18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það er haft eftir Davíð Stefánssyni skáldi, að hann hafi nýlega sagt í ræðu, að á síðustu sjö árum hafi orðið meiri framfarir hér á landi en á næstu sjö öldum þar á undan. Óþarfi er að minna fullorðna menn á, hvernig hér var umhorfs fyrir þetta sjö ára tímabil. Þá var skortur flestra lífsins gæða hér í landi, þröngt í búi hjá öllum, en atvinnuleysi og eymd hjá almenningi.

Allt þetta gerbreyttist á skammri stundu. Til þess voru einkum tvær ástæður:

Hið erlenda setulið, sem hér dvaldist, réðst í miklar framkvæmdir, og höfðu þær í för með sér mjög mikla atvinnu og ýmislegan annan fjárhagslegan hagnað landsmanna.

Þá vaknaði einnig mikil eftirspurn afurða okkar, einkum sjávarafurða, sem fyrir stríð höfðu stundum verið lítt seljanlegar og íslenzkir sjómenn fluttu nú af mikilli hugdirfð og þrautseigju yfir hafið til Englands. Verð sjávarafurðanna hækkaði stórkostlega, og fengu sjómenn, svo sem sanngjarnt var, sinn hlut af þeirri hækkun.

En launþegar í landi fengu einnig miklar bætur á kjörum sínum. Fyrst svo, að ákveðið var, að þeir skyldu fá fulla dýrtíðarvísitölu greidda ofan á grunnlaun sín, og er sá greiðsluháttur óþekktur annars staðar, þar sem til hefur spurzt. Því til viðbótar hefur svo það komið, að á þessum árum hefur grunnkaup smám saman hækkað svo, að nú má segja, að flestar stéttir hafi nær tvöfalt grunnkaup, miðað við það, sem fyrir ófriðinn var. Og dýrtíðarvísitalan er ekki aðeins greidd; á upphaflega grunnkaupið, heldur einnig að fullu á þær miklu grunnkaupsviðbætur, sem orðið hafa.

Allur sá fjöldi manna, er átti við að etja atvinnuleysi fyrir stríð, hefur þess vegna eigi aðeins í stað þess, sem áður var, nú hlotið fulla vinnu, oft ásamt mikilli eftirvinnu, heldur einnig nær tvöfalt grunnkaup og fulla dýrtíðarvísitölu á allar sínar tekjur.

Ég mun allra manna síðastur telja eftir þessar miklu kjarabætur. En hins tjáir ekki að dyljast, að hið háa kaupgjald í landinu hefur leitt til þess, að stríðsgróðinn svo kallaði hefur dreifzt miklu meira en menn stundum í fljótu bragði gera sér grein fyrir eða vilja vera láta. Munur á efnahag manna og lífskjörum er og áreiðanlega miklu minni í landi okkar en nokkru öðru, sem spurnir eru af. Því ber vissulega að fagna, og því má aldrei hagga. En af þessu leiðir, að þegar draga verður úr tilkostnaði, er ekki aðeins sanngjarnt, heldur beinlínis óhjákvæmilegt, að allir leggi nokkuð af mörkum, því að lífskjör manna byggjast á afkomu þeirra atvinnuvega, er þeir taka laun sín frá. Nú er það svo, að sú atvinnan, sem drýgstar tekjur gaf á stríðsárunum, setuliðsvinnan, var aðeins stundarfyrirbrigði, sem nú er, sem betur fer, löngu liðið.

Sú vinna gaf mönnum ekki aðeins góðar tekjur, á meðan hún stóð, og átti meiri þátt en nokkuð annað í að hækka kaupgjaldið hér á landi, sem raun ber vitni um, heldur stenzt það nokkurn veginn á endum, að hinar miklu fjáreignir, sem Íslendingar áttu í stríðslok, námu arðinum af setuliðsvinnunni.

Ef setuliðsvinnan hefði ekki verið, hefði þess vegna hvorki kaupgjald hækkað, svo sem varð, né hinar erlendu innistæður myndazt.

Þessar erlendu inneignir hafa komið okkur að miklum notum. Þær voru undirstaða og algert skilyrði þess, að nýsköpunarframkvæmdirnar, sem stjórn Ólafs Thors beitti sér fyrir af mikilli framsýni, gátu náð fram að ganga. Menn segja að vísu, að því mikla fé hafi verið eytt fyrr en efni stóðu til. Satt er það, að nú eru allar innistæður okkar erlendis gengnar til þurrðar og við getum þess vegna ekki lifað á öðru en því, sem okkar eigin framleiðsla mun gefa af sér.

En fjáreignirnar, sem sköpuðust vegna setuliðsvinnunnar, voru ekki aðeins undirstaða sjálfrar nýsköpunarinnar, heldur einnig annarra margháttaðra framkvæmda hér á landi síðustu 2–3 árin, þegar allur sá mikli fjöldi, sem um skeið vann hjá setuliðinu, stundum 2–3 þús. manns, missti þá atvinnu og þurfti að leita til annarra starfa. Þær fjáreignir, sem nú eru gengnar til þurrðar, hafa þess vegna átt drýgstan þáttinn í að halda uppi fullri vinnu og háu kaupgjaldi síðustu árin, og er því ekki að furða, að þær hafa eyðzt.

Nú er þetta fé úr sögunni sem handbært fé eða innieignir landsmanna erlendis. Það fé, sem einu sinni er búið að eyða, verður ekki notað með sama hætti héðan í frá.

Þess vegna er eðlilegt, að nú spyrji margir, hvort allt muni siga í sama horfið og fyrir stríðið, þannig að á ný þurfi að taka við tímar atvinnuleysis og fátæktar. Sem betur fer, er hægt að komast hjá þessu.

Gæfa okkar er sú að hafa eflt ýmsar atvinnugreinar, bæði þær, sem vinna að framleiðslu fyrir innlendan markað, og þó fyrst og fremst sjálfa undirstöðuna, sjávarútveginn, sem afla verður okkur meginhluta þess gjaldeyris, sem við þurfum á að halda til að lifa mannsæmandi lífi. Ef skynsamlega er á haldið og allar þessar atvinnugreinar fá að starfa svo, að framfærslu af þeim megi njóta svo margir sem þær frekast geta undir staðið, þá þurfum við engu að kvíða. Ætti þó öllum að vera ljósir örðugleikarnir, sem stafa af því, að nú geta menn ekki lengur sótt vinnu, hvorki til erlends setuliðs né með eyðslu reiðufjár, sem við þá vinnu safnaðist. En til þess var nýsköpunin framkvæmd, að þessir örðugleikar yrðu sem minnst tilfinnanlegir, og því marki getur hún náð, ef hún fær að njóta sín.

En á vegi nýsköpunarinnar er mikill voði. Sá voði er verðbólgan. Hún er aftur á móti önnur hlið, og miður ánægjulegri, hinnar miklu tekjuaukningar og batnandi lífskjara, sem áunnizt hafa síðustu sjö árin. Liggur það og í augum uppi, að eftir að hinar miklu annarlegu tekjur eru fyrir fullt og allt horfnar, sem ég áður gerði grein fyrir, getum við ekki á allan hátt hagað okkur eins og meðan þær enn voru fyrir hendi.

Nú er það lífsskilyrði, ekki aðeins fyrir sjávarútveginn, heldur fyrir efnahag allrar þjóðarinnar og ekki sízt lífsafkomu og atvinnu alls almennings í landinu, að sjávarútvegurinn geti starfað í fullum krafti, að hann færi okkur svo mikla björg í búið sem hann á hverjum tíma frekast megnar. En það getur hann því aðeins gert, að kostnaðurinn við framleiðslu sjávarafurðanna sé ekki óbærilegur, heldur í samræmi við raunverulegt söluverð afurðanna á erlendum markaði.

Verðbólgan hefur aftur á móti leitt til þess, að bæði er kostnaðurinn við sjávarútveginn svo gífurlegur, að hann fær ekki af eigin krafti undir risið, og að eftirspurn erlendra vara af hálfu almennings í landinu er svo mikil, að engin von er til, að sjávarútvegurinn geti staðið undir þeirri miklu eftirspurn erlends gjaldeyris, sem á sér stað, ef hömlur eru ekki á lagðar.

Af síðast talinni ástæðu hefur á þessu ári orðið að takmarka mjög veiting innflutningsleyfa, setja strangari skömmtunarreglur en við höfum átt að venjast og leggja ýmsar hömlur á aðdrætti manna og framkvæmdir, sem menn ógjarnan vildu þurfa að gera, en neyðast nú til af illri nauðsyn. Þær ráðstafanir eru því vissulega óhjákvæmilegar og beinlínis gerðar til þess að halda við heilbrigðu atvinnulífi í landinu, þó að sumir hafi af litlum skilningi og góðvild reynt að afflytja þær.

Frv. það, sem nú er hér til umr., er hins vegar flutt til að tryggja hina höfuðnauðsynina, þá, að sjálfur sjávarútvegurinn geti starfað áfram, og er það þó að mestu miðað við bátaútveginn.

Það er að vísu að heyra á hv. málsvörum Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., sem þeir telji slíkra aðgerða ekki þörf. Að vísu halda þeir því ekki fram nema aðra stundina, því að hina hafa þeir ráðizt harðlega á ríkisstj. fyrir að hafa ekki flutt fyrr frv. um dýrtíðarráðstafanir, sem þeir þá töldu ekki mega dragast deginum lengur.

Sjálfir hafa þeir og flutt frv., þar sem í grg. segir, að vísitalan megi ekki fara, svo að nokkru nemi, fram úr 300 stigum, og þar sem þeir ætla bátaútveginum sams konar ábyrgðarverð eins og kveðið er á um í stjfrv.

En nú bregður svo kynlega við, að þeir segjast ekki gera þetta vegna nauðsynjar útvegsins, því að enginn vandi sé að selja afurðir hans svo háu verði, að fram úr ábyrgðarverðinu fari. Til hvers flytja þeir þá frv. sitt?

Eitt höfuðásökunarefni Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., á núv. ríkisstj. er raunar, að hún beinlínis vilji ekki selja afurðirnar með svo háu verðlagi sem fáanlegt er. Um þetta þarf ég ekki að fara mörgum orðum. Slíkur áburður um, að ríkisstj. beinlínis vilji sveita almenning og hrekja, er of fjarstæður, til að hann sé svara verður. Það væri sannarlega einkennileg ríkisstj., sem vildi ekki láta landsmenn njóta svo góðra lífskjara sem frekast væri unnt, og beinlínis stefndi að því að svipta þá auðfengnum tekjum. Frá fornu fari hefur það verið vísasti vegurinn fyrir valdhafana til óvinsælda, ef harðæri hefur gengið á stjórnartíma þeirra. Það má og mikið vera, ef það var ekki vitneskjan um þennan gamla sannleika, sem ásamt öðru gerði það að verkum, að hv. Samningarflokkur alþýðu, Sósfl., hljóp af stjórnarakútunni á s.I. ári, þegar hann sá framan í þá vaxandi örðugleika, sem hér hlutu að verða við það, að bæði setuliðsvinnan og eignirnar erlendis, sem af henni stöfuðu, voru úr sögunni. Það hugleysi hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., mun sízt verða honum til vaxandi álits og sæmdar í augum íslenzkrar alþýðu, þar sem aftur á máti ábyrgðartilfinning núv. stjórnarflokka, sú að taka á sig með opin augu þau vandræði og örðugleika, sem fram undan voru, verður ætíð talin þeim til lofs, hvernig sem þeim tekst að ráða fram úr þeim miklu örðugleikum, sem við óneitanlega nú í bili þurfum að brjótast í gegnum.

Það þarf því sannarlega ekki að fjölyrða um þá firru, að núv. stjórnarflokkar vilji ekki draga sem mestar tekjur í þjóðarbúið. Allra sízt ætti að þurfa að eyða mörgum orðum að þeirri fjarstæðu málsvara Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., að þetta væri gert með hagsmuni kaupmannastéttarinnar eða heildsalanna fyrir augum, vegna þess að þeir græddu mest á því, ef útflutningur væri lítill og þar af leiðandi lítill gjaldeyrir, sem þeir hefðu til ráðstöfunar til kaupa á erlendum vörum. Sannleikurinn er sá, að hinar miklu hömlur á innflutningnum, sem nú hafa verið lagðar á, koma á engum harðar niður en einmitt verzlunarstéttinni og hafa nú þegar stórkostlega rýrt kjör hennar frá því, sem var, t.d. á þeim tíma, þegar hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., var í ríkisstj., auk þess sem álagning kaupmanna var stórlækkuð í vor frá því, sem áður var. Engu að siður leyfa fulltrúar hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., sér dag eftir dag að bera þá fásinnu fram, að staðið sé á móti hagkvæmri sölu íslenzkra afurða erlendis, og þessu er skrökvað upp til að telja mönnum trú um, að það sé einmitt gert, til þess að kaupmennirnir geti grætt sem allra mest. Sannleikurinn er sá, að aldrei hefur ötullegar verið unnið að afurðasölu en einmitt nú á þessu ári, og eiga margir þar góðan hlut að. Heilindi þeirra sósíalista, Sameiningarfl. alþýðu, sjást þó bezt af því, að þeir hafa með taumlausum árásum reynt að niða samningsgerðina við Breta í vor, á meðan þeir sí og æ hafa haldið fram hagkvæmi skipta við Austur-Evrópu, og þá einkum Rússland. En viðskiptasamningar þeir, sem á þessu ári hafa verið gerðir við Breta og Rússa, eru mjög hliðstæðir, og vont að greina á milli, hvor hagkvæmari er fyrir Íslendinga. Munurinn er sá einn, að samningarnir gengu miklu greiðar og fyrr við Breta en hina og að Bretar kaupa auk þess, sem fastbundið er í hinum sérstaka viðskiptasamningi, allan okkar ísfisk og skapa þannig lífsskilyrði fyrir einn mikilsverðasta þátt útgerðarinnar, sem sé togarana.

Fulltrúar Sósfl., Sameiningarfl. alþýðu, fá og ekki undan því komizt, að þeir tóku þátt í samningagerðinni við bæði þessi lönd. Þó að Lúðvík Jósefsson hafi reynt að skrökva sig frá þætti sínum í samningagerðinni í Englandi og beri mikinn óhróður út um þá ríkisstj., sem sýnt hafði honum nokkurn trúnað, fær hann aldrei komið sér undan því, að hann lýsti yfir, að tilboðin, sem fyrir lágu og gengið var að, væru að hans dómi hin hagkvæmustu, sem unnt væri að fá frá Englendingum, eins og bókað er í fundargerð utanrmn. 10. apríl s.l. Varð og Lúðvík að játa í Nd. nýlega, að rétt væri eftir honum haft, að allir nm. í Englandi hefðu verið sammála um. að það þýddi ekki að vera að semja lengur við Englendinga, ef ekki væri gengið að því tilboði, sem þá lá fyrir.

En sannarlega gat engum manni, óblinduðum af dýrðarljómanum úr austri, dottið í hug að slíta samningagerðinni við Breta. Það er Einar Olgeirsson einn, sem átti frumkvæðið að því þjóðráði. Lúðvík Jósefsson gerði aldrei till. um það til ríkisstj. né lét hana vita um neinn áskilnað við samnm. sína í Englandi.

Því fer fjarri, að látið hafi verið nægja að semja við þessar tvær miklu viðskiptaþjóðir okkar einar saman. Reynt hefur verið að ná viðskiptasamningum við fjölmargar þjóðir og selja vörur landsmanna í enn þá fleiri löndum. Samningar hafa að vonum tekizt misjafnlega, en eftirtektarvert er, að þeir hafa bezt tekizt þar, sem kommúnistarnir íslenzku hafa minnst nærri komið. Sýnir það örugglega, hver fjarstæða það er að bera íslenzka ríkisstj., og þá sérstaklega mér, það á brýn æ ofan í æ, að við viljum halda verðinu á íslenzkum afurðum niðri og það séu kommúnistarnir, sem knýi verðið upp.

Sannleikurinn er sá, að hvorki ég né neinir meðlimir Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl.; á Íslandi, ráða heimsmarkaðsverði á íslenzkum afurðum. Þar verður að lúta okkur öflugri aðilum.

Að svo miklu leyti sem einhver snefill af heilbrigðri hugsun kynni að felast á bak við orðagjálfur meðlima Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., um ágreining út af afurðasölunni, væri hann helzt sá, að þeir vilja meira af vörum til hinna svo kölluðu „clearing“-landa en flestir aðrir. Um þessi lönd er það svo, að verðbólga er ríkjandi í þeim og þau geta því keypt vörur háu verði. En sá böggull fylgir skammrifi, að þau setja það skilyrði, að jafnmikið sé keypt af þeirra eigin vöru í staðinn. Þegar samningar við slíkar þjóðir eru gerðir, verður þess vegna að grandskoða þá, athuga, hvort þeir séu í heild hagkvæmari Íslendingum en samningar við þær þjóðir, þar sem sala í frjálsum gjaldeyri á sér stað. Meðan verðlag á þeirri vöru, sem við neyðumst til að kaupa af „clearing“-löndunum í staðinn, er svo miklu hærra en á vöru á frjálsum markaði, að það nemur því, sem við fáum hærra fyrir okkar vörur í þessum löndum en annars staðar, er enginn vinningur að slíkum skiptum. Þau verða þvert á móti til þess að auka verðbólguna hjá okkur, valda vaxandi dýrtíð og þar með enn meiri örðugleikum fyrir atvinnuvegina heldur en við áttum fyrr við að stríða. Miða þeir þess vegna til þess, sem bent hefur verið á, að gildi íslenzkra peninga í raun og veru fellur. Gott dæmi um þetta er t.d., að í janúar 1946 var verðlagsvísitalan í Frakklandi 480 stig, en í september 1947 var hún komin upp í 1157 stig, og þó að gott sé að skipta við Frakka, er óneitanlegt, að svo reikult verðlag á þeirri vöru, sem kaupa þarf gegn því, er við seljum, hamlar mjög öllum viðskiptum.

En jafnvel þó að ágætt sé að gera samninga við slík lönd að vissu marki, þá er þess að gæta, að vörur þær, sem þau hafa að bjóða, eru ákaflega einhæfar. Meginhluta af nauðsynjum okkar þurfum við að fá annars staðar að og borga með frjálsum gjaldeyri, einfaldlega af því, að þessi „clearing“-lönd geta ekki útvegað þær, þótt þau væru öll af vilja gerð. Af þessum sökum verður þess vegna aldrei hægt að selja nema tiltölulega lítinn hluta af afurðum okkar til þessara landa. En því fer svo fjarri, að ríkisstj. hafi viljað hindra eðlileg skipti við þessi lönd, að hún hefur nú gert sérstakar ráðstafanir til þess, að þeir menn, sem annars vegar eru kunnugastir viðskiptum í þessum löndum og hins vegar innflutningsþörfum okkar, geri heildaráætlun um, hvað við getum fengið af okkar nytsömu vörum með skaplegu verði frá þessum löndum, og síðan verði ákveðið, hversu mikið við getum selt hverju þeirra um sig í jafnvirðiskaupum. Slík áætlun er auðvitað frumskilyrði þess, að slík viðskipti verði tekin upp, svo að verulegu nemi.

Ofan á allt þetta bætist, að þessi lönd geta ekki tekið við nema tiltölulega litlum hluta af afurðum okkar, þó að við vildum við engan annan skipta, og markaði fyrir meginhluta afurðanna verðum við þess vegna ætíð að fá annars staðar.

Í öllu moldviðrinu út af afurðasölunni á þessu ári hafa hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistarnir, ekki getað bent á eitt einasta dæmi, þar sem látið hafi verið undir höfuð leggjast að gera allt, sem unnt var, til að selja afurðirnar svo hagkvæmlega sem kostur var á.

Ríkisstj. hefur einnig unnið öfluglega að því að útvega frjálsa markaði, og má þar nú siðast minnast á hinn mjög mikilvæga samning, sem nýlega hefur verið gerður um sölu á allt að 70000 tonnum af fiski til hernámssvæða Bandaríkjanna og Breta í Þýzkalandi. Ef svo fer um framhald þessa samnings sem efni standa til, getur hann haft mjög mikla þýðingu fyrir okkur. ekki aðeins í ár, heldur um langa framtíð. Mun togaraflotinn einkum njóta þar góðs af, en einnig fleiri, sbr. að síldarflutningar til Þýzkalands eru þegar hafnir. Vil ég nota tækifærið til að þakka öllum þeim mönnum, innlendum og erlendum, sem við þessa samningsgerð hafa lagt gott til mála. Hitt er svo annað, að við verðum, á hvaða markaði sem er og þó einkum á hinum frjálsa markaði, sem við verðum, ef við viljum lífi halda, að selja mest af vörum okkar á, að vera samkeppnisfærir, og frv. þetta miðar einmitt að því, að svo verði, þó að á það verði að líta sem fyrsta sporið, en ekki fullnaðarlausn þessara mála.

Ýmsir hafa að vonum að því fundið, að í frv. væri of skammt gengið. Þetta má til sanns vegar færa. en til þess eru margar ástæður. Ein er sú, að á undanförnum mánuðum hefur orðið nokkur verðhækkun á íslenzkum afurðum erlendis, að vísu hvergi nærri svo á frjálsum markaði, að ábyrgðarverð fáist. Ástæður til þeirrar verðhækkunar eru og sumpart beinlínis bráðabirgðafyrirbrigði, eins og uppskerubrestur í vesturhluta Evrópu á þessu ári, fiskleysi á sumum miðum, þar sem vant er að fiskast fyrir Englandsmarkað, nú síðari hluta sumars og í haust og önnur slík atvík, sem geta breytzt, áður en varir. Er og rétt að geta þess, að þótt mikill fengur og blessun sé í þeirri uppgripa síldveiði, sem orðið hefur hér í flóanum í vetur, þá breytir það ekki gjaldeyrisstöðunni meira en svo, að vonir standa til. að útflutningsverðmæti sjávarafurða veiddra á árinu losi 300 millj. kr. En í upphafi ársins, meðan menn enn trúðu tröllasögum Áka Jakobssonar um ótakmarkaða sölumöguleika fyrir það verð, sem okkur sjálfum sýndist, í Rússlandi, áætluðu fróðustu menn útflutningsverðmætið allt að 850 millj. kr., og þegar þær sögur hafa dagað uppi í ljósi veruleikans, ætluðu flestir, að afurðirnar kynnu að seljast fyrir a.m.k. 400 millj. kr. Enn munar þess vegna harla miklu frá því, sem ráð var fyrir gert og við þurfum á að halda. Engu að Síður er útlitið svo í árslokin, einkum vegna verðbreytinga erlendis, að vera kann, að ekki þurfi að gera jafnróttækar ráðstafanir endanlega til niðurfærslu dýrtíðar í landinu og menn um sinn óttuðust.

Má þar og vissulega á milli vera, því að rannsókn, sem gerð var í haust að beztu manna yfirsýn, sýndi, að vélbátaflotinn mundi ekki geta starfað hallalaust, nema vísitala væri lækkuð niður í 32 stig úr 320–330, eða ef önnur leið hefði verið farin, mundi hafa þurft að lækka gengi íslenzku krónunnar a.m.k. 30–40%. Ég veit ekki, hverjir hefðu treyst sér til að standa að framkvæmd svo róttækra ráðstafana í einni svipan.

Sú verðhækkun, sem orðið hefur, má þess vegna vissulega ekki verða til þess, að menn haldi, að allur voði af verðbólgunni sé úr sögunni, en hún gefur okkur vonir um, að um sinn a.m.k. sé hægt að komast af með aðgerðir, sem engum verulegum glundroða þurfi að valda, ef nokkur vilji hjá þjóðinni er fyrir hendi. Menn þurfa ekki að skerða kjör sín meira en svo, að lítið er, miðað við þá hættu, sem við blasir, ef menn stöðva nú ekki vöxt verðbólgunnar fyrir fullt og allt.

Um einstök atriði frv. skal ég aðeins segja það, að þau bera þess vitanlega merki. að flokkar með ólík sjónarmið hafa þar komizt að samkomulagi. Enginn getur til hlítar verið ánægður með frv., en þó tel ég það sé bærilegur starfsgrundvöllur og geti náð marki sínu, ef skemmdarmenn þjóðfélagsins koma ekki áformum sínum fram.

Er og eftirtektarvert, að sumir finna það að frv. að þar sé allt of freklega gengið á eignamenn í landinu og sé kaflinn, sem fjallar um eignaraukaskattinn, í raun og veru aðalkaflinn í frv. En aðrir segja, að við eignamönnum sé lítið stjakað, en um of lagzt á launamennina, og svo koll af kolli. Bendir þetta óneitanlega til, að hins rétta meðalhófs hafi verið gætt í að dreifa byrðunum á alla sem jafnast eftir efnum og ástæðum.

Þá vil ég geta þess, að meðal hinna 200 ríku, sem hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistar. hafa nú svo mjög á meðal tanna sér og segja, að verði allt of vel úti samkv. frv., eru að vísu flestir þeir, sem halda uppi atvinnu hér í bæ og víða annars staðar með fjármagni sínu, en ekki er nema um helmingur þeirra einstaklingar, hitt eru félög, sem mikill fjöldi manna er í, áreiðanlega margir tugir þúsunda samanlagt. Sést það á því, að á meðal þessara 200 miljónamæringa eru einna hæst félög eins og S.Í.S. og önnur félög mest á þess vegum, Sláturfélag Suðurlands, Mjólkurfélag Reykjavíkur, Flugfélag Íslands og síðast en ekki sízt sjálft Kron með Sigfús Sigurhjartarson í broddi fylkingar.

Ég játa það, að mér fellur einna verst sá kafli frv., sem fjallar um ábyrgð eða gjöld úr ríkissjóði til að halda sjávarútveginum uppi. Ég hefði fremur kosið, að með beinum aðgerðum hefði verið gengið lengra í þá átt, að útvegurinn gæti staðið á eigin fótum. En sannleikurinn er sá, að ef þessu átti nú að ná, þurfti svo róttækar aðgerðir, að engin von var til þess, að þær yrðu gerðar allt í einu. Af því hefði leitt svo mikla röskun á okkar litla þjóðfélagi, að þar hefði ríkt hreint öngþveiti. Það ber og á það að líta, að útvegurinn hefur í einu eða öðru formi búið við fyrir fram ákveðið verðlag allt frá árinu 1940. Það er hægara að koma slíkri ábyrgð á en að hverfa frá henni, einkum þegar, eins og nú er, ábyrgðarverð er miklu hærra en raunverulegt söluverð.

Þessu til viðbótar er það, að við athugun kom í ljós, að til þess að tryggja bátaútveginn nokkurn veginn þurfti með þessu móti að leggja minni byrðar á almenning en ella hefði verið gert. Framtíðarlausn er þetta ekki, en til bráðabirgða virðist mega við hana notast.

Lætur það og óneitanlega nokkuð einkennilega í eyrum, að hv. fulltrúar Sameiningarfl. alþýðu; Sósfl. skuli svo fjandskapast yfir söluskattinum, eins vægur og hann er, sem þeir gera. Þeir hafa sjálfir fyrir skömmu verið með í að leggja á slíkan skatt hér á landi, sem sízt kom réttlátlegar niður en þessi.

En einkum verður framkoma þeirra þó furðuleg, þegar athugað er, að samkvæmt fræðibókum hefur söluskattur eða veltu verið aðaltekjustofninn í fyrirmyndarríki þeirra, Rússlandi. Samkvæmt þeim gögnum, er telja verður óyggjandi. var slíkur skattur þar í landi 1940 áætlaður að nema 58% af öllum ríkistekjum.

Helztu nauðsynjar voru skattlagðar svo, að af hveiti og rúgi var borgað í söluskatt 75%, smjöri. nautakjöti, svínakjöti og kindakjöti 60–72%, sykri 85%, stígvélum og skóm 12–35%. Útsöluverð sykurs var þannig 1940 ákveðið 6.50 rúblur á kg, en þar af voru 5.20 rúblur greiddar í söluskattinn.

Það skal ekkert um það dæmt hér, hvort þetta fyrirkomulag er gott eða illt, en þeir, sem sömu skipan vilja koma á hér á landi, ættu ekki að fjölyrða eins og hv. Brynjólfur Bjarnason, forvígismaður hins alþjóðlega kommúnisma á Íslandi, um þann ofurþunga, sem lagður sé á menn með þessu frv.

Eins og marg- hefur verið tekið fram, er í frv. kjaraskerðing almennings svo lítil sem frekast er unnt, ef nokkur von á að vera til, að verðbólgan verði stöðvuð.

Annars vil ég segja, að sú tilraun, sem nú er gerð, sé ef til vill síðasta tilraunin til að fá úr því skorið, hvort unnt sé að ná samkomulagi um stöðvun verðbólgunnar og nokkra lækning hennar, án þess að til mikillar röskunar komi í þjóðfélaginu.

Margir segja, að tilraunin sé of veik, og einkanlega gagnrýna þeir, að grunnkaup skuli ekki vera bundið. Ég er á alveg gagnstæðri skoðun. Við verðbólguna verður ekki ráðið nema með stuðningi og vilja meginþorra landsfólksins. Mestum hluta verðbólgunnar og þeirrar hættu, sem af henni stafar, hafa landsmenn sjálfir velt yfir sig með gerðum samningum um kaupgjald og ákvörðun vöruverðs í og út úr landinu. Það er vonlaust að ætla að leysa alveg þennan vanda nema með stuðningi fólksins sjálfs. Menn verða að finna, skilja og sýna í verkinu, að það sé sjálfum þeim til góðs, að þessi draugur verði að velli lagður.

Ríkisstj. og Alþingi verða vissulega að hafa forustu, en stjórnarvöldin standa máttlaus nema því aðeins að þau njóti öflugs stuðnings frá almenningi. Þess vegna verður ábyrgðin á því, hvort þessi tilraun tekst eða mistekst, að leggjast á landsmenn sjálfa, verkamennina og atvinnurekendurna. Þeir hafa það í hendi sér, hvor um sig og með samningi, að gera þessa tilraun að engu eða a.m.k. árangursminni en til var stofnað. Í lýðræðisríki á frelsi manna að vera svo mikið, að ef þeir vilja gerast eigin böðlar, þá eigi þeir rétt til þess.

Nú hafa risið upp sömu sundrungarmennirnir og áður hafa beitt sér í þessum efnum til að gera þessa tilraun að engu. Það kemur engum á óvart, sem til þekkja. Þessir menn eru alltaf sjálfum sér líkir. Þeir væru ekki þar í flokki, sem þeir eru, ef þeir hegðuðu sér á annan veg. Þeir vilja þjóðskipulagið feigt. Þeir eru erindrekar hins alþjóðlega kommúnisma og ekki umboðsmenn íslenzkrar alþýðu, heldur flugumenn í hennar hópi. sem þar hafa um skeið náð of miklum áhrifum.

Ef fulltrúum Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl. skyldi takast það illa athæfi sitt að egna verkalýðsfélögin til verkfalla eða virkrar andstöðu út af lögum þessum, er tvennt fyrir hendi:

Annað er, að atvinnurekendur, sem flestir eða allir telja, að með tilraun þessari sé allt of skammt gengið til bjargar atvinnuvegunum, álykti, að úr því að ekki er hægt að ná friðsamlegri lausn þessa máls með jafn hógværri ráðstöfun, sem hér er gerð, þá sé eigi annað fyrir hendi en að reyna að lækka kaupgjald og verðlag með langvarandi vinnustöðvunum, þar sem eigi væri um það að ræða, hvort kaupgjald skyldi hækkað svo, að úrræði þessa frv. yrðu ónýt, heldur hversu miklu meira það skyldi lækka en hér er ráðgert. Um það þarf ekki að ræða, hversu skaðsamleg slík heljarátök yrðu fyrir þjóðina alla, ekki síður en sjálfa verkamenn og vinnuveitendur.

Hitt er og til, að atvinnurekendur fyrr eða síðar semdu um grunnkaupshækkanir, svo að lög þessi yrðu einskis eða lítils verð. Á eftir slíkum grunnkaupshækkunum hjá einstökum verkalýðsfélögum hlyti að fara almenn grunnkaupshækkun um allt land, ekki aðeins hjá verkalýð, heldur öllum landsmönnum, svo og hjá bændastéttinni, sem heimta mundu bætt kjör sér til handa í samræmi við kröfur annarra. Af þessu mundi því óhjákvæmilega leiða nýja verðhækkunaröldu í landinn, nýja örðugleika fyrir framleiðslugreinarnar, einkum sjávarútveginn, við að sjá mönnum bæði beinlínis fyrir atvinnu og þeim gjaldeyri, er þjóðarbúið allt þarf á að halda. Þó að slíkt tilræði kynni þess vegna að takast í bili, mundi það hafa í för með sér ófyrirsjáanlegan glundroða og bölvun fyrir allt landsfólkið og gæti ekki fengið annan endi, ef forða ætti frá algeru hruni og atvinnuleysi, en stórkostlega verðfelling íslenzkra peninga.

Ef sundrungarmennirnir ná þess vegna vilja sínum fram að þessu sinni. eru þeir beinlínis að undirbúa það, að gildi íslenzkra peninga sé stórlega lækkað, kalla yfir almenning það, sem hann helzt af öllu vill forðast.

Ég trúi því vart, að íslenzka þjóðin láti leiða sig að nauðsynjalausu til slíkrar ógæfu. Ég er sannfærður um, að menn munu skilja, að jafnvel þó að því verði ekki náð nú á næstu tímum, að framfarirnar verði jafn stórkostlegar eins og Davíð Stefánsson lýsti, að sjö árin síðustu jafngiltu sjö alda starfi, þá er nauðsyn að forða frá þeirri algeru kyrrstöðu eða beinu hvarfi langt aftur í tímann, sem verða hlyti, ef stefna hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl. verður ofan á. Yfirgnæfandi meiri hluti íslenzku þjóðarinnar mun því sameinast um að verjast þeirri árás, sem hv. Sameiningarfl. alþýðu, Sósfl., boðar nú gegn stjórnskipan og lífskjörum þjóðarinnar. Hvort sem sú barátta verður löng eða skömm og hvernig sem einstökum þáttum hennar lyktar, hlýtur endirinn að verða sá, að niðurrifsstarf hins alþjóðlega kommúnisma hér á landi verði stöðvað og þjóðin skipi málum sínum svo, að hér ríki blómlegt atvinnulíf og vaxandi menning og velsæld almennings um langa framtíð.