það er það eitt, sem sótt er eftir í sambandi við þessa ölframleiðslu.

Hv. 2. flm. frv. veittist mjög að banninu. Það mætti nú segja, að það mál kæmi ekki þessu máli við. En hann hélt því fram, að það illa ástand, sem nú ríkti í áfengismálum hjá okkur, væri allt banninu að kenna (StgrSt: Alveg rétt). Já, ég vona, að ég fari yfirleitt rétt með það. sem ég vitna í hér. En það var búið að sýna þessum hv. flm. og öðrum fram á, að það var aldrei fullkomið bann í landinu. Það er ekki enn búið að reyna fullkomið bann. Þegar bannið var, voru alls konar undanþágur og misbrúkun á reglum, sérstaklega um læknabrennivínið (StgrSt: Alveg rétt). Og þeir, sem muna þá tíma, muna, hvernig læknabrennivíninu var þá ausið út á báða bóga. Svo leið ekki á löngu þangað til Spánarvínið kom og þá var útséð um, að þetta bann næði nokkrum árangri. Auk þess má geta þess, að á þessum tíma var mjög lélegt eftirlit, m. a. tolleftirlitið með innflutningnum, og því erfitt að líta eftir, að víni væri ekki smyglað inn í landið. Og þar við bættist svo, að í hópi opinberra embættismanna, sem áttu að gæta þess, að bannlögin væru haldin, voru allt of margir, sem voru andvígir þeim. Það var því fjarri því oft, að hugur fylgdi hönd, þegar eitthvað var gert til þess að afstýra bannlagabrotum. Það er því hrein fjarstæða, að það sé hægt að kenna banninu um það ástand, sem nú ríkir í áfengismálum okkar.

Hv. 2. flm. sagði okkur átakanlega sögu um það. Hvernig 30 ungir menn úr Mývatnssveit brutu af sér hlekki áfengisbannsins. Ég tel þetta ekki sönnun þess, að bannl. hafi verið slæm, heldur raunasögu 30 ungra manna, sem gera sig seka um það gáleysi að brjóta þau l., sem þeir eiga að fylgja. (Stgrst: Þetta var áður en bannl. gengu í gildi). Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að þetta hafi átt að vera ein sönnun á hendur bannl., því að þetta átti, eftir útlistun hv. 2. flm., að hafa verið bannl. að kenna. Ég held, að þá sé ekkert sérstakt við þessa sögu, fyrst bannið var ekki komið á þegar hún gerðist, nema ef vera mætti það. sem mætti þykja furðulegt, að kúturinn hafi verið svo stór, að jafnefldir menn og hv. 2. flm. áttu erfitt með að koma honum upp að vörum sér. Það mun ekki hafa verið í byrjun, heldur þegar kúturinn tók að léttast. (SigfS: Kúturinn léttist, en kraftarnir minnkuðu).

Þessi hv. þm., 2. flm., líkti þessum banni, við Stóradóm. Ég er hissa á því, að þessi maður, jafnöfgalaus og hann er að jafnaði, skuli leyfa sér að gera þennan samanburð. Það er vitað, að Stóridómur er mest hataða löggjöfin, sem Íslendingar hafa orðið að beygja sig fyrir, m. a. þau ákvæði, að karl og kona, sem vildu njótast, fengu ekki að njótast, ef hægt var að rekja saman ættir þeirra langt aftur í liðum. Er það kannske svipuð tilfinning, sem grípur þessa menn, m. a. flm. þessa frv., eins og hefur verið á liðnum öldum hjá þeim körlum og konum, sem reyndu að fara á bak við ákvæði Stóradóms? Er það kannske ástin á Bakkusi, sem er á bak við og grípur þannig um sig og veldur því, að þeim finnst ákvæði Stóradóms hliðstæð bannl. og vilja svo engin bannlög hafa?

Þá virðist hv. 2. flm. vera hneykslaður á því, að það gangi eins og rauður þráður gegnum alla löggjöfina: „Þú skalt ekki.“ Það væri æskilegt, að það þyrfti ekki að nota það ákvæði eins og það er notað. En hvernig er það með þessi tíu gömlu boðorð, sem hafa staðið í hverjum barnalærdómi kynslóð eftir kynslóð og okkur hefur verið innprentað, að við ættum að halda? Fer þeim ekki líka að verða hætt. ef það á að hamast á móti þessu ákvæði: „Þú skalt ekki“? Eru þau ekki í samræmi við okkar löggjöf? Og hvernig ætli það yrði með löggjöf allra siðaðra þjóða, ef ætti að telja það höfuðsök, að í þeim stæðu ákvæði, sem banna eða fyrirskipa þetta eða hitt? Mér er bannað t. d. að vega mann, þó að mér finnist hann hafa gert það mikið á hlut minn, að mér finnist, að hann hafi unnið sér til óhelgi. En mér á ekki að vera bannað að hefna mín á honum með því að selja börnum hans áfengt öl og vísa þeim svo upp í — eða niður í — „ríki“ á svartadauða þar og skilja svo við þau sem „róna“ niðri í Hafnarstræti. Þetta má ekki banna. Mér er líka bannað, þó að ég þyrfti þess með, að afla mér fæðis og klæðis með því að ræna til minna nauðþurfta. En mér á ekki að vera bannað að setja niður ölknæpu hvar sem ég vil, til þess, að afla mér stórgróða á þann hátt! Það er vitanlega allt þjóðhættulegt, sem ég nefndi. En þetta síðast talda er e. t. v. þjóðhættulegast.

Hv. 2. flm. hélt því fram, að það væri einkamál hvers og eins, hvort hann drykki meira eða minna, og það ætti ekki að skipta sér af fullorðnum mönnum á því sviði. Ég veit, að þótt ég eða hv. 2. flm. smakki vín, þá er óþarfi að skipta sér af því. En hversu mörg dæmi eru um það, þar sem þjóðfélagið getur ekki látið sig engu skipta, hvort fullorðnir menn skulum við segja neyta áfengis, ekki aðeins vegna einstaklinga, heldur og vegna heimila þeirra og aðstandenda? Ég held, að þeir, sem vilja hafa leyfi til að hafa um hönd áfengi, geti vel við unað það, sem nú er hægt að fá af því, og þó að minna væri. Ég held að það væri réttara af þeim að ganga inn á það, að takmarkað væri það áfengisflóð, sem nú gengur yfir þetta land, en ekki leggja lið sitt til þess að reyna að auka það. Ég held, að það sé rétt fyrir þá að íhuga það, hvort þeir eigi nú enn að vega í þennan sama knérunn, sem áður hefur verið svo mjög að gert. Og ég held, að það sé rétt af áfengisunnendum að kalla til þessara hv. flm. og segja: Klaufi! Kunn þú hóf þitt! Og ég held, að það sé rétt að láta þá menn, sem vilja vinna að umbótum í áfengismálunum, a. m. k. halda þessu eina litla, en þýðingarmikla vígi á þessu sviði, þ. e., að ekki sé bruggað áfengt öl hér á landi.

Ég er í dag einn af þeim, sem ekki eru ákveðnir með banni. Og ástæðan fyrir því er sú, að ég tel, að ekki séu nú sem stendur skilyrði fyrir hendi, sem gefa mundu æskilegan árangur í sambandi við bann. En ég geri ráð fyrir, að margir af þeim mönnum, sem ekki eru í dag reiðubúnir til að fylgja algeru banni, en í dag vilja bara draga úr áfengisneyzlu, mundu hverfa strax í raðir bannmanna um leið og þetta nýja áfengi væri komið á markaðinn. Og ef ég væri sérstakur unnandi áfengis, mundi ég telja hyggilegast að láta staðar numið — gjarnan kannske vilja láta eitthvað til baka af áfengistegundum, sem á boðstólum eru — og vega a. m. k. ekki oftar í þennan sama knérunn.